Aðgát skal höfð i nærveru netsins

  Netið er varasamt.  Ekki síst spjallþræðir,  svo og athugasemdakerfi fréttamiðla.  Fyrir það fyrsta tjáir fólk sig öðruvísi á lyklaborði en þegar staðið er fyrir framan þann sem orðum er beint að.  Eða verið er að fjalla um.  Bremsurnar eru ekki þær sömu og þegar horft er framan í manneskjuna.  Í annan stað tjáir fólk sig öðruvísi á netinu undir dulnefni en réttu nafni.  Það er eins og losni um hömlur og fólk leyfir sér meiri ókurteisi og ruddaskap þegar það er falið á bakvið dulnefni.  Í þriðja lagi kemur iðulega illa út að blanda þessum tveimur atriðum - lyklaborði og dulnefni - saman við ölvun.  Það þarf ekki netið til að fullt fólk segi sitthvað annað en þegar það er edrú. 

  Stemmning í athugasemdakerfum og spjallþráðum hefur mikið að segja.  Ég þekki ekki barnaland.is og bland.is.  Mér er sagt að umræðan á barnaland.is hafi verið svakaleg á köflum.  Þar hafi notendur síðunnar keppst við að toppa hvern annan með slúðri um frægt fólk og niðrandi ummælum um það.  Það ku hafa eitthvað dregið úr þessu eftir að nafni síðunnar var breytt í bland.is.  Ég kíkti núna inn á bland.is og sé að allir skrifa þar undir dulnefni.  Umræðan er eftir því. 

  Stundum má sjá í athugasemdakerfi fréttamiðla hvernig umræða þróast.  Fyrstu "komment" eru kannski kurteisleg.  Svo mætir einhver yfirlýsingaglaður á svæðið.  Þá spólast aðrir upp.  Áður en líður á löngu eru menn komnir í kapp við að toppa hvern annan.  Þetta á einkum við um það þegar verið er að fjalla um ofbeldismenn,  nauðgara,  barnaníðinga og aðra slíka.  Þá er stutt í yfirlýsingar á borð við:  "Hnakkaskot og málið er dautt."   Eða lýsingar á því hvernig gaman væri að pynta viðkomandi og láta hann deyja hægum sársaukafullum dauðdaga.  

  Annað mál er að sumt sem hljómar ruddalegt í skrifuðum texta er ekki illa meint.  Það er sett fram í kaldhæðni eða á að vera í léttum dúr.  Málið er að án þess að sjá svipbrigði þess sem skrifar og eða þekkja hann er auðvelt að meðtaka textann á annan hátt.  Netið er svo ungur samskiptavettvangur að við höfum ekki ennþá náð að höndla það almennilega.  

  Fyrir daga netsins skrifaði fólk lesendabréf eða pistil í dagblöð.  Fólk vandaði sig.  Tók marga daga í að skrifa vandað bréf.  Lét ættingja og vini lesa það yfir áður en það var sent til dagblaðs.  Á þeim árum komu út mörg dagblöð:  Morgunblaðið,  Vísir,  Tíminn,  Þjóðviljinn,  Dagblaðið,  Alþýðublaðið og Dagur.  Þessi dagblöð birtu ekki hvaða lesendabréf eða pistil sem var.  Ósæmilegu efni var hafnað eða farið fram á að texta væri breytt.  Það sem birtist á prenti hafði farið í gegnum síu.  Núna hinsvegar getur fólk ýtt á "enter" um leið og það hefur lokið við að slá texta á lyklaborðið.  Á næstu sek. er textinn orðinn opinber á netinu.     

     


mbl.is Fullur kærasti á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi öfgafeministi sem netníddist á Hafdísi Huld virðist vera í meira lagi illa innrætt, minnir mig á ákveðna, kjaftfora öfga-framsóknarkonu á Alþingi.

Stefán (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 08:18

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Athugasemdakerfi netmiðlana eru tjara og fiður nútímans.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.2.2014 kl. 08:54

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill Jens og svo sannur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2014 kl. 11:05

4 identicon

Góð samlíking Axel 

Gulli (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 17:48

5 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  Hildur og Páll hafa beðist afsökunar á framferði sínu.  Tökum það til greina.  Vonandi gerir Hafdís Huld það líka. 

Jens Guð, 1.3.2014 kl. 00:46

6 Smámynd: Jens Guð

  Axel Jóhann,  þetta er rétt hjá þér. 

Jens Guð, 1.3.2014 kl. 00:46

7 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  takk fyrir það. 

Jens Guð, 1.3.2014 kl. 00:47

8 Smámynd: Jens Guð

  Gulli,  ég tek undir það. 

Jens Guð, 1.3.2014 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband