Frábærir hljómleikar

 

  - Staðsetning:  Edrúhöllin,  Efstaleiti 7

  - Viðburður:  Kaffi, kökur, rokk & ról

  - Flytjendur:  Eivör og hljómsveitin 1860

  - Umsjón:  Arnar Eggert Thoroddsen

  - Einkunn:  ****1/2 (af 5)

  Tónleikaröðin  Kaffi, kökur, rokk & ról,  hefur staðið yfir í allan vetur.  Umsjónarmaðurinn,  Arnar Eggert Thoroddsen,  hefur verið einkar lunkinn við að stilla upp einkar áhugaverðri dagskrá.  Þetta er rosalega vel heppnað og flott dæmi.  Aðgöngumiðinn kostar aðeins 500 kall - hversu stór sem nöfn flytjenda eru.  Boðið er upp á kaffi og meðlæti.  Að þessu sinni var það Torfi Geirmundsson sem hellti upp á og bakaði kökur. 

  Venjulega eru tónleikarnir á þriðjudögum.  Núna hentaði fimmtudagur betur vegna þess að Eivör kom frá útlöndum í dag.

  Dagskráin hófst á því að Arnar Eggert sté á svið,  bauð gesti velkomna og kynnti flytjendur kvöldsins.  Hann lét þess jafnframt getið að hljómleikarnir hefjist á slaginu hálf níu og ljúki á slaginu klukkan 10.  Ekkert hringl með það.  Og við þetta var staðið.  Það er til fyrirmyndar.  Alltof oft hefjast hljómleikar á Íslandi ekki fyrr en heilum eða hálfum klukkutíma á eftir auglýstum tíma.  Stemmningin er settlegri en á hliðstæðum hljómleikum.  Allir eru edrú og sitja á stólum.  Nema hvað aðsókn var svo góð að sumir urðu að standa.  Edrú engu að síður. 

  Sextettinn 1860 flytur frumsamið léttrafmagnað þjóðlagaskotið popp.  Hljóðfæraleikur er fínn og raddanir setja svip á flutninginn,  ásamt mandólíni.   Í fyrra sendi 1860 frá sér plötuna  Söguna.  Einhver lög af henni fengu ágæta útvarpsspilun.  Einkum lagið  Snæfellsnes.  Enda ágætis lög,  hlý og notaleg. 

  Drengirnir eru heimilislegir á sviði.  Spjalla við áheyrendur og hvern annan á milli laga.  Það skapar góða stemmningu.

  Eivör kom beint úr flugi í Edrúhöllina.  Sjálf sagðist hún varla vera lent ennþá.  Engu að síður var hún í góðu formi.  Hóf leik með rafmagnsgítar,  skipti svo yfir í kassagítar um miðbik hljómleikanna og endaði með trommuslætti.  Hún flutti meðal annars ný lög af plötu sem hún hefur verið að hljóðrita í Færeyjum og kemur út í sumar.  Þau lög hljóma virkilega spennandi.  Það segir kannski eitthvað að fyrir þeim lögum var klappað ennþá ákafar og lengur en gamalkunnu lögunum.  En að sjálfsögðu var kvittað fyrir öll lögin með háværu klappi og flauti.

  Það þarf ekki að fara mörgum orðum um stórkostlegan söng Eivarar og túlkun.  Eða hennar skemmtilegu kynningar á milli laga.  Hún er besta söngkona heims.  Drengirnir í 1860 upplýstu áheyrendur um að áður en hljómleikarnir hófust fóru fram hljóðprufur.  Þeir sögðust hafa orðið dolfallnir af hrifningu er þeir hlýddu á Eivöru í hljóðprufunni.  Samt hafi hún ekki einu sinni verið að flytja neitt lag.  Hún hefur líkast til "aðeins" verið að spinna eitthvað.  1860-liðar sögðu það vera mikinn heiður að fá að spila á sömu hljómleikum og Eivör.

  Hrifningin var gagnkvæm.  Eivör lýsti 1860 sem æðislega flottri hljómsveit.

  Arnar Eggert kom með skemmtilega lýsingu á Eivöru.  Hann sagði að er hann heyrði fyrst í henni hafi hann fengið á tilfinninguna að hún hafi fundist 2ja ára nakin úti í skógi.  Þaðan hafi hún verið flutt yfir í mannheima og tónlistin síðan streymt frá henni eins og náttúruafl. 

  Það er eitthvað eins og mikið satt í þessu.  Færeyska álfadrottningin er óviðjafnanlegur náttúrutalent.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband