Útvarpsþáttur sem má ekki hætta

 

  Eitt af flaggskipum Rásar 2 síðustu fjögur ár er þátturinn Plötuskápurinn.  Hann gleður og fræðir útvarpshlustendur á föstudagskvöldum.  Umsjónarmenn hans hafa allir yfirgripsmikla þekkingu á fjölbreytilegustu tónlist.  Þeir kunna utan að sögu rokksins í smáatriðum.  Engu að síður er auðheyrt að þeir vinna heimavinnuna samviskusamlega fyrir hvern þátt.  Það er ekkert verið að giska á ártöl eða hver spilaði með hverjum í hinu og þessu laginu.  Allar slíkar upplýsingar eru sannreyndar.  Hlustendum er ekki boðið upp á annað en nákvæmustu staðreyndir.  Það má greina að kynningar eru lesnar af blaði.  

  Sigurður Sverrisson,  Halldór Ingi Andrésson og Gunnlaugur Sigfússon skiptast á umsjón með Plötuskápnum.  Allir hafa þeir áheyrilega og notalega útvarpsrödd.  Þeir eru hoknir af reynslu.  Hafa átt komu að tónlist frá öllum hliðum.  Hafa verið tónlistarblaðamenn til margra áratuga,  plötugagnrýnendur,  unnið hjá plötufyrirtækjum,  stýrt plötuútgáfu,  stýrt og rekið plötubúðir,  staðið fyrir umfangsmiklu hljómleikahaldi og svo framvegis.  

  Plötuskápurinn á marga trygga hlustendur.  Þarna eru spiluð lög sem annars heyrast ekki í útvarpi.  Eða lög sem hafa ekki heyrst í útvarpi í allt að því hálfa öld.  Fróðleiksmolarnir sem fylgja með vega þungt og staðsetja tónlistina í tíma og rúmi.

  Sem málmhaus hef ég ekki síst gagn og gaman af Plötuskápi Sigurðar Sverrissonar.  Einkum þegar hann fer á slóðir harðkjarna,  svartamálms,  þrass,  dauðarokks og annarra harðra metalstíla.  Sérlega lofsamlegt er að þungarokkið sem Sigurður býður upp á er ekki bundið við engilsaxneska markaðinn.  Hann beinir sjónum og heyrn að öllum heimshornum.    

  Heilu Plötuskápar Sigurðar hafa verið samanpakkað safn laga sem aldrei og hvergi er spilað í neinum útvarpsþætti í allri íslensku útvarpsflórunni.

  Oftar en einu sinni hefur Plötuskápur Sigurðar verið það spennandi að ég endurspila þáttinn upp í 7 - 8 sinnum á heimasíðu Rúv.  Ég hef líka bent ungum þungarokksunnendum á Plötuskápinn.  Sumir þeirra hafa aldrei áður stillt á Rás 2.  Húrra fyrir Rás 2!  Megi Plötuskápurinn lengi lifa sem góð rök fyrir því að Rúv sé útvarp allra landsmanna!

    

  Þó að þungarokk sé ekki meginstraumur (main stream) eins og létt rokk og popp þá nýtur það mikilla vinsælda.  Þungarokkshljómleikar eiga aðsóknarmet.  Til að mynda sóttu 12 þúsund hljómleika Rammstein í Laugardalshöll og 18 þúsund hljómleika Metallca í Egilshöll. 


mbl.is Þungarokkarar vilja að Plötuskápurinn lifi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála -  ,, Vitringarnir Þrír " verða að fá að halda áfram með Plötuskápinn, sem er ómissandi þáttur í tilverunni á Föstudagskvöldum. Það mætti alveg bæta meistara Kidda Rokk í Smekkleysu á þennan Plötuskáps-lista. Útvarp Saga virðist hafa farið illa með þann góða dreng eins og fleiri sem hafa starfað þar.  

Stefán (IP-tala skráð) 27.6.2014 kl. 08:26

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Hjartanlega sammála þette er þáttur sem maður nýtur í botn að hlusta á.

Sigurður Þorsteinsson, 27.6.2014 kl. 16:57

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán, að því er ég best veit þá er allt í góðum gír hjá Kidda Rokk. Hann stýrir útvarpsstöðinni Nálinni sem hægt er að hlusta á með því að fara inn á www.utvarpsaga.is .

Jens Guð, 28.6.2014 kl. 19:55

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður, svo sannarlega!

Jens Guð, 28.6.2014 kl. 19:58

5 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Stefán ég get alveg lofað því að Útvarp Saga hefur alls ekki farið illa með mig :-) Starfa enn sem dagskrárstjóri Vinyl og við erum með fína stöð sem hægt er að nálgast á netinu utvarpsaga.is. Höfum lagt mikla vinnu í þá stöð og starfsfólk og stjórnendur Sögu hafa stutt mig mjög mikið í þeirri vinnu og það er frábært að vinna með þessu fólki.

Kristján Kristjánsson, 28.6.2014 kl. 21:21

6 Smámynd: Jens Guð

Ég biðst velvirðingar á að hafa í fljótfærni og ógáti farið rangt með nafn útvarpsstöðvarinnar Vinyls í athugasemd #3

Jens Guð, 28.6.2014 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband