Undarleg uppákoma á matsölustað

kjúklingur

  Ég átti erindi á matsölustað.  Ekki til að fá mér að borða heldur í öðrum erindagjörðum.  Þegar ég vatt mér þangað inn sátu fjórir miðaldra menn saman að snæðingi við eitt borðið.  Ég þekkti engan þeirra.  Ég staðnæmdist við afgreiðsluborð með smurbrauði,  samlokum og öðru slíku.  Einhverra hluta geng ég aldrei framhjá slíku borði án þess að skoða hvað er í boði.  Þó ég sé ekki svangur.

  Skyndilega var einn mannanna komin upp að hlið mér.  Hann segir í hálfum hljóðum - sennilega til að afgreiðsludaman heyri ekki:

  - Djöfulsins okurbúlla sem þetta er.  Þetta er viðbjóður.

  Hann benti á svokallaðar samlokuhyrnur sem voru verðmerktar á 450 kall og sagði:

  - Sjáðu þetta.  500 kall fyrir eina helvítis samloku.  Maður fær samloku á næstu bensínstöð fyrir 300 kall.  Það kostar ekki meira en 100 kall að smyrja svona samloku heima hjá sér.  Bara kaupa dollu af rækjusalati eða túnfiskssalati á 200 kall og skella á milli tveggja brauðsneiða.  Maður nær alveg 3 - 4 samlokum út úr því.

  Ég nennti ekki að benda manninum á að samlokuhyrnur kosta 520 kall á bensínstöðvum.  Þar fyrir utan hefði ég ekki komist að.  Maðurinn var óðamála og ákafur.  Næst benti hann á diska með matarmiklu smurbrauði.  Heldur stærri skammt en venja er.  Það var ýmist verðmerkt á 890 eða 950 krónur.

  -  Sjáðu hérna,  maður.  Ein andskotans örþunn brauðsneið með gumsi er seld á 1000 kall.  Pældu í því.  1000 kall fyrir auma brauðsneið.  Maður fær sjóðheita 16" pizzu beint úr ofninum fyrir 4ra manna fjölskyldu á sama verði hjá Dominós.  Gott ef 2ja lítra kók og brauðstangir fylgja ekki með í því dæmi.  Þetta er viðbjóður.

  Svo nafngreindi hann mann sem er líkast til kokkurinn á staðnum eða eigandi.  Ég nota hér tilbúið nafn:

  -  Jón Jónsson er þvílíkur óþverra svíðingur.  Hann er að eyðileggja allt.  Hugsaðu þér aumingja bændurna sem koma glorhungraðir langt utan af landi og lenda í höndunum á svona óþokka.  Þeir fá áfall; halda að Reykjavík sé ein allsherjar okurbúlla.  Það ætti að læsa manninn inní fangelsi ásamt útrásarvíkingunum og henda lyklinum.

  Þegar hér var komið sögu bjóst ég til farar.  Maðurinn gekk aftur til sætis hjá félögum sínum.  Um leið og ég gekk út í nóttina sá ég út undan mér hvar hann gekk með súpudiskinn sinn til afgreiðsludömunnar og sagði smeðjulega:

  - Get ég fengið smá ábót,  elskan mín.  Hún er einstaklega góð hjá ykkur súpan í dag.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kjötsúpan í Grandakaffi er málið.

Númi (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 00:02

2 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  þegar ég komst á ról í dag ók ég að Grandakaffi til að fá mér kjötsúpu.  Þá sá ég merkt utan á húsinu að matur er bara afgreiddur til klukkan 14:00.  Ég verð að reyna að vakna aðeins fyrr í vikunni til að komast í kjötsúpuna þarna.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 00:27

3 identicon

Jóhannes (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 00:36

4 identicon

Mér dettur helst í hug að maðurinn hafi verið samkeppnisaðili í nágrenninu.

Sveinn (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 00:40

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég fékk athugasemd frá viðskiptavini í kvöld sem ég var mjög hissa á.  Við seljum svið með rófustöppu á 1200 krónur, sem honum fannst algjört okur.  Hann sagði að hann gæti keypt heilan poka af sviðum í Bónus fyrir svipaðann pening.  Ég fór í allskonar útskýringar á þessari verðmyndun á barnum og samt sakaði hann okkur um okur.  Það er vandlifað í henni veröld í dag. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.4.2009 kl. 01:33

6 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þarna var Jens greinilega á Bsí.

Ég Jóna fæ þetta sama komment frá mínum viðskiptavinum þó ég selji ekki sviðakjamma, en heyri þó alltaf þetta með Bónus. Þegar fólk röflar þetta við mig er samt yfirleitt opið hjá mér en lokað í Bónus.

S. Lúther Gestsson, 16.4.2009 kl. 01:53

7 Smámynd: Jens Guð

  Jóhannes,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 02:22

8 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn,  ég veit ekki hvað manninum gekk til.  Ég var svo undrandi og hissa á heift hans út í dæmið.  Líka vegna þess að hann var einnig í hina röndina eins og ánægður viðkskiptavinur. 

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 02:29

9 Smámynd: Jens Guð

  Jóna,  fólk gefur sér upp svo mismundi forsendur. Eitt sinn skutlaði ég kunningja mínum blindfullum á Vitabarinn.  Hann lenti í rifrildi við barþjóninn vegna þess að aukaostasneið á hamborgara var verðlögð á 50 kall.  Sú deila endaði í slagsmálum,  löggan kölluð til og læti. 

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 02:37

10 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  assgoti ertu naskur.  Ég ætlaði ekki að staðsetja veitingastaðinn en játa að þetta var á BSÍ.  Ég var að sækja þangað stelpu frá Grænlandi og var að tékka á tímatöflu á flugi frá Grænlandi.  Reyndar borða ég nánast daglega á BSÍ og er sáttur. 

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 02:44

11 Smámynd: Róbert Tómasson

450 króna samloka er dýr þegar 5000 kall er fokinn í spilakassa.

Og læt hér fljóta með vísukorn sem gusaðist úr alkunnum viskubrunni mínum nú í morgunsárið.

Andleg heylsa í ólagi

Oft með hægðarteppu

Illt er að vera ómagi

Einkum þó í kreppu

Róbert Tómasson, 16.4.2009 kl. 10:24

12 identicon

Eru bændur alltaf glorhungraðir þegar þeir koma í bæinn??

Víðir (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 13:57

13 identicon

nák sem ég ætlaði að segja Víðir,

Hanna (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 16:49

14 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þetta var auðvelt gisk Jens. Ef þú ert ekki að fara á veitingastað til að borða(sem mér finnst  ótrulegt) þá ertu að fara á mannamót eða selja Banana Boat og ég efaðist um að einhver veitingastaður bjóði upp á ljósabekki.

S. Lúther Gestsson, 16.4.2009 kl. 19:39

15 Smámynd: Brattur

Ekki skemmtilegar þessar týpur sem eru smeðjulegar... var að vinna með manni um daginn sem talaði illa um kunningja sinn... svo birtist kunninginn skyndilega og þá sagði sjá smeðjulegi; Nei hæ... gaman að sjá þig gamli... arggg þoli ekki þessar týpur...

Brattur, 16.4.2009 kl. 20:21

16 identicon

HAHAHAHA!!! SLG hits the spot Jens,er eitthvað til í þessu??:)

Víðir (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 20:23

17 Smámynd: Jens Guð

 Robbi,  þetta rifjar upp frægt tilsvar manns sem rak verslunina Vísi á Laugavegi í gamla daga þegar verðbólga geisaði.  Þá hafði verð á áfengið verið hækkað nokkuð skart aftur og aftur með stuttu millibili.  Ég held að það hafi verið fréttastofa sjónvarps sem spurði fólk á förnum vegi hvað því þætti um síðustu verðhækkun á áfengi.  Maðurinn svarað:

  "Áfengi er orðið svo dýrt að ég hef ekki getað keypt mér nýja skó."

  Vísan þín gefur þessu snilldarsvari ekkert eftir.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 22:53

18 Smámynd: Jens Guð

  Víðir,  ég veit ekki hvort það er algilt.  En sumir bændur eru sísvangir hvort sem þeir koma í bæjarferð eða ekki.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 22:55

19 Smámynd: Jens Guð

  Hanna,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 22:58

20 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  enginn hérlendur veitingastaður býður upp á ljósabekki.  En flestar sólbaðsstofur selja gosdrykki og súkkulaðikex.  Ég kaupi stundum Kristal með sítrónubragði hjá þeim.  Einhverra hluta vegna hef ég aldrei séð malt til sölu á sólbaðsstofu.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 23:04

21 Smámynd: Jens Guð

  Brattur,  smeðjulegt fólk er jafnan bein ávísun á að viðkomandi sé falskur.  Það á aldrei að treysta þannig fólki.  Eitthvað annarlegt býr að baki.

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 23:09

22 Smámynd: Jens Guð

  Víðir,  þetta er allt rétt hjá SLG.  En skýrir samt ekki hvernig honum datt BSÍ í hug.  Þetta hefði alveg eins getað verið á Grandavagninum,  Múlakaffi,  Norræna húsinu eða öðrum veitingastöðum sem ég sæki og selja smurbrauð og annað brauðmeti.  Ég tek ofan fyrir honum hatt og staf fyrir að hitta í mark í fyrstu atrennu. 

Jens Guð, 16.4.2009 kl. 23:14

23 identicon

Þarna er Íslendingnum rétt lýst, hann gerir ráð fyrir því að þjónustan í kringum máltíðina sé ókeypis.  Þeir sem eru ekki tilbúnir til að borga uppsett verð á matnum og þegja geta bara verið heima hjá sér og smurt/eldað sjálfir.

Man vel eftir nokkrum vel efnuðum einstaklingum hér í hverfinu hjá mér sem komu í litlu búðina mína (blessuð sé minning hennar) og spurðu hvað smjörið kostaði hjá mér en fussuðu svo og sveiuðu og sögðust frekar keyra í Hagkaup úti á Seltjarnarnesi, í óforbetranlegri hneykslan yfir því að smjörklípan kostaði 50 krónum meira hjá mér.

Og iðnaðarmennirnir sem komu og keyptu brauð og álegg kl. 9:30 í morgunkaffinu og býsnuðust yfir því að þetta væri allt saman svo miklu ódýrara í Bónus. Einu sinni féllust mér hendur á slæmum degi og benti þeim á að þeir gætu kannski bara skippað morgunmatnum og eytt hádegishléinu í að fara í Bónus - opnar kl. 12. Þeir tuðuðu ekki eftir það :)

Hjördís (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 08:11

24 Smámynd: Jens Guð

  Hjördís,  Íslendingar eru ótrúlega viljugir að kasta krónu til að spara aur.  Þegar bensínstöð auglýsir 2ja króna afslátt keyra menn hálftíma leið,  hanga síðan í annan hálftíma í biðröð á bensínstöðinni áður en þeir fylla á hálffullan bensíntankinn.  Kaupa kannski 15 - 30 lítra.  Sparnaðurinn er 30 - 60 kall. 

  Því næst keyra þeir aftur hálftíma leið heim til sín stoltir yfir að hafa "grætt" 2 krónur á keyptan bensínlítra. 

  Sama er uppi á teningnum ef bílasala eða húsgagnaverslun auglýsir að þar verði boðið upp á kaffi og kleinur.  Fólk leggur undir sig tugkílómetra langa ferð til að "græða" ókeypis kaffibolla og kleinu.

Jens Guð, 18.4.2009 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband