Hver túlkar dægurlagatexta rétt?

  Kaldhæðni er vandmeðfarin.  Það kemur glöggt fram í skilningi lesenda á kaldhæðnum bloggfærslum, fésbókarstatusum og enn frekar í athugasemdakerfi á þeim vettvangi.  Svo ekki sé talað um í athugasemdum við fréttir dv.is og fleiri netmiðla. 
  Fólk á erfitt með að greina kaldhæðni þegar um ritað mál er að ræða.  Einkum þeir sem þekkja ekki skrifarann. 
.
  Þetta er auðveldara þegar fólk spjallar saman.  Þá undirstrika raddblær og hlæjandi andlit kaldhæðni í orðum.  Í ritmáli getur broskall gengt sama hlutverki.
.
  Söngvahöfundar bregða stundum fyrir sig kaldhæðni.  Oft með þeim "árangri" að hlustandinn mistúlkar söngtextann.  Áttar sig ekki á kaldhæðninni og tekur boðskapinn hátíðlega.
  Gott dæmi um þetta er lagið  Perfect Day  með Lou Reed.  Þar hæðist Lou að smáborgaranum og lágmenningu.  Þeim sem telur fullkominn dag felast í bíóglápi og heimsókn í dýragarð. 
  Lou segist glotta út í annað þegar þessir sömu menningarsnauðu smáborgarar og hann hæðist að spila  Perfect Day  í brúðkaupsveislum sínum.
.
 .
  Hvor hefur rétt fyrir sér í túlkun á dægurlagatexta,  höfundurinn eða hlustandinn?  Þegar vel er að gáð er meining höfundarins ekki rétthærri en túlkun hlustandans.  Hughrif hlustandans sem meðtekur söngtextann á sínum forsendum eru sönn og góð.  Hlustandinn hrífst af lagi og texta út frá sinni upplifun.  Hann er óbundinn af því á hvaða forsendum höfundurinn orti textan. 
  Það er við höfundinn að sakast að koma ekki kaldhæðni til skila.  Það er ósanngjörn krafa að hlustandinn leggist í djúpa pælingu og þurfi að hafa fyrir því að þekkja þankagang höfundarins. 
 
  Í auglýsingatexta er þumalputtaregla að máta texta við 12 ára krakka.  Að 12 ára krakki geti auðveldlega skilið textann.  Söngvaskáld mættu hafa þá reglu í huga. 
  Annað dæmi um misskilinn texta er  Part of the Union  með gömlu hljómsveit Bretans Ricks Wakemans (Yes),  Strawbs.  Textinn var háðsádeila á drullusokka sem skýla sér á bak við verkalýðsfélög.  Verkalýðsfélagasinnar tóku lagið upp sem baráttusöng fyrir verkalýðsfélagsaðild. 
.
.
  Liðsmenn Strawbs voru ekki andvígir verkalýðsfélögum sem slíkum heldur deildu þeir á þá sem komast upp með eitt og annað í skjóli þess að vera í verkalýðsfélagi.
.
  Enn eitt dæmið um misskilinn texta var og er  Born in the USA  með Brúsa frænda. Brúsi gagnrýndi Víetnamstríðsrekstur Bandaríkjanna og sitthvað fleira.  Áheyrendur fjölmenntu á hljómleika Brúsa veifandi bandaríska fánanum uppblásnir af þjóðernisrembingi.  Lagið varð allt að því bandarískur þjóðsöngur.  Þáverandi forseti Bandaríkjanna,  Ronald Reagan, notaði það sem kosningalag sitt. 
.
 
.
  Eitt dæmið til viðbótar er Revolution  með Bítlunum.   Höfundurinn,  John Lennon,  gagnrýnir þar róttækasta arm 67 kynslóðarinnar,  hippahreyfinguna sem var farin að krefjast byltingar í anda Maos í Kína.  John segir þeim að slappa af.  Hann hafni hatursfullum hugmyndum um byltingu í nafni Maos.  Engu að síður varð þetta lag baráttusöngur byltingarsinna vegna nafnsins,  Revolution  (bylting).  Í búsáhaldabyltingunni á Íslandi var laginu deilt út og suður á fésbók og víðar sem byltingarsönglagi.  Ef vel er að gáð er boðskapur textans and-byltingarsinnaður. 
.
.
  Að vísu var á Hvíta albúmi Bítlanna textanum breytt (eftir að það kom út sem smáskífa).  Á Hvíta albúminu er "count me out" (fælt mig frá) breytt í "count me in".
  Til gamans má geta að George Harrison hataði "fuzz" gítarsánd Lennons í þessu lagi.  Annað:  John söng og spilaði lagið liggjandi á bakinu til að túlka sem best hvað þetta var allt sett fram í rólegheitum án æsings.   
.
  Bubbi deildi á íslenska nasista í laginu  Nýbúinn.  Nasistarnir tóku lagið upp sem sinn baráttusöng. 
.
.
  Það var svo sem ekki við öðru að búast af þeim aulum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Skemmtileg pæling - einkum þegar kaldhæðnin bítur höfundinn sjálfan í rassinn. Kaldhæðni þarf að skína nægilega ljóslega í gegn og hafa nógu víðtækan skírskotunarramma til að virka. Kaldhæðni Lou Reed í "Perfect Day" skilar sér ekki, ef menn hlusta á lagið eitt og sér, án samhengis við annað í höfundarverki Reed, en ef menn hlusta á plötuna í heild sem lagið er af (Transformer) eða bara á aðrar stórborgarhljómkviður hans, þá er nokkuð ljóst að þar er ekki fyrir að fara mikilli borgaralegri rómantík. Það kaldhæðnislegasta við "Perfect Day" er þó kannski að það var Mick Ronson, sem útsetti hina sykursætu strengi. 

-----

Annars er hér smá-leiðrétting. Hin langlífa Strawbs verður seint talin "hljómsveit Ricks Wakeman". Hann var í hljómsveitinni um skamman tíma 1970-71, hætti og lék svo á því herrans ári 1971 bæði píanóundirleikinn við "Life on Mars?" með Bowie og "Morning has Broken" með Cat Stevens, auk þess að hefja ferilinn með bestu útgáfunni af Yes það ár.

"Part of the Union" kom hins vegar ekki út fyrr en 1973, þegar Wakeman var löngu hættur, og endurspeglaði fyrst og fremst framlag lagasmiðanna Hudson og Ford, sem poppuðu Strawbs mikið upp. Annars var Strawbs fyrst og síðast "hljómsveit Dave Cousins", sem stofnaði hljómsveitina, rak hana um áratuga skeið og gerir held ég enn, ef hann er einhvers staðar á lífi.

-----

Varðandi "Revolution" Bítlanna, þá held ég að kaldhæðnin sé þar ekki jafn mikil og þú vilt láta í veðri vaka. Lennon er vísvitandi með tvíræða hálfvelgju; hann laðaðist að ákveðnum hugmyndakerfum, en var a) Allt of þenkjandi sem einstaklingur til að kokgleypa þau hrá og gagnrýnislaust; og b) Meðvitaður um og plagaður af því að hann kæmi úr verkamannastétt, en nyti sjálfur forréttinda og ríkidæmis. Tilvísun hans í myndir af Maó formanni verður að skoðast í ljósi þess samtíma þegar lagið kom út, þ.e. 1968, en þá í fyrsta lagi voru mönnum ekki kunn þau voðaverk, sem menn vita nú að Maó bar ábyrgð á, og auk þess er vísunin (á dæmigerðan tvíræðan og launfyndinn Lennon-máta) kynferðisleg: "If you go carrying pictures of Chairman Mao/ you´re ain´t gonna make it with anyone anyhow." "Make it" þýðir í þessu samhengi "að næla sér í stelpu", held ég. Og ég held af samhengi textans og út frá minningum um þá tíma að það hafi verið vegna þess að Maó þótti heldur óaðlaðandi gamall skarfur. Ef Rudi Dutschke hefði verið þarna í textanum í stað Maó, þá held ég að seinni línan hefði verið öðru vísi. En lykilboðskapur Lennons í laginu er að mínu mati áróður hann gegn hatri og eyðileggingu, og sjálfur tel ég að hann hefði talið lykilsetningu textans vera "You better free your mind instead." Auk þess er pönslænið í "Revolution", þegar allt kemur til alls, "Don´t you know it´s gonna be allright." Textinn er þess vegna, held ég, ekki and-byltingarsinnaður, heldur frekar hitt að byltingarbröltið megi aldrei vera ofbeldiskennt, sé hálfpartinn misskilið og skili ekki miklu - eða að minnsta kosti ekki mörgum bólfélögum. Svo hefur Lennon sjálfur máske verið pínkulítið hræddur um pelsinn sinn og hvíta Rollsinn.

Helgi Ingólfsson, 1.10.2012 kl. 00:19

2 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  bestu þakkir fyrir frábæra góða greiningu.  Þetta er vel rökstutt hjá þér og ég kvitta undir. 

Jens Guð, 1.10.2012 kl. 00:40

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Segi það sama, skemmtileg pæling. Þegar ég las athugasemd í kommentakerfinu hjá mér í morgun, þá kom mér svo sannarlega á óvart, hversu mikið er hægt að misskilja mann, held stundum að fólk geri í því :):)

Ásdís Sigurðardóttir, 1.10.2012 kl. 09:17

4 identicon

Perfect Day textinn átti nú upphaflega að vísa í  ,, fullkominn " dópneysludag, líklega heroin sem Lou Reed var ánetjaður um tíma, en hann sagði það auðvitað aldrei beint í textanum.   Folk-rokksveitin The Strawbs var hljómsveit Dave Cousins, en Rick Wakeman gerði flotta hluti, þau tvö ár sem hann starfaði með þeim fyrir Yes.  Einnig spilaði Wakeman inn á plötur með Ketti Stefáns og meistara David Bowie á sama tíma. Líklega er enginn kaldhæðnari í textagerð en meistari Bob Dylan, en svo er bara spurning hvað mikið menn skilja hvert hann er að fara í sinni textagerð.   Stundum vel skiljanlegur samt, en Dylan-spekingar virðast túlka aðra texta hans hver á sinn hátt. 

Stefán (IP-tala skráð) 1.10.2012 kl. 09:34

5 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Til eru skemmtilegar síður, songfacts.com og songmeanings.net, þar sem menn velta fyrir sér merkingu söngva.

-----

 Ég hef aldrei séð viðtal við Reed sjálfan, þar sem hann tengir Perfect Day við dópneyslu, en hins vegar virðast afar margir á ofangreindum síðum vilja taka laginu á þann veg, bæði vegna fortíðar Reed og vegna þess hvernig lagið var notað í kvikmyndinni Trainspotting.

-----

 Samkvæmt höfundum og flytjendum "Part of the Union", þá var lagið ekki meint kaldhæðnislega, enda kom það út 1973, þegar moraði í verkföllum á Englandi. Hins vegar vinnur framsetning lagsins einhvern veginn gegn textanum: Þetta er einfalt þriggja-hljóma lag, með viðlag í "songhall-singalong" stíl, þar sem takturinn er drifinn áfram af lúðrasveitartrommu og sólóið er spilað á teiknibólu-píanó.

Menn hafa bent á að texti "Part of the Union" virðist sóttur nánast beint í "Union Maid" eftir Woody Guthrie; heilu línurnar eru eins.

 -----

 Stefán (aths. 4): Sammála um Dylan. Man eftir því að Joan Baez sagði einhvern tíma að Dylan hafi einhvern tíma setið við textasmíð og skyndilega hlegið dátt upp úr þunnu hljóði. Þegar Baez spurði hann hvað væri svo fyndið, svaraði hann og leit á textablaðið: "Við skulum sjá hvernig þeir túlka þetta, skrattakollarnir."

Helgi Ingólfsson, 1.10.2012 kl. 10:24

6 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Leiðrétting: Dylan hló dátt "upp úr þurru", vitaskuld. (Biðst velvirðingar. Í flýti sló saman tveimur orðatiltækjum, "upp úr þurru" og "að þegja þunnu hljóði", svo að til varð málskrípið atarna í síðustu athugasemd.)

Helgi Ingólfsson, 1.10.2012 kl. 12:07

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Uppáhalds tvíræði titill á lagi hjá mér, er If I Said You Have A Beautiful Body Would You Hold It Against Me? með Bellamy Brothers.

Eins þetta þegar verið var að kynna næsta lag á ónefndum tónleikum.

Somewhere My Love Lies Sleeping - with a male chorus.

Theódór Norðkvist, 1.10.2012 kl. 21:28

8 Smámynd: Jens Guð

  Ásdís,  það er líka oft þannig að fólk er að lesa á hlaupum bloggfærslu eða statusa á fésbók eða "komment" frá öðrum.  Ég lendi - held ég - ekki oft í að mislesa á þeim vettvangi.  En ósjaldan misles ég fyrirsagnir í dagblöðum.  Á föstudegi gríp ég upp Fréttatímann, Fréttablaðið og DV.  Fyrst renni ég hratt í gegnum þau blöð.  Um kvöldið les ég þau í ró og næði.  Þá sé ég að í hraðflettinu hef ég mislesið nokkrar fyrirsagnir.

Jens Guð, 1.10.2012 kl. 21:34

9 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  takk fyrir fróðleikinn.

Jens Guð, 1.10.2012 kl. 21:35

10 Smámynd: Jens Guð

  Helgi (#5),  ég hef þetta um  Part of the Union  eftir höfundinum.  Ég hef aldrei þekkt Strawbs vel.  En fyrir mörgum árum las ég langt viðtal við höfundinn.  Þar hélt hann þessu fram.  Þegar rýnt er í textann þá finnst mér það geta staðist. 

Jens Guð, 1.10.2012 kl. 21:45

11 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  þessi var góður!

Jens Guð, 1.10.2012 kl. 21:46

12 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Jens (aths. 10), ég er hjartanlega sammála um að Part of the Union gæti verið paródískt, út frá textanum. En að sama skapi að það þurfi ekki að vera það. Ég hef lagst í heilmiklar rannsóknir til að leita því staðfestingar (og veit t.d. núna nánast allt um upptökusögu lagsins!), en finn hvergi neitt sem beinlínis staðfestir að það hafi átt að vera kaldhæðið. Né heldur á hinn veginn.


Í Wikipediu segir um lagið: „The song was unofficially adopted by the trade union movement, and it is widely considered to be a proud folk anthem for the working man. Although the lyrics may be read as somewhat sarcastically anti-trade union, the members of the band have stated many times that it wasn't meant to be sarcastic or parodic.“ En svo er Wikipedia blessunin ekki nákvæm eða rétt um alla hluti.


Ég finn hvergi viðtöl við höfundana, Hudson og Ford, um samningu lagsins. En ég lagðist yfir langa umræðuþræði Strawbs-aðdáenda, þar sem rifist er um málið, og flestir þeirra eru af gamla skólanum, þ.e.a.s. muna eftir hljómsveitinni frá útgáfutíma lagsins. Sumir segja að lagið hafi ekki verið talin árás á verkalýðsfélögin fyrr en eftir að Thatcher-stjórnin tók að ráðast gegn þeim, aðrir segja lagið hafa verið túlkað sem kaldhæðnislegt frá fyrstu tíð. Einn aðdáandinn var sonur kolanámumanns og sagði að faðir sinn hefði hampað laginu sem baráttusöng verkalýðs frá fyrstu tíð, annar verkamannssonur sagði að faðir sinn hefði strax úthúðað laginu sem kaldhæðni. Skemmtilegasta kenningin, sem ég las, var að jafnvel innan hljómsveitarinnar hefðu verið skiptar skoðanir um hvort textinn væri kaldhæðinn eður ei!


Það sem mælir með því að telja lagið samstöðusöng með verkalýð, er að það virðist sótt (af höfundunum, Hudson og Ford) í smiðju Woody Guthrie með Union Maid - á þessum tíma hlustaði enginn á Guthrie nema leftistar. Og þær setningar sem virðast kaldhæðnislegastar í Part of the Union eru þær sem urðu að víkja frá texta Guthries vegna staðfæringa og höfundarástæðna.


Hins vegar mælir það með því að líta á lagið sem kaldhæðnislegt, að þeir Hudson og Ford voru í eðli sínu popparar og ekki er mér kunnugt um önnur svipuð „vinstri sinnuð“ lög frá þeim (og fylgdist samt sæmilega með ferli þeirra fyrst eftir að þeir hættu í Strawbs).


Hið kaldhæðnislegasta er máske að ekki stóð til að hafa lagið upphaflega með á plötunni, Bursting at the Seams. Upptökum var að ljúka, höfuðpaurinn Dave Cousins var á sama tíma upptekinn við sína eigin sólóplötu og Hudson og Ford lögðu lagið feimnislega fram fyrir alla hina í sveitinni (nema Cousins), og höfðu jafnvel sjálfir sínar efasemdir um hvort það væri nógu gott, en fengu fínar undirtektir hjá sveitarlimum og með smáendurbótum var lagið tekið upp, án Cousins. Hljómsveitin án Cousins ætlaði jafnvel að gefa lagið út á smáskífu undir öðru nafni (sem The Brothers), þegar Cousins féllst á með semingi að hafa lagið inni á plötunni, þótt það væri ekki í anda Strawbs. Og svo varð þetta langfrægasta lag hljómsveitarinnar og það sem hennar er helst minnst fyrir í dag - þvert ofan í ævistarf Cousins, „eiganda hljómsveitarinnar“, sem var aldrei svona poppaður í sinni listsköpun. Það er sko kaldhæðni! Enda sést á youTube-myndskeiðinu, sem þú lætur fylgja hér að ofan, að allir hljómsveitarmeðlimirnir virðast taka þátt og skemmta sér vel, nema Cousins, sem hamrar gripin sín á kassagítar, heldur brúnaþungur og án þess að taka þátt í söng eða viðlagi (og átti þó að heita aðalsöngvari hljómsveitarinnar!)


En til að fá úr því skorið hvort Part of the Union sé hugsað sem kaldhæðni eða ekki, þarf sennilega að grafa upp gömul eintök af New Musical Express eða Melody Maker eða Sounds frá 1973!

----

P.S. Tónlist Strawbs gat á köflum flogið hátt (t.d. „Witchwood“ og „Hero and Heroine“), en oftast þótti mér hún heldur tilgerðarleg gervi-ensk-miðalda-þjóðlagatónlist. Cousins þótti mér líka fremur takmarkaður sem söngvari, lagasmiður og gítarleikari (þótt hann ætti oft frábæra texta!) Hins vegar verður ekki neitað að hann hafði einstakt lag á að laða til sín frábæra tónlistarmenn: Sandy Denny, Sonja Kristina (einnig úr Curved Air), Rick Wakeman, Blue Weaver (einnig úr Amen Corner og síðar Mott the Hoople), John Hawken og Don Airey eru í hópi hinna fjölmörgu, sem gengu í Strawbs um lengri eða skemmri tíma.

Helgi Ingólfsson, 2.10.2012 kl. 10:40

13 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  þetta er glæsileg og fróðleg samantekt hjá þér.  Viðtalið sem ég vitna til - og er mín eina heimild - var sennilega í Mojo eða Uncut.  Ég þori ekki að giska á ártal.  Kannski 15 - 16 ár síðan.  Þau koma helst til greina af þeim músíkblöðum sem ég kaupi og fjalla um svona músík.  Þá er ég oftast að sækja í diska sem fylgja blöðunum. 

Jens Guð, 3.10.2012 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.