Hvað er að gerast með unga fólkið í dag?

  Nýverið hlustaði ég á Útvarp Sögu.  Reyndar hlusta ég á Útvarp Sögu á hverjum degi.  Í þessu tiltekna dæmi sagði maður nokkur (að mig minnir Kristinn Snæland.  Kannski einhver annar)  áhugaverða sögu.  Hún var af vini sögumanns.  Vinurinn fékk það skemmtilega verkefni að sækja afadóttur sína,  12 ára stelpu,  reglulega úr einhverju námskeiði og skutla henni heim.  Afinn hlakkaði til að fá þetta tækifæri til þátttöku í lífi stelpunnar.  Hann sá fram á mörg skemmtileg samtöl.

  Þegar á reyndi varð lítið um spjall.  Stelpan var aldrei fyrr sest inn í bílinn hjá afa en hún dró upp síma og hamaðist stöðugt á lyklaborði hans.  Hún mátti ekkert vera að því að spjalla við afa.  Síminn átti allan hennar hug.  

  Þessi frásögn rifjaðist upp fyrir mér í dag.  Þá átti ég erindi í matvöruverslun.  Mig langaði í kalt Malt.  Á stéttinni fyrir utan urðu á vegi mínum þrjár unglingsstúlkur.  Þær voru á leið inn í verslunina.  En hömuðust allar steinþegjandi á síma sína.  Það vakti undrun mína hvað þær gengu hratt og örugglega þrátt fyrir að vera með augu límd á símaskjái.  

  Eins og oft vill verða þegar farið er inn í matvöruverslun ílengdist ég örlítið.  Mér varð á að kaupa fleira en Malt þegar upp var staðið.  Þegar ég hélt að afgreiðslukassa lenti ég í röð á eftir stelpunum.  Þær voru ennþá að hamast á símunum.  Rétt á meðan þær borguðu fyrir sælgæti og gosdrykki fékk síminn smá frí.  Við það tækifæri skiptust þær á örfáum orðum.  Það sannaði að þær voru ekki mállausar.  Samt þögðu þær á leið út,  allar að hamast á símanum.

  Er þetta það sem koma skal?  Hættir fólk að tjá sig munnlega?  Færist spjall og önnur samskipti fólks inn í síma og tölvur?

farsimi.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

   Ég held að það hafi verið 1998 eða 1987 sem ég var staddur í Kaupmannahöfn.  Þar rölti ég eftir gangstétt.  Við hlið mér gekk  ókunnugur danskur maður.  Það voru ekki fleiri staddir þarna nálægt.  Við röltum nánast hlið við hlið.  Skyndilega heilsar Daninn á dönsku.  Ég tók undir kveðjuna.  Hann spurði hvað væri títt.  Ég svaraði að ég segði allt gott.  Áfram hélt spjallið í smá stund.  Mér þótti einkennilegt að Daninn horfði aldrei til mín.  En spjallið hélt áfram.  Ég horfði á Danann þegar ég svaraði honum.  Svo tók ég allt í einu eftir því að hann var með tól á eyranu og þráð sem hékk þaðan niður í brjóstvasa.  Það var í fyrsta skipti sem ég sá það sem kallast handfrjálsan búnað.  Daninn var að tala í síma - við einhvern annan en mig.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.