Smásaga um baráttu góðs og ills

djöfull í kúdjöfullinn í kú

  Það er stóri dagurinn í Litla-Koti.  Dagurinn er kallaður stóri dagurinn þegar kúnum er hleypt út úr fjósi í fyrsta sinn að vori.  Bóndinn er taugaveiklaður og áhyggjufullur vegna þessa.  Börnin sjö raða sér í kringum morgunverðarborðið.  Bóndinn sest við innri enda borðsins.  Frúin er á þönum á milli borðs og ísskáps,  borðs og eldavélar,  borðs og brauðskúffu. 

  Bóndinn skipar frúnni að setjast við borðið.  "Nú ríður á að við förum með borðbæn og syngjum nokkra sálma.  Allir verða að taka undir eins hátt og þeir geta.  Við þurfum að kljást við sjálfan djöfulinn á eftir þegar kúnum verður hleypt út.  Við verðum að fá styrk frá guði til að hafa betur í viðureigninni við djöfulinn!"
.
  Bóndinn spennir greipar,  lokar augum og ákallar guð um hjálp.  Svo galopnar hann augun,  stjarfur af hræðslu og syngur:  "Ó,  sú náð að eiga Jesú..."  Ósjálfrátt sprettur hann á fætur til að koma söngnum betur frá sér.  Yngsta barnið,  sex ára gamalt,  kann ekki textann nógu vel til að syngja af fullum styrk.  Áður en bóndi veit af hefur hann slegið barnið utan undir með flötum lófa.  Hann fipast í engu við sönginn en horfir reiðilega á barnið.  Hann vill koma því til skila að barnið þurfi að leggja sig fram í söngnum eins og aðrir.  Það verða allir að hjálpast að.
.
  Eftir fjóra sálma segir bóndi að nú skuli hópurinn matast vel.  Allir þurfi þá orku sem hægt er.  Einkum hann sjálfur.  En líka Bjössi vitleysingur,  elsta barnið,  14 ára.  Bjössi er enginn vitleysingur.  Hann er aðeins kallaður það til aðgreiningar frá öðrum Bjössa.  Það er hrútur sem þykir líkur Bjössa vitleysingi í framan.  Sami sauðarsvipurinn.  Bjössi vitleysingur er reyndar ekkert gáfumenni.  En hann er duglegur að gefa hænunum og lesa fyrir þær upp úr Biblíunni.
.
  Að afloknum morgunverði gefur bóndinn fyrirmæli um að allir haldi sig innan dyra á meðan þeir Bjössi vitleysingur hleypi kúnum út.  Loka skuli gluggum og læsa útidyrahurð með lykli.
  Feðgarnir fara út í fjós.  Bóndinn lætur vatn renna í fötu.  Hann fer með stutta bæn og signir vatnið. 
  Bjössi vitleysingur spyr hvort að þeir eigi ekki að fá prestinn til að vígja vatnið.
  "Ertu band brjálaður?"  æpir bóndinn skrækróma af æsingi.  "Presturinn er trúvillingur.  Hann gengur á vegum djöfulsins.  Hann mun brenna að eilífu í vítislogum.  Hann mun kveljast hroðalega.  Það er gott á hann.  Aðeins við í svart-hvítasunnusöfnuðinum erum hólpin.  Okkar bíður þúsund ára sæluríki og við fáum reykta sviðakjamma og Nóa konfekt á hverjum degi."
  Bóndanum þykir fátt betra en reykt svið og Nóa konfekt.  Sælubros færist yfir andlitið á honum.  Svo verður hann skyndilega aftur reiðilegur á svip og heldur áfram:  "Það var presturinn sem kom um árið af stað lygasögu um að ég væri með vatnshöfuð.  Síðan horfa sumir skringilega á mig.  Ég varð að hringja í sjónvarpsdagskrárblaðið og kaupa auglýsingu um að ég væri ekki með vatnshöfuð.  Auglýsingin gerði illt verra.  Þegar blaðið kom út stóð í auglýsingunni:  "Bóndinn í Litla-Koti er ekki með fast höfuð."  Símasambandið var ekki betra en þetta.  Auglýsingasnatinn misheyrði það sem ég sagði.  Blessaður drengurinn.  Þetta er kaupstaðabarn.  Þau misheyra allt.  Næst þegar ég hitti prestinn úti á bensínstöð sagðist hann vera með skrúfjárn í bílnum ef ég vildi herða á lausu skrúfunni.  Ég sagði honum að spara brandarana þangað til hann hefði efni á þeim.  Svo sá ég hann fyrir mér emjandi og gólandi af kvölum þegar hann brennur í vítislogum.  Þá hló ég svo hátt að fæturnir svignuðu undan mér.  Ég varð að skríða á fjórum fótum inn á bensínstöðina til að borga fyrir bensínið.  Þetta var svo skemmtileg tilhugsun að ég varð að skríða aftur á fjórum fótum út í bíl."
.
  Bóndinn bætir bæn við yfir vatnsfötuna.  Svo sækir hann vatn í lófann og smyr því yfir höfuð kúnna.  Því næst ber hann vatnið á dyrakarminn.  Hann nuddar einnig niðurskornum hvítlauk á karminn og útskýrir fyrir Bjössa vitleysingi:
  "Það er hér við dyrnar sem djöfullinn ræðst til atlögu."
  Loks kallar bóndinn:  "Leystu nú fremstu kúna og stuggaðu henni úr básnum.  Um leið og hún er komin út úr húsi skaltu loka dyrunum og halda þig innan dyra.  Ég ræðst á djöfulinn og sýni honum í tvo heimana."
.
  Bjössi vitleysingur hlýðir í hvívetna.  Þegar hann hefur skellt dyrunum í lás horfir hann út um glugga á kúna fara í loftköstum á hlaðinu og skvetta upp afturendanum.  Bóndinn hleypur að kúnni með járnkall reiddan til höggs.  Hann lemur járnkallinum nokkru sinnum af alefli í höfuð kýrinnar.  Um leið hrópar hann:  "Í Jesú nafni skipa ég þér djöfull að yfirgefa kúna.  Komdu þér í burtu,  segi ég!  Vertu feginn að flýja,  heigull!"
  Það er eins og við manninn mælt.  Allt dettur í dúnalogn.  Kýrin lætur af rassaköstum,  hristir höfuðið ringluð og skjögrar dösuð löturhægt úr hlaði.
.
  Sama atburðarás endurtekur sig við hinar þrjár kýrnar.  Bjössi vitleysingur kemur út á hlað þegar síðasta kýrin er að skjögra af hlaðinu.  Bóndinn er kominn í gott skap.  Hann geislar af gleði, hamingju og stolti:  "Þetta hafðist með hjálp Jesú.  Djöfullinn reynir ekki aftur að taka sér bólfestu í kúnum í sumar.  Ég fór illa með hann.  Kýrnar eru fljótar að byggja upp varnarkerfi skrokksins hérna úti í súrefnisríku sumarloftinu og safaríku grasi.  Ég notaði líka nýtt trix núna.  Sérðu:  Ég sargaði hérna kross á járnkallinn.  Djöfullinn fékk ekki aðeins járnkall í hausinn heldur lúbarði ég hann einnig með krossi."   
.
.
kýr með farangur
------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
.
 - Skóbúð
 - Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Þetta var svo skemmtileg tilhugsun að ég varð að skríða aftur á fjórum fótum út í bíl."

Hahaha

Grrr (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 20:47

2 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  ég remdist við að hafa þetta fyndið.

Jens Guð, 4.2.2012 kl. 22:30

3 identicon

.....jó man! You go man!

Jón Jónsson (IP-tala skráð) 5.2.2012 kl. 03:44

4 Smámynd: Jens Guð

  Jón,  takk fyrir það.

Jens Guð, 5.2.2012 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.