Skúbb! Íslensk hljómsveit með spennandi útgáfusamning í Bandaríkjunum

  Það er skammt stórra högga á milli hjá hljómsveitinni Q4U.  Stigvaxandi vinsældir hljómsveitarinnar hérlendis og enn fremur erlendis eru heldur betur að hlaða utan á sig þessa dagana.  Ef svo heldur áfram sem horfir verður þess ekki langt að bíða að Q4U verði ein allra söluhæsta íslenska hljómsveit sögunnar. 

  Í síðasta mánuði gaf eitt stærsta brasilíska plötufyrirtækið,  Wave Records,  út safnplötu þar í landi með Q4U,  Q4U: Best Of  (sjá www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1183818/ ).  Plötunni hefur verið gífurlega vel tekið og útgefandinn þrýstir mjög hart á hljómsveitina að koma í hljómleikaferð til Brasilíu. 

  Svo skemmtilega vill til að á sama tíma eru hljómleikahaldarar í Þýskalandi og Bandaríkjunum að suða í Q4U um hljómleikahald á þeirra slóðum.  Q4U á harðsnúinn aðdáendahóp í Þýskalandi og hefur selt margfalt fleiri eintök af íslensku safnplötunni sinni þar en hérlendis. 

  Spurn eftir hljómleikum með Q4U í New York má sennilega að einhverju leyti rekja til útgáfu plötunnar í Brasilíu.

  Nú var Q4U að berast girnilegt tilboð frá bandarísku plötufyrirtæki,  Dark Entries, um útgáfu í Bandaríkjunum.  Það er hugur í fyrirtækinu og margt spennandi í pokanum.  Meðal annars vill það byrja á því að gefa út vinylplötu með hljómsveitinni. 

  Bandaríski plötusamningurinn kom jafn óvænt og brasilíski plötusamningurinn.  Útgefandinn er á engan hátt tengdur þeim sem vilja fá Q4U til hljómleikahalds í Bandaríkjunum.  Útgefandinn rakst á eitthvað með Q4U á netinu og hefur um nokkurt skeið reynt að ná sambandi við liðsmenn hljómsveitarinnar.  Það gekk ekki fyrr en núna í vikunni.

  Skýringuna á vinsældum Q4U erlendis má að einhverju leyti rekja til fyrirbæris sem kallast naum-bylgjan (minimal wave).  Hún nær yfir nákvæmlega músíkstíl Q4U,  söngrænt (melódískt) synth-goth-pönk af gamla skólanum (að hætti nýbylgjuhljómsveita pönkbyltingarinnar á seinni hluta áttunda áratugarins og upphafi níunda áratugarins).  Þessi músíkstíll var aðeins skilgreindur sem nýbylgja þangað til 2005.  Þá hóf göngu plötufyrirtækið Minimal Wave sem sérhæfir sig í útgáfu platna í naum-bylgjustíl.

  Aðdáendur naum-bylgjunnar eru ekki mjög fjölmennir í samanburði við aðdáendahóp þungarokks eða blúss.  En halda þeim mun betur hópinn á netsíðum og víðar,  skiptast á upplýsingum og benda hver öðrum á spennandi hljómsveitir.

  Til gamans má geta þess að það er fyrir löngu síðan uppselt á hljómleika Q4U á Airwaves.  Þangað hafa fjölmargir erlendir blaðamenn boðað komu sína.  Þá er brasilíska platan komin í sölu í 12 tónum. 

q4u-best-of

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg hljómsveit Q4U og gaman að þau séu að fá klapp á bakið erlendis frá þau eiga það svo sannarlega skilið og hafa oft verið alvarlega vanmetin hérna heima.

Röggi (IP-tala skráð) 15.9.2011 kl. 15:33

2 Smámynd: Jens Guð

  Röggi,  mér þykir rosalega gaman að fylgjast með þessum áhuga útlendinga á Q4U.  Það er rétt hjá þér að Q4U hefur verið vanmetin af mörgum hérlendis.  Sumir eru með neikvæða afstöðu gagnvart íslensku pönkbyltingunni,  fyrstu kynslóð hennar um og upp úr 1980.  Q4U er að einhverju leyti tákn þess sem var mest áberandi í pönkbyltingunni.  Það er að segja tákn þess sem var hráast og pönkaðast í pönkinu.  

  Q4U er dúndur flott hljómleikaband.  Það er líka gaman að reyna að átta sig á því hvernig Q4U hljómar í eyrum útlendinga í dag.  Til að mynda Þjóðverja sem skynja goth-krát keim í músík hljómsveitarinnar,  Brasilíumanna sem skynja síð-pönk stemmninguna í músík hennar og svo framvegis. 

Jens Guð, 15.9.2011 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband