Færsluflokkur: Fjármál
26.9.2009 | 13:53
Krúttlegt - eða...?
Ég fór í matvöruverslun til að kaupa mér Malt. Skammt frá mér var kona með innkaupakerru. Í barnasæti kerrunnar sat á að giska fjögurra ára drengur. Ég var ekkert að fylgjast með þeim en heyrði drenginn segja: "Kaupum svona." Konan svaraði: "Nei, ekki núna." Strákur mótmælti hástöfum með blöndu af frekju- og hálfgrátandi röddu: "Jú, mig langar svo í svona." Konan útskýrði vandamálið: "Ég á ekki pening fyrir þessu. Ég á ekki einu sinni pening fyrir öllu sem ég þarf að kaupa."
Við þessi orð var dreng brugðið. Hann saup hveljur og spurði með uppglennt augu hálf skelfdur: "Verðum við þá að stela?"
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
3.9.2009 | 22:33
Hvað heldur þú?
Mig langar til að bera undir ykkur eitt atriði. Ég tek fram að ég er ekki að nota þennan vettvang til að auglýsa fyrirbærið heldur til að fá skilning ykkar á texta. Þannig er að í vel á þriðja áratug hef ég selt Aloe Vera gel. Lengst af var það einungis fáanlegt í kvartlítra flösku. Það átti ekki aðeins við um Aloe Vera gelið sem ég sel heldur öll vörumerki af Aloe Vera geli sem hér hafa verið og eru á markaði.
Fyrir nokkrum árum bættist við hálfslítra flaska af Aloe Vera gelinu sem ég sel. Það er hlutfallslega töluvert ódýrara per ml. Til að vekja athygli á þessu lét ég prenta límmiða með textanum: "Tvöfalt meira magn, lægra verð". Límmiðann set ég á stóru flöskurnar.
Í dag hringdi í mig kona sem spurði: "Hvaða búð selur Aloe Vera gelið með þessu tilboði?" Ég fattaði ekki hvað hún átti við. Eftir smá spjall kom í ljós að hún túlkaði merkinguna sem "2 fyrir 1". Ég útskýrði fyrir henni hvaða upplýsingum ég var að reyna að koma á framfæri á miðanum. Hún var mér óssamála. Sagði textann vera villandi og plat. Þetta var samt kurteis kona og bara gaman að spjalla við hana.
Þess vegna spyr ég ykkur hvort skilningur konunnar á textanum sé réttur. Hvort textinn gefi annað í skyn en ég ætlaði.
Ég ítreka að ég er ekki að auglýsa mína vöru með því að bera þetta undir ykkur. Þess vegna birti ég með færslunni mynd af Aloe Vera geli frá öðrum framleiðanda en Banana Boat.
Fjármál | Breytt 4.9.2009 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (51)
26.8.2009 | 22:30
Skemmtilegar reddingar
Það má alltaf redda sér í kreppunni, eins og þessar myndir sýna.
Neðsta myndin sýnir skemmtilegustu reddinguna á efnahagshruninu. 15 starfsmönnum var sagt upp hjá Marel. Í staðinn var þessi Land Cruser keyptur undir framkvæmdastjórann.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.8.2009 | 19:49
Gott ráð
Ég fór á veitingastað. Við næsta borð sátu tvær konur. Af aldri þeirra og orðum mátti ráða að þær væru mæðgur. Dóttirin fékk símtal. Auðheyrt var að hringjandinn var að boða bíl hennar á verkstæði. Er símtalinu lauk tjáði hún mömmu sinni frá því að bíllinn færi á verkstæði daginn eftir og verði þar að minnsta kosti í tvo daga.
"Hvernig ferðu þá að með börnin?" spurði mamman kvíðin. Dóttirin sagðist ekki vita það. Hún hefði engan pening til að taka leigubíl. Þær mæðgur vandræddust yfir þessu í góða stund og veltu fyrir sér ýmsum möguleikum, sem gengu ekki upp þegar betur var að gáð.
Allt í einu glaðnaði yfir dótturinni og hún segir: "Ég fæ bara bíl lánaðan á einhverri bílasölu."
Mamman hafði efasemdir um þessa lausn. En dóttirin var sannfærð. Allt væri frosið á bílasölum. Það færi illa með bílana að láta þá standa óhreyfða mánuðum saman. Bílasalar myndu taka því fagnandi að einhver vildi liðka gamlan bíl fyrir þá.
Konan hringdi í 118 og bað um að sér yrði gefið samband við einhverja bílasölu í Reykjavík. Það gekk lipurt fyrir sig. Konan kynnti sig og bar upp erindið. Bílasalinn spurði greinilega hvort viðgerð á bíl hennar tengdist bílasölu sinni á einhvern hátt. Nei, bílinn var í viðgerð á verkstæði úti í bæ og hún hafði bara hringt í einhverja bílasölu af handahófi.
Bílasalinn tók erindinu illa. Konan þuldi upp fyrir hann sömu rök og hún hafði áður sagt mömmu sinni. Allt kom fyrir ekki. Er símtalinu var lokið án árangurs stundi konan undrandi og hneyksluð: "Djöfull sem bílasalar eru hrikalega heimskir!"
Fjármál | Breytt 18.8.2009 kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.8.2009 | 20:59
2009
Munið þið eftir 2007 þegar tilveran snérist um einkaþotur, Elton John, einkasnekkjur, framlengda Hummer jeppa, þyrluferð í Bauluna til að kaupa pylsu, gullát, Ziggy Marley og 50 Cent? Nú er öldin önnur. Það er 2009 og annar veruleiki, samanber meðfylgjandi myndir.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2009 | 13:02
Verðsamanburður á grillum
Á sólríkum degi sem þessum er næstum nauðsynlegt að laumast aðeins út fyrir bæinn. Í farteskinu er gaman að hafa kassa af ísköldum bjór og einnota grill. Á grillið getur verið gott að setja papriku og banana. Eða Herragarðs grísalærissneiðar. Eða lax. Verð á einnota grillum er mismunandi á milli verslana og frekar lítið um verðsamráð. Þetta hef ég verið að borga fyrir einnota grill síðustu daga:
Bónus 259 kr.
Rúmfatalagerinn 269 kr.
Byko 299 kr.
Hagkaup 329 kr.
Europrice 399 kr.
Krónan 399 kr.
Nóatún 499 kr. (en 599 kr. í Nóatúni við Nóatún)
Neinn 875 kr.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
25.6.2009 | 14:20
Spennandi myndband
Mér var sent þetta skemmtilega myndband. Með fylgdu upplýsingar um að það sýni kofa í eigu forgöngumanns verðsamráðs olíufélaganna og konu hans, sem þekktust er fyrir að hafa látið innrétta einkagullklósett undir sig í húsakynnum dómsmálaráðuneytisins. Næsti nágranni turtildúfanna er maður sem gegnir nafninu Tiger Woods og þykir ekki síður liðtækur í golfi en 12 ára strákurinn á Selfossi.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.6.2009 | 00:21
Meira af Færeyjareisu
Eitt af mörgu sem gerir ferð til Færeyja ánægjulega er að færeyskt ritmál er auðlesið fyrir Íslendinga. Kunnugleg orð þýða þó ekki alltaf það sama á íslensku og færeysku. Á efstu myndinni er verslun merkt sem gávubúð. Slagorð hennar er "Góð gáva gleður". Færeyska orðið gáva þýðir gjöf. Þetta er gjafavöruverslun.
Á næstu mynd er aðstaða Rauða krossins í Færeyjum. Hann kallast Reyði krossur. Færeyingar tala um reyðan penna og reyðan jakka þegar þeir eiga við rauðan penna og rauðan jakka.
Þriðju myndina hef ég stóra til að í baksýn sjáist klettabeltin sem út um allt setja skemmtilegan svip á Þórshöfn. Ef vel er að gáð sést einnig færeyskur hrútur, eða "veðrur" eins og hrútur er kallaður á færeysku og framborið "vegrur".
Það var sama hvort kíkt var á skemmtistað, matsölustað eða í búð: Allstaðar voru Íslendingar. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa flúið frá atvinnuleysi á Íslandi til Færeyja í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi síðasta haust. Undanfarna áratugi hefur færeysk króna kostað 10 íslenskar krónur. Í dag kostar færeysk króna 24,5 íslenskar. Laun í Færeyjum hafa verið heldur hærri en á Íslandi og þegar þau eru reiknuð á núverandi gengi í dag geta vinnandi Íslendingar í Færeyjum sent dágóða upphæð til framfærslu sinna fjölskyldna á Íslandi. Íslendingar í Færeyjum eru í sömu stöðu hvað það varðar og Pólverjar sem hafa verið í vinnu á Íslandi undanfarin ár.
Hinsvegar er nokkuð dýrt fyrir Íslending að ferðast til Færeyja um Þessar mundir. Bjór sem áður kostaði á bar 500 íslenskar krónur kostar núna 1225 kall (50 færeyskar krónur). Það er reisn yfir því.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
9.5.2009 | 01:26
Góður banki
Ég er ekki vanur að lofsyngja banka. Nema kannski gríska sæðisbankann fyrir að hafa verið með lógó (firmamerki) gamla Íslandsbankans löngu á undan Íslandsbanka. Í dag fór ég í útibú Íslandsbanka við Kirkjusand til að borga vel hrærða reikningasúpu. Að því loknu tók ég eftir að einn reikningurinn virtist vera ógreiddur þó af honum hafi verið tekið eintak bankans.
Ég snéri mér aftur til gjaldkera. Lenti reyndar á öðrum en þeim sem hafði afgreitt mig. Gjaldkerinn, ljúf kona, kannaði málið. Hún komst fljótlega að sömu niðurstöðu og ég. Og varð alveg miður sin. Svo niðurbrotin að ef gler hefði ekki skilið okkur að hefði ég faðmað hana, klappað og hughreyst. Ég benti henni á að enginn hefði slasast. Allir væru við góða heilsu nema fólk í útlöndum með svínaflensu.
Konan var óhuggandi þangað til hún sagðist hafa tekið eftir að ég væri aldrei með seðlaveski. Hún bauð mér að þiggja af bankanum glæsilegt seðlaveski sem afsökun fyrir mistökunum. Mér var ljúft að samþykkja það.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
7.5.2009 | 15:09
Merkileg saga
Þessa skemmtilegu sögu fékk ég senda. Ég veit ekki hvort hún er sönn eða lygasaga. Hvort heldur sem er þá er eitthvað kunnuglegt við hana. Ekki fylgir sögunni hver er höfundur.
Ester er bareigandi í Berlín. Til þess að auka veltuna ákvað hún að leyfa dyggum viðskiptavinum sem flestir eru atvinnulausir alkar að drekka út á krít.Hún skráir allt sem drukkið er í þykkan kladda. Þegar þetta þægilega fyrirkomulag spyrst út þá flykkjast nýir viðskiptavinir á barinn. Frelsi fólks til þess að njóta augnabliksins og borga seinna gefur Ester valið tækifæri til þess að hækka verðið á vinsælustu veigunum, bjór og víni
Salan eykst gífurlega. Ungur og efnilegur lánafulltrúi í hverfisbankanum gerir sér grein fyrir að þessar skuldir viðskiptavinanna eru framtíðarverðmæti. Hann hækkar því yfirdráttarheimild Esterar í bankanum. Lánafulltrúinn telur þetta vandræðalaust vegna þess að skuldir alkanna eru haldgóð veð.
Í höfuðstöðvum bankans breyta sérfræðingar í æðri peningalist þessum viðskiptaskuldum í Drykkjuskuldabréf, Alkabréfavafninga og Gubbuafleiður. Þessi verðbréf sem virt áhættumatsfyrirtæki hafa (gegn þóknun) stimplað AAA gæðastimpli ganga síðan kaupum og sölum út um allan heim. Raunverulega skilur enginn hvað nöfn bréfanna þýða eða hvernig þau eru tryggð. Samt sem áður halda þau áfram að hækka. Þau eru metsöluvara.
Einn góðan veðurdag, þrátt fyrir að bréfin séu enn á uppleið, þá ákveður áhættusérfræðingur bankans að nú sé tímabært að drykkjuhrútarnir á bar Esterar borgi eitthvað upp í skuldirnar. Þeir geta það hins vegar ekki. Ester getur því ekki staðið í skilum við sína skuldunauta og lýsir yfir gjaldþroti. Drykkju- og Alkabréf falla um 95%. Gubbubréfin gera betur og ná stöðugkeika eftir 80% fall. Nýr veruleiki blasir við hjá fyrirtækjum sem seldu barnum á lánakjörum og hafa jafnvel líka fjárfest í fyrrnefndum bréfum. Heildsalan sem seldi Ester vín er gjaldþrota og fyrirtækið sem seldi bjórinn er yfirtekið af keppinauti.
Eftir dramatísk fundahöld og andvökustundir sem standa samfleytt í marga sólarhringa þá ákveða stjórnvöld að bjarga bankanum: Nýr skattur er lagður á bindindismenn.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)