Ólöf Arnalds vinsæl í Skotlandi

  Ég veit ekki hvort að ég er heppinn eða óheppinn með það að hafa 0% áhuga á búðarrápi.  Sama hvort er hérlendis eða erlendis.  Á dögunum brá ég mér til Glasgow í Skotlandi.  Keypti þar ekki neitt nema nokkra geisladiska.  Á flugvellinum á leiðinni heim voru aðrir Íslendingar með þetta 3 - 4 stórar úttroðnar ferðatöskur eftir helgarinnkaup.  Það var broslegt að bera saman raðir fólks sem var að innrita sig hjá öðrum flugfélögum til annarra landa.  Í þeim röðum var fólk ýmist með eina litla ferðatösku eða bara handfarangur.

  Einu búðirnar sem ég heimsæki í útlöndum eru  plötubúðir.  Þar skoða ég hverja einustu plötu.  Í Skotlandi keypti ég um 20 diska.  Eitt af því sem mér þykir gaman að kanna í útlendum plötubúðum er hvað þar er á boðstólum af íslenskum plötum.  Ég fór í 3 plötubúðir í Glasgow.  Í einni þeirra var Brúsi frændi (Bruce Springsteen,  samanber Uncle Sam) tónlistarmaður mánaðarins.  Sérstakur rekki var undir allar hans plötur á tilboðsverði.  Alveg eins uppstilling var á plötum Bjarkar (og Sykurmolanna) en ekki með yfirskriftinni "Artist of the month". 

  Það er að vísu ekki eins gaman að skoða plötubúðir í dag eins og var fyrir 15 - 20 árum.  Núna er aðeins að finna í plötubúðum plötur með þekktum nöfnum.  Maður finnur ekki lengur í plötubúðum plötur með lítið þekktum nöfnum.

  Þeim mun meira gaman var að uppgötva að í skoskum plötubúðum er til sölu 5 laga diskur með Ólöfu Arnalds,  Ólöf Sings.  Ég spurði afgreiðslumann út í plötuna án þess að geta þjóðernis.  Hann svaraði:  "Hún er ekki mega hit og ekkert lík Björk þó að þær séu báðar frá Íslandi.  Ólöf er "folk". Þú getur tékkað á henni á allmusic.com og play.com.  Hún fær góða dóma."

  Ég fletti Ólöfu upp á allmusic.com og platan  Innundir skinni  fær þar 4 stjörnur (af 5).  En sú plata fæst ekki í plötubúðunum sem ég heimsótti.  Bara platan  Ólöf Sings.  Ég sló einnig upp play.com.  Þar fær platan  Við og við  5 stjörnur (af 5).  Sú plata er ekki heldur til sölu í skosku plötubúðunum.  En að  Ólöf Sings  sé til sölu í skosku plötunum staðfestir að Ólöf er nafn í Skotlandi.

  Plötur Sigur Rósar og Jónsa eru einnig til sölu í skoskum plötubúðum.   Þar með eru íslenskar plötur í skoskum plötubúðum upp taldar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Takk fyrir þetta. Alltaf gaman að fylgjast með gengi íslenska tónlistarfólksins erlendis. Nú eru Of monsters and men að fara til Evrópu. Spurning hvort þau slái í gegn þar líka.

Sveinn R. Pálsson, 23.4.2012 kl. 08:14

2 identicon

Þú ert heppinn að hafa ekki áhuga á búðarrápi. En þú ert óheppinn að hafa 0% áhuga. Betra að hafa 1%.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 23.4.2012 kl. 09:24

3 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn,  ég tek undir að það sé gaman að fylgjast með velgengni íslensks tónlistarfólks erlendis.  Ég sá ekki fyrir þessar bröttu vinsældir OM&M erlendis.  Hinsvegar hélt sonur minn því fram í fyrra að Kaninn ætti eftir að kolfalla fyrir OM&M.  

Jens Guð, 24.4.2012 kl. 21:03

4 Smámynd: Jens Guð

  Bergur,  góð ábending 

Jens Guð, 24.4.2012 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband