plötuumsögn

binni.jpgbinni_a_little_trip.jpg

  - Titill:  A Little Trip

  - Flytjandi:  Binni Rögnvalds

  - Einkunn: **** (af 5)

  Binni Rögnvalds er skagfirskur trúbador.  Hann er söngvaskáld,  gítarleikari og söngvari.  Faðir hans,  Rögnvaldur Valbergsson,  er kunnur tónlistarmaður í Skagafirði;  kórstjórnandi og hljómborðsleikari helstu hljómsveita Skagafjarðar,  svo sem Trico og Hljómsveitar Geirmundar.  

  A Little Trip er fyrsta plata Binna.  Í gamla daga hefði svona plata verið skilgreind sem Ep.  Hún er sex laga (mitt á milli smáskífu og "stórrar" Lp plötu).

  Fyrstu tvö lögin eru í svipuðum stíl:  Þau falla undir skilgreiningu á "krúttpoppi".  Þetta eru áferðarfögur lög.  Róleg lög með minimalískum hljóðfæraleik.  Upphafslagið,  Hamburg,  leiðir huga að With Or Without You með írsku hljómsveitinni U2.  Seyðmögnuð og dáleiðandi fegurð umlykur þessi lög.  Einfaldleiki,  látleysi og klingjandi gítar laða fram ljúfa og notalega tilfinningu.

  Í lagi nr. 2,  Fly,  bætist við í viðlagi söngur Dönu Ýr Antonsdóttur.  

  Þegar ég hlustaði fyrst á plötuna var ég kominn í þannig stemmningu að þriðja lagið var eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Heldur betur skipt um gír.  Call In Sick er hart pöbbarokk;  rythmablús.  Mér kæmi ekki á óvart að það lag hafi verið hljóðritað "live" í hljóðveri.  Rífandi gítar og fjör.  Hressilegt lag. Binni fer úr hlutverki ljúfa söngvarans og þenur raddböndin. 

  Fjórða lagið er Fame and Fortune.  Fyrstu þrjú lögin eru ekki með rífandi krækjur (hooks).  Þau eru frekar með vinalegar laglínur sem vinna stöðugt á við ítrekaða hlustun.  Fame and Fortune er með krækju bæði í laglínu og stefi í undirleik.  Útvarpsvænasta lag plötunnar.   Gítarinn jaðrar við að nálgast reggí-takt. Kannski er það óskhyggja hjá djassgeggjaranum mér að greina smá djasskeim í þessu lagi.  

  Fimmta lagið,  Daddy´s Lullaby,  kallar fram hughrif í átt að Nick Cave.  Leiðandi píanólína og falleg laglína.  Afskaplega snoturt lag.  

  Lokalagið,  Who Belongs To Me,  sver sig í sömu ætt.   Þessi plata Binna Rögnvalds er afskaplega vel heppnuð.  Góð lög,  góður flutningur.  Allt snyrtilega afgreitt.  Engir stælar í hljóðfæraleik eða öðru.  Enginn rembingur.  Bara allt flott.  Flott plata. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband