Furðulegur hundur

  Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum.  Úti var grenjandi rigning og kalsaveður.  Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús.  Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.

  Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni.  Sá var snöggur að þiggja boðið.  Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa.  Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf.  Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann.  Maðurinn steig dansspor með honum.  Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann.  Þetta vakti kátínu.  Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni.  Það var eins og blessuð skepnan skildi;  stökk upp á svið og lagði sig á ný.

  Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim.  Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn.  Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði.  Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.

  Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út.  Sá virtist alsáttur.  Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar.  Þetta endurtók sig.  Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians;  sagði hund stara inn um glugga hjá sér.   Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða.  Kannski ætti hún að gefa honum matarbita.  Kristian tók vel í það.  Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.

  Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima.  Hundurinn strauk strax aftur til hans.  Þetta endurtók sig.  Neyðarráð var að koma voffa út í sveit.  Í lítið þorp,  Kirkjubæ.

  Meira um dýrið á morgun.   

voffi       


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það má ekki rétta "sumum" litlafingur, þá taka þeir ALLA höndina..... cool

Jóhann Elíasson, 7.1.2025 kl. 09:54

2 identicon

Lesandi um dansandi hund dettur mér í hug Bjarni nokkur og Katrín sem stigu saman villta dansa í ein sjö ár og gekk þeim æði misjafnlega að halda réttum takti. Jafnvel dönsuðu þau hreinlega út í móa og mela og lentu í allskonar ævintýrum. Bjarni missti stundum fótanna og missteig sig, en Katrín dró hann jafnharðan upp, gafst þó upp að lokum og vildi fá að dansa ein á enn stærra sviði. Það tókst henni þó ekki og Bjarni var ekki samur án hennar. Nú er svo komið að hann ætlar að dansa alveg út af sviðinu og hverfa í gleymskunnar dá rétt eins og Katrín - úti er ævintýri.    

Stefán (IP-tala skráð) 7.1.2025 kl. 10:00

3 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  svo sannarlega!

Jens Guð, 7.1.2025 kl. 10:02

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir þessa fréttaskýringu.

Jens Guð, 7.1.2025 kl. 10:03

5 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta minnir mig á..geggjaða búfræðinginn sem varð að hætta því honum varð svo illt í "kálfunum"!

Sigurður I B Guðmundsson, 7.1.2025 kl. 13:27

6 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  þessi er lúmskur!

Jens Guð, 7.1.2025 kl. 13:56

7 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Meira á morgun!!!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 7.1.2025 kl. 17:20

8 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B (#7),  ég hlakka til.

Jens Guð, 7.1.2025 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.