Bókarumsögn

hordurtorfa-tabu

Titill:  Tabú - ævisaga Harðar Torfa

Skrásetjari:  Ævar Örn Jósepsson

Útgefandi:  Tindur bókaútgáfa

Einkunn:  **** (af 5)

  1975 var Hörður Torfa einn virtasti og vinsælasti skemmtikraftur landsins.  Lög hans hljómuðu daglangt í útvarpi,  hann var eftirsóttur leikari og fyrirsæta,  lék á sviði og í sjónvarpinu og leikstýrði leikhúsum þvers og kruss um landið.  Þá fór allt skyndilega á hvolf.  Hörður lýsti því yfir í blaðaviðtali að hann væri hommi.  Þetta var sprengja.  Fólk varð agndofa.  Samkynhneigð var eitthvað er ekki var talað um opinberlega.  Það voru óskrifuð lög að samkynhneigð ætti að vera í felum.

  Karlmenn sem voru óöruggir um kynhneigð sína tóku upp á því að ofsækja Hörð.  Ofsóknirnar gengu það langt að Hörður flýði land.

  Í útlegð kynnti hann sér réttindabaráttu samkynhneigðra erlendis,  snéri aftur til Íslands og stofnaði Samtökin 78.  Hörður sættir sig ekki við ranglæti.  Víða í bókinni bregður fyrir orðinu óréttlæti og lýsingu á því að Herði hafi sárnað og hann reiðst.  Eftir lestur bókarinnar er rökrétt og eðlilegt að sjá Hörð standa fyrir vikulegum mótmælafundi á Austurvelli eða berjast fyrir endurupptöku á brottvísunarmáli Pauls Ramses.  Á þessi mál er ekki minnst í bókinni.  En þar sem rétti er hallað má reikna með að Hörður láti til sín taka.

  Í bókinni leiðir Hörður lesandann inn í skrautlegan heim homma á Íslandi fyrir daga Samtakanna 78.  Við þann lestur rekur maður upp stór og útstæð augu að hætti Ástþórs Magnússonar.  Þetta hefur verið hið litríkasta samfélag.  Af bókinni má skiljast að þetta sé veröld sem var.  Enda fáir að velta fyrir sér kynhneigð fólks í dag.   

  Það er dapurlegt að lesa um það mótlæti sem Hörður hefur þurft að takast á við og náði hámarki eftir blaðaviðtalið.  Án þess að draga neitt undan er Hörður þó ekki að velta sér um of upp úr erfiðleikunum.  Hann horfir líka á broslegu hliðarnar.  Við lesturinn hefur lesandinn ekki fyrr dæst yfir óréttlæti heimsins en hann skellir upp úr við atvik eins og þegar Herði var sýnt morðtilræði.  Blóðið fossaði úr skurði niður eftir bringunni en Hörður hugsaði bara um ósvífni mannsins að skemma skyrtuna.  Nýja og dýra skyrtu.  Eða þegar Hörður fór í margra daga eins manns verkfall á fjölmennum vinnustað.  Eða er Hörður flýði á harðahlaupum frá stúlku sem vildi trúlofast honum.  Eða þegar Reynir Oddsson kvikmyndagerðamaður fékk alltaf í bakið ef verklegar framkvæmdir stóðu fyrir dyrum.  Eða er Hörður var vaktaður af lögreglunni og færði lögreglumönnunum liti og litablokk til að létta þeim tilveruna.  Þannig mætti áfram telja.

  Bókin er lipurlega skrifuð.  Það er vel til fundið að enda hvern kafla á kvæði við hæfi.  Það undirstrikar að bókin fjallar um ljóðskáld.  

  Bókin á erindi til allra og ætti að vera notuð við kennslu í skólum.  Þessa bók á líka að þýða og gefa út erlendis.  Til að mynda í Færeyjum. 

  Saga Harðar segir mikið um íslenskt samfélag.  Sem músíkdellukarl hef ég sérstaklega gaman af að lesa um tónlistarmanninn Hörð Torfa.  Þar koma fram ýmsir fróðleiksmolar á borð við þann að fyrsta plata Harðar var fyrsta platan sem var hljóðrituð í steríó á Íslandi.  Áhugasamir um leiklist finna sömuleiðis margan forvitnilegan fróðleikinn fyrir sig í bókinni.    

  Þegar ég fór á kynningu á bókinni í Iðnó fékk ég símtal frá útlöndum sem ég varð að afgreiða.  Til að trufla samkomuna ekki færði ég mig út í bíl.  Að símtalinu loknu hélt ég áfram að glugga í bókina.  Og gleymdi mér við lesturinn.  Las bókina til enda.  Hrökk þá upp við að mér var orðið hrollkalt í bílnum.  Kynningardagskráin í Iðnó var áreiðanlega löngu um garð gengin.  Þannig að ég keyrði bara heim og hóf að lesa bókina í annað sinn.  Þetta segir sitthvað um hversu áhugaverð lesning bókin er.

  Þegar ég hef verið að glugga frekar í bókina sakna ég nafnskrár aftast í henni.  Það er svo þægilegt að finna aftur með aðstoð nafnskrár eitthvað sem gaman er að lesa betur.  Einnig sakna ég þess að í bókinni sé ekki heildarlisti yfir plötur Harðar með tilheyrandi upplýsingum (upptalningu á lögum,  útgáfuár og þess háttar).  Á tölvuöld er svo sem hægt að finna eitthvað af þessum upplýsingum á www.hordurtorfa.com.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hlakka til að lesa bókina hans Harðar.  Við vorum samstíga í Þjóðleikhúsinu í nokkur ár.

Ía Jóhannsdóttir, 30.11.2008 kl. 08:20

2 Smámynd: Heidi Strand

Takk fyrir flotta samantekt. Þetta er bók sem ég ætla að lesa. Ég er mjög þakklát fyrir allt framlag Harðar til samfélagsins.

Heidi Strand, 30.11.2008 kl. 10:51

3 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Les ekki hommasögur

Siggi Lee Lewis, 30.11.2008 kl. 11:03

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Karlmenn sem voru óöruggir um kynhneigð sína tóku upp á því að ofsækja Hörð."

Þessi greining hittir algerlega í mark.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.11.2008 kl. 11:30

5 Smámynd: Ómar Ingi

HAHAHAHHA  Siggi Lee alltaf hress

Frekar villdi ég lesa um Simba , Svavar Örn eða Palla þar eru sko hlutir að gerast.

Ómar Ingi, 30.11.2008 kl. 11:46

6 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Auðvitað verður maður að lesa þessa bók. Ætla að gera það yfir jólin. Hörður er fyrir löngu orðin svo mikið meira í mínum huga en bara tónlistarmaður sem gefið hefur út tug platna á ferlinum. Hann var frumkvöðull eiginlega sprotafyrirbæri svo maður noti samlíkinguna úr viðskiptalífinu. Sem komst á legg og var ALVÖRU án aðstoðar. Það þarf kjark og þor og einbeittan vilja til að fara þær leiðir sem Hörður hefur gengið. Hann hefur um langt árabil átt virðingu mína alla fyrir óeigingjarnt starf hvort heldur er í þágu tónlistar eða í þágu þess að vera manneskja. Flottur Pistill hjá þér Jens

Bárður Örn Bárðarson, 30.11.2008 kl. 15:09

7 Smámynd: Heidi Strand

Ég tek heils hugar undir orð þín Ómar.

Heidi Strand, 30.11.2008 kl. 16:24

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hörður Torfa er kúl.

Þorsteinn Briem, 30.11.2008 kl. 16:58

9 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ekki má gleyma því að Ævar Örn skrifaði bókina.....

Guðni Már Henningsson, 30.11.2008 kl. 17:11

10 Smámynd: Rannveig H

Flottur pistil og Hörður er mikilmenni.'Ég er búin að kaupa bókina.

Rannveig H, 30.11.2008 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband