Spaugilegar utanáskriftir

  Vegna skondinnar fréttar af utanáskrift á pósti frá erlendum ferðamanni til bóndabæjar á Vestfjörðum;  hann mundi hvorki bæjarnafnið né nafn viðtakanda.  Þess í stað teiknaði hann landakort af svæðinu og merkti bæjarstæðið.  Með fylgdu upplýsingar um heimilisfólkið og búfénað.

  Við lestur fréttarinnar kemur Anna frænka mín á Hesteyri upp í hugann.  Hún var lítið fyrir smáatriði þegar kom póstáritun.  Eitt sinn bjó ég í blokk á Grettisgötu 64.  Þá bar við að þangað barst þykkt umslag með ljósmyndum.  Á umslaginu stóð aðeins Heimilisfólkið á Grettisgötu.  Ekkert meira.  Og ekkert skrifað bréf með.  

  Umslagið hafði verið opnað.  Ég leit á myndirnar og þekkti strax mömmu og fleiri ættingja.  Það leyndi sér ekki að sendingin var til mín frá Önnu Mörtu á Hesteyri.  Við nánari athugun kom í ljós að sendingin hafði verið póstlögð mörgum mánuðum áður.  Póstburðarmaðurinn hafði leyst gestaþrautina snöfurlega:  Opnað umslagið og borið út í stigagang á Grettisgötu 1.  Næsta eða þar næsta dag var umslagið óhreyft en annar póstur kominn í réttar hendur. Póstburðarmanneskjan bar umslagið þá út á Grettisgötu 2.  Þannig koll af kolli uns kom að Grettisgötu 64.  

  Í annað sinn hringdi í mig ókunnug kona.  Henni hafði borist afar hlýlegt og elskulegt jólakort frá Önnu á Hesteyri.  Þær þekktust ekki neitt.  Þar að auki stóð utan á umslaginu aðeins nafn konunnar og Reykjavík.  Ekkert heimilisfang.  Konan hafði lesið eitthvað eftir mig um Önnu frænku og taldi mig geta leyst gestaþrautina.

  Ég vissi að Anna átti vinkonu í Kópavogi með þessu fornafni.  Sú var ekki í símaskránni.  Hinsvegar vissi ég að hún var í söfnuði Aðventista.  Þangað hringdi ég og fékk póstfang hennar.  Málið í höfn.

  Miðað við þessi tvö dæmi er líklegt að fleiri póstsendingar frá Önnu á Hesteyri hafi átt í erfiðleikum með að rata á leiðarenda.  


mbl.is Bréf án heimilisfangs slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Þær geta margar verið skemmtilegar og spaugilegar utanáskriftirnar. Þetta minnir mig á það, þegar ég vann eitt sumar á pósthúsinu í Pósthússtræti. Þá var mér sýnt þar umslag með utanáskrift til konu einnar, sem hafði dáið nokkrum mánuðum áður, og á umslaginu stóð þessi vísa við hlið utanáskriftarinnar: "Mikið yrði hún eflaust fegin, sú fína frú, ef heimilisfangið hinum meginn hefðir þú." - Póstmennirnir geymdu þetta, sögðu þeir, þar sem þeim fannst þetta skondið og skemmtilegt. Ég minnist þess líka, að ein kunningjakona móður minnar skrifaði einhvern tíma jólakort til fjölskyldunnar, en vissi ekki heimilisfangið, enda foreldrar mínir þá nýfluttir í nýbyggt hús hér vestur á Högum. Þessi kunningjakona móður minnar þekkti húsið, þótt hún væri ekki viss um við hvaða haga það stóð, svo að hún hafði tekið sér leigubíl og vísað honum rétta leið að húsinu, þar sem hún afhenti móður minni jólakortið. Það má alltaf bjarga sér einhvern veginn í svona vandræðum!

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2016 kl. 10:58

2 Smámynd: Jens Guð

Guðbjörg,  takk fyrir skemmtilega sögu.

Jens Guð, 1.9.2016 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.