Jón Þorleifs III

jon_orleifs.jpg 

 

  Fyrir nokkrum dögum hóf ég að blogga um Jón Þorleifsson,  verkamann og rithöfund.  Hann féll frá fyrir nokkrum árum,  þá 96 ára.  Mig langar til að halda minningu þessa merka manns á lofti.  Áður en lengra er haldið bið ég ykkur um að smella á http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1197159/ til að fá forsöguna.  

  Í ofur styttu máli slasaðist Jón við vinnu.  Hann fór á örorkubætur.  Honum mislíkaði það.  Vildi halda áfram að vinna.  Hann lét færa sig yfir á atvinnuleysisskrá og óskaði eftir að fá létta vinnu þar sem bakmeiðsli væru honum ekki fjötur um fót.

  Einn daginn fékk hann boð um að Guðmundur Jaki væri búinn að útvega honum vinnu.  Jóni kom það á óvart.  Þeir höfðu eldað grátt silfur saman.  Þegar Jón mætti til vinnu reyndist um að vera vinna á loftbor.  Þá vinnu gat maður með skemmt bak ekki unnið.  Þetta var óþokkalegur hrekkur af hálfu Gvendar Jaka. 

  Í kjölfar var Jón skilgreindur þannig að hann hefði hafnað vinnu.  Hann var tekinn af atvinnuleysisskrá.  Þá reyndi hann að fá sig aftur skráðan sem öryrkja en var hafnað.  Hann hafði sjálfur tekið sig af þeirri skrá.  Það var ekki hægt að skrá sig út og inn af öryrkjaskrá að eigin geðþótta.  Jón var bótalaus til margra ára.  Honum til lífs varð að hann átti gott og dýrmætt bókasafn.  Fyrstu útgáfur af ýmsum verðmætum bókum,  sumar með eiginhandaráritun og svo framvegis.  Þessar bækur seldi Jón hægt og bítandi fyrir gott verð.  Salan á þeim var Jóni verulega þungbær svo bókelskur sem hann var.

  Sumir segja að Jón hafi sjálfur sett sig í stöðu píslarvotts vegna þrákelni og stolts.  Sennilega var eitthvað til í því.  Jón var ekki tilbúinn að krjúpa á hnjám með betlistaf í hendi.  Smjaður var ekki hans samskiptamáti við embættismenn né aðra.  Hann krafðist réttar síns og barði í borðið.  Stutt viðtöl hans við embættismenn breyttust iðulega á skammri stundu í harkalegt rifrildi.

  Jón var alltaf fínn til fara og snyrtilegur.  Jakkafataklæddur í stífpressuðum buxum.  Hann sagðist ekki vera áhugasamur um fín föt.  Hinsvegar væri ekki tekið mark á manni í gallabuxum.  Honum væri nauðugur einn kostur að koma vel fyrir í klæðnaði til að mark væri á sér tekið.

  1976 fór Júlía systir mín í ferð til Írlands,  ung stelpa.  Hún lenti í flugsæti við hlið Jóns.  Hinu megin við hana í 3ja sæta röð sat ritstjóri Þjóðviljans.  Á flugleiðinni út til Írlands dundaði Jón sér við að yrkja níðvísur um ritstjórann.  Vísurnar fór hann með hátt og snjallt en ritstjórinn lét þær sem vind um eyru þjóta.  Júlíu þótti þetta fyndið.  Ritstjórinn hafði skömmu áður skrifað dóm um ljóðabók eftir Jón.  Fyrirsögnin var "Heiftarvísur".  Það lagðist illa í Jón.  Hann kannaðist ekki við neinar heiftarvísur.  Hann hafði aðeins ort vísur um menn og málefni og taldi sig vera lausan við heift.  Ein vísan var um gamlan vinnuveitanda Jóns:

  Hornstrandar-Hallvarður,

heimskur og kjöftugur.

  Frekur og fláráður.

  Fari hann bölvaður.

  Þegar ljóðabókin kom út gerði Jón sér langa gönguferð til Hallvarðar og færði honum að gjöf eintak af bókinni.  Jón benti Hallvarði á að það væri vísa um hann í bókinni.  Hallvarður svaraði:  "Þakka þér fyrir það,  Jón minn."  Jón hló vel og lengi er hann sagði frá þessu og var þess fullviss að Hallvarði hefði brugðið illilega þegar hann fór að lesa bókina.

  Júlíu þótti öryggi í því,  unglingi,  að vera samferða Jóni í Írlandsferðinni.  Þó að Jón kynni ekkert erlent tungumál ferðaðist hann mikið og var sjálfbjarga í þeim ferðum.  Talaði bara íslensku erlendis og þótti sem útlendingum væri ekki of gott að reyna að skilja þetta eitt af elstu varðveittum tungumálum heims,  íslensku.  Eitt sinn eftir utanlandsferð varð Jóni að orði:  "Mikið er ég feginn að hafa fæðst á Íslandi því íslenska er eina tungumálið sem ég skil."

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Illa gert af Gvendi Jaka að níðast á skertri vinnugetu

Grrr (IP-tala skráð) 17.10.2011 kl. 08:38

2 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  mér varð hugsað til þessa þegar ungliðar Samfylkingarinnar fóru að viðra hugmynd um styttu af Jakanum.

Jens Guð, 18.10.2011 kl. 04:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.