25.1.2014 | 21:29
Lulla frænka á jólunum
Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega. Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans. Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars. Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð. Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana. Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat. Hún fékk einnig heimsóknir.
Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust. Það átti hún sameiginlegt með föður sínum, afa mínum.
Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:
"Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa. Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug. Ég er ekki með neitt náttborð. Ég les aldrei uppi í rúmi. Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu. Þar er hægt að stinga honum í samband. En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu. Ég verð að athlægi. Náttlampinn er bara til vandræða. Ekkert nema vandræða."
Og: "Frænka þín gaf mér þessa bók. Ég er ekki með neina bókahillu. Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur. Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."
Ég: "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."
Lulla: "Já, það má hafa gaman af henni. Ég hef gluggað í hana. En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér. Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið. Það geymir enginn bækur á gólfinu. Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."
Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum. Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu. Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið. Ég kippti mér ekkert upp við það. Þekkti viðbrögðin, bæði hjá henni og afa. Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt. Og jafnvel verða ánægð með þær.
Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall. Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna. Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk. Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.
Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu. Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa. Kannski er það ekkert að marka. Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.
Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu. Konan vann í sjoppu. Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni. Þetta hitti í mark. Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur. Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag. Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.
Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig. Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk. Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið: Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann. Lulla sagði:
"Ég raða sneiðunum á lítinn disk. Örfáum í einu. Fjórum sneiðum eða fimm. Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp. Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn. Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar. Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli. Litla bita. Þetta er svo gaman. Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."
------------------------------------
Meira af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkar: Lífstíll, Matur og drykkur, Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2014 kl. 22:22 | Facebook
Athugasemdir
dásamleg oho já man eftir nærbuxnajólunum miklu hjá afa ;)
sæunn (IP-tala skráð) 25.1.2014 kl. 23:03
Yndisleg lesning á sunnudagsmorgni.
ingibjörg kr einarsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 12:20
Sæunn, það var alltaf góð skemmtun að fylgjast með neikvæðum viðbrögðum afa við jólagjöfum.
Jens Guð, 26.1.2014 kl. 21:59
Ingibjörg, takk fyrir það.
Jens Guð, 26.1.2014 kl. 22:00
Þakka þér fyrir Jens Guð, þetta var ljúft. Ég kannast við suma takta frænku þinnar frá vinkonu minni að austan sem nú er látinn, en var mikill skörungur, hreinskiptin og einlæg, en lét aldrei neinn eiga inni hjá sér.
Hrólfur Þ Hraundal, 9.2.2014 kl. 14:34
Hrólfur, takk fyrir þessi orð. Mér þykir gott að fá svona viðbrögð. Ég hef verið hikandi varðandi þessar sögur af Lullu frænku. Hikið stafar af óöryggi gagnvart því hvort að mér takist að segja sögurnar af virðingu fyrir henni og með hlýju í hennar garð. Hún var skemmtileg, frændrækin og yndæl. Sérkennileg og brosleg afstaða hennar til margra hluta kryddaði tilveru okkar sem umgengust hana mest. Mér var heiður af því að í sjúkraskrá hennar gaf hún mig upp sem þann ættingja sem átti að hafa samband við þegar hún væri lögð inn á geðdeildir.
Jens Guð, 10.2.2014 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.