Færeyingar gera það gott

  Helsta poppmúsíkblað Dana heitir Gaffa.  Það er fríbað sem liggur frammi í verslunum og víðar.  Um áramótin efndi blaðið til skoðanakönnunar á meðal lesenda sinna í svokölluðu vinsældavali.  Niðurstaðan liggur fyrir og er sérlega ánægjuleg fyrir bræður okkar í Færeyjum.  Lagið  Backstabber  með færeyska popp-pönktríóinu The Dreams var kosið 3ja besta lag liðins árs.  Hér er það:

  The Dreams var jafnframt kosin 4ða besta hljómsveit ársins.  Plata tríósins,   Den Nye By,  var kosin 5ta besta platan.

  Í fyrravetur náði The Dreams 2.  sæti í danskri hljómsveitakeppni.  Þó tríóið hafi ekki náð sigursætinu stal það senunni í þessari keppni.  Danskir fjölmiðlar kepptust við að taka viðtöl við liðsmenn The Dreams.  Síðan hefur tríóið komið þremur lögum í 1.  sæti boogie-vinsældalista danska ríkisútvarpsins.  Sá árangur og niðurstaðan í vinsældavali Gaffa staðfesta að The Dreams eru súperstjörnur í Danmörku.

  The Dreams semja og syngja sín sönglög á dönsku.  Með þessum fína árangri.  Á sama tíma syngja danskar rokksveitir yfirleitt á ensku.  Flestar með síðri árangri.

  Í vinsældavali Gaffa var færeyski vísnasöngvarinn Teitur kosinn 4ði besti söngvarinn.  Hann semur og syngur ýmist á færeysku eða ensku.  Hér flytur hann lagið   Louis Louis.

  Teitur er heimsfrægasti Færeyingurinn.  Myndbönd hans eru sýnd í MTV og öðrum músíksjónvarpsstöðvum um allan heim.  Lög hans eru notuð í vinsælum bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.  Hann skemmtir á stórum tónlistarhátíðum og annað í þeim dúr. 

  Í haust valdi enski popparinn Sting lög á safnplötu til stuðnings Tíbetum.  Það segir sitthvað um stöðu Teits að Sting valdi lag með honum á plötuna.  Þar er Teitur í félagsskap fólks á borð við Alanis Morissette,  Jackson Browne og Moby.

Songs_for_Tibet 

  Plötur með Teiti fást í verslunum Pier á Íslandi (glerturninum við Smáratorg og í Korputorgi).  Ég mæli sérstaklega með plötunni  Káta hornið.

  Eivör sendi ekki frá sér plötu í fyrra.  Þess vegna er hennar nafn ekki að finna í vinsældavali Gaffa.  Á undanförnum árum hefur Eivör hinsvegar rakað að sér verðlaunum og titlum í Danmörku,  rétt eins og á Íslandi.

  Eivör er á leið í hljómleikaferð til Hawai ásamt eistneska djasssaxófónleikaranum og snillingnum Villi Veska.

eivor


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þú kannski upplýsir hvaða mörgu verðlaun og titla Eivör hefur rakað að sér hér á Íslandi.

S. Lúther Gestsson, 24.1.2009 kl. 20:00

2 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  ég nenni ekki að "gúgla" þau dæmi.  Ég man eftir að eitt árið fékk hún tvenn verðlaun í Íslensku tónlistarverðlaununum.  Annarsvegar sem besta söngkonan en ég man ekki fyrir hvað hin verðlaunin voru.  Einnig man ég eftir að hún fékk verðlaun fyrir tónlist er hún samdi fyrir leikrit sem var í leikstjórn Maríu Ellingssen og sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu.  Ég man í fljótu bragði ekki hvað leikritið heitir né hvað þau heita þessi verðlaun sem veitt eru á uppskeruhátíð leikara.  Gríman eða Edda,  held ég.  En Eivör fékk sem sagt verðlaun fyrir bestu tónlistina. 

Jens Guð, 24.1.2009 kl. 20:16

3 Smámynd: Sverrir Einarsson

Er Sigurður Lúther eitthvað fúll yfir að Ice Blue er ekki á þessu lista hehe.

Sverrir Einarsson, 24.1.2009 kl. 20:20

4 Smámynd: Jens Guð

  Sverrir,  ég ætla frekar að hann sé fróðleiksfús.

Jens Guð, 24.1.2009 kl. 20:28

5 identicon

Hafa vinsældir Eivarar á Íslandi farið framhjá S. Lúther?  Hún selur hérlendis 10 þúsund eintök af hverri plötu,  lög hennar hafa verið í efstu sætum íslenskra vinsældalista,  miðar á hljómleika hennar seljast upp,  hún er afgreidd í ótal sjónvarpsþáttum og er það vinsæl á Íslandi að hvert mannsbarn þekkir nafn hennar.  Henni er stillt upp sem íslenskri dífu á jólatónleikum og "alle".

Sveinn (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 23:28

6 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Jú,jú ég hef séð hana í sjónvarpi, heyrt í henni í útvarpi og lesið fjölmörg viðtöl við hana. Það hefur bara einhvernveginn alveg farið frammhjá mér að yfir hana hafi rignt styttum gjafabréfum, ávísanir og önnur listaverk og hún hafi gengið út klifjuð af medalíum.

Þetta er kona með flotta rödd og svo er hún líka svona bráðhugguleg líka.

S. Lúther Gestsson, 25.1.2009 kl. 01:07

7 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  Eivör er yfirmáta frábær söngkona og ég hef af mikilli ánægju fylgst með hennar ferli frá því ég sá hana syngja djass í Færeyjum þegar hún var 16 ára.  Ég varð dolfallinn.  Hún afgreiddi perlur djassins eins og manneskja með 20 - 30 ára reynslu sem djasssöngkona.  Þegar ég ræddi við hana eftir þá hljómleika kom í ljós að hún þekkti ekki frumútgáfur laganna sem hún söng úr ferilsskrá Ellu Fitzgerald,  Söruh Vaughan og þeirra allra.  Píanóleikarinn hennar,  Kristian Blak,  hafði aðeins sýnt henni laglínur laganna á nótum. 

  Eivör var krakki sem þekkti ekki þessi lög en afgreiddi þau eins og hún hefði ekki gert neitt annað en syngja þau frá barnæsku.  Það var ótrúlegt.  Mér varð að orði við Kristian Blak að fátt gæti komið í veg fyrir að þessi stelpa yrði heimsfræg. 

  Nokkrum mánuðum síðar uppgötvaði Ólöf Kolbrún Harðardóttir þennan snilling og tók hana að sér.  Sömuleiðis kynntist ég Eivör betur.  Og kynntist því að hún lætur engan segja sér fyrir verkum.  Yfir hana rigndi tilboðum út og suður.  Ýmsir aðilar komu með uppskrift að heimsfrægð hennar.  Hún hefur fengið mörg gylliboð sem hún hafnar jafnóðum þegar hún rekst á ákvæði sem stangast á við einbeittan vilja hennar til að ráða sér sjálf frá A-Ö.

  Það er hugsanlega ofmælt - fer eftir skilgreiningu - að yfir hana hafi rignt gjafabréfum,  ávísunum og styttum.  Nær er að segja að yfir hana hafi rignt tilnefningum til hinna ýmsu verðlauna í Færeyjum,  Íslandi og Danmörku og hún hafi landað nokkuð mörgum styttum og verðlaunagripum.  Ég ætla - án Þess að sannreyna dæmið - að hún sé með í fanginu um það bil 10 verðlaunagripi.  Og kannski tvöfalt fleiri tilnefningar - eða rúmlega það.

  Það er þó ekki heila dæmið.  Eftir stendur að Eivör er besta söngkona heims. Frábær tónlistarmaður.  Frábær persóna.  Í mínum vinahópi eru margar poppstjörnur sem hafa notið ofurvinsælda.  Bæði hérlendis og sumar erlendis.  Enga þekki ég þó sem er eins lítillát og alltaf jafn hissa yfir velgengni og Eivör.  Enga þekki ég jafnframt sem hefur nákvæmlega ekkert breyst á neinn hátt við að verða súperstjarna.  Eivör er í dag að öllu leyti sama frábæra ljúfa sveitastelpan frá Götu í Færeyjum sem ég kynntist fyrir 10 árum þegar hún var krakki.  Eivör er persóna sem allir er henni kynnast elska og dá.  Burt séð frá því hvað hún er frábær söngkona.  Það er bónus að eiga vinkonu með þvílíka sönghæfileika.  Ennþá meira skiptir þó að hún er yndisleg mannsekja.  En samt líka stórkostleg söngkona.

Jens Guð, 25.1.2009 kl. 02:40

8 identicon

Mér finnst þetta lag The Dreams satt að segja ekkert svakalega skemmtilegt. Af því færeyska pönki sem ég hef heyrt (sem er reyndar ekki ýkja margt) þykir mér hljómsveitin 200 langbest. Ekki nóg með það að lögin séu hress og skemmtileg, heldur eru þau sungin á færeysku (sem mér finnst vera eitt fallegasta tungumál í heimi) og eru jafnvel hápólitísk. Mér er minnisstætt þegar réttindi samkynhneigðra voru hitamál í Færeyjum og 200 söng um einhvern ráðherra sem var mjög á móti samkynhneigðum, en þegar hann fór heim á kvöldin gamnaði hann sér víst með sitt "musclemanblað". Ég efast satt að segja um að 200 fari eitthvað að meika það utan Færeyja, en það er ekki eins og sannir pönkarar vilji það eitthvað frekar.

Malli pönk (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 21:29

9 identicon

Dreams er ekki sérlega hljómsveit. Eins og klón af öllum þessum týpízku nýju Kerrang! sveitum, nema að þeir syngja á dönsku.

Fíla Káta Hornið með Teiti best. Á þó einnig Stay under the stars sem er fín. Teitur er mun þekktari en Eivör útí heimi en því er öfugt farið á Íslandi.

200% textann skemmtilega má finna hér: http://lyricwiki.org/200:Muscleman-bla%C3%B0

Verst að heimasíðan þeirra er held ég ekki til lengur sýnist mér.

Ari (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 22:11

10 Smámynd: Jens Guð

  Malli pönk,  mér leiðist yfirleitt poppuð músík.  Sama hvort um er að ræða poppað pönk eða poppað reggí.  En ég gef allri músík Færeyinga grænt ljós.  Það er að segja gríp hvert tækifæri til að vekja athygli á henni.  Færeyingar eru svo yndislegir.  Líka Færeyingar sem spila popp.  Ég sýni þeim umburðarlyndi.

  En það er alvöru gaman að alvöru færeysku pönki.  Þar eru 200% toppur.  Nafnið er stytting á slagorðinu "200% loysing" (200% aðskilnaður frá Danmörku).  Strákarnir eru mjög róttækir í baráttunni.  Skemmtilega kjaftforir en taka sig samt ekki ofur hátíðlega.  Ég er búinn að þekkja þessa stráka í mörg ár.  Þeir eru miklir grallarar,  hressir grínarar, en jafnframt heilsteyptir í baráttunni fyrir aðskilnaði frá Danmörku.

  Ég átta mig á því núna að ég þarf að skrifa færslu um 200% fljótlega.  Þetta er svo assgoti frábær hljómsveit.  200% á marga aðdáendur á Íslandi.  Hver plata með 200% hefur selst í nokkur hundruð eintökum hérlendis.  200% hefur tvívegis komið til Íslands og spilað á,  ja,  líklega samtals 5 hljómleikum.  Þeir hafa allir verið vel sóttir.  Lög með þeim hafa fengið ágæta spilun á X-inu og rás 2.  Lag með 200% er að finna á safnplötu Óla Palla,  Rokkland 2007

  Sjálfur setti ég lag með 200% á safnplötu sem ég tók saman 1999,  Rock from the Cold Seas.  Það var fyrsta lag 200% á plötu.  Á sömu plötu var fyrsta lagið sem kom á markað frá hljómsveitinni Mínusi.  Ég beið meira að segja með útgáfu plötunnar til að Mínus væri gild í Músíktilraunum þá um vorið.  Þátttakendur í Músíktilraunum mega nefnilega ekki hafa sent frá sér lag á plötu.  Það var þess virði að hinkra með útgáfu plötunnar vegna þess að Mínus sigraði í Músíktilraunum. 

  Þá var gaman að hafa uppgötvað þessa hljómsveit hálfu ári áður og boðið þeim að eiga lag á safnplötunni minni.

  Ari,  ég er þér sammála með að  Káta hornið  sé besta plata Teits.  Það er virkilega fín plata.  Teitur er líka nokkuð merkilegur tónlistarmaður.  Hann var mjög ungur þegar ég sá hann með hljómsveitinni Marks no Limit.  Hann varð snemma svo skemmtilega sannfærður um að það væri honum engin hindrun að vera frá Færeyjum og hafði háleit markmið.  Jafnframt hefur hann staðið á sínu.  Var í stöðugu stríði við markaðsfræðinga plöturisans sem hann var á samningi hjá. 

  Ég er undrandi á að heimasíða 200% liggi niðri.  Ég hef ekkert heyrt um að hljómsveitin sé hætt.  Ég hitti strákana í Færeyjum í fyrra.  Þá voru þeir með ýmis plön í gangi og fullir áhuga fyrir hljómsveitina.

Jens Guð, 25.1.2009 kl. 23:10

11 Smámynd: Halldór Ingi Andrésson

Er þetta örugglega vottuð útgáfa?

Ég er ansi hræddur um að flytjandi á borð við Jackson Browne samþykkti ekki stafavillu í nafni sínu á opinberri útgáfu!

Þessi stafavillu er ekki bara hjá þér Jens (þú hefur eflaust aldrei keypt Browne) heldur á umslaginu!

Það er annars engin spurning, Færeyingar eru að skila góðu tónlistarfólki til umheimsins.

Halldór Ingi Andrésson, 2.2.2009 kl. 21:56

12 Smámynd: Jens Guð

  Halldór,  bestu þakkir fyrir að leiðrétta stafsetninguna á Jackson Browne.  Ég var snöggur að leiðrétta nafnið í færslunni.  Ég átti að vita betur þó ég sé ekki mikið fyrir hans músík. 

  Það var heilmikil kynning á þessari Tíbet-plötu þegar hún kom út.  Birgitta Jónsdóttir kynnti hana í þætti á Útvarpi Sögu og erlend netsíða - sem ég man ekki hver var (ég held það hafi ekki verið amazon.com) - sló henni upp sem plötu vikunnar og hún var söluhæsta plata þeirrar netsíðu um tíma.  Ég bloggaði um þetta þegar platan kom út en nenni ekki að fletta því upp.

  Það er reyndar alvanalegt að nöfn séu vitlaust stafsett á plötum.  Eitt sinn keypti ég af þér plötu með Wilde Flowers.  Þú bentir mér á að nafn hljómsveitarinnar væri ranglega skrifað Wild Flowers.  Ég hafði ekki fattað það.  Hafði ekki fattað að hljómsveitin væri að vísa til Óskars Wilde.

Jens Guð, 2.2.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband