Erfiður starfsmaður

  Nonni er rafvirki.  Á dögunum bættist á hann stórt verkefni í nýbyggingu.  Hann auglýsti eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax.  Sá fyrsti sem hringdi var ráðinn.  Honum var sagt að mæta til vinnu klukkan 9 næsta morgunn. 

  Klukkan var eitthvað gengin í 11 er starfsmaðurinn,  ungur maður,  mætti.  Hann útskýrði málið:  "Ég lagði af stað á réttum tíma út á strætóstöð.  Þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga."

  Nonni sagði að það væri mikilvægt að starfsmenn séu mættir klukkan 9.  Hann sýndi rafvirkjanum hvar setja átti upp margar innstungur. 

  - Sýndu mér hvernig þú setur upp eina innstungu,  bað drengurinn.

  - Þú kannt að setja upp innstungu,  fullyrti Nonni.

  - Já,  auðvitað.  Mig langar bara að sjá hvernig þú gerir það.

  Nonni setti upp innstungu.  Hinn fylgdist með og tók svo við.  Honum lynti strax vel við vinnufélagana og stimplaði símanúmer þeirra inn í símaskrá sína.  Þeir voru alls sjö. 

  Daginn eftir var hann ekki mættur klukkan 9.  Hálftíma síðar hringdi hann í vinnufélaga.  Bað hann um að sækja sig.  Nonni blandaði sér í símtalið.  Sagði að ekki kæmi til greina að starfsmenn sæki hvern annan í vinnutíma. 

  -  Já,  já.  Ég er sammála því,  svaraði drengur.  Vinnufélaginn hefur misskilið mig.  Ég var að tilkynna veikindi.  Ég er með svaka hausverk.

  Næsta dag mætti hann sprækur klukkan 10.  Sagði að strætóferð hafi fallið niður. 

  Eftir hádegi þurfti Nonni að bregða sér frá í nokkra tíma.  Hann setti starfsmönnum fyrir verkefni.  Þegar hann snéri aftur blasti við að ungi rafvirkinn hafði fátt gert.  Nonni spurði hvað væri í gangi. 

  - Ég er búinn að vinna á fullu,  fullyrti piltur.  Einhvernvegin hefur verkið samt unnist hægt.  

   Verkefnið var komið í tímaþröng.  Ákveðið var að vinna fram á kvöld.  Um kvöldmatarleytið hélt vinnuflokkurinn á veitingastað með heimilismat.  Strákur mótmælti.  Sagðist aldrei borða kartöflumat á kvöldin.  Hann óskaði eftir pizzu.  Honum var boðið að fara á pizzustað á eigin kostnað.  Vinnuflokkurinn væri hinsvegar á samningi við heimilismatstöðina.  Kauði átti ekki pening og snæddi með ólund.

   Ekki bólaði á honum daginn eftir.  Nonni hringdi í hann.  Afsökun hans var:  "Mér er illt í maganum af því að ég fékk ekki pizzu.  Ég varaði þig við að ekki eigi að borða kvöldmat með kartöflum.  Þú tókst ekki mark á því.  Þetta er þér að kanna!"

  Nonni sagði honum að mæta aldrei aftur á staðinn.  Um mánaðarmótin mætti hann þó til að sækja kaupið sitt.  Kennitala hans leiddi í ljós að hann var aðeins 17 ára.  Hann viðurkenndi að vera ekki rafvirki og hefði aldrei komið nálægt rafmagni áður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Vinur minn sem var að vinna við lyftu á Kleppi var mikill grallari. Eitt sinn sér hann starfstúlku koma labbandi eftir ganginum sem hann var að vinna og byrjar að láta illa eins og hann væri sjúklingur. Hún kemur til hans og byrjar að hugga hann en þá grípur hann hana lyftir henni upp og hleypur um salinn með hana í fanginu og hún æpti og öskraði. Hann lét hana niður og baðst afsökunar á þessari uppákomu. Hann fékk áminningu frá fyrirtækinu og yfirmanni Klepps og lofaði að gera þetta ekki aftur. 

Sigurður I B Guðmundsson, 5.11.2024 kl. 10:56

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nonni hefði átt að athuga með manninn sem átti að vera rafvirki hvort hann væri í "stuði" það hefði sparað honum mikið vesen.  "Það er  nefnilega sagt að rafvirkjar séu alltaf í STUÐI"........

Jóhann Elíasson, 5.11.2024 kl. 11:59

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  takk fyrir skemmtilega sögu!

Jens Guð, 5.11.2024 kl. 12:46

4 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  Nonni lærði sína lexíu af þessu.  Nú tortryggir hann allt og alla.

Jens Guð, 5.11.2024 kl. 12:47

5 identicon

Starfsmaður var ráðin til vinnu og stóð sig þokkalega. Það var þó einn hængur á, hann gat aldrei mætt á rettum tíma og fékk skammir frá verkstjóranum en ekkert breyttist. Að lokum brast þolimæði verkstjórans sem sagði við starfsmanninn "heyrð væni þú þarft ekkert að mæta á mánudaginn". "nú OK" var svarið. Svo var hann mættur á þriðjudeginum - of aeint.

Svo var það einn vunnufélgi minn sem fór í svallferð til Spánar eins og tíðkaist þá hjá Íslendingu. Keypti sér þar Superman-búning og mætti vel staupaður í heimflugið. Þegar vel var liðið á heimflugið brá hann sér á klósettið og skellti sér i  búninginn.  Gékk síðan að næstu flugfreyju og sagði "gætirðu opnað dyrnar?, ég þarf að flýta mér heim"

Bjarni (IP-tala skráð) 5.11.2024 kl. 18:55

6 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  góður!

Jens Guð, 5.11.2024 kl. 22:32

7 identicon

Þegar ég las um þennan erfiða starfsmann fannst mér ég kannast við sögur af þessum kauða. Nú er ég nokkuð viss um að þær sögur hafi verið ættaðar frá Akranesi og ætla ég þvíað staðsetja kauða þar. 

Stefán (IP-tala skráð) 5.11.2024 kl. 22:45

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  það stemmir.

Jens Guð, 6.11.2024 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.