Færeyskir fjölskyldudagar á Stokkseyri - samantekt

  Með því að smella á eftirfarandi hlekk má sjá dagskrá Færeyskra fjölskyldudaga á Stokkseyri um síðustu helgi:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1181666/.  Færeyska hljómsveitin Kvönn hélt hljómleika öll kvöld helgarinnar.  Þetta er "instrumetal" þjóðlagahljómsveit (án söngs).  Nafnið Kvönn er sótt í nafn unga fiðlusnillingsins Angeliku Nielsen.  Angelika er latneska nafnið á kvönn. 

  Angelika var barnastjarna í Færeyjum.  Eða kannski frekar unglingastjarna.  Hún náði ung algjörri snilli á fiðlu.  Og reyndar ýmsu öðru.  14 ára gömul mætti hún á skrautskriftarnámskeið hjá mér í Færeyjum 1998.  Þetta var 3ja kvölda námskeið.  Hún missti af fyrsta kvöldinu.  En strax á öðru kvöldinu dúxaði hún.  Náði kennsluefninu með því sama og varð strax flinkust allra á námskeiðinu.  Hún hafði ekkert fyrir þessu.  Var eins og atvinnuskrautritari frá fyrstu mínútu.

  Nokkru síðar las ég í færeysku dagblaðið að hún hafi dúxað í frönsku.  Ég man ekki hvenær ég las í færeysku dagblaði að hún hafi verið valin í alþjóðlega hljómsveit undrabarna. 

  Einhverjum árum síðar spilaði færeyska djasshljómsveitin Yggdrasil á Íslandi.  Forsprakki hennar,  píanóleikarinn Kristian Blak,  sagði mér að Angelika væri komin í hljómsveitina.  Hann sagðist hafa útskýrt fyrir henni út á hvað djass gengi og á hvaða hátt djass væri ólíkur þjóðlagamúsík.  Síðan var hljómsveitaræfing.  Þá spilaði Angelika eins og hún hefði aldrei spilað annað en djass.  Hún spilaði óaðfinnanlega,  vatt sér í frábær djasssóló og þurfti enga æfingu.  Djassinn var henni eins eiginlegur og að drekka vatn.

  Kvönn bauð upp á fjölbreytta dagskrá.  Hverjir hljómleikar voru öðrum ólíkir.  Til að mynda var flauta eitt af aðalhljóðfærum fyrstu tvo hljómleikana en saxafónn á síðustu hljómleikunum.

  Píanóleikarinn Kristian Blak er skemmtilegur kynnir.  Húmor hans kemst ekki til skila í endursögn.  Hann gerir út á stemmningu augnabliksins.  Ég freistast þó til að nefna þegar hann kynnti til sögu lag frá 18. öld.  Hann sagði það hafa verið spilað í kvikmyndinni um Titanic þegar Titanic sökk.  Niðurlag kynningarinnar var þannig:  "Ég hef ekki séð kvikmyndina en ég hef sé ljósmynd af henni."

  Af öðrum færeyskum skemmtikröftum á Færeyskra fjölskyldudaga má nefna Guðríði (nafnið framborið Gúrí) og Benjamín.  Guðríð er rokkuð vísnasöngkona (alt-folk rock).  Hún er góður lagahöfundur og söngstíllinn í humátt að Kate Bush.  Hún syngur "jöfnum höndum" á færeysku og ensku.  Er mjög góð í gítarpikki.  Hún er með ágæta stöðu í Danmörku,  Þýskalandi og víðar.  Guðríð verður með hljómleika á Menningarnótt í Reykjavík og Airwaves.

  Benjamín er færeyskur gítarleikari,  söngvari og söngvahöfundur (singar/songwriter).  Lög hans eru grípandi.  Hann hefur m.a. spilað með Eivöru.

  Jógvan (nafnið er framborið "Ég vann") sló í gegn á Íslandi sem sigurvegari í X-Factor.  Áður sigraði hann í danska "So You Think You Can Dance".   Þar áður var hann stjarna í Færeyjum með unglingahljómsveitinni Aria. 

  Jógvan afgreiddi dansiball á laugardagskvöldinu á Færeyskum fjölskyldudögum ásamt Vigni Snæ.  Þeir spiluðu báðir á kassagítar.  Að óreyndu er það ekki uppskrift að stuðballi:  Tveir kassagítarar og söngur.  En þeir félagar hröktu allar efasemdir á haf út.  Þeir náðu upp þvílíku fjöri að engan endi ætlaði að taka stanslaust stuðið.  Dansgólfið iðaði allt kvöldið og þeir tvímenningar hittu stöðugt í mark.  Þeir kunnu svo sannarlega að lesa salinn.  Þar munaði um að Jógvan er fyndinn og orðheppinn í kynningum á milli laga.

  Að frátöldu færeyskum skemmtikröftum léku Labbi í Mánum og Bassi sonur hans (trommari) fyrir dansleikjum á föstudags- og sunnudagskvöldi.  Feðgarnir fóru á kostum.  Mér heyrðist sem Labbi væri með einhvers konar bassa-"effekt" á gítarnum þannig að dekkstu tónar væru afgreiddir eins og um bassaleikara væri að ræða.  Studdum af öflugum bassatrommuslætti Bassa. 

  Ýmislegt fleira mætti nefna af vel heppnuðum atriðum á Færeyskum fjölskyldudögum.  Til að mynda flugeldasýninguna,  varðeldinn og smakk á þjóðlegum færeyskum mat (skerpukjöt og ræstkjötssúpa) og færeyskum drykkjum.  Og ekki má gleyma sköruglegum kynningum Sigurgeirs Hilmars.  

  Ég er strax farinn að hlakka til næstu verslunarmannahelgar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 5.8.2011 kl. 11:29

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 5.8.2011 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.