Færsluflokkur: Fjármál

Bráðnauðsynlegt að vita um snjó og bíl

  Í snjó og frosti er áríðandi að gæta sín á nokkrum hlutum ef ekki á illa að fara.  Einkum ef að kusur eru úti við.  Þá leiðist þeim alveg rosalega.  Þær finna ekkert gras til að bíta í.  Þær eru nautheimskar og átta sig engan veginn á því að hægt sé að finna gras undir snjónum.  Öfugt við til að mynda hestinn.  Hann er klár.  Hann krafsar í snjóinn,  ryður honum snyrtilega frá þangað til gras blasir við.

  Þegar gras er hulið snjó veit kusan ekki sitt rjúkandi ráð.  Henni er kalt.  Hvað er þá til ráða?  Kusan er í hópi allra forvitnustu dýra,  að manninum frátöldum.  Eðlislæg forvitni kusu reynist henni oftar vel heldur en illa.  Ef hún kemur auga á að bíll nálgist og sé lagt ekki allt of fjarri henni þá líður ekki á löngu uns hún fer að bílnum og forvitnast.  Hún þefar af honum,  skoðar hann hátt og lágt og sleikir hann aðeins til að kanna bragðið.  

  Í snjó og kulda er afar óheppilegt að kusa átti sig á því að húdd bílsins sé heitt eða volgt.  Þá bröltir hún nefnilega upp á húddið og kemur sér makindalega fyrir í notalegri hlýjunni.  Vandamálið er að vegna þyngdar kusu þá dældast húddlokið.  Bröltið á klaufdýrinu fer líka illa með lakkið á bílnum.  

  Þetta vita fáir.  Kýr eru svo sjaldan úti í snjó og kulda.  En það kemur fyrir.  Þá er nauðsynlegt að vita af þessu.

kusa hlýjar sér 


mbl.is Seyðfirðingar innlyksa í þrjá daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynnisferðir með óvænt útspil

rúta-2 

  Fyrir nokkrum dögum kom ég í flugvél frá útlandinu.  Óvenju fáir farþegar voru í flugvélinni.  Kannski tíu eða fimmtán eða eitthvað svoleiðis.  Eftir að hafa skoðað mig um í Fríhöfninni og freistast til að kaupa þar eitt og annað skokkaði ég léttilega út í Flugrútuna.  Aðrir farþegar fóru út í sinn eigin bíl eða í aðra bíla sem biðu þeirra.  Ég var sá eini sem fór í Flugrútuna.

  Bílstjóri rútunnar spurði mig að því hvort ég væri á hraðferð.  Þetta var um miðja nótt og ég ekkert að flýta mér neitt.  Þá sagði bílstjórinn:  "Það var önnur flugvél að lenda.  Ef ég hinkra eftir farþegum úr henni þá leggjum við af stað eftir 20 - 30 mínútur.  Til að vega upp á móti þeirri bið get ég skutlað þér heim í hlað þar sem þú býrð.  Þú þarft þá ekki að eltast við leigubíla og sparar þér leigubílakostnaðinn.  Að auki sleppi ég þér við að borga 2000 króna fargjald með rútunni.  Ef þig hinsvegar langar til að við brunum strax í bæinn þá get ég lagt af stað núna.  Þá tekur rútan þarna hina farþegana.  Þú bara ræður og segir til."

  Ég valdi fyrri kostinn.  Það var notalegt að vera skutlað heim að dyrum.  Það var líka góð tilfinning að spara rútukostnað og leigubílakostnað.  Gott ef það var ekki líka góð tilfinning að spara Flugrútunni kostnað við það að keyra með aðeins einn farþega til Reykjavíkur.

  Út af fyrir sig hefði bílstjórinn ekkert þurft að semja við mig.  Hann hefði getað látið duga að tilkynna mér að rútan legði af stað eftir 20 - 30 mínútur.  Kannski hefði ég orðið smá óhress.  En ég var ekki í sterkri samningsstöðu til að mótmæla því.  Það var til fyrirmyndar að bjóða mér þennan höfðinglega kost.  Kynnisferðir eru að standa sig.  Viðskiptavild fyrirtækisins hjá mér er mun stærri í ár en áður. 

  Ljósmyndin frábæra er birt með leyfi höfundar,  Kristjáns Jóhanns Bjarnasonar.      


Kaldar kveðjur til brottrekinna

N1 

  Neinn er merkilegt fyrirtæki.  Stundum tapar það peningum án þess að kippa sér upp við það.  Það á vini á góðum stöðum sem afskrifa skuldir þegar svo ber undir.  Þannig að þetta er ekkert mál.  Einu sinni hef ég þó heyrt forstjóra Neins veina sáran.  Það var þegar hann tjáði sig um vörurýrnun vegna þjófnaðar á bensíni.  Bensíni hafði verið stolið frá Neinum fyrir næstum 30 milljónir króna.  Forstjórinn benti á að það væri virkilega erfitt og nánast óbærilegt að reka fyrirtæki sem býr við svona mikla vörurýrnun.  Undir það skal tekið.

  Nokkru síðar ræddi forstjórinn um tilraun Neins við að hasla sér völl á sviði bókaútgáfu.  Gefnar voru út tvær bækur,  hvor um sig í risaupplagi.  Þær voru auglýstar til samræmis við risaupplagið.  Leikar fóru þannig að uppistaðan af upplaginu endaði á haugunum.  Forstjórinn sagði tapið á bókaútgáfuævintýrinu skipta fyrirtækið engu máli.  Tapið væri ekki nema næstum 30 milljónir króna og fyrirtæki af stærðargráðu Neins finni hvergi fyrir svoleiðis smáaurum.

  Svo skemmtilega vildi til að þetta var sama upphæð og vörurýrnun vegna bensínþjófnaðar.

  Núna var Neinn að segja upp 19 starfsmönnum.  Forstjórinn segir það vera til þess að bæta þjónustu fyrirtækisins.  Birgjar jafnt sem starfsfólk sé yfir sig hamingjusamt með breytinguna.  

  Þetta verður ekki skilið öðru vísi en svo að þessir 19 brottreknu hafi dregið þjónustu Neins niður.  Þeir hafi háð rekstri Neins. 


Sparnaðarráð: Sparaðu 4 dekk og fjórar felgur!

  Flestir eiga 2 bíla. Það eru útgjöld upp á að minnsta kosti 8 dekk á álíka margar felgur. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig hæglega má spara þann kostnað um 50%. Það munar um minna.  Þetta er sparnaður upp á 100 þúsund kall eða svo.  Fyrir þann pening má kaupa margar pylsur með öllu. 

spara dekk


Vandræðaleg staða

  Sauðfé á undir högg að sækja víðar en í snjósköflum á Norðurlandi,  eystri og vestri. 

hrútur hangir í raflínu

  Þessi norski sauður flæktist í rafmagnslínu á láglendi og trylltist.  Áður en hann vissi af hékk hann á horni í 5 metra hæð.  Þegar hrúturinn kynntist rafmagnslínunni fyrst var hún óþægilega nálægt jörðu þar.  Þegar æði hljóp á hrútinn - við að festa horn í línunni - fór allt úr skorðum  Hann gat aðeins hlaupið í eina átt og línan fjarlægðist jörðu.

  Vitni voru að atburðinum.  Þau gerðu viðvart.  Hrútnum var því bjargað úr prísundinni áður en illa fór.  Hann hefur verið niðurlútur síðan og skammast sín fyrir að hafa verið svona mikill sauður.


Sparið fjórðung!

  Það eru ekki allir ríkir.  Þrátt fyrir að erfitt sé að finna laust bílastæði vegna allra 10 og 12 milljón króna jeppanna og fólk togist á um hvert eintak af nýjustu árgerð af símum sem kosta 140 þúsund kall (minn sími kostaði innan við 5 þúsund kall).  Það eru miðnæturbiðraðir út um alla Kringlu þegar ný árgerð af tölvuleik fyrir krakka er sett í sölu.  Biðraðirnar og hamagangurinn eru ennþá meiri þegar ný búð með útlendum vörum er opnuð.  Ekki síst ef útrásarvillingar og bankaræningjar tengjast þeim.  Sólarlandaferðum,  borgarferðum,  skíðaferðum,  golfferðum,  íþróttaleikjaferðum og ferðum á allskonar viðburði í útlöndum fjölgar dag frá degi.  Íslensku flugfélögin eru orðin 3 til að anna eftirspurn og eru stöðugt að bæta við nýjum áfangastöðum.  Dýrustu veitingastaðirnir á höfuðborgarsvæðinu eru þétt setnir.  Einkum þar sem máltíðin kostar yfir 10 þúsund kall.  Fólk er byrjað að hamstra pantanir á jólahlaðborðin.  Og það er september. 

  Það sitja ekki allir í slitastjórn né hafa fengið skuldir upp á hundruð milljóna króna afskrifaðar.  Sumir hafa fengið skuldir upp á milljarða afskrifaðar.  Aðrir hafa náð samkomulagi við bræður sína um kaup og sölu og milligöngu um kaup og sölu á fjárhags- og starfsmannakerfi til hins opinbera. 

  En það er til fólk sem þarf að spara.  Og jafnvel þó að það þurfi ekki að spara þá er óþarfa bruðl óþarfi.  Það eiga allir að hjálpast að við að gefa sparnaðarráð.  Ég læt ekki mitt eftir liggja. 

  Gleraugu kosta marga peninga.  Samhent hjón eða pör eða vinir geta sparað fjórðung með því að nota sameiginleg gleraugu.  Það er hægt að gera með því að nota aðeins 3 sjóngler í stað fjögurra.

  Það er smá kúnst að nota svona gleraugu til að byrja með.  Aðallega út af því að annar aðilinn þarf að ganga aftur á bak.  En þetta venst glettilega fljótt og fólk verður samstígara og nánara er á líður. 

sparnaðargleraugu fyrir samlynd hjón 


mbl.is Svaraði Jóhönnu um kerfið 2004
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð! Ódýr eftirlíking í umferð

  Sumar tölvur eru dýrari en aðrar.  Sennilega er það ástæðan fyrir því að óheiðarlegir svindlarar - ólíkt heiðarlegum svindlurum - hafa leiðst út á glæpabraut.  Þeir hafa gert sér lítið fyrir og selt háu verði ódýrar eftirlíkingar af dýrum tölvum.  Drengurinn á myndinni hér fyrir neðan er meðal margra fórnarlamba.  Honum var seld þessi tölva sem Apple tölva í Kolaportinu með 5% afslætti frá búðarverði.  En þetta er ekki Apple tölva.  Ef vel er að gáð má greina að það vantar laufblað á Apple merkið.

fölsuð tölva


Sparnaðarráð: Sparaðu tugi þúsunda króna!

  Margar konur kaupa sér pils á 20 - 30 þúsund kall.  Og nokkrir kallar líka.  Ýmsir,  kallar og konur,  verja álíka upphæð í að kaupa handa konum (og nokkrum köllum) pils til jólagjafa,  afmælisgjafa og annarra tækifærisgjafa.  Ég hef fundið leið til að lágmarka þennan kostnað við upphæð sem er innan við 1000 kall.

  Í Rúmfatalagernum,  Europrice og fleiri búðum má finna kodda sem kosta undir 1000 kr.  Ráðið er að klippa ofan af þessum koddum og neðan af þeim.  Henda svampi sem er innan í koddunum og eftir stendur glæsilegt pils í fallegum litum og með myndum eða munstri.

koddarA


Viltu græða hellings pening?

  Ég er með frábæra viðskiptahugmynd.  Hún mun klárlega færa þeim góðar tekjur sem á hana stekkur og hrindir í framkvæmd.  Viðkomandi verður það sem kallast auðmaður.  Eða því sem næst.  Sjálfur er ég upptekinn í öðrum verkefnum.  Þess vegna velti ég hugmyndinni til ykkar.

  Þetta er málið:  Íslendingar eru æstir í pylsu,  "eina með öllu", eins og það kallast.  Það sem fyrst þarf að finna er plastumbúðir sem henta undir "eina með öllu".  Næsta skref er að sjóða nokkrar pylsur.  Til þess þarf aðeins kaffikönnu:

pylsur hitaðar

  Síðan er pylsa sett í pylsubrauð ásamt meðlæti.  Þetta er sett í plastbakka og selt í verslanir sem selja samlokur.  Þar sómir pylsan sér vel innan um langlokur,  horn,  pastabakka og slíkt. 

  Virkar þetta?  Kaupir fólk "eina með öllu" úr kæliborði verslana?  Já.  Þetta gengur vel í Frakklandi.  Ég sá það í verslunum í París. 

pylsa

  Þar er pylsan seld með sinnepi, osti og einhverju svoleiðis.  Hérlendis þarf að hafa tómatsósu og lauk með.  Fyrir Akureyrarmarkað þarf að hafa rauðkál að auki.


Gróft einelti í auglýsingu

  Mér er hlýtt til ritfangaverslunarinnar Griffils.  Þegar ég vann í Síðumúla verslaði ég oft í Griffli sem var þá einnig í Síðumúla.  Það var alltaf gaman að koma í Griffil.  Eigandinn skemmtilegur (við spjölluðum oft um Bítlana) og starfsfólkið þægilegt.  Vöruúrval fínt og ágæt verð.  Svo urðu eigendaskipti og verslunin flutt niður í Skeifu.  Ég held - en er ekki viss - að eigendaskipti hafi orðið fleiri. 

  Núna auglýsir Griffill að ég kaupi skólavörur í Griffli.  Auglýsingarnar hefjast á orðunum "Þú kaupir skólavörurnar í Griffli."  Þetta er ekki rétt.  Ég kaupi engar skólavörur.  Hvorki í Griffli né annars staðar.  Mér er svo sem alveg sama um þessa röngu fullyrðingu.  Verra þykir mér að í næstu setningu er fullyrt að sonur Egils versli ekki í Griffli heldur borgi meira fyrir skólavörur annars staðar.  Svo er spurt:  "Hvað er að syni Egils?"

  Sonur Egils kaupir skólavörur í ritfangaverslunum í sínu hverfi.  Bensín er dýrt og væri fljótt að éta upp sparnað af því að fara langt yfir skammt til að kaupa ódýrari skólavörur.  Þar fyrir utan er því ranglega haldið fram í auglýsingum að Griffill sé alltaf ódýrastur.

  Samkvæmt nýjustu verðlagskönnun ASÍ eru tvær ritfangaverslanir ódýrari en Griffill.  Sonur Egils hefur sjálfur sagt mér að 12 trélitir í pakka sem hann keypti í Europrice kosti 499 kr. en 699 kr. í Griffli.  Á sama stað keypti hann stílabækur á 180 kr. sem eru ódýrastar á 285 kr. í Griffli.

  Það er ekkert að syni Egils.  Þetta er skýr drengur og klár.  Hann má þola það að daglega dynja á honum og skólasystkinum hans auglýsingar frá Griffli um að það sé eitthvað að honum.  Þetta er einelti.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband