Færsluflokkur: Matur og drykkur
10.6.2015 | 22:20
Færeyingar verjast hryðjuverkasamtökum
Bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd hafa boðað komu sína til Færeyja 14. júní. 500 liðsmenn samtakanna héldu til í Færeyjum í allt síðasta sumar. Urðu þar aðhlátursefni. Erindi þeirra var að hindra hvalveiðar Færeyinga. En höfðu ekki erindi sem erfiði. Hvalurinn, marsvín (grind), sýndi sig ekki það árið. Engu að síður lugu hryðjuverkasamtökin því á heimasíðu sinni að þau hafi bjargað lífi á annað þúsund hvala í Færeyjum.
Á ýmsu gekk. Kanadíska/bandaríska leikkonan Pamela Anderson mætti á svæðið og bullaði. Hélt því m.a. fram að fjölskyldan væri hornsteinn samfélags hvala. Það er della. Hvalir eru nautheimskir. Hálf vangefin dýr. En éta frá okkur óhemju mikið af fiski.
Nú hafa Færeyingar fest í lög háar fésektir við því að fæla hval úr færeyskum firði. Lágmarks sekt er hálf milljón ísl. króna. Það mun reyna á þetta. Hryðjuverkasamtökin hafa stefnt til Færeyja öllum sínum stærstu og öflugustu skipum. Þau gefa baráttu í Ástralíu og Asíu frí í sumar. Einbeita sér þess í stað gegn Færeyingum (og kannski Noregi í leiðinni). Þau búast við beinum átökum við færeyska hvalveiðimenn. Verða með myndatökulið um borð í hverjum bát. Tilgangurinn er meðal annars sá að útbúa áróðursefni. Út á það komast þau í feita bankareikninga heimsfrægra rokkstjarna og kvikmyndaleikara.
Það verður fjör.
Matur og drykkur | Breytt 11.6.2015 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.6.2015 | 21:27
Brött verðhækkun á mat
Matur er dýr. Ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í útlöndum. Þetta er útbreitt vandamál. Þetta veldur vandræðum með skólamáltíðir. Á vesturlöndum koma iðulega upp vandamál í skólamötuneytum vegna þess að foreldrar nemanda hafa ekki staðið í skilum. Vandamálið er leyst einhvern veginn eða óleyst.
Ég elda ekki. Snæði þess í stað á veitingastöðum sem bjóða upp á svokallaðan gamaldags heimilismat. Það er hið besta mál Nema að frá áramótum hefur verð hækkað jafn og þétt. Síðast á mánudaginn hækkaði verð á máltíð í Bykó í Breidd úr 1500 kalli í 1650 kall. Þetta er ekki peningur sem skiptir miklu máli. En samt næstum 11% hækkun Kótelettur í Múlakaffi eru komnar í 2480 kall. Það er ekkert langt síðan enginn réttur á Múlakaffi var yfir 2000 kalli. Kótelettur inni á BSÍ kosta í dag 2890 kr. Um daginn hækkaði verð á súpuskál á kaffiteríu Perlunnar úr 1100 kalli í 1200 kall. Þannig mætti áfram telja.
Á Fésbók upplýsti kokkur mig um að orsökin væri brött verðhækkun á hráefnum. Og svo hækkun matarskatts úr 7% í 12%. Það er reisn yfir því.
![]() |
Rekin fyrir að gefa börnum mat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 4.6.2015 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2015 | 00:43
Hamborgari og danskar
Ég skrapp á veitingastað í dag. Á næsta borði sat ungur maður. Eftir nokkurn tíma kom afgreiðsludama með á diski handa honum hamborgara og nokkrar afskrældar - og sennilega soðnar - kartöflur. Maðurinn brást hinn versti við. Hann gargaði pirraður: "Hvað er eiginlega í gangi?"
Afgreiðsludaman: "Hvað áttu við? Er ekki allt í lagi?"
Maðurinn: "Allt í lagi? Ertu vönkuð?"
Daman: "Hvað er að?"
Maðurinn: "Hvaða rugl er með þessar kartöflur?"
Daman: "Þú pantaðir hamborgara og danskar. Þetta eru danskar kartöflur."
Maðurinn: "Ég pantaði hamborgara og franskar. Franskar en ekki einhverjar djöfulsins danskar kartöflur!"
Daman: "Ekkert mál. Mér heyrðist þú biðja um danskar. Ég skal sækja franskar."
Hún skottaðist eftir vænum skammti af frönskum kartöflum. Og hló mikið er hún lagði þær á borðið hjá manninum. Hún sagði: "Þetta er ekki falin myndavél en ég var samt að stríða þér."
Maðurinn tók gleði sína á ný og fór líka að hlæja. Ég fékk á tilfinninguna að þau þekktust og þarna hafi verið um kunningjahrekk að ræða.
Matur og drykkur | Breytt 3.6.2016 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2015 | 03:03
Hverjir eiga Bónus?
Ég er ekki með það á hreinu hver eða hverjir eiga Bónus í dag. Eða Haga sem á Bónus. Er það ekki að uppistöðu til lífeyrissjóðir lægst launaða fólks landsins? Hverjir fara með stjórn Haga? Er það ekki fólk með 5 - 6 milljón króna mánaðarlaun? Plús fríðindi af öllu tagi.
Lægst launaða fólkið borgar hæstu launin. Það er metnaður. Eða hvað veit ég? Á mér ekki að vera sama? Ekki vinn ég þarna.
![]() |
Loka þyrfti öllum verslunum Bónuss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.5.2015 | 20:24
Besti veitingastaður af öllum á Norðurlöndunum
Árlega er við hátíðlega athöfn valinn, kosinn, útnefndur og krýndur besti veitingastaður á Norðurlöndum. Leitin að vinningsstaðnum fer fram í nokkrum áföngum. Í ár enduðu í lokavali Marchal í Kaupmannahöfn í Danmörku, Ylajali í Ósló í Noregi, Ask í Helsinki í Finnlandi, Esperanto í Stokkhólmi í Svíþjóð og Koks í Þórshöfn í Færeyjum.
Athygli vekur að allir veitingastaðirnir sem náðu eftir harðsnúna keppni í lokaúrslit eru staðsettir í höfuðborgum landanna.
Ég hef ekki snætt á neinum af nefndum veitingastöðum öðrum en Koks í Þórshöfn. Samt kemur það mér ekki á óvart að Koks hafi nú formlega verið sæmdur nafnbótinni "Besti veitingastaður Norðurlandanna". Þvílíkur sælkerastaður. Annar eins er ekki fundinn.
Reyndar veita nokkrir aðrir veitingastaðir í Færeyjum Koks harða samkeppni.
Kokkarnir á Koks nota einungis færeyskt hráefni. Þeir byggja matreiðslu sína að verulegu leyti á færeyskum matarhefðum. Meðal annars þess vegna er matseðillinn árstíðabundinn.
Þegar Færeyjar eru sóttar heim þá er góð upplifun að snæða á Koks. Vegna ónýtu íslensku krónunnar er það pínulítið dýrt. En samt hverrar krónu virði.
![]() |
Maturinn skemmist í tollinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2015 | 22:10
Ótrúlegt skilningsleysi stjórnarandstöðunnar á fjarveru forsætisráðherra
Alveg er með ólíkindum hvað þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa mikið óþol gagnvart fjarveru forsætisráðherra, hæstvirts Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, frá Alþingi. Við umræðu um rammaáætlun ætlaði allt um koll að keyra vegna fjarveru Sigmundar Davíðs. Það var gólað, skammast og gargað í allar áttir.
Vita þingmenn ekki að í dag er alþjóðlegi djöflatertudagurinn?
![]() |
Kvörtuðu yfir fjarveru Sigmundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 20.5.2015 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.5.2015 | 20:29
Mataræði fátækra tekið föstum tökum
Bandaríki Norður-Ameríku eru allt að því heimsálfa út af fyrir sig. Þau eru sambandsríki 50 skemmtilega ólíkra ríkja. Sum líkjast V-Evrópu um margt. Einkum Norðurríkin og vesturströndin. Önnur eru okkur verulega framandi. Einkum það sem kallast biblíubeltið og djúp-suðrið.
Wisconsin er mið-vestur Norðurríki. Þar fá fátækir vesalingar matarmiða upp á 16 þúsund kall á mánuði. Vandamálið er það að betur stæðir skattborgarar horfa upp fátæklinga kaupa og snæða mat sem er forboðinn í Biblíunni.
Nú er vilji til að taka það föstum tökum. Banna á vesalingunum að kaupa fyrir matarmiða skelfisk, svínakjöt, túnfisk, hnetur og allskonar. Listinn telur um tvo tugi ókristilegra hráefna.
Það er ekkert nema gott um það að segja að skattborgarar passi upp á að vesalingar fari ekki til helvítis.
![]() |
Kjöt gæti lækkað mikið í verði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 17.5.2015 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eftir örfá ár verður einkasala ríkisins, ÁTVR, á áfengi aðhlátursefni. Alveg á sama hátt og bjórbannið, sala á bjórlíki, áfengislausir miðvikudagar, sjónvarpslausir fimmtudagar, sjónvarpslaus júlí, einkasala mjólkurbúða á mjólkurvörum, einkasala Osta- og smjörsölunnar á ostum, lokun verslana eftir klukkan sex á daginn og allar búðir lokaðar á tilteknum hátíðisdögum.
Reyndar er einkasala ríkisins á áfengi þegar aðhlátursefni.
Áfengissala ríkisins er rekin með tapi. Rökin fyrir henni halda ekki vatni. Það er að segja þau rök að ríkið beri kostnað af misnotkun áfengis og þurfi þess vegna að hafa tekjur af áfengissölu.
Þar fyrir utan: Áfengi er löglegur heilsudrykkur. Bjór inniheldur góðan skammt af B-vítamíni. Er í raun brauð í fljótandi formi. Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta hóflega. Gróflega drukkið vín gleður mannsins hjarta gróflega. Rauðvin er hollt. Og bragðgott.
Framboð á vínbúðum er í molum. Það er engin vínbúð í Garðabæ. Engin í Grafarvogi. Engin í Grafarholti. Engin í Vogum á Vatnsleysuströnd. Engin í Sandgerði. Engin í Garði. Þannig mætti áfram telja.
Burt með ríkiseinokunarsölu á áfengum drykkjum. Inn á með nútímann og áfengissölu í allar matvöruverslanir landsins. Líka bensínsjoppur, sólbaðsstofur og byggingavöruverslanir. Heimsendingarþjónusta spornar gegn ölvunarakstri.
![]() |
ÁTVR hafnar skýrslunni alfarið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 16.5.2015 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.5.2015 | 21:24
Á misjöfnu þrífast börnin best
Mörgum myndi bregða í brún ef þeir vissu hvernig hreinlætismálum er háttað í eldhúsi sumra veitingahúsa. Kona er vann sem unglingur á pizza-stað er bólusett gegn pizzum til frambúðar. Lúkur pizza-gerðarfólks voru ekki alltaf hreinar í upphafi vinnudags. En urðu hægt og bítandi tandurhreinar eftir að hafa hnoðað nokkur pizza-deig. Það þótti sport að þeyta deiginu með snúningi hátt á loft þannig að í smástund festist það við óhreint loft eldhússins.
Breski sjónvarpskokkurinn Ramsey Gordon hefur sýnt okkur inn í eldhús margra bandarískra veitingastaða. Þar er iðulega pottur brotinn hvað varðar hreinlæti. Á einum stað var kjúklingaréttur afgreiddur á tréprjóni. Viðskiptavinir nöguðu kjötið af prjónunum. Þeir voru notaðir aftur handa næstu viðskiptavinum. Jafnvel með kjötleifum frá fyrri viðskiptavinum.
Konu sem vann á Hressingarskálanum á síðustu öld var brugðið er hún uppgötvaði að þeyttur rjómi var margnýttur. Með tertusneið og heitu súkkulaði fylgdi skál með þeyttum rjóma. Fæstir átu allan rjómann. Leifarnar voru seldar næsta kúnna. Vandræðalegt atvik kom upp þegar kúnni drap í sígarettustubbi í rjómanum. Hann gerði það svo snyrtilega að það sást ekki. Næsti kúnni hrökk í kút er hann mokaði sígarettustubbi út á tertusneiðina sína.
Fyrir nokkru las ég í bandarísku dagblaði viðtal við starfsfólk veitingastaða. Umræðan snérist um þjórfé. Fleiri en einn upplýsti að nískum fastakúnnum væri refsað með því að skyrpa í matinn þeirra.
Eftir tilkomu internetsins hafa ófá myndbönd birst af starfsmönnum veitingastaða hreykja sér sóðaskap. Meðal annars með því að troða frönskum kartöflum upp í nefið á sér áður en þær eru bornar fram handa kúnnanum.
Stóra skeiðarmálið á Akureyri skilur eftir eina áleitna spurningu. Sleikt skeið er ekki stóra málið. Það er að segja ef hún var snyrtilega sleikt. Þá er hún næstum því hrein. Spurningin snýr að fullyrðingu eiganda veitingastaðarins um að diskar með sósu slettri á þá úr sleiktri skeið hafi aldrei farið út úr eldhúsinu.
Staðurinn var undirmannaður. Fjögurra manna starfslið sat uppi með vinnu átta manna. Það er dáldið skrítið að undir þeim kringumstæðum hafi vinna verið lögð í að útbúa fjölda veisludiska sem aldrei fóru út úr eldhúsinu.
Til varnar einu og öðru í veitingum á matsölustöðum er ráð að skola þeim niður með góðu hvítvíni. Ennþá betra er að taka eitt eða tvö vodka-skot með. Eða þrjú. Þau eru sótthreinsandi. Og gera máltíðina skemmtilega þegar upp er staðið.
![]() |
Yfirmaður kokksins sem sleikti skeiðina miður sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 8.5.2015 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.4.2015 | 22:17
Ekki borða pizzu beint úr pizzukassanum!
Ítalskt fátækrafæði, svokölluð pizza eða flatbaka, nýtur rosalega mikilla vinsælda á Íslandi. Þetta er stór hringlaga ofnbökuð hveitiflatbaka, bökuð með margvíslegum matarafgöngum úr ísskápnum sem álegg. Hún er vinsæl í heimsendingu. Einnig til að grípa með heim (take away).
Hún er afgreidd í flötum pappakassa, skorin í misstórar sneiðar (líkt og rjómaterta). Fólk gúffar græðgislega í sig sneið og sneið. Á meðan malla óétnu sneiðarnar eftir í pizzakassanum þangað til röðin kemur að þeim.
Í pappanum eru skaðleg flúorefni sem berast auðveldlega í pizzuna. Komin inn í líkama neytandans safnast þau þar fyrir. Sem dæmi um skaðsemi þeirra má nefna að tíðni fósturláta sextánfaldast. Barátta gegn þessu er mikilvægari en barátta gegn hefðbundnum fóstureyðingum.
Til að sporna gegn skaðsemi pizzu í pappakassa er ráð að færa hana eldsnöggt á stóran disk um leið og heim er komið.
Ef að pizzakassinn er merktur svansmerki er öllu óhætt.
Matur og drykkur | Breytt 1.5.2015 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)