Plötugagnrýni

kalli tomm örlagagaldur

 

 

 

 

 

 

 

  - Titill:  Örlagagaldur

 - Flytjandi:  Kalli Tomm

 - Einkunn: ****

  Það var saga til næsta bæjar þegar rokksveitin Gildran í Mosfellsbæ snéri upp tánum fyrir tveimur árum. Hljómsveitin hafði átt farsælan feril í næstum hálfan fjórða áratug. Að auki höfðu trommuleikarinn Karl Tómasson og söngvarinn Birgir Haraldsson starfað saman í vinsælum hliðarverkefnum.  Til að mynda í hljómsveitunum 66 og Gildrumezz.

  Viðbrögð Karls við nýrri stöðu voru þau að hefja sólóferil.  Nokkuð bratt.  Trommuleikari sem hafði hvorki samið lög né sungið.  Hann henti sér út í djúpu laugina.  Snarar fram út hendinni sólóplötu með frumsömdum lögum er hann syngur dável.  Söngröddin er lágstemmd,  látlaus og þægileg.   

  Athygli vekur að Kalli trommar sjálfur aðeins í einu lagi - svo ágætur trommuleikari sem hann er.  Ásmundur Jóhannsson og Ólafur Hólm Einarsson sjá um trommuleik og áslátt að öðru leyti.  Eðalfínir í sínu hlutverki eins og allir aðrir sem að plötunni koma.

  Lögin bera engin merki þess að vera byrjendaverk.  Þvert á móti.  Þau hljóma eins og samin af þaulreyndum höfundi sem leikur sér með formið og vinnur í því.  Framvinda þeirra er ekki fyrirsjáanleg við fyrstu hlustun.  En þau vinna hratt á við ítrekaða spilun.  Flott lög,  hlýleg og notaleg.  Mig grunar að þau séu samin í slagtogi við kassagítarpikk.

  Tvö lög eru eftir Jóhann Helgason.  Eitt eftir Guðmund Jónsson (Sálin).  Þeir tveir eru í fremstu röð íslenskra lagahöfunda.  Það segir mikið um ágæti plötunnar að lög þeirra stinga ekki í stúf.     

  Eins og fleira sem vekur undrun við plötuna þá er hún róleg og ljúf.  Á um margt samleið með lítt rafmögnuðum vísnasöngvum.  Hljómsveitarferill Kalla liggur, jú, í hörðu og háværu rokki. Textarnir skerpa á samleið með vísnasöng.  Þeir eru að uppistöðu til vel ort ljóð sem geta flest hæglega staðið styrk á eigin fótum.  Höfundar eru Vigdís Grímsdóttir,  Bjarki Bjarnason og Kalli sjálfur.  

  Uppröðun laga er sérdeilis vel heppnuð.  Þegar hlustað er á plötuna í heild þá styðja lögin hvert annað.  Opnunarlagið,  Gríman grætur,  er ekki poppaðasta lag plötunnar - ólíkt því sem venja er á plötum. Þess í stað er það ofur rólegt og fallegt með kontrabassa,  flottri röddun Jóa Helga,  kassagítar gítarsnillingsins Tryggva Hübners og settlegu orgelspili Ásgríms Angantýssonar. Lokaagið,  Takk fyrir það,  er ekki hefðbundin "sing-a-long" ballaða heldur stemma strípuð niður í söng Kalla og kontrabassa Þórðar Högnasonar.  Það er virkilega töff.   

  Það er ekki fyrr en í þriðja lagi,  titillaginu,  sem leikar æsast.  Rafgítar Guðmundar Jónssonar er ágengur.  Hann kallast á við ásækið Hammondorgel Jóns Ólafssonar.  Gestasöngvari er Siggi "kjötsúpa".  Hann skilar sínu glæsilega.  Þetta er sterkasta lag plötunnar.

 Fleiri góðir söngvarar leggja hönd á plóg og setja svip á plötuna.  Þar á meðal Jóhann Helgason,  Kristjana Stefánsdóttir og Einar Hólm Ólafsson.  Vert er að geta þess að plötuumbúðir eru virkilega falleg hönnun hjá Pétri Baldvinssyni.  Þetta er vel heppnuð plata í alla staði og skemmtileg.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottur, ég heyrði frábært lag af plötunni í dag, vona að hún verði gerð að plötu vikunnar.  Kom frekar á óvart hvað hann er flottur söngvari.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.12.2015 kl. 18:53

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Kalli alltaf flottur bitinn eða óbitinn!!

Sigurður I B Guðmundsson, 15.12.2015 kl. 20:16

3 identicon

Flottur trommari sem hefur bitið það í sig að tromma ekki sjálfur á eigin sólóplötu, sem mér finnst galli. Annar mosfellingur, Ólafur Hólm er vissulega alveg magnaður trommari. Það var þó enn sárara að meistari Gunnar Jökull trommaði ekki á trommusett á sinni einu sólóplötu, sem hefði vissulega gert þá sérstöku kult plötu áhugaverðari til eignar og spilunar. 

Stefán (IP-tala skráð) 16.12.2015 kl. 08:28

4 identicon

Ólafur Hólm er Einarsson, ekki Ólafsson.

Ólafur Þór (IP-tala skráð) 16.12.2015 kl. 20:23

5 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil,  hún hlýtur að verða gerð að plötu vikunnar.

Jens Guð, 17.12.2015 kl. 12:44

6 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég kveiki ekki á perunni varðandi bitinn eða óbitinn.

Jens Guð, 17.12.2015 kl. 12:45

7 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  ég tek undir það.

Jens Guð, 17.12.2015 kl. 12:46

8 Smámynd: Jens Guð

Ólafur Þór,  bestu þakkir fyrir leiðréttinguna.

Jens Guð, 17.12.2015 kl. 12:46

9 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Karl var bitinn af nýrri tegund bitmýs á Íslandi í sumar og voru bæði birtar myndir af honum og viðtöl. 

Sigurður I B Guðmundsson, 17.12.2015 kl. 13:36

10 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

 Veit að þetta var dálítið langsótt en það er hægt að googla þetta og sjá myndirnar. (ekki fyrir viðkvæma)!!

Sigurður I B Guðmundsson, 17.12.2015 kl. 13:41

11 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég man núna að ég var eitthvað búinn að heyra af þessu.  Hehehe!  Vonandi er hann laus við bitvarginn í dag.  

Jens Guð, 17.12.2015 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband