Færsluflokkur: Matur og drykkur

Af hverju má ekki vera skemmtilegt?

súpa

 Súpuvagnar hafa sett skemmtilegan svip á bæjarlífið á síðustu árum.  Ekki síst kjötsúpuvagnarnir á Skólavörðuholti og í Lækjargötu.  Einnig humarsúpuvagninn í Hafnarstræti.

  Styttan af Leifi Eiríkssyni á Skólavörðuholti hefur gríðarlega sterkt aðdráttarafl á erlenda ferðamenn.  Einkum Bandaríkjamenn.  Það var Kaninn sem gaf Íslendingum styttuna í þakklætisskini fyrir að Lucky Luke fann Ameríku og týndi henni aftur.

  Margir skemmta sér konunglega við að góna á furðubygginguna Hallgrímskirkju.  Á nöprum sumardegi þykir túristum á Skólavörðuholti fátt notalegra en að bragða á heitri íslenskri kjötsúpu úr Warm Farmers Soup.  

  Súpubílnum hefur ekki fylgt neinn ókostur.  Enginn.  Aðeins kostir.  En nú skal bílnum bolað út.  Breytingar hafa verið gerðar á samþykkt Reykjavíkurborgar þar um.  Súpuvagn sem á einhverjum tímapunkti hefur verið með mótor má ekki lengur standa í stæði.  Það er leiðinlegt.  Það þykir kostur.  Það má ekki vera skemmtilegt og þægilegt.

kjotsupudiskur 


mbl.is Missir stæðið og selur vagninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlist hefur gríðarlega mikil áhrif á bragðskyn

  Við vitum að augað hefur áhrif á bragðskyn.  Mjög svo.  Af skynfærum okkar er bragðskynið frekar lélegt í að skilgreina hlutina.  Það er auðvelt að plata bragðskynið út og suður.  

  Það er engin tilviljun að til sé músíkstíll kenndur við kvöldmáltíð,  dinnerdjass.  Dinnerdjass sveipar kvöldmáltíð veislulegri og afslappaðri stemmningu.  Þegar veitingastaður með asískan mat er heimsóttur skiptir miklu máli að þar sé spiluð asísk músík. Þegar spænskur veitingastaður er sóttur heim skiptir máli að þar sé spiluð spænsk músík.

  Tónlistin getur stýrt bragðskyni á borð við krydd á borð við salt,  súrsætt bragð og svo framvegis.  Til gamans má geta að samkvæmt rannsókn þá bragðast breski þjóðarrétturinn fiskur og franskar (fish & chips) best við undirleik tónlistar Bítlanna.   

  Kaffi, desertar og aðrir eftirréttir bragðast best undir flutningi óperusöngva.  


Svefninn göfgar

  Eitt sinn eftir kvöldlokun á bar í Ármúla varð umsjónarkona vör við að einhver var ennþá inni á karlaklósettinu. Dyrnar þar voru læstar.  Hún bankaði á hurðina og kallaði.  Viðbrögð voru engin.  Hún brá á það ráð að hringja á leigubíl með ósk um aðstoð við að opna hurðina.  Leigubílstjóri kom og hafði meðferðis verkfæratösku.  Áður en hann hófst frekari handa bankaði hann hraustlega á klósetthurðina með skafti á stóru skrúfjárni.  Skaftið náði að magna upp hávært hljóð sem bergmálaði um herbergið.  

  Eftir nokkur högg heyrðust þungar stunur fyrir innan.  Einhver var að rumska þar.  Leigubílstjórinn herti á bankinu.  Þá heyrðist hrópað frá klósettbásnum hátt og reiðilega:  "Hættu þessum helvítis hávaða!  Það er enginn svefnfriður!

  


mbl.is Svaf í strætó og endaði í fangaklefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitingaumsögn

skansabandið

 

 

 

 

 

 

 

 

  -  Réttur:  Íslensk kjötsúpa

  -  Veitingastaður:  Perlan

  -  Verð: 1200 kr.

  -  Einkunn: *

  Kjötsúpan sem seld er á 4ðu hæð Perlunnar er hefðbundin íslensk kjötsúpa.  Hún inniheldur örlítið af rótargrænmeti á borð við gulrætur, gulrófubita og lauk og eitthvað svoleiðis.  En að uppistöðu var hún bara þunnur vökvi með grænmetis- og kjötbragði.  En ekkert kjöt. Ég gerði athugasemd við þetta við kassadömuna.  Hún svaraði því til að svona væri súpan í dag. Það var enginn ágreiningur á milli okkar um það.  

  Til að sanngirnis sé gætt þá get ég upplýst og vottað að ótal sinnum oft hef ég fengið þokkalega matarmikla kjötsúpu þarna.  Með ásættanlegu magni af smátt skornum kjötbitum.  En hér og nú er ég aðeins að gefa lýsingu á súpunni sem ég fékk í gær.  Með súpunni fylgir brauðbolla og smjör.  

  Þessi mynd er ekki af súpuskálinni í Perlunni en svipar til hennar.

kjötsúpa

 

 

 

 

 

 

 

 

Alvöru íslensk kjötsúpa lítur aftur á móti svona út (fleiri veitingaumsagnir má finna hér )ísl kjötsúpa


Einokunarsölusinnar endurtaka bullrökin

  Sú var tíð að íslenska ríkið var með einkasölu á útvarpstækjum.  Enginn mátti selja útvarpstæki annar en ríkið.  Að því kom að einhverjum þótti þetta vera gamaldags og úrelt fyrirkomulag.  Fram komu hugmyndir um að aflétta einokun ríkisins á sölu á útvarpstækjum.

  Þetta mætti harðri andstöðu.  Gáfumenni spruttu fram til varnar einokun ríkisins á sölu útvarpstækja.  Verð á útvarpstækjum myndi rjúka upp úr öllu valdi.  Úrvali myndi hraka.  Jafnvel svo að sala á þokkalegum útvarpstækjum myndi leggjast af.  Í besta falli yrði hægt að kaupa handónýt útvarpstæki á uppsprengdu verði.  Eða að það yrði ómögulegt að fá útvarpstæki hérlendis.  

  Reynslan varð önnur.  Úrvalið margfaldaðist,  verðið lækkaði og nú var hægt að kaupa útvarpstæki í öllum þéttbýliskjörnum landsins.  

  Í dag eru engar háværar raddir um að endurvekja einokun ríkisins á sölu á útvarpstækjum.  

  Sú var tíð að Mjólkursamsalan mátti ein selja mjólk.  Í mjólkurbúðum mátti líka kaupa snúða (ef ég man rétt).  Svo datt einhverjum í hug að aflétta einkasölu mjólkurbúða á mjólk.  Þetta mætti harðri andstöðu.  Gáfumenni spruttu fram og færðu þokkaleg rök fyrir því að allt færi í klessu ef aðrir mættu selja mjólk.  Mesta ógnin var sú að ómögulegt yrði að fá ferska nýmjólk.  Aðeins gamla útrunna mjólk.  Jafnframt myndi sala á skyri og öðrum mjólkurvörum hrynja.  Úrval yrði ekkert.  En verð á mjólk myndi fara upp úr öllu valdi.  Almenningi yrði ókleift að kaupa mjólk vegna okurverðs og ömurlegs úrvals.  

  Í dag vilja fáir endurvekja einkasölu mjólkurbúða.  Hrakspár gengu ekki eftir.  Þvert á móti.

  Sagan endurtók sig þegar einkasölu Osta- og smjörsölunnar var aflétt.

  Nú er sagan að endurtaka sig eina ferðina enn.  Í þetta sinn snýr hún að því að aflétta einokun ríkisins á sölu á bjór og léttvínum.  Rökin gegn því framfaraskrefi eru góðkunn:  Verðið muni rjúka upp úr öll valdi.  Úrvalið hrynji.  Þjónustan fjúki út um gluggann.  Það verði ekki hægt að kaupa bjór í Grafarvogi eða Grafarholti eða Garðabæ né Vogum á Vatnsleysuströnd.  Ekki einu sinni á Kjalarnesi.  

  Raunveruleikinn er sá að sagan mun endurtaka sig.  Einokunarsölusinnar hafa enn og aftur rangt fyrir sér.  Það er vont en það venst vel.  Þeim er farið að þykja það gott.  Þeir vilja láta söguna flengja sig enn einu sinni.  Þeir þekkja ekkert annað.   

    

   


mbl.is „Okkur varð öllum illa við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvífinn áróður

ýsa

 

  Frá unglingsárum hef ég heyrt því haldið fram að ýsan sé hrææta.  Fyrir bragðið fúlsa margir við henni.  Það fer hrollur um fólk við að heyra orðið hrææta. Samt eru nánast allir Íslendingar hræætur.  Við lifum á hræjum.  Kjöt og fiskur sem við borðum er af dýrum sem fyrir löngu síðan voru drepin og eru hræ.

  Ýsan er ekki hrææta. 

  Misskilningurinn liggur í því að ýsan étur sand til að hreinsa meltingarveginn.  Í innyflum hennar er þess vegna svört leðja.  En hún étur ekki hræ.  Hún lifir á sprelllifandi botndýrum (rækjum,  krabba, slöngustjörnum,  skrápdýrum...).  Það munar öllu.  Þess vegna er hold ýsunnar skjannahvítt, þétt og bragðmikið hér á Norðurhöfum.  Einhver besti matur sem til er.  Ýsa var það heillin.    

ýsa aýsa b

  


Ekki sjóða fisk í vatni

 

  Í gamla daga var á allflestum íslenskum heimilum vinsæll hversdagsréttur sem kallaðist soðning.  Um var að ræða þverskorna ýsu eða þorsk með roði og beinum.  Með þessu voru snæddar soðnar kartöflur.  Til hátíðisbrigða var brætt smjör út á.  Krakkar fengu að auki tómatsósuslettu.  

  Bitarnir voru soðnir í vatni vel og lengi.  Í það minnsta tuttugu mínútur. Á yfirborði vatnsins myndaðist hvít froða.  Á þessum árum vissi fólk ekki að í froðunni voru næringarefnin úr fiskinum.  Þau voru soðin úr honum.  Mörg bráðholl prótein,  vítamín og önnur næringarefni eru í fiski.  

  Engu að síður var og er soðningin góður matur sem aldrei er hægt að fá leiða á.   

  Síðar lærði fólk að heppilegra er að snöggsjóða fisk.  Til að mynda með því að taka pottinn af eldavélahellunni í um leið og vatnið nær suðu.

  Besta aðferðin er að hita fisk í ólívuolíu.  Ekki aðeins til að næringarefnin haldist í fiskflakinu heldur skilar þetta bragðbesta og þéttasta holdinu.

  Fyrst skal salta roðlaus og beinlaus fiskiflökin þokkalega.  Leyfa þeim síðan að hvíla í algjörum friði í 5 mínútur og 12 sek.  

  Á meðan er um það bil 3 dl af besta fáanlega hvítvíni hitaðir í potti (undir loki til að lágmarka uppgufun).  Um leið og beðið er eftir að hvítvínið í pottinum nálgist suðu skulu 5 dl af köldu og fersku hvítvíni sötraðir af áfergju.

  Væntanlega gerist það um svipað leyti að fiskiflökin hafa hvílt í nægilegan tíma og næstum því er farið að sjóða á hvítvíninu.  3 dl af ólívuolíu er hellt út í og fiskflökin lögð ofan í blönduna. Þar fá þau að svamla í 6 mínútur og 52 sek.  Að þeim tíma liðnum er flökunum pakkað inn í álpappír til að olían og vínið fái að vinna í friði í 5 mínútur.  Eftir það bragðast fiskurinn betur en nokkurntíma áður.

  Upplagt er - ef einhver nennir - að laga sósujafning úr hvítvíns- og olíublöndunni.  Einnig má skvetta kæruleysislega smá af blöndunni yfir fisk og meðlæti eftir að það er komið á disk. 

  Soðnar kartöflur henta vel sem meðlæti,  ásamt smjörsteiktum lauk,  rúgbrauði og smjöri.  Mestu munar um að hafa nóg af kældu hvítvíni með til að skola kræsingunum niður.  Og ekki síður að hafa nóg af kældu hvítvíni það sem eftir lifir dags til að halda rækilega upp á góða veislumáltíð.

 

fiskur 


Veitingahússumsögn

kjúklingavængirrifborgarar

vængir db&r 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

    -  Staður:  Dirty Burger and Ribs

  -  Staðsetning:  Austurstræti 8,  Reykjavík

  -  Réttur:  Kjúklingavængir  (8 stk.)

  -  Verð:  990 kr.  

  -  Einkunn:  *****

  Síðasta haust var opnaður veitingastaður á Miklubraut,  gegnt Kringlunni.  Hann heitir Dirty Burger and Ribs.  Á mínum átta ára ferli sem matarbloggari var og er þetta fyrsti veitingastaðurinn sem ég hef gefið hæstu einkunn,  5 stjörnur.  Reyktu BBQ svínarifin þar eru þvílíkt sælgæti.  Ég er allt að því háður þeim.  Fæ mér þau allt að því tvisvar í mánuði.  Áður en lengra er haldið tek ég fram að ég hef ekki myndað persónuleg tengsl við starfsfólk Durty Burger and Ribs.  Jákvæð afstaða mín til staðarins ræðst aðeins af matnum þar.  Viðhorf annarra er greinilega hið sama.  Það er stöðug og þung traffík á staðinn alla daga.  Oft þarf ég frá að hverfa vegna þess að biðröð er löng.

  Í gær var opnaður annar Dirty Burger and Ribs staður.  Hann er í Austurstræti 8.  Af því tilefni bættist við á matseðilinn kjúklingavængir.  Ég hef aldrei verið æstur í kjúklingavængi.  En ákvað að prófa.  Það var upplifun.  Lang lang bestu kjúklingavængir sem ég hef bragðað.  Ég óttast að verða háður þeim.  Að minnsta kosti langar mig strax í þá aftur.  Þeir eru löðrandi í framandi rosalega bragðgóðri sósu sem ég kann ekki deili á.  Fannst sem um eitthvert ostasósuafbrigði væri að ræða.  Ég ætla ekki að reyna að efnagreina hana frekar. Jafnframt fylgir fersk hvít ídýfusósa með.  Gott ef ekki með hvítlaukskeim.

  Eins og nafn staðarins ber með sér eru hamborgarar í boði auk svínarifja og kjúklingavængjanna.   Eigandi staðarins er heimsfrægasti matreiðslumaður Íslands,  Agnar Sverrisson.  Hann er búsettur í Englandi.  Hann er eini íslenski Michelin-verðlaunakokkurinn.  

  Dirty Burger and Ribs í Austurstræti er töluvert stærri staður en sá á Miklubraut.  Hann er opinn til klukkan 6 á morgnana.  Innréttingar eru einstaklega skemmtilegar.  Jafnvel þess virði að gera sér ferð til að skoða þær.  Staðurinn virðist vera mjög gamall.  Þarna má sjá orf og ljá uppi á vegg,  gamlar olíutunnur,  olíuluktir,  netadræsur,  dráttavélasæti,  kamínu og svo framvegis.

db&r adb&r bdb&r c  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Við hliðina á Dirty Burger and Ribs í Austurstræti er nýopnaður amerískur bar,  American bar.  Þessir staðir eru samhangandi.  Viðskiptavinir ganga á milli.  Ameríski barinn er ekki með neina grænlenska,  mexíkóska eða kanadíska bjóra heldur bandaríska.  Hann er alfarið bandarískur bar.  Sem hefur sárvantað eftir að bandaríski herinn yfirgaf Miðnesheiði snautlega um árið.  Mér til mikillar gleði hljómaði "Killing in the Name" með Rage Against the Machine í hljóðkerfi American Bars er ég steig þar fæti inn í gær.  Það er ávísun á fleiri heimsóknir þangað um leið og ég fæ mér kjúklingavængi á Dirty Burger and Ribs.  

 

  Fleiri veitingaumsagnir:  hér

          


Svikin matvæli og svikin fæðubótaefni

  Í hillum íslenskra og útlendra verslana er gríðarlega mikið af fölsuðum vörum.  Þær eru af öllu tagi.  Nýlegar efnagreiningar á fæðubótaefnum í fjórum helstu verslunarkeðjum í New York í Bandaríkjum Norður-Ameríku leiddu í ljós að uppistaðan af vörunum er "feik".  Þær innihalda lítið sem ekkert af virkum efnum sem vörurnar eru kenndar við.

  Íslendingar þekkja svona dæmi af kjötbökum sem innihalda ekkert kjöt. Frægir eru nautakjötsréttir sem innihalda hrossakjöt en ekkert nautakjöt.  

  Margir pizzastaðir nota ostlíki á sínar pizzur.  Jafnframt er kjöthakkið "aðeins" soyakjöt.  Stundum reyndar blandað saman við hrossakjötshakk.    

  Fyrir mörgum árum voru allar ginsengsvörur í sænskum verslunum efnagreindar.  Yfir 20 tegundir.  Aðeins tvær stóðust skoðun.  Flestar innihéldu ekkert ginseng.

rautt kóreskt ginseng

 

 

 

 

 

 

 

  Hérlendis þekkjum við "Rautt Kóreskt ginseng".  Eftir fjölda kvartana frá neytendum létu Neytendasamtökin efnagreina "Rautt Kóreskt ginseng" á þýskri rannsóknarstofu.  Niðurstaðan var ótvíræð til samræmis við grun neytenda:  Það er ekkert rautt ginseng í vörunni.  

  Núna voru Interpol og Europol að gera skurk í að afhjúpa fölsuð matvæli í verslunum á Íslandi og víðar.  Niðurstaðan var óhugnanleg.  Markaðurinn er fullur af fölskum vörum.  Meira að segja er allt morandi í fölsuðum hænueggjum.  Í ljós kom að sum þeirra eru hanaegg og önnur páskaegg.     

     


mbl.is Fölsuð matvæli í tonnavís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egg og beikon og svívirðileg verðlagning

egg og beikon í Herjólfi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Um margra ára skeið var veitingastaður í Ármúla 7,  Vitaborgarinn. Þar fékk ég mér stundum egg og beikon.  Síðast þegar ég gerði mér þess háttar erindi þangað þá var ég upplýstur um að þarna væri kominn nýr veitingastaður,  Joe´s Diner.  Á matseðlinum var ekki lengur "egg og beikon".  

  Ungur afgreiðslumaður rétti mér matseðil Joe´s Diner. Ég renndi augum yfir hann.  En sagði dapur á svip að þar væri ekkert sem mig langaði í.  

  Afgreiðslumaðurinn sagðist harma það.  En fyrst að ég hafi spurt um egg og beikon þá væri svo sem hægt að græja svoleiðis.  Þeir væru hvort sem er að selja hamborgara með beikoni og eggi.  Það væri ekki vandamál að afgreiða egg og beikon án hamborgara.  "Hvað viltu margar beikonsneiðar?" spurði hann.  

  Ég:  "Á Vitaborgaranum voru þær 12"

  Afgreiðsludrengurinn:  "Eitt eða tvö egg?"

  Ég bað um tvö egg.  Drengurinn sagði:  "Ég veit ekki hvernig ég á að verðleggja þetta.  Hvað rukkaði Vitabarinn fyrir þetta?"  

  Mig minnti að það hafi verið um 800 kall.  Jafnframt lét ég þess getið að þar hafi einnig fylgt með ristaðar brauðsneiðar og smjör.  En ég hefði engan áhuga á því meðlæti.  

  Afgreiðslumaðurinn stakk upp á 600 kalli.  Þetta var til fyrirmyndar.   

  Anna Margrét Valgeirsdóttir skrifaði fésbókarfærslu um öðru vísi afgreiðslu í Herjólfi á eggi og beikoni. Vegna fæðuofnæmis gat hún ekki pantað sér neitt af matseðlinum.  Hún bað um að vikið væri frá matseðlinum og snúið upp á egg og beikon.  Því var mætt með afgreiðslu á hamborgara án brauðs og án hamborgara.  En með eggi og beikoni.  Fyrir þetta var hún rukkuð um 200 kall fyrir beikon + 200 kall fyrir egg + 1490 fyrir hamborgara.  Hamborgara sem var ekki með í pakkanum.  En egg (tvö) og beikon (sex sneiðar) kostaði 1890 kall.  Fyrir sömu upphæð er hægt að fá nokkuð veglega máltíð á þokkalegu veitingahúsi.  Til að mynda bjóða mörg asísk veitingahús upp á glæsilegt hlaðborð fyrir mun lægri upphæð.     

  Fyrir ofan er mynd sem Anna Margrét tók af 1890 kr. beikoninu og eggi.  Ef smellt er á myndina þá stækkar hún og kvittunin verður læsileg.  

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.