1.10.2011 | 22:48
Örstutt leikrit um skóbúð
Á sviðinu eru skórekkar með fjölda skópara í ýmsum stærðum. Einnig er þar stæða af tugum skókassa. Berfættur snævi þakinn kappklæddur gamall maður gengur inn um útidyrnar og ávarpar eldri konu sem stendur við skórekkana.
.
Maður (ákveðinn): Góðan dag. Þetta er ljóta brjálaða veðrið. Þvílíkt rok, haglél og hörku frost. Ég var næstum orðinn úti. Mig vantar skó. Ég varð fyrir aðkasti í vinnunni í dag af því að ég mætti í sömu skónum tvo daga í röð. Það er gróft einelti í gangi.
Kona (vingjarnleg): Hvernig skó vantar þig?
Maður: Ekki spariskó og ekki strigaskó. Eitthvað þar á milli.
Kona: Hvaða stærð?
Maður: 46.
Kona: Þá ættir þú að fara í skóbúð.
Maður: Er þetta ekki skóbúð?
Kona: Nei, þetta er bara venjulegt heimili.
Maður: En allir þessir skór?
Kona: Ég er einstæð móðir með stórt heimili. Ég á 12 börn með 16 mönnum.
Maður: Með 16 mönnum?
Kona (mæðulega): Já, það léttir á meðlagi og dreifir hættu á afföllum.
Maður: En hvað með alla þessa skókassa?
Kona (feimnislega): Ég geymi ýmislegt í þeim.
Kona (opnar einn kassa og sýnir manninum í hann): Í þessum geymi ég til dæmis laufabrauð.
Maður (kætist og hrópar): Vá! Húsavíkurlaufabrauð. Nammi namm!
Kona: Nei, Húsavík er ekki í þeim. Bara mjólk, smjör, sykur, salt, hveiti og kúmen.
Maður (spyrjandi): Það er enginn útskurður á þeim. Munstrið er teiknað á brauðið.
Kona: Já, með tússpenna. Ég á ekki útskurðarhníf.
Maður: Þú kannt aldeilis að bjarga þér, stelpuskott. En hvar finn ég skóbúð?
Kona (slær manninn utan undir svo smellur í): Enga ósvífni, pjakkur! Þú gengur hér niður götuna til hægri. Tveimur húsum hér frá, á horninu, er gult hús með stóru skilti. Á því stendur "Skóbúð". Þar beygir þú til hægri. Gengur niður þá götu og beygir síðan aftur til hægri. Þú gengur framhjá þremur húsum og beygir til hægri. Efst í götunni finnur þú ómerkt rautt hús. Þar færð þú skó.
Maður: Er ég þá ekki kominn aftur í þetta hús?
Kona (glaðleg): Jú.
Maður: En þú selur ekki skó.
Kona: Ekki í augnablikinu. En kannski þá. Aldrei að gefast upp. Það er málið. Svona, drífðu þig nú. Stattu þig, strákur!
Kona (opnar útidyrnar, ýtir á eftir manninum út, sparkar í rassinn á honum og lokar dyrunum)..
.
Tjaldið fellur.
l
----------------------------------------------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
- Í plötubúð:
.
- Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
- Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
- Peysuklúbburinn
.
- Vinalegur náungi:
.
- Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
- Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Lífstíll, Spil og leikir, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.