Plötuumsögn

svennibjorgvins.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  - Titill:  It´s Me

  - Flytjandi:  Svenni Björgvins

  - Einkunn: ***1/2 (af 5)

  Ég veit lítið sem ekkert um Svenna Björgvins.  Einhverjir hafa á Fésbók hampað tónlist hans.  Þar hefur komið fram að hann er Keflvíkingur.  Sveinn er höfundur allra 11 laga plötunnar.  Titillagið er að auki í tveimur útfærslum,  rafmagnaðri og órafmagnaðri.  Textarnir eru á ensku og ýmist eftir Svein eða textahöfunda frá Nýja-Sjálandi,  Bretlandi og Bandaríkjunum.  

  Svenni syngur aðalrödd og bakraddir.  Ingunn Henriksen og Lynn Carey Saylor hlaupa undir bagga í þremur lögum.  Hann spilar á öll hljóðfæri en fær aðstoð á hljómborð og munnhörpu í fjórum lögum.  Hljóðfæraleikurinn er snyrtilegur og látlaus.  Svenni er einkar lipur á gítar en hófstilltur.  Blessunarlega laus við stæla og sýndarmennsku.  

  Lögin eru ljúf og notaleg.  Þau hljóma vinaleg við fyrstu hlustun og venjast vel við frekari spilun.  Þau eru flest róleg.  Ekkert fer upp fyrir millihraða.  Músíkstíllinn er milt og áreynslulaust popp.  Samt ekki poppað popp.  Frekar hippalegt (í jákvæðri merkingu) og trúbadorlegt popp.  Það eru engar ágengar krækjur (hook-línur) heldur streyma lögin fram eftir bugðulausum farvegi.  Sterkasta er Into the Wind.  Það er á millihraða,  með pínulitlum kántrýkeim - eða kannski öllu heldur pínulitlum Creedence Clearwater Rivival keim.    

  Söngur Svenna er mjúkur og án átaka.  Það er þó auðheyrt að hann hefur ágætt raddsvið.  Hann gæti klárlega gefið í og þanið sig.  En gerir það ekki.  Nettur söngstíllinn hæfir músíkinni.

  Heildarstemmning plötunnar er þægilegt popp.  Platan rennur áfram án þess að trufla hlustandann með einhverju sem brýtur upp yfirlætislaust formið.  Þannig er platan fín sem bakgrunnsmúsík í amstri dagsins.  Hún er líka alveg fín til að hlusta á með græjur stilltar á hærri styrk.  Það er bara mín sérviska að langa til að heyra eitt ágengt eða rokkað lag.  Eða þótt ekki væri nema einn rifinn og fössaðan gítartón.  Áreiðanlega kunna fleiri betur við plötuna eins og hún er.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband