Minningarorð

 

  Söngvari Baraflokksins, Ásgeir Jónsson, féll frá núna 3ja maí.  Hann var 59 ára.  Baraflokkurinn stimplaði Akureyri rækilega inn í rokksöguna á nýbylgjuárunum upp úr 1980.  Árunum sem kennd eru við "Rokk í Reykjavík".  

  Geiri var laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar og allt í öllu.  Frábær söngvari og frábær tónlistarmaður.  Hann vissi allt og kunni í músík. Hljómsveitin átti sinn auðþekkjanlega hljóm;  blöndu af pönkuðu nýróman-kuldarokki.  

  Ég kynntist Geira þegar hann var hljóðmaður Broadway á Hótel Íslandi um aldamótin (þekkti hann reyndar lítillega áður til margra ára).  Ég bjó í næsta húsi.  Þar á milli var hverfispöbbinn Wall Street.  Þegar færi gafst frá hljóðstjórn brá Ásgeir sér yfir á Wall Street.  Þar var bjórinn ódýrari og félagsskapurinn skemmtilegri.    

  Vegna sameiginlegrar músíkástríðu varð okkur vel til vina.  Stundum slæddist Ásgeir heim til mín eftir lokun skemmtistaða.  Þá hélt skemmtidagskrá áfram.  Það var sungið og spilað.  Einnig spjölluðum við um músík tímunum saman.  Einstaka sinnum fékk Ásgeir að leggja sig heima hjá mér þegar stutt var á milli vinnutarna hjá honum, skjótast í sturtu og raka sig. 

  Geiri var snillingur í röddun.  Sem slíkur kom hann við á mörgum hljómplötum.  Hann var einnig snillingur í að túlka aðra söngvara.  Það var merkilegt.  Talrödd hans var hás (að hans sögn "House of the Rising Sun").  Engu að síður gat hann léttilega sungið nákvæmlega eins og "ædolin" David Bowie og Freddie Mercury.

  Eitt sinn fór Bubbi Morthens í meðferð.  Upptaka af hluta úr söng hans á plötunni "Konu" glataðist.  Búið var að bóka pressu í Englandi en ekki mátti ræsa Bubba út.  Geiri hljóp í skarðið.  Söng það sem á vantaði.  Það er ekki séns að heyra mun á söngvurunum.  Þetta er leyndarmál.

  Geiri var einstaklega ljúfur og þægilegur náungi.  Eftir að Broadway lokaði vann hann á Bítlapöbbnum Ob-La-Di.  Það var gaman að heimsækja hann þar.  Hann lék ætíð við hvurn sinn fingur. 

  Fyrir nokkrum árum urðum við samferða í geislameðferð vegna krabbameins.  Ég vegna blöðruhálskirtils.  Hann vegna krabbameins í raddböndum og síðar einnig í eitlum.  Við kipptum okkur lítið upp við það.  Við töluðum bara um músík.  Ekki um veikindi.  Enda skemmtilegra umræðuefni. 

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var og er mikill aðdáandi Baraflokksins og eignaðist allar þrjár plötur þeirra sem ég spilaði upp til agna. Núna hlusta ég á safndiskinn þeirra Zahír og svo er öll lög þeirra að finna á Spotify. Einnig eru nokkur video með þeim að finna á youtube. Ég var svo heppinn að sjá Baraflokkinn nokkrum sinnum á hljómleikum, m.a. á frábærum hljómleikum þeirra Gauk á Stöng árið 2000. Þar komu þeir fram eftir 16 ára hlé í tilefni útgáfu Zahír. Fyrsta plata þeirra er hrárri og rokkaðri en þær seinna, en síðasta plata þeirra Gas stendur upp úr hvað tónsmíðar varðar og svo frábæran hljóm. Alls staðar er harður og flottur JJ Burnel bassaleikur Balla áberandi og söngur Ásgeirs lifir sem einn sá allra flottasti sem komið hefur fram hér á landi. Það segi ég sem deildi með honum mikilli aðdáun á David Bowie og Freddie Mecury. Það er mér óskiljanlegt afhverju þessi magnaði tónsmiður og söngvari lauk að mestu tónlistarferlinum árið 1984, en þessi frásögn þín Jens af söng hans á plötunni Kona er mögnuð. Ég þakka listamanninum Ásgeiri kærlega fyrir mig og votta aðstandendum samúð mína.  

Stefán (IP-tala skráð) 8.5.2022 kl. 10:15

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Falleg minningarorð og til hamingju með afmælið Jens.

Sigurður I B Guðmundsson, 8.5.2022 kl. 11:59

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir "kommentið".

Jens Guð, 8.5.2022 kl. 13:59

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  takk fyrir það.

Jens Guð, 8.5.2022 kl. 14:00

5 identicon

Ég var að hlusta á Pressuna með Andreu Jóns á Rás 2. Hún var að minnast Ásgeirs og fleiri látinna listamanna. Sagði frá því að Ásgeir heitinn Jóns og Geiri heitinn Sæm ( Sæma Rokk ) hefðu verið náfrændur og að hún hefði farið á David Bowie tribute hljómleika með þeim frændum báðum í sitthvoru lagi, enda hefði Bowie haft mikil áhrif á þá báða ,, rétt eins og bara alla ,, eins og Andrea orðaði það réttilega. 

Stefán (IP-tala skráð) 8.5.2022 kl. 15:22

6 Smámynd: Jens Guð

Stefán (# 5),  takk fyrir að minna mig á Pressuna.  Andrea er alltaf frábær!

Jens Guð, 8.5.2022 kl. 18:54

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Takk fyrir þessi fallegu minningarorð og fróðleikinn. Ég samhryggist þér vegna fráfalls Ásgeirs. Hafði alltaf gaman að Baraflokknum á unglingsárunum og í kringum tvítugt. Hrátt og kröftugt rokkið frá þeim höfðar enn til mín, en fyrst og fremst eru það minningarnar sem hlýja. Eins og það er svo oft með tónlist - minningarnar eru það sem tengir mann við lögin, meira en flest annað.

Man eftir einum á Ísafirði sem vann í Íshúsinu, þegar hann var spurður hvað hann héti svaraði hann að venju: Bara Gummi. Hann var alltaf kallaður Bara Gummi eftir það. Við veltum því fyrir okkur hvort hann hafi verið í Baraflokknum.smile

Athyglivert þetta leyndarmál sem þú afhjúpar, um að Geiri hafi hlaupið í skarðið fyrir Bubba - sem er þá tæplega leyndarmál lengur.cool Skil hvað þú ert að fara samt sem áður, sýnir hvað hann var góður söngvari.

Theódór Norðkvist, 8.5.2022 kl. 20:05

8 Smámynd: Jens Guð

Theódór,  takk fyrir innleggið.

Jens Guð, 9.5.2022 kl. 08:19

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ekkert að þakka. Hef tekið eftir að Bara flokkurinn virðist almennt vera skrifað sem tvö orð og flokkurinn með litlu effi. Ég skrifaði nafnið fyrst sem eitt orð, sem er samkvæmt þessu rangt og leiðréttist það hér með.

Ég hélt jafnvel að nafnið á hljómsveitinni hefði annað hvort með eðlisfræði að gera - samanber bar eða millibar, þrýsting í háloftunum og í bíldekkjum - eða öldurhús.cool

Fyrir utan líklegustu merkinguna, þ.e. aðeins flokkurinn. Eflaust hefur nafnið verið hugsað sem orðaleikur, þannig að það mætti túlka það á ýmsa vegu. Jens leiðréttir mig, ef ég hef rangt fyrir mér.

Theódór Norðkvist, 9.5.2022 kl. 11:00

10 Smámynd: Jens Guð

Theódór (# 9),  á plötum hljómsveitarinnar er nafnið skrifað sem 2 orð.  Hinsvegar eru myndbönd hennar skráð undir einu orði.  Sömuleiðis fasbók hennar,  Wikipedia og þar sem liðsmenn skrifa sjálfir um hana.  Þegar ég gúgla nafnið í 2 orðum koma upp 3000 síður.  En þegar ég slæ það inn sem eitt nafn koma upp 13500 síður.  Síðan koma upp 12500 síður þegar nafnið er með bandstriki.  Þú hefur áreiðanlega rétt fyrir þér að um orðaleik sé að ræða án þess að strangar reglur gildi um hvernig nafnið er skrifað.    

Jens Guð, 9.5.2022 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband