Færsluflokkur: Ferðalög

Furðulegt sumarfrí

furðumynd9

  Nú þegar Íslendingar streyma í sumarfrí og umferð ýmist þyngist til eða frá höfuðborgarsvæðinu rifjast upp bráðfyndin saga sem vinafólk mitt frá Víetnam sagði mér á dögunum.  Atburðurinn átti sér stað fyrir einhverjum áratugum þegar sumarfrí var sjaldgæfur lúxus í víetnamska þorpinu sem kunningjarnir eru frá.

  Gamall maður (á víetnamskan mælikvarða.  Um sextugt) tók sitt fyrsta alvöru sumarfrí.  2ja vikna frí.  Hann undirbjó fríið vel og vandlega mánuðum saman.  Þetta var stórmál.  Því fylgdi gífurlegur ævintýraljómi.  Þetta var fyrir daga tölvupósts,  faxtækja og almenns símasambands.  Samskipti við fólk utan þorpsins fóru fram í gegnum gamaldags hægfara bréfapósts (snail mail).  Eldra fólk var flest háð yngra fólki með að lesa fyrir sig bréf og skrifa.  Kallinn bókaði gistingu á hóteli í fjarlægju þorpi og dundaði sér dag eftir dag við að skipuleggja fríið þar með aðstoð yngra fólks sem kunni að lesa og skrifa.  Kallinn hafði komist yfir bækling eða rit um þorpið.  Það auðveldaði skipulagið.  Allir í þorpinu fylgdust spenntir með framvindunni við skipulag frísins.  Síðustu vikur fyrir fríið ræddu þorpsbúar varla um annað en frí kallsins.  Enda bar yfirleitt aldrei neitt til tíðinda í þorpinu.  En þetta var alvöru ævintýri.

  Þegar frí kallsins gekk í garð fylgdu ættingjar,  vinir og vinnufélagar honum á rútustöðina.  Það var svo mikill ævintýraljómi yfir fríinu að allir samglöddust kalli og vildu kveðja hann á rútuplaninu.  Í Víetnam skiptir aldur miklu máli.  Fólk nýtur vaxandi virðingar til samræmis við hækkandi aldur.  Með því að fylgja kallinum að rútunni vildu þorpsbúar sýna öldrun mannsins tilhlýðanlega virðingu. 

  Rútan kom reglulega viðp í þorpinu tvisvar í mánuði.  Hún var ætíð troðin af fólki frá öðrum þorpum en fátítt var að fólk úr þessu þorpi tæki sér far með henni.  Fylgdarfólk kallsins fyllti rútuplanið.  Ungur vinnufélagi kallsins naut þess heiðurs að fá að bera ferðatöskur hans.  Sá ungi átti í vandræðum með að troða ferðatöskunum aftast í rútuna.  Þetta var ekki rúta eins og við þekkjum þar sem töskurými er undir rútunni heldur höfðu farþegar pinkla sína - og jafnvel húsdýr - meðferðis inni í rútunni. Ungi vinnufélaginn tróðst með töskur kallsins innan um farangur ferðafélaga í stappfullri rútunni.  Þá ók rútan skyndilega af stað.  Með vinnufélagann innanborðs en kallinn úti á rútuplani umkringdan ættingjunum og öðrum þorpsbúum.  Hópurinn á rútuplaninu horfði á eftir rútunni bruna burt.

  Vinnufélaginn kom engum skilaboðum til bílstjórans.  Rútan var svo stöppuð af fólki og allir kallandi hver ofan í annan til að yfirgnæfa hávaðann frá rútunni sjálfri.  Vinnufélaginn endaði á þeim stað sem kallinn hafði bókað frí sitt.  Vinnufélaginn var með alla pappíra í lagi,  kvittun fyrir gistingu,  uppskrift að því hvernig fríinu yrði best varið og það allt.  Næsta rúta til baka fór ekki fyrr en eftir hálfan mánuð.  Vinnufélaginn gat í raun fátt gert í stöðunni annað en fara í fríið sem kallinn hafði ætlað í.  Hann var vel settur,  með nóg af hreinum fötum af kallinum,  peningana hans og svo framvegis.
  
  Kallinn og ungi vinnufélaginn voru þeir einu sem kunnu almennilega á rafstöðina er þeir unnu við.  Kallinn gat því ekki gert annað en mæta í vinnuna á hverjum degi á meðan vinnufélaginn hafði það gott í fríinu.  Eftir að ungi vinnufélaginn kom úr fríinu var stirt á milli þeirra.  Kallinn tók algjörlega fyrir að heyra ferðasögu þess unga og tók aldrei annað frí.

 


mbl.is Mikil umferð til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siggi Lee handtekinn í Færeyjum

  Vegna ljósmyndarinnar - sem sýnir færeyskan hrút í bakgrunni - í síðustu færslu er við hæfi að fylgja henni eftir með þessu ágæta myndbandi af glæsilegum færeyskum hrútum.  Í Færeyjareisunni bar til tíðinda að ferðafélagi minn,  Siggi Lee Lewis,  var handtekinn með látum.

  Það bar þannig til að eitt kvöldið var kappinn að viðra sig á rölti fyrir aftan skemmtistað í Þórshöfn.  Þar voru fyrir nokkrir smákrakkar og einn ungur maður.  Siggi var varla farinn að kasta kveðju á hópinn þegar nokkrir menn birtust úr öllum áttum,  skelltu Sigga eldsnöggt upp að húsvegg og handjárnuðu.  Hinum manninum var skellt flötum í mölina og hann einnig handjárnaður. 

  Það var fagmannlega að handtökunni staðið.  Allt gekk snurðulaust fyrir sig á örfáum sekúndum.  Aðkomumennirnir voru í borgaralegum klæðum en veifuðu strax lögregluskilríkjum í kjölfar handtökunnar. 

  Sigga Lee var nokkuð brugðið við þessa óvæntu kveðju og spurði hvað væri í gangi.  Það virtist ríkja bankaleynd um það.  Lögreglumennirnir fóru með hraði í gegnum það sem í vösum Sigga var,  þar á meðal vegabréf og önnur skilríki.  Við skoðun á þeim pappírum bráði snöggt af lögreglunni og handjárn voru fjarlægð með hraði af Sigga.  Svo yfirgaf löggan svæðið jafn skjótt og hún kom.  En hafði hinn handjárnaða manninn með sér.

  Eftir helgina fletti ég upp í dagbók lögreglunnar í Þórshöfn.  Þar kom ekkert fram um þessa lögregluaðgerð.  Helgin var sögð hafa verið ósköp venjubundin.  Allt með kyrrum kjörum að undanskildu því að laus hundur var á ferli í borginni.  Lögreglan brýndi fyrir hundeigandanum að passa betur upp á hundinn.  Hundeigandinn tók vel í þá bón.

færeyjar3

  Hér er Siggi að blanda saman færeyska ákavítinu Lívsins vatni og Jolly kóla. 

færeyjar5

  Svo fékk hann sér færeyskt öl í Glitni.  Hann sést koma þarna út í kvöldsólina með sólgleraugu og ískalt ölið.  Það var ekki meira en svo í glösunum að ölið var jafnan uppdrukkið áður en menn náðu að setjast niður með glasið.  Alveg furðulegt hvað það gekk hratt fyrir sig.

 


Meira af Færeyjareisu

gávubúðReyði krossurinnfæreyjar4

  Eitt af mörgu sem gerir ferð til Færeyja ánægjulega er að færeyskt ritmál er auðlesið fyrir Íslendinga.  Kunnugleg orð þýða þó ekki alltaf það sama á íslensku og færeysku.  Á efstu myndinni er verslun merkt sem gávubúð.  Slagorð hennar er "Góð gáva gleður".  Færeyska orðið gáva þýðir gjöf.  Þetta er gjafavöruverslun. 

  Á næstu mynd er aðstaða Rauða krossins í Færeyjum.  Hann kallast Reyði krossur.  Færeyingar tala um reyðan penna og reyðan jakka þegar þeir eiga við rauðan penna og rauðan jakka.

  Þriðju myndina hef ég stóra til að í baksýn sjáist klettabeltin sem út um allt setja skemmtilegan svip á Þórshöfn.  Ef vel er að gáð sést einnig færeyskur hrútur,  eða "veðrur" eins og hrútur er kallaður á færeysku og framborið "vegrur".

  Það var sama hvort kíkt var á skemmtistað,  matsölustað eða í búð:  Allstaðar voru Íslendingar.  Þeir áttu það sameiginlegt að hafa flúið frá atvinnuleysi á Íslandi til Færeyja í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi síðasta haust.  Undanfarna áratugi hefur færeysk króna kostað 10 íslenskar krónur.  Í dag kostar færeysk króna 24,5 íslenskar.  Laun í Færeyjum hafa verið heldur hærri en á Íslandi og þegar þau eru reiknuð á núverandi gengi í dag geta vinnandi Íslendingar í Færeyjum sent dágóða upphæð til framfærslu sinna fjölskyldna á Íslandi.  Íslendingar í Færeyjum eru í sömu stöðu hvað það varðar og Pólverjar sem hafa verið í vinnu á Íslandi undanfarin ár.

  Hinsvegar er nokkuð dýrt fyrir Íslending að ferðast til Færeyja um Þessar mundir.  Bjór sem áður kostaði á bar 500 íslenskar krónur kostar núna 1225 kall (50 færeyskar krónur).  Það er reisn yfir því.


Á leið til Færeyja - í annarri tilraun

færeyjar--skerpukjöthöfn þórshafnar

  Nú geri ég aðra tilraun á einni viku til að komast til Þórshafnar í Fjáreyjum.  Fyrri tilraunin tókst ekki betur en svo að hún endaði í Þórshöfn á Langanesi.  Ég var að uppgötva að fleiri en ég mislásu á farseðilinn.  Ég fékk nefnilega útlendan gjaldeyri afgreiddan í bankanum út á farseðilinn til Þórshafnar á Langanesi.

  Í þetta sinn getur fátt farið úrskeiðis.  Allir hlutir hafa verið tvískoðaðir.  Skerpukjötið bíður. 

 


Smellnar ljósmyndir

a-frábær-mynd-4a-frábær-mynd-6

  Galdurinn við marga góða og broslega ljósmynd er þegar tekist hefur að frysta rétta sekúndubrotið.  Hér eru nokkur bráðskemmtileg dæmi um slíkt.

fljúgandi köttur

obama-mccainnauta-frábær-mynd-13a-frábær-mynd


Misheppnuð ferð til Færeyja

þórshöfn í Færeyjum8Þórshöfn í FæreyjumÞórshöfn í Færeyjum6Þórshöfn í Færeyjum2Þórshöfn í Færeyjum3Þórshöfn í Færeyjum4þórshöfn í Færeyjum5

  Í kvöld ætlaði ég að vera í Þórshöfn í Færeyjum.  Þau áform klúðruðust rækilega þrátt fyrir einbeittan vilja um annað.  Undirbúningi var í fáu áfátt.  Flugmiði var keyptur fyrir mörgum dögum á netinu.  Eldsnemma í morgun, vel tímanlega,  var mætt út á flugvöll,  bókað sig inn og gengið um borð. 

  Fljótlega eftir að í loft var komið vaknaði grunur um að flugstjórinn væri eitthvað að tala um Akureyri.  Ég hnippti í ferðafélaga,  spurði hvers vegna flugstjórinn væri að röfla um Akureyri þegar við værum á leið til Þórshafnar.  Mér var bent á að það væri millilent á Akureyri.  Sem og var gert.  Þar yfirgáfu margir flugið en nokkrir nýir farþegar bættust við.

  Af því að ég vaknaði fyrir klukkan 6 í morgun dottaði ég í flugvélinni.  Ég rumskaði þegar flugvélin var að lenda í Þórshöfn.  Þórshöfn? Það er enginn flugvöllur í Þórshöfn.  Ójú,  Þórshöfn á Langanesi.  Þangað var ég kominn.

  Þegar betur var að gáð kom í ljós að bókað hafði verið flug til Þórshafnar á Langanesi.  Ég bókaði ekki sjálfur flugið en var með útprentun og hafði ekki tekið eftir neinu.  Hafði einfaldlega engan grun um að mögulegt væri að rugla saman Þórshöfn á Langanesi og Færeyjum.  Flugmiðinn kostaði álíka og til Færeyja,  32 þúsund kr. (báðar leiðir).  Þannig að það var ekkert grunsamlegt við þetta.

  Stórslysalaust tókst að koma sér í bæinn aftur.  Því miður var uppselt til Færeyja í dag.  En ég er búinn að bóka flug til Færeyja í næstu viku. 

  Hér fyrir neðan er mynd af Þórshöfn á Langanesi.  Myndirnar efst eru af Þórshöfn í Færeyjum.  Íbúar Þórshafnar í Færeyjum eru 20 þúsund.  Ég veit ekki hvað íbúar Þórshafnar á Langanesi eru margir.  Kannski 3 eða 4 hundruð.

Þórshöfn á Langanesi 


Furðulegur bíltúr

 leigubíllleigubílar

  Ég kom utan af landi með flugi.  Hlaðinn pinklum.  Fyrir utan flugstöðina fann ég leigubíl.  Mér fannst ég kannast við andlitið.  Gott ef hann var ekki til umfjöllunar í blöðum fyrir nokkrum árum ákærður og dæmdur fyrir að plata konur til að skrifa upp á víxla og skuldabréf sem hann lét síðan falla á þær.

  Jæja,  ég bið bílstjórann um að skutla mér á tiltekið gistiheimili.  Leiðin þangað frá flugvellinum er stutt og afskaplega einföld.  Ég var ekkert að fylgjast með akstrinum til að byrja með heldur hélt áfram að lesa músíkblað sem ég tók með mér í flugið.  Skyndilega tók ég eftir því að leigubíllinn var kominn langt af leið og þræddi einstefnuakstursgötur í miðbænum.  Ég kallaði til bílstjórans:

  - Hvað er í gangi?  Veistu ekki hvar gistiheimilið er?

  - Jú,  jú.  Ég er á leiðinni þangað,  svaraði bílstjórinn ofurhægt.

  - Ég pantaði ekki útsýnisferð um miðbæinn.  Ég borga ekki fyrir þennan aukakrók.

  - Nei, nei.  Ég slekk á mælinum.  Þú borgar ekkert meira en það sem stendur núna á mælinum,  útskýrði bílstjórinn skilningsríkur.  Hann hætti þegar að aka krókaleiðir og keyrði stystu leið að gistiheimilinu.  Um leið og ég yfirgaf leigubílinn sagði leigubílstjórinn:

  - Ég ætla að biðja þig um að hringja ekki á stöðina og segja frá þessum aukakrók.  Það kostar alltaf leiðindi og vesen.  Málið er að ég er með athyglisbrest.  Þess vegna bar mig örlítið af leið.


Hundaníðingar á krossara

Hundar og krossarar1Hundar og krossarar2Hundar og krossarar 3Hundar og krossarar 4

  Ég var beðinn um að vekja athygli á framferði þessa 19 ára hafnfirska pilts sem myndirnar eru af og vinar hans.  Eftirfarandi texti um atburðarrás fylgdi myndunum.  Þar segir frá konu sem fór að venju með hundana sína tvo (rottweiler og íslenska fjárhundsblöndu) og var svo yndæl að taka Heru (blanda) hundinn með sér. 

  Konan lagði bílnum á vanalegum stað, um 400m frá fjörunni, tók hundana út úr bílnum í taum og gekk að fjörunni. Þar voru drengir að leika sér á krossara og fjórhjóli, en fjórhjólsmaðurinn hvarf fljótlega af vettvangi.
 
  Konan gekk framhjá drengjunum og lengst eftir fjörunni áður en hún ákvað að sleppa hundunum.
Hundarnir skiptu sér ekkert af drengjunum á krossurunum og leika sér, þefa og pissa hér og þar, eins og hundum er lagið.

  Gamanið fékk snöggan endi þegar drengirnir á krossurunum óku greitt í áttina að þeim, augljóslega til að ögra hundunum sem æstust allir upp og hófu að elta hjólin. Þeir stoppuðu hjólin, biðu þangað til að hundarnir voru komnir nálægt (þöndu vélina til að vekja athygli og æsa hundana) og gáfu að lokum allt í botn og spændu af stað. 

  Konan reyndi og reyndi að vekja athygli strákanna og biðja þá um að stoppa svo hún gæti náð hundunum en allt kom fyrir ekki!


  Það þarf varla að nefna hversu hættulegt er að keyra á ofsa hraða á krossara
með ÞRJÁ hunda allt í kring. Hundar eru ekki fyrirsjánlegir, og það er ALDREI hægt að fara of varlega þegar þeir eru annars vegar. Tek það líka fram að konan þurfti sjálf að snúa sér undan þegar ökumenn krossaranna spýttu sandi og sjó yfir hana sjálfa.

  Ég vil ekki hugsa dæmið til enda hefði annar hvor drengjanna keyrt á einhvern hundinn og skotist af krossaranum.....

  Loks urðu hundarnir þreyttir
og gáfust upp á þessum hættulega leik og eltu konuna í bílinn.
Hún átti svo langt samtal við drengina tvo (19 ára frá Hafnarfirði - megið lesa yfir þeim ef þið þekkið þá) sem virtust engan veginn gera sér grein fyrir því hversu hættulegt athæfið var.  Konan var mjög reið.

  ÞAR AÐ AUKI hafa þessir drengir eyðilagt mikla og erfiða þjálfun sem það er að fá hunda OFAN AF þeirri hugsun að elta ökutæki á fullri ferð. Flestum hundum er eðlislægt að elta það sem hratt fer, hægja á því, leika við það eða róa niður. Núna þurfum við  að byrja upp á nýtt að kenna hundinum sjálfstjórn í svona kringumstæðum.
  Þvílíkt ÖMURLEGT þegar sú mikla vinna sem maður hefur lagt í þjálfunina er eyðilögð af einhverjum bjánum á krossara.

  Drengirnir sögðust hafa verið ÍTREKAÐ KÆRÐIR fyrir vítaverðan akstur en ALDREI neitt verið gert í málunum!


mbl.is Lést eftir rifrildi í umferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsipennandi námskeið sem margir hafa beðið eftir!

  öryggisbelti

  Að undanförnu hefur stöðugt vaxandi þrýstingur verið á mig um að hrinda úr vör þessu námskeiði.  Fólk hefur suðað og sárbænt.  Ég hef hugsað málið,  velt fyrir mér og skoðað hvernig best verður að því staðið.  Nú kýli ég á það og býð upp á þriggja vikna námskeið í notkun öryggisbelta í bifreiðum.  Námskeiðið heitir Öryggisbelti öryggisins vegna!

  Námskeiðið fer fram á milli klukkan 23:30 og 23:45 á hverjum fimmtudegi allar þrjár vikurnar.  Þátttakendur þurfa ekki að hafa með sér neitt annað en framsæti úr bíl, öryggisbelti og beittan vasahníf.  Allt annað (veitingar,  þ.e.a.s. brjóstsykur) er innifalið í vægu námskeiðsgjaldi,  kr. 49.999,  sem er innan við 17.000 kall á viku,  vel að merkja.  Hámarks fjöldi á hvert námskeið er 150 manns.

  Fyrstu vikuna verður farið yfir algengustu mistök sem fólk gerir þegar það festir á sig öryggisbelti.  Einnig verður kennt hvernig best er að bera sig að ef maður er að skella með andlitið á gangstétt eða malbik þegar farið er út úr bíl og fætur hafa flækst í öryggisbeltinu.  Til viðbótar er kennd einföld aðferð til að losa sig úr öryggisbelti sem maður er flæktur í inni í bílnum.  Þar kemur vasahnífurinn til góða.   

  Aðra vikuna verður sagt frá uppruna öryggisbeltisins og þróun,  samkvæmt áreiðanlegustu heimildum Wikipedia.  Þriðju vikuna verður kynnt sumartískan í öryggisbeltum og kennd stutt vögguvísa um öryggisbelti.  Í lok námskeiðs fá allir þátttakendur (nema þeir sem verða með leiðindi) staðfestingaskjal um þátttöku sína (diplóma).

  Mjög líklegt er að heilbrigðisráðuneytið niðurgreiði námskeiðið að hluta eða fullu ef þátttakendur verða duglegir að þrýsta á um það.  Gott er þá að benda á að haldgóð þekking á öryggisbeltum geti sparað heilbrigðiskerfinu gífurlega háar upphæðir til lengri tíma litið.  Hver kannast ekki við að hafa þurft að leita á slysavarðstofu eftir illskeytta viðureign við öryggisbelti?

  Þátttakendur á þessu námskeiði sitja fyrir í skráningu á spennandi framhaldsnámskeið.  Á framhaldsnámskeiðinu verður kennt á öryggisbelti í flugvélum.

allt í klessu

  Ökumaður þessa bíls flæktist í öryggisbeltinu um leið og hann stökk út úr bílnum.  Við það fældist hann.  Áður en honum tókst að róa sig niður hafði hann gengið í skrokk á skemmtibát,  sumarbústað og fleiru.  Hann er að drepast í öðrum fætinum síðan og haltrar lítillega.


Hatrömm og illvíg deila, skemmdarverk og eignaspjöll

leitisvatn1Lívsins-vatn

  Í Vogum er stærsta og fallegasta vatn Færeyja (jú,  vatn getur víst verið mis fallegt.  Það fer eftir umgjörð þess).  Flestir kalla það í daglegu tali einfaldlega Vatnið.  Aðrir kalla það Leitisvatn.  Enn aðrir kalla það Sörvogsvatn.  Vegna sívaxandi straums erlendra ferðamanna til Færeyja var fyrir ári síðan gripið til þess ráðs að merkja vegvísi með nafninu Leitisvatn og setja upp skammt frá flugstöðinni í Vogum. 

  Íbúar í Sörvogi brugðust ókvæða við.  Þeir eru harðir á því að ef vatnið heiti eitthvað annað en Vatnið þá sé það Sörvogsvatn.  Þeir áköfustu ganga svo langt að þeir hafa ítrekað fjarlægt vegvísinn.  Hann er jafnharðan settur upp aftur og hafður þeim mun sterkbyggðari sem hann er oftar fjarlægt.  Ekkert dugir samt skiltinu til verndar.  Skemmdarvargarnir nota greinilega öflugri tækjabúnað eftir því sem skiltið er stöndugra. 

  Svo rammt kveður að þessu að skiltið fær aldrei að standa óáreitt lengur en í hæsta lagi viku.  Oftar er það þó horfið 3 - 4 dögum eftir að það er sett upp.  Lögreglan sinnir málinu illa sem ekkert og liggur undir grun um að vera hlutdræg.

  Íbúar Sörvogs vita hverjir standa að hvarfi skiltisins,  hverjir fjármagna vinnuna við að fjarlægja það og hverjir framkvæma.  En þeir standa saman og kjafta ekki frá.  Þeim verður heitt í hamsi þegar málið ber á góma.  Þykir merkingin vera ófyrirgefanleg svívirða. 

  Nafnið Sörvogsvatn kemur fyrir í eldri heimildum en Leitisvatn.  Leitisvatn kemur fyrst fyrir í skráðum gögnum 1898.  Síðan hefur það nafn notið stöðugt vaxandi vinsælda í skráðum gögnum og menn vilja meina að sé í dag ráðandi nafn á vatninu,  hvort sem er á landakortum,  ferðabæklingum eða öðru.

  Færeyski þjóðarsnapsinn heitir Lívsins vatn.  Þar er um orðrétta þýðingu á Ákavíti að ræða.  Það þarf enginn að deila um Lífsins vatn.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.