17.10.2013 | 21:39
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Málmhaus
- Höfundur og leikstjóri: Ragnar Bragason
- Leikarar: Þorbjörg Helga Dýrfjörð, Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson
- Einkunn: **** (af 5)
Myndin er ólík því sem ég hélt. Ljósmyndir af aðalpersónunni, Heru Karlsdóttur (Þorbjörg Helga Dýrfjörð), með andlitsfarða að hætti norskra svartmálmshausa og nafn myndarinnar gáfu vonir um að svartmálmi væri gert hátt undir höfði. Sú er ekki raunin. Rokkmúsík er sparlega notuð. Uppistaðan af henni er laufléttur popp-metall. Það er ekki fyrr en undir lok myndarinnar sem Hera syngur og spilar svartmálmsslagara. Sá er frábær! Ég hlakka til að kaupa hann á plötu og hlusta oftar á hann. Þó ekki sé nema fyrir þetta eina lag er góð ástæða til að skreppa í kvikmyndahús. En það kemur fleira til. Hera syngur og spilar annað lag, ljúfa ballöðu, í lok myndar.
Myndin gerist í sveit. Bóndasonurinn á bænum, Baldur, er þungarokkari og spilar á gítar í hljómsveit. Við fáum ekki að heyra í hljómsveitinni; sjáum aðeins ljósmynd af henni. Einn sólléttan sumardag ekur hann á dráttarvél um tún. Aftan á vélinni er heyþyrla. Drifskaftið er bert og óvarið. Það er bannað. Á sjöunda áratugnum þegar síða hippahárið var málið ollu hlífðarlaus drifsköft dauðsföllum. Þegar drifskaft nær hárlokki er það fljótt að rífa höfuðleðrið af viðkomandi. Þetta er einmitt það sem hendir Baldur. Hann ekur yfir ójöfnu á túninu og hárið flækist í drifskaftinu.
Hera systir hans verður vitni að slysinu. Hún er 12 ára. Hún og foreldrar þeirra ná ekki að vinna úr sorginni. Þau festast í sorginni, döpur, þögul og sinnulaus. Þetta er drama. Árin líða. Hera leitar huggunnar í að hlusta á plötusafn Baldurs og spila á gítarinn hans. Sorgin fléttast saman við "gelgjuna": Mótþróa, uppreisn og stjórnleysi.
Hera fær áhuga á norskum svartmálmshausum þegar Bogi Ágústsson les frétt um þá í Sjónvarpinu. Fréttin sagði frá dómum sem þeir fengu fyrir kirkjubrennur og morð.
Dramað í myndinni er létt upp með einstaka brandara og broslegu atviki. Margt ber til tíðinda. Sagan er trúverðug. Þökk sé góðum og sannfærandi leik. Mest mæðir á Þorbjörgu Helgu. Hún vinnur feitan leiksigur og hlýtur að fá Edduna. Hlutverkið er margbrotið og krefst margs umfram leikræna hlutann. Gítarleikur hennar er fínn, söngurinn snilld, "slammið" flott... Það er sama hvar borið er niður: Hún neglir þetta allt niður. Hún er jafn trúverðug sem illa áttuð unglingsstelpa og málmhaus sem gefur skít í allt og alla. Áhorfandinn hefur samúð með henni og sýnir öfgafullum uppátækjunum skilning. Þorbjörg Helga er stórkostlegur leikari.
Persónan sem Sveinn Ólafur leikur er sterkt útspil í framvindu sögunnar. Sá, ja, klunnalegi og grunni karakter leggur til grínið og dregur fram ennþá fleiri hliðar á Heru. Hliðar sem hlaða undir skilning á persónunni og trúverðugleika hennar.
Það er ekki gott að staðsetja sögusviðið í tíma. Og kannski óþörf smámunasemi að reyna það. Upphaf myndarinnar gæti gerst snemma á níunda áratugnum eða fyrr. Þetta er á dögum vinylplötunnar og kassettutækisins. Fréttir af norskum svartmálmshausum hafa varla ratað í íslenska fréttatíma fyrr en um miðjan tíunda áratuginn.
Í kynningartexta um myndina er gefið upp að sögusviðið í byrjun sé 1970. Það passar ekki. Þá voru hljómsveitir eins og Iron Maiden og Ac/Dc ekki til, né heldur ýmsar aðrar sem koma við sögu. Þetta skiptir engu máli. Þetta er áhugaverð bíómynd en ekki sagnfræði.
Myndataka er alveg ljómandi góð og klipping Valdísar Óskarsdóttur afbragð. Þegar andlegt svartnætti persónanna liggur í þunglyndi er áferðin grá og drungaleg. Reyndar lengst af.
Það segir eitthvað um kvikmyndina að frá því að ég sá hana þá hefur hún sest að í hausnum á mér. Ég rifja upp senur úr myndinni og langar ákaflega mikið til að heyra aftur rokklagið með Heru/Þorbjörgu. Það er svo meiriháttar flott.
Hræddi börn í Húsdýragarðinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Lífstíll, Ljóð, Tónlist | Breytt 18.10.2013 kl. 00:38 | Facebook
Athugasemdir
Bara það að meistari Ingvar E Sigurðsson er á meðal aðalleikara setur strax vissan gæðastimpil á myndina. Alveg sorglegt að nú sé verið að skera duglega niður styrki til kvikmyndagerðarfólks á Íslandi í stað þess að styðja enn betur við bakið á þeim og uppskera ríkulega. Þarna eru menn að fara kolranga niðurskurðarleið. Ein allra arðsamasta útflutningsgrein Íslands gæti einmitt verið ríkisstyrktur útflutningur á kvikmyndum og tónlist. Menn einblína bara allt of mikið á ríkisstyrktan sjávarútveg og enn meira ríkisstyrktan landbúnað. Ekkert annað en afturhaldssamur hugsunarháttur sem ræður ríkjum aftur og aftur.
Stefán (IP-tala skráð) 18.10.2013 kl. 09:41
Stefán, svo sannarlega rétt hjá þér.
Jens Guð, 20.10.2013 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.