Uppsveifla hjá rás 2

 andri_freyr______

 

doddi_litli

  Í árdaga rásar 2 fann ég henni flest til foráttu.  Mér þótti sem þar væri léttpopp ráðandi og betur færi á að leyfa Bylgjunni að sprikla með það.  Eða öðrum útvarpsstöðvum sem komu fram á sjónarsvið og gerðu einnig út á léttpoppið.  Ég lenti í hatrömmum blaðadeilum vegna þessarar afstöðu minnar.  Sem var bara hressandi og jaðraði við vinslit þegar hæst lét.

  Léttpoppstöðvarnar komu og fóru:  Stjarnan,  Aðalstöðin,  Sólin og hvað þær hétu allar.  Er fram liðu tímar breyttust áherslur hjá rás 2.  Þangað safnaðist rjómi dagskrárgerðarmanna með góða þekkingu á músík og metnað til að gera íslenskri músík góð skil.  Ekki síst að virkja grasrótina,  taka virkan þátt í Músíktilraunum og efla samskipti við erlendar útvarpsstöðvar og rokkhátíðir.

  Þessi þróun hefur orðið á besta veg.  Tónlistarfólkið sem rás 2 sinnti best og / eða ein íslenskra útvarpsstöðva hefur hvert á fætur öðru náð bærilegum árangri á heimsmarkaði:  Björk,  Sigur Rós,  Emiliana Torrini,  Lay Low,  Bang Gang,  Múm,  Gus Gus,  Mugison,  Mínus og ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

  Þessir nú heimsfrægu popparar eru farnir að skila góðum tekjum í ríkissjóð og eiga verulega mikinn þátt í aukningu á ferðamannastraumi til Íslands.  Sem einnig skilar tekjum í ríkissjóð.

  Að undanförnu hefur borið á kröfu um að rás 2 verði lögð niður.  Rökin eru þau helst að þannig megi spara RÚV útgjöld.  Þetta er rangt.  Rás 2 er sjálfbær og meira en það.  Niðurgreiðir aðra starfsemi RÚV.

  Á dögunum var mikið gert úr því að Bylgjan væri komin með meiri hlustun en rás 2.  Það var tiltekið sem önnur ástæða fyrir því að leggja eigi rás 2 niður.  Mín skoðun er sú að vænlegra sé að bjóða upp á góða dagskrá,  gera góða hluti,  hlú að grasrót íslenskrar tónlistar en sigra í hlustendakönnunum.  Hinsvegar er bara gott að Bylgjan sinni sínum hlustendahópi með ágætum.

  Nú hefur rás 2 náð fyrri stöðu sem sú útvarpsstöð sem flestir hlusta á.  Þar með eru fallin þau vondu rök að leggja eigi rás 2 niður á þeim forsendum að hún sé ekki vinsælasta útvarpsstöðin.  

  Hámarki náðu þessar fráleitu vangaveltur á dögunum þegar hryllingsstöðin,  versta útvarp landsins,  Kaninn,  óskaði eftir því að fá að taka rás 2 yfir.  Þetta var vitaskuld bara auglýsingatrix Einars Bárðarsonar.  Hann kann auglýsingatrixin þó útvarpsstöð hans sé "horror".  Þetta má ekki hljóma eins og mér sé illa við Einar. Útvarpsstöð hans er bara ömurleg,  rétt eins og Skítmaórall,  Nylon og það allt.  En áreiðanlega fínn náungi þar fyrir utan.

  Ég tek fram að margt er gott sem aðrar útvarpsstöðvar bjóða upp á en rás 2.  Útvarp Saga er skemmtileg útvarpsstöð.  Líka X-ið.  Það breytir því ekki að rás 2 er í góðri uppsveiflu.  Fyrir utan Poppland Rokkland og ýmsa aðra ágæta klassíska þætti má nefna snilldarþáttinn  Litlu hafmeyjuna (www.ruv.is/litla).  Frábær þáttur;  Skúrinn,  þar sem ungar efnilegar íslenskar hljómsveitir eru sóttar heim;  Streymi,  þar sem Þossi afgreiðir glæsilega það nýjasta af netsíðum íslenskra rokksveita;  Hið opinbera,  þar sem Ágúst Bogason spilar íslenskar og erlendar hljómleikaupptökur;  Dordingull,  þar sem þunga rokkinu er gert skil;  Luftgítar,  þar sem Matti afgreiðir gamlar rokkperlur;  Færibandið,  þar sem Bubbi hefur farið á kostum ásamt gestum á borð við Ragga Bjarna og Ómar Ragnarsson;  ég man ekki hvað spurningarþátturinn skemmtilegi með Villa Naglbít og Halldóri E.  heitir...

  Þar fyrir utan erum við að tala um Óla Palla,  Guðna Má,  Frey Eyjólfs,  Ásgeir Eyþórsson,  Matta Matt,  Margréti Erlu,  Heiðu...

  Ég ætla ekki að telja upp alla dagskrá rásar 2.  Bara benda á að rás 2 er í góðri uppsveiflu,  bæði hvað varðar góða dagskrá og er með mesta hlustun íslenskra útvapsstöðva.  

  Takið eftir hvað Andri Freyr er ótrúlega sakleysislegur á myndinni efst.  Hann getur brugðið fyrir sig englasvip.  Doddi litli er ekki eins flinkur í því.  Hrekkjótti púkasvipurinn fer ekki af honum.  Þeir eru til samans toppur í íslensku útvarpi.   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Nei hættu nú alveg" Ég er annar liðsstjóra, hinn er Rúnar Leifs fornleifafræðingur og fjölspekingur, en saman myndum við rústa honum!

Verðum að láta reyna á það við fyrsta tækifæri.

Halldór E. Högurður? (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 23:43

2 Smámynd: Jens Guð

   Dóri,  það er bara minnsta mál og gaman.

Jens Guð, 14.2.2010 kl. 23:45

3 identicon

Þú nefnir þarna þáttin með Villa Naglbít og einhverjum Halldóri E,ég hlustaði á þennan þátt fyrsta korterið í dag og gafst upp.Þarna virðast vera sjálfumglatt og illa haldið fólk með lélega fimmaurabrandara vera á ferð,og fyrir utan það hvað þetta eru miklar langlokuspurningar og hreinlega leiðinlegt að hlusta á.Það er einsog þetta lið sem þarna sat í dag með þessum spyrli vissi ekki að það væri í útsendingu,þvílíkt rugl og bull sem þarna var á ferðinni,og aulahúmor allsráðandi.Seg þú mér Jens varst þú ekki einu sinni titlaður sem Útvarpsstjóri á Útvarpi Rót.?(Kannski er mig að misminna.)

Númi (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 23:45

4 identicon

Akkúrat þessa mínútuna er verið að endurflytja þennan þátt á Rás 2,og þvílík steypa,og nú skal skipt um stöð.

Númi (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 23:48

5 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Ekki er ég nú sammála þér þarna. Þættir eins og færibandið, gettu betur, síðdegisútvarpið, ásamt kosningum um kynþokkafyllsta fólkið, mann ársins og ýmislegt annað er hrein hörmung, ásamt því að Heiða greyið er svo skelfilega væmin og leiðinleg útvarpsmanneskja, að ógleymdum Óla Palla bubbaaðdáanda sem alltaf þarf að koma því að í öllum viðtölum að hann hafi nú lent í svipuðu.

Sumt er ágætt á rás 2 en mín vegna má leggja hana niður.

Sveinn Elías Hansson, 14.2.2010 kl. 23:55

6 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  ég var titlaður tónlistarstjóri Útvarps Rótar.  Þar var enda fjölbreytt músík allt frá þyngsta rokki til Sverris Stormskers poppi.  Ég á eftir að hlusta á þáttinn með Villa og Halldóri E um helgina.  En sný mér að því núna.

Jens Guð, 14.2.2010 kl. 23:57

7 identicon

Vona að þú verðir ekki fyrir jafn herfilegum voinbriðgum og herra Viðmiðun. Heyri í þér á næstunni Jens.

Halldór E. Högurður? (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 00:12

8 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn Elías,  förum hægt yfir þetta.  Færibandið  hjá Bubba hefur verið virkilega vel heppnað síðustu vikur.  Ég get fallist á að Bubbi fór lítillega út af spori á tímabili.  En 4ra þátta syrpa hans með Ragga Bjarna og síðan þættir með Ómari Ragnarssyni voru konfekt. 

  Þetta dæmi með kynþokkafyllsta fólkið fór einhverra hluta vegna framhjá mér.  Var það ekki bara eins dags grín,  léttur samkvæmisleikur,  á fyrsta degi Þorra (bóndadegi)?  Heiða er ekki væmin eða leiðinleg.  Ég deili ekki músíksmekk með henni að öllu leyti.  Fremur en öllum öðrum dagskrárgerðarmönnum rásar 2.  Ég er á pönk- og þungarokkslínunni. Hennar músík er ágæt í bland við annað á rás 2. Ég geri ekki kröfu til rásar 2 að spila bara Sex Pistols og The Clash út í eitt. 

  Óli Palli er frábær útvarpsmaður.  Með góða þekkingu á músík, virkilega áhugasamur og opinn fyrir nýjum straumum í íslenskri.  Hann er vinur Bubba en hefur ekki trúarlega afstöðu til þess sem Bubbi stendur fyrir.  Ég er á sömu línu.  Óli Palli er alveg gagnrýninn á það sem Bubbi hefur gert og stendur fyrir.  Við Óli Palli eigum það sammerkt að meta innkomu Bubba í íslenska rokkið að verðleikum og vera gagnrýnir á það sem síðar hefur komið upp á ferli Bubba.  Við Óli Palli eigum það jafnframt sammerkt að liggja ekki á skoðunum okkur varðandi það.  Við erum allir ágætir vinir og tölum opinskátt saman af hreinskilni um íslenska músík.  Og þess vegna aðra músík.  Bubbi tók til að mynda harkalega í hnakkadramd á mér þegar ég fagnaði dauða Mikjáls Jacksonar.   Þannig er það.  Við erum allir opinskáir um viðhorf okkar til músíkur.  Það hefur enga eftirmála.  Þetta eru bara skoðanaskipti vina.    

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 00:23

9 Smámynd: Jens Guð

  Dóri,  það verða engin vonbrigði.  Ekki einu sinni plata Sigur Rósar:  Von brigði. 

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 00:25

10 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Maður fagnar nú ekki dauða annars manns, sama hvað maður hatar hann.

En þetta kykþokkakjaftæði var hér ár eftir ár, en féll blessunarlega niður í fyrra, en nú var hörmungin tekin upp aftur á bóndadegi, og verður aftur á konudegi, eða föstudeginum fyrir konudag. Óþolandi útvarpsefni.

Svo þessi endalausa spilun Óla á Bubba er nokkuð sem mætti minnka.

Svo er það Bubbi greyið, það sem komið hefur frá honum síðastliðin 10 ár er alger hörmung, sérstaklega þegar hann jarmar í lögunum.

Montnari maður fyrirfinnst varla.

Svo þessir þættir Bubba með Ragga og Ómari, hafa væntanlega bara verið skemmtilegir vegna viðmælendanna ekki stjórnandans. Heyrði þá ekki enda löngu hættur að hlusta á jarmarann.

Bubbi var frábær þegar hann kom 1980, en eftir 95 er hann hörmung.

Sveinn Elías Hansson, 15.2.2010 kl. 00:46

11 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Einnig þætti mér gaman að sjá útreikninga á þeim tekjum sem þessir tónlistarmenn sem þú nefnir skila í ríkiskassann.

Sveinn Elías Hansson, 15.2.2010 kl. 00:50

12 identicon

http://i1.ytimg.com/i/P9Go0QfQNBY8Sa6LAtEV0g/1.jpg?v=7c5b5eGud, mér hefur alltaf thótt thessar innihaldslausu daegurlagaprumpstödvar vidbjódslegur óthverri.  Einnig finnst mér rangt af Rás 2 ad vera med sungnar tilkynningar.  Rás 2 lítilsvirdir hlustendur med thessum bjánaskap sínum.

Stefán Jón Hafstein var bestur á Rás 2.  

Get sagt hér ad ég hlusta varla á tónlist.  99% af allri tónlist er prump...finnst mér.

Heyrdi thó mjög góda og einlaega tónlist thegar ég horfdi á sjónvarpsthátt um tónlist.  Thetta var "thorpstónlist" flutt af fátaeku fólki í littlu thorpi í Filippseyjum.

Gjagg (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 16:45

13 identicon

http://i1.ytimg.com/i/P9Go0QfQNBY8Sa6LAtEV0g/1.jpg?v=7c5b5elitlu

Gjagg (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 16:50

14 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn Elías,  þetta kynþokkadæmi hefur blessunarlega farið framhjá mér.   Er þetta ekki eitthvað sem hlustendur hafa gaman af að taka þátt í?

  Bubbi hefur á síðustu 30 árum selt fleiri plötur hérlendis en aðrir.  Plötur hans spanna marga músíkstíla:  Pönkrokk,  kassagítarplokk,  djass,  kántrý,  blús,  reggí,  rythma-blús,  kuldarokk,  popp,  þungarokk og svo framvegis.  Fyrir bragðið elska margir einstök lög með honum en þola ekki önnur.  Hann hefur átt hátt í 100 lög ofarlega á vinsældalistum.  Þar af mörg í 1. sæti.  Fjöldi platna Bubba hafa verið söluhæstu plötur síns útgáfuárs.  Margar þeirra hafa selst í þúsunda eintökum næstu ár.  Til að mynda seldist platan með flotta umslaginu (sem ég hannaði),  "Dögun",  í 20 þúsund eintökum útgáfuárið en var síðast þegar ég vissi komin í 26 þúsund seld eintök. 

  Flestir - eða allir - pöbbatrúbadúrar búa við það að vera á hverju kvöldi beðnir um að spila Bubba-lög.  Sama á við um plötusnúða á pöbbum og venjulegar ballhljómsveitir.

  Það er þess vegna eðlilegt að lög með Bubba séu spiluð á rás 2.  Ég veit að í einhverjum tilfellum er um óskalög að ræða.  Mér skilst að á Bylgjunni sé meiri spilun á Bubba en á rás 2.  Ég heyri líka lög með honum spiluð á X-inu.

  Raggi Bjarna og Ómar hafa verið gífurlega skemmtilegir í  Færibandinu  hjá Bubba.  Þeir hafa áður verið í spjalli í ótal útvarpsþáttum.  Ég man ekki eftir að aðrir útvarpsmenn hafi náð þeim í þennan sama gír og Bubbi.

  Það er nánast útilokað að reikna út tekjur íslenska þjóðarbúsins af þeim íslensku tónlistarmönnum sem gera út á alþjóðamarkað.  Höfundarlaun þeirra,  sem renna í gegnum STEF,  segja ekki hálfa sögu.  Það er mikil útgerð í kringum þessi nöfn.  Fjöldi íslenskra hlljóðfæraleikara,  rótara,  hljóðmanna,  ljósamanna...  Þá eru ótaldir fatahönnuðir,  hönnuðir plötuumslaga,  auglýsinga...  Kvikmyndagerðarfólk sem vinnur músíkmyndböndin...  Margt af þessu fólki fær í kjölfarið verkefni frá útlendum aðilum... 

  Þá er ótalinn sá fjöldi útlendra ferðamanna sem koma til landsins.  Margir þeirra eru fjölmiðlamenn.  Ósjaldan hitti ég útlenda ferðamenn á skemmtistöðum sem segjast vera hér í pílagrímsför vegna aðdáunar á Björk eða Sigur Rós.  Aðrir nefna að þeir hafi fyrst fengið áhuga fyrir Íslandi eftir að hafa lesið lýsingu á landi og þjóð í viðtali við Björk.  Ofan á þetta allt bætist snjóboltadæmið:  Boltinn sem hleður stöðugt utan á sig.

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 23:10

15 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Sjálfsagt allt rétt hjá þér.

En ég þoli ekki Bubba eftir að hann fór að JARMA inn á plötur.

Hann var góður fyrir 10-15 árum, en er alger hörmung í dag að MÍNU mati. Ég skal leyfa öðrum að hafa aðrar skoðanir á honum.

Sveinn Elías Hansson, 15.2.2010 kl. 23:17

16 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg,  ég hef ekki heyrt þessar sungnu kynningar.  En vel get ég ímyndað mér að þorpsmúsíkin frá Filippseyjum hljómi vel.  Það er rosalega margt flott í heimsmúsíkinni.  Ég horfi stundum á sjónvarpsstöðina Travel Channel.  Þar dúkkar stundum upp heillandi músík frá framandi samfélögum.

  Þó að 99% af þeirri músík sem mest framboð er af í okkar umhverfi sé prump er samt til hellingur af flottri músík.  Til að mynda ef laumast er í djassrekkann eða blúsinn.  Sjálfur er ég töluvert mikið fyrir harkalegt rokk. 

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 23:18

17 Smámynd: Jens Guð

   Sveinn Elías,  það er eðlilegt að fá óþol gagnvart tónlistarmanni sem er svona áberandi og fyrirferðarmikill.  Í fljótu bragði held ég að það sé sjaldgæft að einn tónlistarmaður hafi haldið samfelldum vinsældum í jafn langan tíma og Bubbi.  Til gamans má geta að Bubbi er líka súperstjarna í Færeyjum.  Lög hans eru spiluð grimmt í færeyskum útvarpsstöðvum,  plötur hans seljast vel þar og það er algengt að heyra færeyska tónlistarmenn kráka (cover) lög Bubba,  bæði á sviði og á plötum.  

  Þegar ég fór fyrst til Færeyja,  fyrir kannski 15 árum,  til að kenna þar skrautskrift spurði ég nemendur hvort þeir kunni eitthvað íslenskt lag.  Hópurinn svaraði með því að syngja hátt og snjallt lagið "Talað við gluggann".  Síðar hef ég ósjaldan verið spurður af Færeyingum hvað hitt og þetta sem Bubbi er að syngja í viðlagi í hinum ýmsu lögum þýði.  Einnig hafa sumir Færeyingar beðið mig um að redda sér tilteknar plötur með Bubba sem þá eru ekki á meðal þeirra Bubba platna sem fást í Færeyjum.

Jens Guð, 15.2.2010 kl. 23:40

18 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Bubbi er ágætuir fyrir þá sem líkar við hans mússík.

Jú það er sjaldgæft að menn haldi vinsældum svona lengi,.

En ég ætla bara að hlusta á norðmanninn sem hefur verið að í næstum 40 ár, en varð nú ekkert vinsæll með fyrstu plötunum sínum, en upp úr 82 sló hann í gegn og er enn að. Frábært að fara á tónleika með honum, og það hef ég gert síðastliðin 4 ár.

Sveinn Elías Hansson, 16.2.2010 kl. 00:12

19 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn Elías,  um hvern ertu að tala?  Sjóveika Stefán?  Ja,  mér svona dettur hann í hug.  Bandarískur blúsari sem er búsettur uppi í sveit í Noregi. 

  Aftur að Bubba.  Þú ert svo ungur að þú mannst sennilega ekki hvernig íslensk músík var 1980 þegar Utangarðsmenn komu eins og ferskur stormsveipur inn á markaðinn.  Það var sprengja sem ól af sér það sem síðar var kennt við Rokk í Reykjavík.  Bubbi hefur gert margt flott.  En sú manneskja er með mun breiðari músíksmekk en ég sem líkar við allt sem Bubbi hefur gert.

Jens Guð, 16.2.2010 kl. 01:25

20 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Ætli ég hafi ekki verið með fyrstu mönnum sem keyptu plötu utangarðsmanna, það var á þeim árum sem ég átti peninga.

Ungur er ég ekki mjög tvöfaldur afinn.

Ég er að tala um Age Aleksandersen og sambandið.

Sveinn Elías Hansson, 16.2.2010 kl. 01:35

21 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Hét ekki platan Geislavirkir?

Sveinn Elías Hansson, 16.2.2010 kl. 01:36

22 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn Elías,  já,  þú ert að tala um Áka kallinn.  Ég á slatta af plötum með honum.  Þér kemur kannski á óvart að á sínum tíma kom hann til Íslands og vildi gera dúett-plötu með Bubba.  Á þeim tíma þótti okkur hann rosalega "púkó".  Bubbi hafnaði samstarfinu.  Enda var hann þá pönkaður rokkari.  Svo bara sló Áki í gegn og seldi 600 þúsund eintök af plötu og hefur verið einn af þeim stærstu á skandinavíska markaðnum.  Nýtur meðal annars ofurvinsælda í Færeyjum. 

  Plata Utangarðsmanna hét "Geislavirkir".  

Jens Guð, 16.2.2010 kl. 01:51

23 Smámynd: Jens Guð

  Í þessu töluðu orðum er ég að hlusta á netinu á "Poppland" á rás 2 í gær.  Hlustandi er að hringja og biðja um "Fjöllin hafa vakað" með Bubba.

Jens Guð, 16.2.2010 kl. 01:52

24 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Hvenær kom Áki til Íslands???

Hann er góður á tónleikum.

Sveinn Elías Hansson, 16.2.2010 kl. 01:57

25 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn Elías,  ég held að Áki hafi komið hingað ´83 eða ´84.  Það var áður en hann sendi frá sér plötuna "Liva Livet". 

Jens Guð, 16.2.2010 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband