Bönnuð lög

  Embættismönnum með vald þykir fátt skemmtilegra en að banna eitthvað.  Bannið kitlar og embættismaðurinn fær að þreifa á valdi sínu.  Tilfallandi bönn eldast illa að öllu jöfnu.  Eitt af því sem útvarpsstjórnendur víða um heim hafa skemmt sér við er að banna spilun á lögum og jafnvel heilum plötum. 

  Upp úr miðri síðustu öld urðu íslenskir útvarpsstjórnendur duglegir að banna lög.  Þeir héldu því áfram alveg fram á miðjan níunda áratuginn.

  Meðal - á annan tug - bannaðra laga var fyrsta íslenska rokklagið,  "Vagg og velta" (illa ortur texti),  svo og "Allt á floti allsstaðar" (klám) og "Ég er kokkur á kútter frá Sandi" (heimilisofbeldi).  Tvö lög á fyrstu plötu Trúbrots voru bönnuð.  Annað vegna þess að illa þótti farið með lag eftir Wagner.  Hitt út af því að orðið kýr var rangt fallbeygt. Eins gott að Sálin söng ekki fyrr en löngu síðar:  "Haltu ekki að þér hönd!".

 

  Fróðlegt er að rifja upp nokkur lög sem voru ýmist bönnuð í Bretlandi eða Bandaríkjunum:

  Mörg Bítlalög voru bönnuð í Bretlandi.  Þar á meðal "Lucy In Sky With Diamonds" (LSD dóp),  "A Day In The Life" (hassreykingar), "Happiness Is A Warm Gun" (klám),  "I´m The Walrus" (klám),  "Back In The USSR" (Sovétáróður) og "Come together" (Coca Cola auglýsing.  "Lola" með The Kinks var bannað af sömu ástæðu).    

 

  Eftir að Bítlarnir héldu í sólóferil var enn verið að banna lög þeirra.  "Imagine" með John Lennon (áróður gegn hernaði) og "Give Ireland Back To The Irish" með Paul McCartney (áróður fyrir aðskilnaði Norður-Írlands og Bretlandi).

  Lagið "Puff The Magic Dragon" með Peter, Paul & Mary var bannað samkvæmt skipun frá þáverandi varaforseta Bandaríkjanna,  Spiro Agnew.  Hann sagði þetta vera dóplag.  Bannið margfaldaði sölu á laginu.  Höfundarnir,  Peter og Paul,  hafa alltaf fullyrt að textinn hafi ekkert með dóp að gera.  Hann lýsi bara uppvexti unglings.

  "My Generation" með The Who var bannað vegna þess að söngvarinn leikur sér að því að stama.  Það var skilgreint sem árás á fólk með talgalla.  Ég stamaði mjög sem barn og geri töluvert af því enn.  Samt í mildari útgáfu með aldrinum.  Ég afgreiði stamið meira eins og hik í dag.   Mér þykir gaman að stama og elska lög eins og "My Generation" og "You Ain´t See Nothing Yet".  

  Upphaflega kom stamið hjá söngvaranum,  Roger Daltey,  óviljandi til af því að hann kunni ekki textann almennilega.  Öðrum þótti stamið setja skemmtilegan svip á flutninginn.

  Bandarísku ljúflingarnir í Blondie máttu sæta því að lagið "Atomic" var bannað.  Þótti vera gegn hernaði.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta var magnað Jens. Þakka þér fyrir þennan fróðleik. Svo var franska lagið: Je Taime bannað held ég út af miklum stunum í því lagi. 

Sigurður I B Guðmundsson, 26.6.2022 kl. 10:06

2 identicon

Það er alveg makalaust að hugsa út í það í dag hvernig gamaldags þröngsýni varð til þess að ýmis dægurlög voru bönnuð í Ríkisútvarpinu á sínum tíma. Þannig var rispað með nagla yfir sum lög á vinylplötum í eigu RÚV svo ekki væri hægt að spila þau. Ofsi tónlistarstjórnenda RÚV á þessum árum hlýtur að hafa verið að sumu leiti eins og hjá stjórnendum sértrúarsafnaða. Ég átti fyrstu plötu Trúbrot á vinyl og minnir að þar sé þess ekki getið að lagið Elskaðu Náungann sé byggt á Pílagrímakórnum úr Tannhauser eftir Richard Wagner og lagið bara skrifað á Karl Sighvats. Á CD sem ég á með þessu lagi er þess hinsvegar réttilega getið og að útsetning lagsins sé Karls Sighvats. Allavega var þetta lag bannað bæði í flutningi hljómsveitanna Trúbrot og Ævintýri. Það var auðvitað ekki bara hjá RÚV sem svona þrönsýni varð til þess að lög voru sett á bannlista. Þannig voru lögin God Only Knows með Beach Boys og Dear God með ensku hljómsveitinni XTC bönnuð á útvarpsstöðum víða í Bandaríkjunum út af ,, God ,,. Lagið L.S.D með ensku hljómsveitinni Pretty Things var bannað á sömu forsemdum og bítlalagið Lucy In The Sky ... Lagið Hi, Hi, Hi með Wings var bannað út af textabrotinu ,, we are gonna Be high, high, high ,, en Paul hafði valið titilinn Hi, Hi, Hi til þess að lagið yrði ekki bannað - tókst samt ekki. Syd Barrett úr Pink Floyd misnotaði sannarlega LSD, en lag hans Arnold Layne var samt ekki bannað út af því, heldur vegna þess að textinn fjallar um þjóf sem stal gjarnan kvenmanns nærfötum til að klæðast sjálfur. Reyndar var textinn byggður á sannri sögu. Svo eru mörg gæðalög sem fjalla að einhverju leiti um fíkniefni ( einskonar lofsöngvar ), sem ekki voru bönnuð. Tvö síðustu lögin á meistaraverkinu Revolver með Bítlunum má flokka sem slíka lofsöngva. Sálaragið Got To Get You In To My Life eftir Paul er óður til maríuana og texti sýrurokkarans Tomorrow Never Knowes eftir John er byggður á bók um LSD og fleiri ofskynjunarefni. Ég mæli alls ekki með notkun á slíkum efnum, en er samt þakklátur fyrir hversu mikið af frábærri tónlist varð til við neyslu á allskonar dópi og ofskynjunarlyfjum. 

Stefán (IP-tala skráð) 26.6.2022 kl. 10:45

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  já,  franska lagið var bannað þvers og kruss út um allan heim.

Jens Guð, 26.6.2022 kl. 13:47

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir fróðleikinn.

Jens Guð, 26.6.2022 kl. 13:47

5 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

,,Franska lagið" er auðvitað ,,Je t'aime, moi non plus" sem hjónakornin Serge Gainsbourg og Jane Birkin sungu saman. Þar fer ekki á milli mála hvað er í gangi. Löngu seinna tók breskt blað viðtal við Jane Birkin og þá kom í ljós að hún skildi hvorki upp né ofan í ljóðrænum og háerótískum texta eiginmannsins, sem hún hafði þó sungið: ,,Je vais et je viens entre tes reins" er viðlag. Þetta ætti að þýða sem: ,,Ég fer inn og út á milli lenda þinna"! Hún fletti ,,rein" upp í vasaorðabók og fékk út: Ég kem og fer á milli nýrna þinna! 

Í Þýskalandi er frægasta rokklag allra tíma væntanlega ,,Marmor, Stein und Eisen bricht" (aber meine Liebe nicht). (Marmari, steinn og járn brotnAR, en ekki ást mín til þín).

Þetta er slagari eftir söngvarann Drafi Deutscher frá 1965 og var notaður í bíómynd. Ríkisstjórnin í hinu íhaldssama Bæjaralandi, sem telur 12 milljón íbúa, bannaði þetta lag af mjög sérstakri ástæðu. 

Ráðherra menntamála vildi meina að þarna hefði átt að standa: Marmor, Stein und Eisen brechen... þ.e. að sögnin hefði átt að standa í fleirtölu (þó rímið væri þarm með fyrir bí!). Til að bjarga æskulýðnum frá því að taka þessa ósvinnu til fyrirmyndar dugði ekki minna en að banna lagið!

Sæmundur G. Halldórsson , 26.6.2022 kl. 20:41

6 Smámynd: Jens Guð

Sæmundur,  takk fyrir skemmtilegan fróðleik.

Jens Guð, 26.6.2022 kl. 20:44

7 identicon

Hvað heitir hann strákurinn er song fækkaði fötum og sýndu mér líkamann nakinn,vertu í,því einu Sen náttúran ætlaði þér,Hann pabbi hann er prestur ja og ekki er ég sem verstur ja....man ekki framhaldið þétta var bannað.

Margret (IP-tala skráð) 26.6.2022 kl. 22:31

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lagið Karlagrobb var bannað og útstrikað í útvarpinu og þar með lagið hinum megin á plötunni.    

Á stærri plötu síðar var það ráð tekið fyrirfram að rispa yfir tvö lög, Syrpu um allan fjandann og Greyið Jón, til að minnka hættuna á því að öll þessi tólf laga plata yrði bönnuð. 

Ómar Ragnarsson, 26.6.2022 kl. 23:08

9 Smámynd: Jens Guð

Margrét,  þú ert að tala um Hannes Jón.  Doddsson þýddi textann.  Þetta var upphaflega flutt í Útvarp Matthildi en var bannað er það kom út á plötu.

Jens Guð, 27.6.2022 kl. 07:56

10 Smámynd: Jens Guð

Ómar,  takk fyrir upplýsingarnar.

Jens Guð, 27.6.2022 kl. 07:57

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það var Peter Sarstedt sem söng Take Off Your Clothes. Veit ekki hvort Margrét átti við það lag, en ég veit ekki hvort það hafi verið bannað, þ.e.a.s. enska útgáfan. Hef ekki sjálfur heyrt það í mörg ár, en man eftir því frá (síð)unglingsárunum.

Íslensku útgáfuna þekki ég ekki, þó hún hafi verið þýdd af D(avíði?)oddssyni. Var íslenska útgáfan sem sagt bönnuð? Að öðru, sé að einhverja þætti af Útvarpi Matthildi er að finna á YouTube, verð að kíkja á þá við tækifæri.

PS Kannski ekki rétt að tala um að kíkja, ef um er að ræða útvarp. Þó er væntanlega einhver stillimynd ef þættirnir eru á YouTube og maður horfir á hana, a.m.k. í einhverjar sekúndur.cool

Theódór Norðkvist, 28.6.2022 kl. 01:16

12 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  ég held að lagið hafi ekki verið bannað í flutningi Peters.  Það fór lítið fyrir því.  Til að mynda kom það aðeins út á B-hlið smáskífu og var því ekki í spilun á BBC.  Eitt sinn hitti ég Peter í Reykjavík.  Hann bjó til nokkurra ára hér á 8-unni (níunda áratugnum).

  Íslenska útgáfan var bönnuð.  Þótti klámfengin. 

Jens Guð, 28.6.2022 kl. 08:08

13 identicon

Fyrsta lagið, sem ég man að ver bannað hét "Ég vildi ég væri hænuhanagrey." Platan var brotin í beinni útsendingu.

Bjarni (IP-tala skráð) 17.7.2022 kl. 22:41

14 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  já,  og það voru hlustendur sem kusu lagið út af borðinu.

Jens Guð, 18.7.2022 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband