Færeyjareisan

sungið meira í færeyjum

  Það var ekki alveg beina leiðin að heilsa upp á Færeyinga.  Í fyrstu atrennu klaufuðumst við ferðafélagar til að fara til Þórshafnar á Langanesi í staðinn fyrir að fara til Þórshafnar í Færeyjum.  Þetta klúður kostaði breytta ferðaáætlun um eina viku.  Sem var allt í lagi.  Þannig lagað.  Næsta föstudag tókst þó ekki betur til en að flogið var til Egilsstaða í stað þess að heilsa upp á Færeyinga.

  Íslensk hljómsveit sem heitir Mezzoforte átti á spila á hljómleikum í Færeyjum þarna um kvöldið.  Það muna kannski einhverjir eftir þessari hljómsveit síðan hún sendi frá sér smellinn  Garden Party  fyrir næstum þremur áratugum.  

  Mezzoforte nýtur gífurlega mikilla vinsælda í Færeyjum.  Þar er þessi hljómsveit þvílík súpergrúppa að færeyskir fjölmiðlar tíunda allt sem að henni snýr með uppsláttarfrétt á forsíðu dagblaða og í sjónvarpsfréttum.  Ég veit fátt um þessa hljómsveit annað en það sem ég les um hana í færeyskum dagblöðum.  Ég er ekkert neikvæður gagnvart fönkuðu fjúsjóni Mezzoforte.  Bara ekki minn djass. 

  Þegar ég fór til Færeyja um páskana í fyrra sögðu færeyskir fjölmiðlar frá fyrirhuguðum hljómleikum Mezzoforte í Danmörku í júní sama ár.  Ég varð aldrei var við að þeirra hljómleika væri getið í íslenskum fjölmiðlum. 

  Það var gist á hóteli á Egilsstöðum yfir blánóttina.  Um kvöldið hitti ég þar (á barnum) skemmtilega Skagfirðinga,  Siglfirðinga,  Færeyinga og fleira skemmtilegt fólk.  Síðan var haldið til Færeyja eldsnemma á laugardagsmorgni.  Svo ánægjulega vildi til að í hópi þeirra ferðafélaga er ég kynntist var kærustupar.  Konan er færeysk fósturdóttir Siffa vinar míns af Wall Street og Classic Rock og maðurinn er fóstursonur Erlings Thoroddsen náfrænda míns,  trúfélaga í Ásatrúarfélaginu og hótelstjóra á Raufarhöfn.  Hvorugt þeirra hafði ég hitt áður en þó talað við manninn í síma.  Hann heitir Jens Kristján eins og ég.  Það urðu fagnaðarfundir.  Og Siffi varð hissa þegar hann ræddi við fósturdóttir sína þarna í síma á Egilsstöðum og hún rétti mér símann. 

  Mezzoforte héldu tvenna hljómleika í Færeyjum síðdegis á laugardeginum.  Það var troðið út úr dyrum á báðum hljómleikunum í Norræna húsinu í Þórshöfn.  Allir sem ég hitti og mættu á hljómleikana voru í sjöunda himni og verulega hamingjusamir með hljómleikana.  Ég fór hinsvegar á allt öðru vísi og færeyska hljómleika með píanóleikaranum Kristian Blak og fleirum.  Og var kátur.

  Á myndinni hér fyrir ofan er ég að deila við færeyska rokkara sem aðhyllast óbreytt ástand: Að Færeyjar séu hluti af danska sambandsríkinu.  Þetta er fyrir utan skemmtistaðinn Glitni í Þórshöfn.  Á myndinni fyrir neðan syng ég fyrir þá  Skál við syngja Skagfirðingar.  Það er fastur liður á pöbbarölti í Færeyjum.  Fyrir og eftir þann söng sagði ég þeim að Færeyingar ættu að kljúfa sig frá Danmörku.  En talaði fyrir daufum eyrum.  Held ég.  Annars man ég það ekki glöggt.  Þar fyrir utan hef ég sterkan grun um að það hafi verið gaman þarna á Glitni.  Í baksýn á myndinni glittir í Íslending sem ég man ekki hvað heitir.

sungið í Færeyjum 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Best ad vera fyrstur til thess ad koma med athugasemd vid thennan pistil.  ALVEG HREINT LJÓMANDI HJÁ THÉR ALLT SAMAN ELSKU KALLINN MINN.

Rudólf (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 07:07

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Blessaður félagi Jens og velkomin aftur til "byggða"!

Hefur verið asskoti gott frí hjá þér og kærkomið þykist ég vita, verst að ég gleymdi að ná í þig áður en þú fórst.

En þig hefur ekki hugkvæmst að flytja bara yfir um hríð og taka til dæmis yfir heilsu- og sólkremamarkaðinn á eyjunum góðu!?

Og kíktir þú yfir til kunningja í Götu, eða hélstu þig í "siðspillingu höfuðstaðarins"?

Magnús Geir Guðmundsson, 12.6.2009 kl. 09:32

3 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Ég held þú hafir ekki talað fyrir daufum eyrum Jens, þegar þú talaðir um að Færeyingar ættu að slíta sig frá Danmörk. Allir Færeyingar sem ég talaði við hata danska hanskann. Fyrir utan þessa tvo vitleysinga sem við hittum á Glitni. Enda talaði ég ekki einu sinni við þá.

Siggi Lee Lewis, 12.6.2009 kl. 11:31

4 Smámynd: Hannes

Ég sé að þú hefur skemmt þér vel á fífleyjunum. Held að þér veiti ekki af pyntingarvél til að hugsa um þig gamli.

Velkominn aftur heim.

Hannes, 12.6.2009 kl. 20:30

5 Smámynd: Jens Guð

  Rúdólf,  takk fyrir það.

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 00:25

6 Smámynd: Jens Guð

  Magnús,  mig langar alltaf til að flytja til Færeyja þegar ég er þar.  Mér líður svo rosalega vel þar.  Mér hefur margoft boðist áhugaverð föst vinna í Færeyjum.  Aðallega við plötusölu og önnur músíktengd verkefni.  Ég veit eiginlega ekki hvers vegna ég hef aldrei slegið til.

  Fyrir nokkrum árum var ég næstum því búinn að taka þátt í að setja upp sólbaðsstofu í Þórshöfn.  Við nokkrir kunningjar vorum meira að segja búnir að taka húsnæði á leigu og langt komnir með að innrétta hana þegar aðstæður komu upp frestuðu því og svo rann það út í sandinn af ástæðum sem of langt mál er að rekja.

  Ég hef einnig verið langt kominn með að setja upp heildsölu með sólkrem í Færeyjum.  Þegar á reyndi var það snúið dæmi.  Skrifstofubáknið í Færeyjum er töluvert þyngra í vöfum í Færeyjum en á Íslandi.  Eiginlega hálfgerð martröð.  Það hafa fleiri en ég kynnst.  Meðal annars hefur Baugsveldið reynt að selja íslenska framleiðslu í Færeyjum en hrokkið til baka með það eftir að hafa kynnst færeyska skrifstofubákninu.  Samt eru margar íslenskar Bónus verslanir í Færeyjum. 

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 00:41

7 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  ég gleymdi að nefna að ég fór ekki í Götu.  Álfadrottningin og mín góða vinkona Eivör,  sem á hús í Götu,  var utanlands.  Ég hef reyndar dvalið í Götu hjá hennar frábæru fjölskyldu en að þessu sinni hélt ég mig bara í Þórshöfn. 

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 00:45

8 Smámynd: Jens Guð

  Siggi Lee,  vissulega hittum við Færeyinga sem eru með mikla andúð á Dönum og dönskum yfirráðum í Færeyjum.  En sléttur helmingur Færeyinga lítur á sig sem hluta af Danmörku,  með tilheyrandi aðdáun á dönsku drottningunni og því pakki.  Þeir Færeyingar eru þó frekar eldra fólk.  En einnig slæðast með ungir rokkarar á borð við þá sem ég fór að þrefa við þarna á Glitni.

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 00:51

9 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  ég skemmti mér rosalega vel í Fjáreyjum.  Ég kann því betur að vera frjáls og óháður en vera í pakka þar sem einhver "hugsar um mig".  Ég var giftur í næstum aldarfjórðung og hef samanburð með þessari niðurstöðu.

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 00:56

10 Smámynd: Hannes

Ég held að það sé best að vera ógiftur.

Gott að þú skemmtir þér vel.

Hannes, 13.6.2009 kl. 01:44

11 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Gott er að vera "giftur",en mun betra að vera kvæntur! Hélt kannski að þú myndir kíkja tilGötu vegna kunningsskaparins við m.a. foreldra álfadrottningarinnar. En synd fyrir hina annars góðu Eyjadkeggja, að skrifffinskan sé slík að jafnvel ekki snillingar á borð við þig gætu glatt þá að sönnu með heilsusamlegum og alvöru sólkremum með meiru!Er þetta ekki bara bévítans Baunaveldinu að kenna,hefur innleitt skrifræðið svo þeim sjálfum yrði ekki ógnað að utan?

Magnús Geir Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 20:10

12 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  ég skemmti mér alltaf vel.  Og alltaf sérlega vel í Færeyjum.

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 21:38

13 Smámynd: Jens Guð

  Magnús,  í minni ágætu Orðabók Menningarsjóðs stendur að áður hafi  gifta  aðeins átt við um konu en í dag eigi það við um báða hjúskaparaðila.   

  Sem hluti af danska sambandsríkinu kaupa Færeyingar vörur frá Danmörku eins og um innanlandsverslun sé að ræða.  Það þarf enga tollafgreiðslu,  pappíra eða neitt slíkt.  Fyrir bragðið kaupa Færeyingar allar vörur sem þeir geta frá Danmörku fremur en frá "útlöndum".  Þeir kunna einfaldlega varla að kaupa vörur frá öðrum. 

  Í fyrra gekk í gildi fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja.  Ég hef ekki kynnt mér hvað sá samningur þýðir.  Mig grunar að hann snúi helst að því að ekki megi setja vörugjald eða toll á vörur framleiddar í þessum löndum.  Mér þykir ólíklegt að fríverslunarsamningurinn hafi létt á skrifstofubákninu.  Ætli hann hafi ekki frekar þyngt skrifstofubáknið með því að nú þurfi að framvísa upprunavottorði stimpluðu af einhverjum embættum. 

Jens Guð, 13.6.2009 kl. 22:00

14 identicon

Gaman að sjá að þú hafir skemmt þér vel í Færeyjum, ég gerði það allavega og það í minni fyrstu heimsókn. Maturinn þarna er frábær, þá sérstaklega ræsta kjötið og skerpukjötið, smakkaði líka þurrkaða grind og finnst hún ekki síðra lostæti en hitt.

Kveðja frá kærustuparinu af hótelinu á Egilsstöðum

Jens Kristján (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 02:03

15 Smámynd: Jens Guð

  Nafni,  þú átt eftir að verða háður skerpukjötinu,  ræsta kjötinu,  grindinni og því öllu.  Takk fyrir síðast og bestu kveðjur til konu þinnar,  krakkanna og Siffa.

Jens Guð, 14.6.2009 kl. 02:14

16 Smámynd: Hannes

Það er gott að heyra kannski ég kíki til fífleyja í nokkra daga ef ég fer á hjólinu til evrópu.

Hannes, 14.6.2009 kl. 02:18

17 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  þú mátt reikna með að verða ástfanginn af Færeyjum.  Það er regla fremur en undantekning.

Jens Guð, 14.6.2009 kl. 02:35

18 Smámynd: Hannes

Aldrei að vita Jens. Kannski ég kíki þangað einhverntímann.

Hannes, 14.6.2009 kl. 03:04

19 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Og kannski yrði Hannes þá ekki bara ástgangin af eyjunum, heldur færeysku fljóði og tja, gifti sig!?

Þú fyllir mig fortíðarhugsunum annars Jens, að fara að tala um verslun og viðskipti, þessi ósköp lærði ég nú einu sinni og ekki er nú bara hægt að gleyma t.d. engilsaxneska heitinu á skjalinu sem þú nefnir, Certificate Of Orgin, eða Upprunavottorð á íslensku!Ég hef hins vegar frekar lítið nýtt þessa menntun,þó kom smá skorpa í skattskilum sér vel, þannig að slíkt hefur ekki vafist fyrir mér svo mjög seinna meir og lærdómur um tollmeðferð og viðskiptabréfaskriftir, hafi aðeins komið við sögu.

Magnús Geir Guðmundsson, 14.6.2009 kl. 03:26

20 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  þú átt pottþétt eftir að kíkja til Færeyja.  Og sérð ekki eftir því.

Jens Guð, 16.6.2009 kl. 00:05

21 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  eitthvað rámar mig í að hafa heyrt af þessu námi þínu í verslun og viðskiptum.  Sjálfur hef ég aldrei lært neitt um þessi fræði ef frá er talið nám mitt í auglýsingafræðum.  Ég lærði snemma að það var alltof tímafrekt fyrir mig að bögglast sjálfur við að gera tollskýrslur.  Ég fékk þær alltaf í hausinn aftur vitlaust útfylltar.  Það kostaði alltaf margra daga töf á tollafgreiðslu að reyna að gera þessar skýrslur sjálfur.  Það kostar bara 2 - 3 þúsund kall að láta sérfræðinga afgreiða þetta á "no time".

Jens Guð, 16.6.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.