Anna á Hesteyri - IV

  Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð eystri einn brattasti,  versti og hættulegasti vegur landsins.  Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku,  frændi okkar Önnu,  að leggja í hann niður í fjörðinn.  Það var svartaþoka og Vilhjálmi kveið fyrir því að aka niður þennan hættulega veg án nokkurs skyggnis. 

  Hann var ekki langt kominn er hann ók fram á bíl Önnu á Hesteyri sem fór löturhægt.  Anna keyrði alltaf óeðlilega hægt.  En þarna fór hún bara fetið.  Allt í einu gaf hún þó hressilega í og brunaði inn í þokuna.  Vilhjálmi var brugðið.  Hann var sannfærður um að Anna hefði ekki möguleika á að halda bílnum á veginum á þessari ferð.  Síst af öllu með ekkert skyggni. 

  Vilhjálmur ákvað að tapa ekki sjónum af Önnu til að geta komið að slysstað þegar Anna flygi út af veginum.  Skelfingu lostinn þurfti Vilhjálmur að hafa sig allan við að halda sínum bíl á veginum.  Munaði þar mestu um að hann gat fylgt afturljósunum á bíl Önnu.  Greinilegt var að eitthvað hafði komið fyrir Önnu því hún bara jók hraðann.

  Vilhjálmur lét ekki eftir sér að kíkja á hraðamælinn.  Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af veginum.  En þau Anna óku hræðilega hratt og á margföldum hraða miðað við aðstæður.

  Þegar þau komu niður í dal ók Anna út í kannt og stöðvaði bílinn.  Vilhjálmur gerði það sama og hljóp að bíl Önnu.  Þar reif hann upp hurðina bílstjóramegin og spurði hvað væri eiginlega í gangi.  Til að byrja með kom Anna ekki upp orði.  Hún var í losti,  andaði eins og físibelgur og starði í angist á Vilhjálm.  Loks tókst henni að stynja upp:
 
  "Ég óttaðist að þú myndir reyna að taka framúr mér.  Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur.  Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna að taka framúr.  Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra þig í að reyna framúrakstur." 

Aðrar sögur af Önnu á Hesteyri:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/398785

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/398589

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/337158

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur, sem hefur sérhæft sig í loðnu, er sonur Vilhjálms Hjálmarssonar, fyrrverandi alþingismanns. Ég átti eitt sinn hús hér í Reykjavíkinni ásamt syni Hjálmars. Sómafólk, allt það fólk. Í Svarfaðardalnum keyrðu menn stundum samkvæmt munnmælum og sögusögnum þegar óljóst var hvar vegurinn lá en það kom ekki að sök, því þær voru áreiðanlegar, eins og afi sagði. Loðnan er hins vegar ekki eins áreiðanleg og Hjalli fékk oft að kenna á svikum og undirferli þeirrar bjánalegu skepnu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 18:17

2 identicon

Verð bara að kommenta á hvað Gyllinæð er svakalega svakaleg hljómsveit, þetta lag þarna "Djöflakarl" er að rúla! Hvar fæ ég meira?

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 20:20

3 Smámynd: Jens Guð

  Runólfur,  ég vona að þið hafið ekki fengið í magann ef þið þáðuð veitingar hjá Önnu.  Hún er svo ópjöttuð með mat að hann er iðulega það sem aðrir myndu kalla skemmdur.  Ef hún dregur fram niðursuðudós er viðbúið að sú sé farin að bólgna og komin nokkuð mörg ár framyfir síðasta söludag.

  Sigfús Vilhjálmsson heitir sonurinn sem býr á Brekku í dag.

  Steini,  þetta var vel orðað með loðnuna!  Hehehe!

  Gunnar,  ég skal setja inn fleiri lög með Gyllinæð.  Það eru líka fleiri lög með þeim á www.myspace.com/gyllinaed og aðrar upptökur af þessum sömu lögum og eru í tónspilaranum mínum.

Jens Guð, 8.1.2008 kl. 20:39

4 Smámynd: Blómið

Öflug kona þessi Anna á Hesteyri   Svona dömur vantar í femínistafélagið

Blómið, 8.1.2008 kl. 21:12

5 Smámynd: Jens Guð

  Anna á Hesteyri er femínisti og er í femínistafélaginu.  Eða hvort það er Aðventístasöfnuðinum.  Jú,  ég man það núna.  Hún er aðventísti.

Jens Guð, 8.1.2008 kl. 22:04

6 Smámynd: Dísa Dóra

haha greinilega kjarnakona þarna á ferð

Dísa Dóra, 8.1.2008 kl. 22:09

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skemmtilegar sögur af orgínal manneskju. Segðu endilega fleiri svona ef þú hefur þær á hraðbergi!

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.1.2008 kl. 22:16

8 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Sniðug og skemmtileg . Anna er ekkert blávatn, myndræn einsog bíó takk Jens.

Eva Benjamínsdóttir, 8.1.2008 kl. 22:24

9 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ein frábær sagan enn af Mjóafjarðarmaddömunni og takk fyrir hana Ég er reyndar ekki ennþá búinn að jafna mig á síðustu sögunn af honum afa þínum þessari með svefninum langa. Þegar ég las ökuævintýri Önnu og Villa rifjaðist upp saga af  félaga einn innan úr Sunnudal í Vopnafirði sem keypti sér bíl. Svo fór hann að keyra og keyrði beint útaf í næstu beygju. Aðspurður sagði hann það alveg hafa gleymst að segja sér til hvers brúka ætti stýrið.

Pálmi Gunnarsson, 8.1.2008 kl. 23:01

10 Smámynd: Jens Guð

  Dísa,  Anna er algjör kjarnakona.  Hún er mikið náttúrubarn og afskaplega hrein og bein.  Með góða eðlisgreind en vegna sérstæðs uppeldis og einangrunar er hún engu að síður "nævisti" (bernsk) að mörgu leyti. 

  Lára,  ég á eftir að skrá hér heilan helling af sögum af Önnu frænku.  Af nógu er að taka.  Við ættingjarnir - og fleiri sem Önnu þekkja - höfum rosalega gaman af að skiptast á sögum um hana.

  Eva,  Anna er út af fyrir sig bíó.  Fyrst eftir að hún fékk sjónvarp - og kannski enn - tók hún bíómyndir full hátíðlega.  Það var eins og hún áttaði sig ekki á að þetta væri leikinn skáldskapur.

  Þegar "Þjóðarsálin" hóf göngu sína á rás 2 var Anna nýlega komin með sjónvarp.  "Þjóðarsálin" var þáttur þar sem hlustendur gátu hringt inn í beina útsendingu og tjáð sig um hvað sem var.

  Anna hringdi inn og var mikið niðri fyrir vegna útlendrar kvikmyndar sem sýnd hafði verið í sjónvarpinu.  Hún taldi karlmann í myndinni hafa framið saknæmt brot.  Hann hefði gengið svo gróflega fram í að ná fram vilja sínum gagnvart konu í myndinni að Anna vildi skilgreina framkomuna sem nauðgun.

  Sá sem varð fyrir svörum í "Þjóðarsálinni" vissi ekkert hvernig hann átti að bregðast við.  Síðar frétti ég að viðkomandi hafi talið Önnu vera ölvaða manneskju með rugl.  En hann reyndi að eitthvað að gera lítið úr þessari athugasemd Önnu og áttaði sig ekki á að fyrir Önnu var bíómyndin raunveruleiki.  Ég man að Anna æsti sig og sagði:  "Hvernig maðurinn böðlaði konunni undir sig er ekkert nema nauðgun." 

  Ég var að keyra þegar ég hlustaði á þetta en varð að leggja úti í kanti því ég hló svo mikið að þessu samtali.   

Jens Guð, 8.1.2008 kl. 23:14

11 Smámynd: Jens Guð

  Erlingur,  ég þekki ekki glöggt til í Mjóafirði.  En ég veit að á Hesteyri er kirkjugarður.  Þar eru afi minn og afa jörðuð.  Eitt sinn gerði frændi minn (við erum systrasynir) sér ferð til Hesteyrar til að punta leiði afa og ömmu.  Hann sló gras á leiðunum,  gróðursetti þar blóm,  reisti upp legsteina og gerði leiðin mjög fín. 

  Eftir langt dagsverk og puð ætlaði hann að kveðja Önnu.  En hún brást hin versta við.  Þótti frændi okkar hafa mismunað gróflega þeim sem hvíla í gröf á Hesteyri.  Eftir yfirhalninguna frá Önnu var ekki um annað að ræða en frændi varð að framlengja dvöl sinni í Mjóafirði þangað til að öllum leiðum í grafreitnum á Hesteyri hafði verið gert jafnt undir höfði.

  Pálmi,  ég skiptist á að segja sögur af Önnu frænku og afa.  Hún er líka ljómandi góð sagan af þessum ökumanni í Vopnafirði.  Hehehe!

Jens Guð, 9.1.2008 kl. 00:11

12 Smámynd: Jens Guð

  Ég held að ég fari rétt með að það séu aðeins 2 nemendur í Mjóafirði í vetur.  Við Anna á Hesteyri eigum ættir að rekja til Hala í Suðursveit.  Þangað hef ég aldrei komið en nokkrum sinnum til Vopnafjarðar.  Hef kíkt þar á Veðurbarinn,  sem mig minnir að sé ekki starfræktur lengur. 

Jens Guð, 9.1.2008 kl. 21:49

13 identicon

Var það nokkuð hún Anna sem kom einu sinni í Allt í drasli? Það var svo mikið drasl hjá þeirri manneskju að það þurfti að leggja undir hana tvo þætti, og þegar þáttastjórnendur komu aftur til að sjá hvort árangurinn eftir tiltektina hafi haldist kom í ljós að draslið hafði ekki minnkað neitt...

Birgir Steinn (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 00:24

14 Smámynd: Jens Guð

  Ójú,  mikið rétt.  Anna blessunin frænka mín trompaði allt sem þau í Allt í drasli höfðu kynnst.  Mér er minnisstætt þegar konan í þættinum sagði Önnu að ef hún myndir strjúka af eldavélinni á hverjum degi þá yrði það aldrei neitt verk.  Anna svaraði af einlægni:  "Jú,  þá verður það stöðugt verk." 

Jens Guð, 10.1.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband