Færsluflokkur: Fjármál

Verðsamanburður á skötuveislum

skata4

  Í dag og á morgun snæða flestir kæsta skötu í öll mál.  Það er góður og hollur siður nú á sólstöðum og hátíð ljóssins;  þegar við fögnum hækkandi sól.  Fjöldi veitingastaða býður upp á skötuveislu,  ýmist í dag eða morgun eða báða dagana.  Ég hef tekið saman verðið hjá þeim veitingastöðum sem ég sæki á þessum tíma ársins.  Sumir þeirra hafa verið með skötuna á boðstólum í nokkra daga.  Svona er listinn:

Sægreifinn  við Reykjavíkurhöfn (Geirsgötu)  1700 kr.

Hafberg, Gnoðavogi  1890 kr.

Sjávarbarinn,  Grandagarði  2400 kr.

Catalína,  Hamraborg  2700 kr.

Múlakaffi  2950 kr.

Skútan,  Hólshrauni,  Hafnarfirði  3000 kr.

Lionsklúbbur Kópavogs  og Coctail veisluþjónusta Auðbrekku (Lundur)  3500 kr.

Turninn, Kópavogi  3500 kr.

Kringlukráin  3950 kr. 

Grand Hótel  4400 kr.
.
  Fljótt og gott á Umferðamiðstöðinni býður upp á skötu á morgun.  Síðast þegar ég vissi var ekki búið að ákveða verðið en skotið á að það yrði á bilinu 2500 - 2700 kr.  Potturinn og pannanFjörukráinHafið Hlíðarsmára, og Gallerí fiskur bjóða einnig upp á skötuveislu.  Ég hef ekki kíkt til þeirra í ár og veit því ekki verðið.  Þau eru heldur ekki gefin upp á heimasíðum þeirra.  Ef þið vitið verðið þar eða vitið um fleiri staði sem eru með skötuveislu væri gaman að fá þær upplýsingar í pottinn.  Mér og ykkur til gagns.
.
  Það er að sjálfsögðu misjafnt hvað veislan er fjölbreytt og vegleg eftir stöðum.  Glæsilegasta skötuveislan er hjá Sjávarbarnum.  Þar er um alvöru hlaðborð að ræða með margvíslegri útfærslu á skötunni,  auk ýmissa annarra sjávarrétta og meðlæti.
  Þar fyrir utan slær ekkert út skötuveislunni hjá Rannveigu Höskuldsdóttur síðasta laugardag.  Hafi hún bestu þökk fyrir.  Verst að myndavél var fjarri góðu gamni.  Annars hefði verið gaman að sýna ykkur frá fjörinu.

 


Samanburður á jólahlaðborðum

 kona_saekir_sapu_940903.jpg

 - Staður:  Húsasmiðjan

 - Verð:  990 kr.

 - Einkunn:  ** (af 5)

  Ég ætlaði ekki að skrifa sérstaka umsögn um jólahlaðborð Húsasmiðjunnar.  Það er dálítið ósanngjarnt.  Bæði gagnvart Húsasmiðjunni og öðrum sem bjóða upp á jólahlaðborð.  Forsendur eru ekki þær sömu.  Húsasmiðjan býður upp á ódýrt jólahlaðborð til að lokka fólk á staðinn svo það kaupi í leiðinni hreinlætistæki,  málningu og skrúfur.  Verðlagningin á jólahlaðborðinu setur kokkum Húsasmiðjunnar þröngar skorður.  Það verður að sneiða hjá dýru hráefni.  Þeir spila aðdáunar vel úr þeirri stöðu.

  Eftir að ég skrifaði um jólahlaðborð á Kaffi Reykjavík hefur rignt yfir mig spurningum um jólahlaðborð Húsasmiðjunna.  Ekki síst eftir að viðtal birtist við mig í DV um jólahlaðborð.  Hér svara ég nokkrum spurningum sem leitað hafa á fólk.  Til samanburðar vísa ég á umfjöllun um jólahlaðborðið á Kaffi Reykjavík.  Sjá:  www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/989520/.

  Stjörnugjöfin ræðst af þessum samanburði með tilliti til verðs.  Án samanburðarins væru stjörnurnar fleiri.

  Fyrst eru það forréttirnir.  Í Húsasmiðjunni er gott úrval af síldarréttum,  bragðgóðu lifrarpaté með sultu,  ferskt salat og fleira.  Þar á meðal sjávarréttablanda sem samanstendur af reyktum laxi,  rækjum og túnfiski ásamt grænmeti.  Einnig eru flatkökur,  rúgbrauð,  snittubrauð og smjör.  Af kjötmeti er heit rifjasteik,  heitar reyktar medisterpylsur,  kjúklinganaggar,  kaldir kjúklingaleggir og Bayonnesskinka.  Meðlæti er m.a.  kartöflusalat,  ávaxtasalat (eplasalat með niðursoðnum blönduðum ávöxtum),  heit virkilega bragðgóð brúnsósa og ýmsar kaldar sósur,  heitar brúnaðar kartöflur (smáar, vel brúnaðar og góðar),  grænar baunir og rauðkál. 

  Þetta er sennilega eina jólahlaðborðið þar sem ein sósuskálin inniheldur tómatsósu,  önnur kokteilsósu og kartöflustrá úr "niðursuðudósum".  Ég hef tekið eftir að fólk tekur hraustlega af þessum réttum.  Ekki síst börn og unglingar.

  Réttirnir eru allir auðþekkjanlegir (þarfnast ekki merkinga eða leiðsagnar) og smekklega veislulega fram settir.  Það er stæll á jólahlaðborðinu þegar litið er yfir það.  Kokkarnir eiga hrós skilið fyrir útsjónarsemi og góða matreiðslu.

  Ég held að ég hafi engu gleymt í upptalningunni.  Allt er þetta ljómandi góður matur.  Þannig lagað.  Fólk fær veglegan og góðan veislumat fyrir lítinn pening.  Hinsvegar sakna ég nokkurra rétta sem jafnan gera jólahlaðborð svo eftirsótt sem raun ber vitni.  Svo sem laufabrauðs,  hangikjöts,  uppstúfs og ris a la mande.


Umsögn um jólahlaðborð

jolahla_bor.jpg

 

  - Staður:  Restaurant Reykjavík

  - Verð á jólahlaðborði:  4900 kr.

  - Einkunn: ***1/2 (af 5)

  Við áttum bókað borð. Sem betur fer.  Það var fullsetið á öðrum borðum.  Okkur var vísað upp á aðra hæð.  Þar eru margir salir eða herbergi.  Á borð var strax borið niðurskorið hvítt hveitibrauð,  smjör og vatni hellt í glös.  Jafnframt var tekið við pöntunum á áfengum drykkjum.  Þjónar voru flestir útlendingar.  Sem er bara í góðu lagi.  Þeir kunnu ensku.

  Eftir að hafa borðað vel af brauði með smjöri og þambað vatn komst ókyrrð á hópinn.  Þá fór fólk að leita uppi jólahlaðborð. Innan skamms fannst það í einu herbergi.  Úrval var gott og fjölbreytt.  Illilega vantaði merkingar við hvað er hvað.  Auglýstir höfðu verið síldarréttir.  Kannski voru þeir þarna en við fundum þá ekki.  En af nógu öðru var að taka.  Hinsvegar var ekki gott að átta sig á hvað var hvað.  Með lagni mátti þekkja lúðupaté,  rækjupaté,  villibráðapaté,  gæsalifrarpaté... Margt annað var ráðgáta.  Gott úrval var af fiskiréttum en ómögulegt að ráða í hvaða fiskar þetta voru.  Ennþá síður hvaða köld sósa passaði við hvaða fisk.

  Ég held að ég hafi rambað á grafið hrefnukjöt,  saltaða nautstungu...  Ekki lá ljóst fyrir fyrr en smakkað var á hvað var grafinn lax og hvað var reyktur lax.  Hangikjötið var gott.  Virkilega gott.  Með þetta var rölt inni í borðsal.  Nokkru síðar uppgötvuðu einhverjir að í öðru herbergi mátti finna finna heita rétti:  Kalkún,  rifjasteik og lambalæri.  Lambalærið var blóðsteikt (hefði mátt fá 5 mínútur til viðbótar) en kalkúnninn var virkilega góður.  Þar var líka að finna - en nokkuð seint - heitar kartöflur og uppstúf.  Þá á ég við að hangikjötið var í herberginu með köldu réttunum. Þrjár heitar sósur voru í boði en engar upplýsingar um mun á þeim.  Einnig gratíneraðar kartöflur og sitthvað fleira.

  Sömuleiðis ris a la mande,  brúntertu með rjóma og fleiri eftirréttir.  Maturinn var allur góður en leiðsögn vantaði.  

  Verst var að síendurspiluð var plata með leiðinlegum enskum jólasöngvaklisjum.  Leiðinlegum lögum sem mátti umbera í einni spilun en varð óþolandi í 3ju endurspilun. 

  Til að hífa jólahlaðborð Kaffi Reykjavík upp úr ***1/2 stjörnu í 5 þarf aðeins að kippa eftirfarandi í lag:  Leiðbeina gestum um hlaðborðið,  merkja réttina og spila hátíðlegri og fjölbreyttari jólalög en enskar jólapoppklisjur.  Eðal væri til að mynda að heyra jólaplötu Hauks Morthens og "Hvít er borg og bær" með jólalögum Ingibjargar Þorbergs.  Og helst með umslaginu sem ég teiknaði fyrir Lp-útgáfuna.  Það umvaf músíkina þeim hátíðlega blæ sem þurfti.   Núna er umslagið komið í vemmilega og poppaða geisladisksútfærslu sem dregur músíkina niður á lægra plan.  Skamm,  skamm.  


Gefðu styttu í jólagjöf

 runar_jul.jpg

 

 

 

 

  Nú stendur yfir fjársöfnun fyrir styttu af tónlistarmanninum Rúnar Júlíussyni.  Hver einstaklingur sem leggur fram 1000 krónur fær nafn sitt skráð í bók er liggja mun frammi hjá styttunni í Poppminjasafni.  Hámark nafna í bókinni verður 3000 (lágmark 2200).  Þetta er bráðupplagt tækifæri fyrir stórfjölskyldur að taka sig saman og fá nöfn sín skráð í bókina á einu bretti.

  Þetta er ósköp einfalt.  Þú leggur hvern 1000 kall inn á reikning 407784,  höfuðbók 05 í banka 1109 (Sparisjóðurinn í Keflavík).  Kennitalan er 180352-4309.  Hér er um framlög einstaklinga að ræða.  Fyrirtæki mega taka þátt en verða að greiða 50 þúsund kall fyrir sitt nafn.

  Nánari upplýsingar gefur gott fólk í  Áhugahópi um gjöf til minningar um Hr.  Rokk - Rúnar Júlíusson.  Sími þess er:  892 1240,  692 6790 og 869 7616.

  Styttan er til sýnis í Ránni í Keflavík á meðan söfnun stendur yfir.  Vonir standa til að söfnun ljúki um áramótin og styttan verði afhent Poppminjasafninu strax eftir áramót.


Verðsamanburður á jólahlaðborðum - og verðbreytingar frá í fyrra

jólamatur

  Ég er búinn að fara daglega á jólahlaðborð núna í þrjár vikur.  Verðið gefur vísbendingu um úrvalið á hlaðborðinu en segir þó ekki alla söguna.  Hvort á hlaðborðinu eru 20 tegundir af réttum og meðlæti eða 100 segir heldur ekki alla sögu.  Það skiptir meira máli að laufabrauð,  Waldorf-salat og ris a la mande sé í boði en kjúklingur, kokteilsósa og tómatsósa.

  Ég læt slóðina yfir á jólahlaðsborðsmatseðla veitingastaðanna fylgja þar sem þeir eru í boði.  Þá er nefnilega hægt að gera samanburð og átta sig betur á pakkanum.

  Athygli vekur hvað mörg veitingahús hafa lækkað verð frá því í fyrra.  Þar munar mestu um 19% verðlækkun Lækjarbrekku.  Verri er 50% verðhækkun hjá Hótel Loftleiðum.  Skamm,  skamm!

  Vonandi hafið þið gagn af þessum lista.  Ég er búinn að eyða miklu lengri tíma í að setja hann saman en ætlun var.

Húsasmiðjan Skútuvogi:  990  kr.  Sjá:  http://www.husa.is/index.aspx?GroupId=957

Vox:  2850  kr. í hádegi (7500 kr. á kvöldin.  Um helgar eru skemmtiatriði með í pakkanum (Sigga Beinteins og Daddi diskó)).  100 kr. verðlækkun frá í fyrra í hádegi!  Óbreytt verð á kvöldin.  Gott mál.  Sjá:  http://www.vox.is/JOLAVOX/VOXihadeginu/
.
Strikið:  2980  kr. í hádegi (4980 kr. á kvöldin).  Sjá:  http://www.strikid.is/static/images/strikid_jol.jpg
Friðrik V:  2980  kr. í hádegi (6900 kr. á kvöldin).  Sjá:  http://www.fridrikv.is/is/page/jolin_2009
.
Silfur:  3500  kr. í hádegi (5900 - 6900 kr. á kvöldin eftir dögum)  1100 kr. verðlækkun frá í fyrra í hádegi.  300 kr. verðlækkun á kvöldin.  Gott mál.  Sjá:  http://www.silfur.is/index.phpop?tion=com_content&task=view&id=79&Itemid=58
Skrúður,  Hótel Sögu:  3900  kr. í hádegi.  5900 kr. á kvöldin.
.
Brauðbær,  Hótel Óðinsvé:  3900  kr. mánud. - miðvikud. (6900 kr. aðra daga).  700 kr. verðlækkun frá í fyrra á lægra verði en 400 kr. hækkun á hærra verði.  Í fyrra var reyndar verðmunurinn á milli hádegis og kvölds.  Sjá:  http://www.braudbaer.is/Forsida/UmBraudbae/
Lækjarbrekka:  3900  kr. í hádegi (6900 kr. á kvöldin).  900 kr. verðlækkun frá í fyrra í hádegi.  Kvöldverðið var mismunandi eftir dögum.  Sjá:  http://www.laekjarbrekka.is/index.php?option=content&task=view&id=22&Itemid=55
Gallerý,  Hótel Holt:  3900  kr. í hádegi (7900 kr. á kvöldin).  100 kr. verðhækkun frá í fyrra í hádegi.  Óbreytt kvöldverð.  Sjá:  http://www.hotelholt.is/index.php?/Gallery-Restaurant/Hadegismatsedill.html 
 
Hótel Loftleiðir:  3950 kr. í hádegi.  6500 á kvöldin.  Óbreytt verð.
 
 Kjöt & Kúnst:  3990  kr.
.
Kaffi Reykjavík:  4900  kr.  1000 kr. verðlækkun frá í fyrra.  Sjá:  http://www.restaurantreykjavik.is/index.php?option=content&task=view&id=30&Itemid=53
.
.
Tapas Bar:  4990  kr. með fordrykk700 kr. verðhækkun frá í fyrraSjá:  http://www.tapas.is/
.
Brassería, Grand Hótel:  5100  kr. í hádegi (7500 kr. - 8500 kr. með söng,  skemmtiatriðum og dansleik).  550 kr. verðhækkun  frá í fyrra í hádegi.  1100 - 1900 kr. verðhækkun á kvöldin.
.
Hótel Stykkishólmur:  5500  kr.  Sjá:  http://hringhotels.is//jolahladbord/Default.aspx
Gistihúsið Egilsstöðum:  5900  kr.. 
Hótel Laki:  5900  kr.
Hótel Varmahlíð:  5900  kr. 
Hótel Örk:  5900  kr. föstudaga (6900 laugardaga).  1000 kr. verðlækkun frá í fyrra á föstudegi.  Óbreytt verð á laugardegi.
.
Ráin:  5950  kr. með lifandi músík (Ari Jóns & Finnbogi Kjartans).  Sjá:  www.rain.is
.
Café Nielsen:  6100  kr.
.
Rub23:  6400  kr.  Sjá:  http://www.rub.is/Default.asp?Page=255
.
Lava,  Bláa lónið:  6500  kr. með fordrykk og boðsmiða í lónið. Sjá:  http://www.bluelagoon.is/resources/Files/Bath/Jolahladbord-LAVA-2009-[Compatibility-Mode].pdf
Hótel Selfoss:  6500  kr.
Rauða húsið:  6500  kr.  Sjá:  http://www.raudahusid.is/Frettir/762/  Smella þarf á innrammaða flötinn sem er merktur Jólahlaðborð 2009..
.
Fjörukráin:  6800  kr. með jólaglöggi og lifandi músík (Rúnar Þór og Gylfi Ægisson).  Dansleikur á eftir (Dans á Rósum).  400 kr. verðhækkun frá í fyrra.  Sjá:  http://www.fjorukrain.is/fjorukrain/is/a_dofinni/?cat_id=23805&ew_0_a_id=351816
.
Perlan:  6890  kr. mán. - miðvikud. (7980 aðra daga).  640 kr. verðhækkun frá í fyrra í hádegi.  Þá var lægra verðið reyndar á virkum dögum en 7250 kr. um helgar.  Sjá:  http://www.perlan.is/index.php/is/dni-veitingastadur-133/146-jolahladbord-perlunnar
.
Gamla Kaupfélagið:  6900  kr. með lifandi músík undir borðhaldi (André Backman og félagar) og dansleikur á eftir.  Sjá:  http://www.gamlakaupfelagid.is/  Ath:  Það þarf stækkunargler til að lesa matseðilinn.
Vodafone-höllin:  6900  kr. með skemmtidagskrá og balli (Á móti sól).  Sjá:  http://www.veislurettir.is/index.php?option=content&task=view&id=270&Itemid=151
Fjalakötturinn:  6900  kr.  Sjá:  http://www.fjalakotturinn.is/Matsedill/Jolasedill-2009/
Rauðará:  6900  kr.  Óbreytt verð frá í fyrra.  Sjá:  http://www.raudara.is/index.php?option=content&task=view&id=15&Itemid=38
.
Argentína:  7300  kr. sunnud. - miðvikud. (8300 kr. aðra daga).  Þetta er dálítið kanadískt jólahlaðborð. 2042 kr. verðhækkun frá í fyrra á lægra verði.  2050 kr. verðhækkun á hærra verði.  Sjá:  http://www.argentina.is/?c=webpage&id=55
.
Broadway:  7900- 8400 kr. (með hryllingsmúsík og sýningu á Mikjáli Jackson dönsum + balli (Bermúda) 
Grillið:  7900  kr. (9900 kr. ef valið er af sérmatseðli).  Sjá:  http://www.grillid.is/Grillid/Frett/58
.
Hótel Rangá:  8000  kr. föstudaga (8900 kr. laugardaga)
.
Fiskmarkaðurinn:  8900  kr. 1500 kr. verðhækkun frá í fyrra.  Þá kostaði 7400 kr. sunnud. - miðvikud og 8400 aðra dagaSjá:  http://fiskmarkadurinn.is/.  Það þarf að smell á "Seðill" og síðan "Jólaborðs matseðill".
Súlnasalur,  Hótel Sögu:  8900  kr.  (með skemmtiatriðum og balli).  Óbreytt verð frá í fyrra. 

Glæsilega afastelpan

ylfa mjöllylfa mjöll daníelsdóttir

  Þessi færsla er "lókal".  Fyrst og fremst fyrir vini og vandamenn.  Þarna er afastelpan glæsilega,  Ylfa Mjöll Daníelsdóttir.  Hún átti að fæðast 28.  nóv. en vildi ná síðasta þættinum af Fangavaktinni.  Þess vegna spratt hún í heiminn 5.  nóv.  Og skuldar aðeins örfáar milljónir króna.  En það er bara Johnny Cash (staðgreiðsla) um leið og hún getur.  Ekki vandamálið þegar þar að kemur - fyrst Björgúlfar,  Sigurjón Þ.  Árnason og Baugsfeðgar eiga bara fyrir Diet Kók. 


Kvikmyndarumsögn

capitalism

- Titill:  Capitalism.  A Love Story

- Leikstjóri/höfundur:  Michael Moore

- Einkunn: ***

  Bandaríski leikstjórinn og heimildarkvikmyndakóngurinn Michael Moore veldur örlitlum vonbrigðum með myndinni  Capitalism: A Love Story.  Aðalsmerki hans hefur verið leiftrandi húmor.  Hér er hann alvörugefnari.  Að vísu stundum fyndinn.  En húmorinn er meira undirliggjandi en beinskeyttur og afgreiddur á færibandi gríns.  Hámarki nær kímnin þegar hann innsiglar banka með límbandi - eins og lögreglan notar - merktu "glæpavettvangur".

  Myndin er aldrei leiðinleg.  Hún er fróðleg og vekur upp margar áleitnar spurningar.  Án þess að þeim sé öllum svarað.  Hún fer frekar hægt af stað. Er á líður opinberast betri skilningur á upphafsatriðunum.

  Ég er ekki vel að mér í hruni bandaríska bankakerfisins.  Þekki ekki þau dæmi sem eru til umfjöllunar.  En margt virðist eiga samhljóm með siðrofinu,  fégræðginni og ýmsu öðru sem við þekkjum í ferli bankahrunsins á Íslandi.

  Athyglisverð er afstaða manns sem vann við að múta embættismönnum.  Hann segist bara hafa verið að vinna sína vinnu. Ef ekki hann þá hefði bara einhver annar afgreitt þau mál.

  Þetta er áróðursmynd gegn óheftum kapítalisma (frjálshyggju).  Gamli kapítalismi sjöunda og áttunda áratugarins fær að njóta sanngirnis. 

  Einn bútur myndarinnar sýnir klippur af hverjum republikanum á fætur öðrum kalla Barrack Hussein Obama sósíalista.  Kannski með réttu?  Og meirihluti Bandaríkjamanna kaus þennan sósíalista sem forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Michael Moore lætur að því liggja að kapítalistar hafi keypt Hussein.

  Eftir stendur:  Þetta er frekar skemmtileg kvikmynd.  Hún vekur upp margar spurningar.  Hún er ekki skemmtilegasta kvikmynd Michaels Moores.  En það er hægt að mæla með henni sem ágætri skemmtun og þó öllu fremur áhugaverðri og fróðlegri.   


Ókeypis! Ókeypis! Sunnudagur til sælu

burger

  Fólk er alltaf tilbúið að fara þangað sem því býðst eitthvað ókeypis.  Þetta benti sjálfur Davíð Oddsson á þegar fréttir bárust af aukinni ásókn fátækra í matarstyrk hjá Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd og súpueldhús Samhjálpar.  Sjálfur lætur Davíð sig ekki vanta þegar honum býðst eitthvað ókeypis.  Þannig lagði hann á sig ferð úr Skerjafirði austur til Suðurlandsbrautar er honum bauðst ókeypis hamborgari í McDonalds.

  Næsta víst er að á morgun verði aftur lagt upp í ferðalag úr Skerjafirði.  Fólk sem heitir Davíð og getur sannað það með skilríkjum fær ókeypis Metró-hamborgara á morgun.  Ef Davíð leggur snemma af stað getur hann náð þremur sveittum:  Einum á Suðurlandsbraut,  öðrum í Kringlunni og þeim þriðja við Smáratorg.   

borgari

  Hér fyrir ofan getur að líta smáborgara.  Fyrir neðan er kennslumyndband af því hvernig bera á sig að við að snæða hamborgara.  Þeir sem aldrei hafa reynt geta ekki gert sér í hugarlund hversu erfitt er að slafra í sig einum sveittum.  Algjörlega bannað er að nota hnífapör.  Enda var hamborgari upphaflega aðferð iðnaðarmanna í Hamborg í Þýskalandi til að nærast á kjötbollu án þess að taka sér hlé frá vinnu.

  Það er sjálfur Davíð sem fer með aðalhlutverk í kennslumyndbandinu.  Hann er þýskur og gegnir eftirnafninu Hasselhoff (með sterkri áherslu á HOFF í framburði.  Heppilegast er að tuldra Hassel svo lágt að varla heyrist og hrópa síðan HOFF!).  Þessi gutti er þekktur fyrir hlutverk í sápuóperunni Sundvörðum með Pa-mellu Andersen.


mbl.is Davíð fær ókeypis borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegar hugmyndir um hvernig hægt er að redda málum í kreppunni

reding fyrir horn2

  Þegar baðherbergisvaskur bilaði 2007 var nýtt hús keypt með baðherbergisvaski í góðu lagi.  En nú er 2009.  Þá verður að grípa til þess sem hendi er næst  Eldhúskollur og tvær spýtur gera sama gagn.  Þannig lagað.  Gestir og heimilisfólk þurfa bara að vita að ekki má fjarlægja stólinn. 

redding fyrir horn3 

  Þegar blöndunartækin gefa sig kemur sér vel að eiga tengur. 

redding fyrir horn

  Fyrir nokkrum dögum sögðu íslenskir fjölmiðlar frá pari sem hafði stolið tveimur innkaupakerrum og reyndi að selja þær á barnalandi.is.  Þetta vakti undrun.  Hér má sjá til hvers stolnar innkaupakerrur eru notaðar.  Þær gera sama gagn og kolagrill.  Og geta líka gert sama gagn og framhluti reiðhjóls.

redding fyrir horn7 

redding fyrir horn9

  Það þarf ekki að klípa af matarpeningunum til að kaupa múrsteina.  Gömlu Legó-kubbarnir sem liggja ónotaðir niðri í geymslu gera sama gagn.

redding fyrir horn5

  Legó-kubbarnir duga ekki í stærri steypuviðgerðir.  Þar verður að grípa til stórtækari kubba.

redding fyrir horn2

  Það er ástæðulaust að eyða peningum í póstkassa þegar stór sultukrukka gerir sama gagn - og sultan hvort sem er búin.


Einmitt námskeiðið sem vantaði

Tu te plains de ton boulot-05

  Kunningjakona mín er voðalega spennt fyrir námskeiði sem lítið hefur farið fyrir í fjölmiðlum - að ég held.  Það er útlendingur sem heldur námskeiðið.  Hann er búinn að fatta upp á aðferð fyrir fólk til að losna við verki.  Allt frá sinadrætti og hausverk til botnlangakasts og tannpínu.  Aðferðin er frekar einföld.  Að sögn eru verkir huglægir.  Fólk þarf bara að setja sig í spor verksins og ræða við hann.  Bjóða honum góðan dag og fara vel að honum.  Spyrja hann síðan lúmskra spurningu og veiða upp úr honum hvað sé í gangi.  Af hverju hann sé mættur.

  Á þennan hátt er hægt að komast til botns í vandamálinu.  Næsta skref er að semja í góðu við verkinn um að láta sig í friði.  Á námskeiðinu er þátttakendum kennt hvernig best er að standa að spjallinu við verkinn.  Ef vel tekst til hverfur verkurinn á 7 mínútum eða í síðasta lagi á innan við 12 árum.  Hafi verkurinn ekki horfið eftir 12 ár mun námskeiðsstjórnandinn endurgreiða námskeiðsgjaldið.  Það er rétt rúmur 10 þúsund kall,  eða 19.999 kr.

  Þeir sem komast ekki á námskeiðið geta í staðinn keypt plástra,  armbönd,  lukkusteina,  pendúla og annað slíkt sem einnig lætur verki hverfa.  Eða farið í heilun eða höfuðbeina- og spjaldhryggshnykk.  Jafnvel DNA heilun.  Eða horft á Fangavaktina.

  Á ljósmyndinni eru þátttakendur á námskeiði að koma sér í stuð og smá vímu með því að sniffa stæka svitalykt,  lím og bensín.  Það skerpir á liðsandanum og hristir þátttakendum saman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband