Færsluflokkur: Kvikmyndir

Ánægjuleg kvikmynd

  -  Titill:  BOB MARLEY: One Love

  -  Einkunn:  **** (af 5)

  Bob Marley ólst upp í mikilli fátækt á Jamaica.  Hann vann sig upp í að verða skærasta,  stærsta og í raun eina ofurtónlistarstjarna þriðja heimsins.  Súperstjarna ofarlega á lista yfir merkustu tónlistarmenn sögunnar. Kvikmynd um 36 ára ævi hans var fyrir löngu tímabær.

  Kvikmyndin stendur undir væntingum.  Í og með vegna þess að músíkin er yndisleg.  Hljóðheimur (sánd) Kringlubíós er frábær.  Sérlega skilar hann bassagítar flottum.

  Einstaka sena er allt að því full róleg.  Þannig er það með myndir sem byggja á raunverulegum söguþræði.  Enski leikarinn Kingslay Deb-Adir túlkar Marley.  Hann er ágætur.  Honum tekst þó ekki fullkomlega að fanga sjarma Bobs.  Það er ómöguleiki.     

  Blessunarlega upphefur myndin Bob ekki sem breyska guðlega veru.  Né heldur ofhleður hana með rasta-trúarbrögðum hans.  Sem samt voru stór þáttur í lífi hans.  

  Margt má segja um myndina gott og misgott.  Eftir stendur að ág mæli með henni sem skrepp í kvikmyndahús og upplifa "feel good").

marley     

 


Hrakfarir

  Sumir eru heppnir.  Þeir eru lukkunnar pamfílar.  Aðrir eru óheppnir.  Þeir eru hrakfallabálkar.  Flestir eru sitt lítið af hvoru. 

  Nokkra þekki ég sem eru eins og áskrifendur að óhöppum.  Til að mynda drengurinn sem brá sér á skemmtistað.  Þar var stappað af fólki.  Allir sátu við borð hjá öllum óháð því hvort þeir þekktust áður. 

  Drengurinn kom auga á gullfallega stúlku.  Hún þáði dans.  Hann var í þykkum ódansvænum leðurjakka, fór því úr honum og setti á stólbak.  Hann bað borðfélaga að gefa honum auga.  Stúlkan setti tösku sína á jakkann.

  Er skötuhjúin snéru af dansgólfinu til að kasta mæðunni kom babb í bátinn.  Borðfélagarnir voru á bak og burt.  Sömuleiðis jakkinn og veskið.  Hvorutveggja geymdi kort, skilríki og peninga.  Sem betur fer var drengurinn með lyklakippu sína festa við beltið.  Hann bauðst til að skutla dömunni heim.  

  Daginn eftir ætlaði hann að kíkja á sandspyrnu.  Hann bauð dömunni með. 

  Á leiðinni varð bíllinn bensínlaus.  Stúlkan settist undir stýr á meðan hann ýtti bílnum.  Það gekk hægt og erfiðlega.  Alltof langt í næstu bensínstöð.  Að lokum gafst hann upp,  hringdi í föður sinn, bað hann um að kaupa dráttartaug og draga bílinn að bensínstöð.

  Allt tók þetta langan tíma og stutt eftir af sandspyrnunni.  Allir héldu því bara heim til sín.  Til að bæta fyrir klúðrið bauð kauði stelpunni út að borða næsta kvöld.  Veitingastaðurinn var í göngufæri frá heimili hennar.  Þau ákváðu að hittast klukkan sex á staðnum.

  Drengurinn lagði sig fyrir kvöldmat.  Er hann vaknaði gleymdi hann matarboðinu og fór í tölvuleik.  Hann lifði sig inn í leikinn.  Seint og síðar meir kíkti hann á símann sinn.  Þá sá hann sms og "missed call" frá stelpunni.  Hún var pirruð er hann hringdi í hana.  Sagðist hafa setið eins og illa gerður hlutur í heilan klukkutíma á veitingastaðnum.  

  Til að gera gott úr þessu bauð hann henni í bíó.  Kvöldið var ungt.  Með semingi féllst hún á þetta.  

  Drengsi stríddi við bólur í andliti.  Hann faldi þær daglega með húðlitum farða.  Bíómyndin var hryllings-spennumynd.  Í taugaveiklun fiktaði hann ósjálfrátt við bólurnar án þess að taka eftir því.  Hann klæjaði líka smávegis í þær.  Það var svo heitt í salnum.  Hann nuddaði farðann af bólunum,  reif ofan af sumum þeirra.  Blóð sem vætlaði úr þeim dreifði hann um húðina.  

  Er ljós kviknuðu í hléi rak stelpan upp óp.  Hún horfði með hryllingi á blóðrisa andlitið.  Skipaði honum reiðilega að þvo ndlitið.  Þegar hann snéri aftur var hún farin.  Síðan hafa þau ekki verið í neinu samandi og hún eyddi honum af vinalista á Facebook.            

   


Illa farið með börn

  Sumt fólk kemur illa fram við börn.  Stundum svo undrum sætir.  Það fengu sjö tólf ára stelpur að sannreyna er þær brugðu sér af bæ og hugðust horfa saman á kvikmynd,  Hungurgeimana, í þar til gerðum bíósal. 

  Stelpurnar voru ekki búnar að sitja lengi undir myndinni er hávært sírenuvæl frá nokkrum lögreglubílum truflaði skemmtunina.  Þetta var í Austur-Sussex í Englandi.  Laganna verðir stormuðu inn gráir fyrir járnum.  Þeir smöluðu stelpunum út á hlað og sökuðu þær um að brjóta höfundarrétt.  Þær væru að taka myndina upp á síma og iPoda.  Skoðun á tækjum stelpnanna sannaði sakleysi þeirra.  Þar var ekkert höfundarvarið efni að finna.  Þrjár stelpnanna voru ekki einu sinni með síma eða aðrar græjur til að taka neitt upp.

  Fyrir utan hímdu stelpurnar í grenjandi rigningu og skulfu úr kulda baðaðar í bláum blikkljósum.  Fjórar þeirra fengu taugaáfall hágrátandi og þurftu að kalla á foreldra til að ferja sig heim.  Lögreglan meinaði stelpunum að halda hópinn.  Þeim var haldið aðgreindum.  Ein stúlkan sagði móður sinni síðar að hún hafi verið svo hrædd að henni hafi verið ómögulegt að gráta.  Hún var bara í losti.  Þær höfðu enga reynslu af samskiptum við lögregluna. 

  Eigendur kvikmyndahússins hafna sök.  Vísa alfarið á lögregluna.  Segja að í kjölfar símtals við hana hafi hún borið alla ábyrgð á framvindunni. Endurgreiðslu á miðum er hafnað.  Nýjum miðum er hafnað.  Stelpurnar eyddu um 20 þúsund kalli í kaup á miðum,  poppkorni, gosdrykkjum og fleiru.  En þær hafa ekki ennþá séð myndina.  Hvorki í kvikmyndahúsi né á netinu.  Lögreglan hefur beðist afsökunar.

  Góðu fréttirnar eru að svona gerist ekki á Íslandi. 

 

      


Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  Klovn the Final

 - Höfundar og helstu leikarar:  Frank Hwam og Casper Cristensen

 - Einkunn: ***1/2

  Dönsku sjónvarpsþættirnir Klovn eru snilld.  Húmorinn er grófur, ferskur, ófyrirséður og bráðfyndinn. 2010 kom á markað kvikmyndin Klown.  Hún var sprengja.  Í henni var gengið lengra í groddadagangi og húmorinn tekinn fram á ystu nöf.  Vinsældum hennar var fylgt eftir með myndinni Klown Forever 2015.  Henni háði að væntingar áhorfandans voru miklar.  Jafnframt var hann orðinn brynjaður fyrir senum sem annars hefðu gengið fram af honum.  Engu að síður  slagaði hún upp í fyrri myndina á öllum sviðum.

  Nú er verið að sýna þriðju myndina,  Klovn the Final.  Hún er sögð vera lokamyndin í þríleiknum.  Það er skynsamleg niðurstaða.  Hún stendur fyrri myndunum örlítið að baki.  Samt er hún bráðskemmtileg.  Salurinn hló oft og mikið.  Líka ég.  Hún hefur sérstakt gildi fyrir Íslendinga.  Söguþráðurinn snýst um ferðlag kumpánanna til Íslands.  Ef ekki væri vegna kórona-vírusins væri myndin góð auglýsing fyrir Íslands.  Það getur svo sem skilað sér síðar.   

  Einhverra hluta vegna hefur myndin verið illa auglýst hérlendis.  Kannski gerir það ekki til vegna samkomubannsins.  Þá er bara að ná henni í sjónvarpi eða einhverjum netveitum. 

  Vegna meðfylgjandi sýnishorna skal tekið fram að í íslenskum kvikmyndahúsum er myndin textuð á íslensku. 

    


Ný James Bond mynd tekin í Færeyjum

  2. apríl 2020 verður sýnd ný kvikmynd um breska leyniþjónustumanninn James Bond,  007.  Hún hefur fengið heitið No Time to Die.  Hún verður 25. myndin um njósnarann.  Jafnframt er þetta 5. myndin með Daniel Craig í hlutverki 007. 

  Tökur eru hafnar.  Tökuliðið er mætt til Færeyja ásamt áhættuleikurum.  Líklega á að gera út á fagurt en sumstaðar hrikalegt landslag eyjanna.  Enn ein staðfestingin á því að Færeyjar og Færeyingar hafa stimplað sig inn á heimskortið. 

Daniel CraigKalsoy


Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Héraðið

 - Helstu leikarar:  Sigurður Sigurjónsson,  Arndís Hrönn Egilsdóttir,  Hannes Óli Ágústsson,  Edda Björg Eyjólfsdóttir...

 - Handrit og leikstjórn:  Grímur Hákonarson

 - Einkunn: **** (af 5)

  Þessi áhugaverða kvikmynd átti upphaflega að vera heimildamynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Vegna hræðslu Skagfirðinga við að tjá sig um hið alltumlykjandi skagfirska efnahagssvæði reyndist ógjörningur að fá viðmælendur til að tjá sig fyrir framan myndavél.  Þar fyrir utan eru margir Kaupfélagssinnar af hugsjón.  Telja að ofríki Kaupfélagsins veiti mörgum vinnu og standi gegn því að peningar samfélagsins fari suður.  Kaupfélag Skagfirðinga stendur svo sterkt að lágvöruverslanir á borð við Bónus,  Krónuna og Nettó eiga ekki möguleika á að keppa við KS í Skagafirði  Skagfirðingar vilja fremur versla í dýrustu búð landsins,  Skagfirðingabúð Kaupfélagsins, en að peningur fyrir greiddar vörur fari úr héraðinu.

  Ég er fæddur og uppalinn Skagfirðingur.  Ég votta að margar senur myndarinnar eiga sér fyrirmynd í raunveruleikanum.  Jafnvel flestar.  Sumar samt í hliðstæðu.  Í myndinni er stofnað mjólkursamlag til höfuðs Kaupfélaginu.  Í raunveruleika stofnað pabbi minn og fleiri bændur sláturhús til höfuðs KS. 

  Kvikmyndin fer rólega af stað.  Eftir fæðingu kálfs og dauðsfall vörubílstjóra gerist myndin dramaatísk.  Hún er spennandi, áhrifarík og vekur til umhugsunar.  Flott í flesta staði.

  Arndís Hrönn er sannfærandi í hlutverki reiðu ekkjunnar.  Ég man ekki eftir að hafa séð þessa leikkonu áður.  Aðrir leikarar standa sig einnig með prýði.  Ekki síst Sigurður Sigurjónsson.  Hann túlkar Þórólf, nei ég meina Eyjólf kaupfélagsstjóra, af snilld.

  Gaman er að sjá hvað fjós eru orðin vélvædd og sjálfvirk.

  Ég mæli með því að fólk skreppi í bíó og kynnist skagfirska efnahagssvæðinu. 

héraðið


Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Lof mér að falla

 - Leikstjóri:  Baldvin Z

 - Helstu leikendur:  Elín Sif Halldórsdóttir,  Eyrún Björk Jakobsdóttir,  Þorsteinn Bachmann,  Sólveig Arnarsdóttir... 

 - Handrit:  Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson

 - Einkunn:  *****

  15 ára Magnea kynnist 18 ára Stellu.  Magnea er góður námsmaður; á gott líf og bjarta framtíð.  Stella fiktar við eiturlyf.  Magnea laðast að henni og ævintýralegum lífsstíl hennar.  Fyrr en varir eru þær orðnar djammfélagar og Magnea farin að fikta við eiturlyf.  

  Framan af er mikið fjör,  hvort heldur sem er á skemmtistöðum eða í gleðskap í heimahúsum.  Fylgifiskurinn er skróp í skóla og farið á bakvið foreldra.  Hægt og bítandi harðnar ástandið og verður ofbeldisfyllra.  Samviskan hverfur, svikin verða grófari og ósvífnari.

  Myndin kemur þessu aðdáunar vel til skila.  Hún er afar trúverðug.  Enda byggð á sönnum atburðum.  Elín Sif og Eyrún Björk túlka Magneu og Stellu á sannfærandi hátt.  Ótrúlegt að þær séu ekki menntaðar í leiklist og að þetta sé frumraun þeirra á því sviði.  Hugsanlega skilaði reynsluleysi þeirra sér í raunverulegu sakleysislegu fasi í fyrri hluta myndarinnar.  

  Myndin flakkar til og frá í tíma.  Ég fattaði það ekki strax.  Kannski vegna þess að ég er vandræðalega ómannglöggur.  Einnig ruglaði mig pínulítið í ríminu að Magnea og Stella skiptu ítrekað um hárlit.  Þetta kom ekki að sök eftir að ég áttaði mig á þessu.  Frekar að þetta hjálpaði við að staðsetja þær á tímalínu.

  Að mestu er sneitt framhjá sýnilegu ofbeldi.  Óhugnaðurinn er meira gefinn í skyn eða nefndur í samtölum.  Þetta er mun áhrifaríkara en grafískar senur.

  Átakanlegt er að fylgjast með varnar- og ráðaleysi foreldranna.

  Músík leikur töluvert hlutverk.  Hún er í höndum Ólafs Arnalds.  Hann kann fagið.

  "Lof mér að falla" er áhrifaríkasta mynd íslensku kvikmyndasögunnar.  Frábær í alla staði.  Skilur mikið eftir sig.  Besta forvarnarmynd sem hægt er að sýna í grunnskólum. 

  "Vonarstræti" hefur verið velt úr sessi.  Það er ekki lengur besta íslenska kvikmyndin.     

  

lof mér að falla


Færeyskur húmor

  Færeyingar eru góðir húmoristar.  Þeir eiga auðvelt með að koma auga á eitthvað spaugilegt.  Þegar þeim dettur í hug eitthvað sprell þá framkvæma þeir það þrátt fyrir að stundum kalli það á mikla vinnu og fyrirhöfn.  Dæmi:

  Rétt utan við höfuðborgina,  Þórshöfn,  er risastór saltgeymsla eyjanna niður við sjó.  Þegar ekið er til eða frá Þórshöfn þá liggur þjóðvegurinn ofan við saltgeymsluna.  Þak hennar blasir við vegfarendum.  Einn mánudagsmorgun blasti við þeim að einhver eða einhverjir höfðu málað snyrtilega og fagmannlega stórum stöfum á þakið orðið PIPAR. 

  Þétt austur af Þórshöfn er Nólsey.  Hún tilheyrir sveitarfélaginu Þórshöfn.  Hún skýlir höfninni í Þórshöfn fyrir veðri og vindum.  Íbúar eru hátt í 300.  Margir þeirra vinna í Þórshöfn. 

  Í Færeyjum hefur til átta ára verið rekinn sumarskóli í kvikmyndagerð.  Í ár er hann starfræktur í Nólsey.  Af því tilefni brugðu tveir vinir á leik og settu í gær upp risastórt skilti á eyjunni með orðinu NÓLLYWOOD.  Framkvæmdin tók marga daga og var dýr.  En vinirnir segja að þetta sprell eigi að endast í mörg ár.

  Eins og glöggt má sjá á myndinni hér fyrir neðan þá er skiltið afrit af frægasta skilti í Los Angeles í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Neðst til vinstri á myndinni sést hús.  Af því má ráða hver stærð skiltisins er. 

Nólsoy

 

hollywood-sign


Stórskemmtileg íslensk kvikmynd - umsögn

Undir trénu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 - Titill:  Undir trénu

 - Handrit:  Huldar Breiðfjörð og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

 - Leikstjóri:  Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

 - Leikarar:  Edda Björgvinsdóttir,  Sigurður Sigurjónsson,  Steindi Jr.,  Þorsteinn Bachman, Selma Björnsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir

 - Tegund:  Drama/harmleikur/grín

 - Einkunn: **** (af 5) 

  Sumar kvikmyndir eru þannig að eftir því sem áhorfandinn veit meira um þær fyrirfram þeim mun ánægjulegra er áhorf.  Aðrar kvikmyndir eru þannig að áhorfandinn má ekki vita fyrirfram neitt um framvindu né tilteknar senur.  Hámarks upplifun næst með því að myndin komi stöðugt á óvart.

  Undir trénu fellur undir síðarnefndu lýsinguna.  Ég hvet eindregið þá sem sjá myndina að þegja um hana - ef frá er talið að mæla með henni.

  Óhætt er að upplýsa örfáa punkta.  Myndin segir tvær sögur.  Önnur er af ungu pari sem stendur í skilnaðarbasli.  Hin er af foreldrum unga mannsins.  Þeir eiga í nágrannadeilum vegna trés í garðinum.  Það er orðið of stórt.  Varnar sólargeislum leið að garði nágranna.

  Sögurnar tvær fléttast lipurlega saman.  Framvinda beggja styrkir hina.  Pakkinn er 2 fyrir 1; að fylgjast með tveimur spennandi og viðburðaríkum sögum á sama tíma.  

  Tilfinngaróf áhorfandans sveiflast hratt til og frá.  Allar lykilpersónur vekja samúð.  Það er sjaldgæft í kvikmynd sem byggir á harðvítugum átökum.  Svo ekki sé minnst á átökum á tveimur vígstöðvum.  Hefðbundna uppskriftin er átök á milli góðs og ills.  Hér er dramatíkin af og til óvænt brotin upp með vel heppnuðu skopi.

  Miklu skiptir úrval margra bestu leikara landsins.  Túlkun þeirra er frábær og hefur mikið að segja um útkomuna.  Edda Björgvins toppar sig.  Hefur hún þó allan leikferil verið í hæstu hæðum.  

  Steindi Jr. er í burðarhlutverki;  gaurinn að skilja og sonur hjóna í nágrannaerjum.  Hann - amatör/leikmaður - er settur í rosalega bratta stöðu/áskorun að leika á móti bestu leikurum Íslands.  Hann veldur hlutverkinu.  Það hjálpar að hans "karakter" er þekktur sem galgopi í göslaragangi.    

  Tónlist Daníels Bjarnasonar er áhrifarík.  Iðulega dimm og drungaleg.  Boðar eitthvað ógnvænlegt.  Karlakór setur svip á tónlistina.  Gegnir einnig því hlutverki að túlka tilfinningasveiflur persónunnar sem Siggi Sigurjóns leikur.  Virkilega vel heppnað. Tónlistin á stóran þátt í því hvað þetta er góð kvikmynd.  

  Eins og algengt er með íslenskar myndir þá er nafnið ekki lokkandi.  Það gefur ekkert forvitnilegt til kynna.   

  Ég mæli eindregið með Undir trénu sem virkilega góðri kvöldskemmtun í kvikmyndarhúsi.  Þó ekki fyrir viðkvæma.

 

        


Aukasýning - aðeins í þetta eina skipti!

  Nýverið kom út ný heimildarmynd um Bítlana,  "Eight Days a Week".  Í henni er fjöldi viðtala,  m.a. við alla liðsmenn.  Þar á meðal ný viðtöl við Paul McCartney, Ringo Starr og samstarfsmenn.  Einnig áður óbirt viðtöl við John Lennon og George Harrison.  Myndin dregur upp áhugaverða og skýra drætti af því hvaða áhrif velgengnin og síðan ofurfrægðin hefur á sálarlíf þeirra og þroska.

  Að sjálfsögðu skipar tónlistin háan sess.  

  Sem kunnugt er komu öskur í áheyrendum iðulega illa niður á hljómleikaupptökum með Bítlunum.  Hljóðkerfi sjöunda áratugarins voru ekki nógu öflug til að yfirgnæfa öskrin.  Einmitt þess vegna gáfust Bítlarnir upp á hljómleikahaldi 1966.  Þeir heyrðu ekki í sjálfum sér.

  Með nýjustu stafrænu tækni tókst framleiðendum myndarinnar að dempa svo mjög niður áheyrendaöskrin að tónlistin heyrist hvellskýr.  Við það opinberast Bítlaunnendum nýr heimur.

  Myndin hefur hvarvetna hlotið einróma lof,  jafnt gagnrýnenda sem almennings.  Í Rotten Tomatoes fær hún meðaleinkunnina 95% (af 100).

  Á morgun,  sunnudaginn 27.nóv, er aukasýning á myndinni í Háskólabíói klukkan 18.00.  Aðeins i þetta eina sinn.  DVD útgáfa er ekki í sjónmáli vegna þess að höfundarrréttarsamningar fóru í hnút.  Þar fyrir utan er meiriháttar upplifun að heyra tónlistina í hæstu hljómgæðum.  Það er nánast eins og að sitja hljómleika með Bítlunum.  

  Aukasýningin er hvergi auglýst sérstaklega.  Vinsamlegast deilið þessum upplýsingum á Fésbók og bloggi.  

   

       


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.