Skemmtisögur

 

  Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur.  Hún er kyrfilega merkt tölunni 6.  Undirtitill er Fjörið heldur áfram.

  Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar.  Þær eru á þriðja hundrað.  Þær er ljómandi fjölbreyttar.  Sumar með lokahnykk (pönslæn).  Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu.  Svo eru það stökurnar,  limrurnar og lengri vísur.   

  Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn.  Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni.  Þó ekki alla.  Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu. 

  Hér eru nokkur sýnishorn:

  Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956.  Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum.  Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi,  einkum á annatíma.

  Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala.  Reyndist það vera Baldur,  en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann.  Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn,  Vilhelm símstöðvarstjóra.  Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.

  Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum,  en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.

  "," svaraði Baldur,  "ég er að koma mér að efninu."  Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:

  "En án gamans, er amma dauð?"

  Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins,  er alinn upp í Óslandshlíðinni.  Ungur að árum,  líklega 16 ára,  var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga,  Hlíðarhúsinu.  Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds.  Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli.  Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.

  Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu.  Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns.  Þá mun sú gamla hafa svarað: 

  "Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"

  Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um.  Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal.  Þetta var að vori til.  Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum.  Guddi greip gaffal og bar hnausana út.  Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna,  sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum.  Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði: 

  "Hvers vegna reykir þú svona mikið,  Guddi?"

  Hann svaraði um hæl:

  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

  Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum,  sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu.  Hann var þá með eitthvað af vinnufólki,  enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli. 

  "Ja,  það drapst hér kerling í nótt,"  svaraði Steingrímur við gestinn,  og bætti við:  "Og önnur fer bráðum."

  Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra,  þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson.  Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán.  Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum,  sem klæddust jakkafötum á vinnudegi!  Helgi sagði ástæðu fyrir því.

  "Sko," sagði hann,  "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."

  Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda.  Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"

  Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum.  Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um.  Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð,  kallaður Jón kippur,  en það hefur ekki fengist staðfest.  Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur,  en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina.  "Stendur eitthvað til?"  spurði konan og maðurinn svaraði: 

  "Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!" 

 

Skagfirskar-6


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar undirritaður var 17 ára gamall fór ég í ökukennslu hjá Dodda löggu á Akureyri en kennslan fólst í því að skutla Dodda fimm sinnum í alls kyns útréttingar í miðbæ Akureyrar á hans eðalvagni, Volkswagen bjöllu.

Og samkvæmt ökuskírteini undirritaðs voru þessar útréttingar á Bjöllunni mikils virði, þar sem ég má nú aka rútum og gríðarstórum flutningabílum með tengivagna svo langt sem augað eygir.

Nýbúinn að fá ökuskírteinið ákvað ég að fjárfesta í bifreið en sparnaður minn í Sparisjóði Svarfdæla á Dalvík hafði brunnið upp í verðbólgubálinu hér á Klakanum.

Á þessum tíma var undirritaður í Menntaskólanum á Akureyri og enda þótt ég hefði aldrei verið með reikning í Búnaðarbankanum fór ég til útibússtjóra bankans í bænum til að slá lán fyrir sjálfrennireiðinni.

Útibússtjórinn var með mikinn fýlusvip, greinilega búinn að neita öllum um lán þann daginn, og hreytti út úr sér: "Hér eru engir peningar til!"

"Nú, hvað eruð þið þá búnir að gera við peningana sem ég hef lagt hér inn?!", spurði ég þá karlinn, sem var ekki hrifinn af því að vera vændur um þjófnað og undirritaður fékk lánið.

Verðbólgan hér á Klakanum 1940-2008

Þorsteinn Briem, 4.12.2022 kl. 09:33

2 Smámynd: Jens Guð

Þorsteinn,  takk fyrir skemmtilega sögu!

Jens Guð, 4.12.2022 kl. 09:52

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góð saga hjá Steina ásamt öllum hinum..laughing

Sigurður Kristján Hjaltested, 4.12.2022 kl. 13:22

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 4.12.2022 kl. 15:08

5 identicon

Skemmtilegar sögur!

Steini góður!

Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 5.12.2022 kl. 08:40

6 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  takk fyrir það!

Jens Guð, 5.12.2022 kl. 09:02

7 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Alltaf betra að skemmtisögur séu skemmtilegar!!

Sigurður I B Guðmundsson, 5.12.2022 kl. 17:15

8 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  góð ábending!

Jens Guð, 5.12.2022 kl. 17:36

9 identicon

Margir segja að Kristrún Frostadóttir sé bjartasta von Íslands á Alþingi og hún er einmitt ættuð úr Skagafirði. 

Stefán (IP-tala skráð) 8.12.2022 kl. 19:53

10 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þetta vissi ég ekki.

Jens Guð, 9.12.2022 kl. 09:14

11 identicon

Kannski er þetta með ætterni Kristrúnar ekki rétt hjá mér, en það væri þá bara plús ef rétt væri, ekki satt ? 

Stefán (IP-tala skráð) 9.12.2022 kl. 11:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.