8.10.2009 | 23:10
Kvikmyndarumsögn
- Titill: Guð blessi Ísland
- Leikstjóri: Helgi Felixson
- Helstu "stjörnur": Geir Haarde, Bjarni Ármanns, Björgólfur Thor, Jón Ásgeir, Dúni Geirsson, Sturla Jónsson og Eva Hauksdóttir
- Tónlist: Hilmar Örn Hilmarsson
- Einkunn: ***1/2 (af 5)
Guð blessi Ísland er heimildarmynd um efnahagshrunið og búsáhaldabyltinguna. Ég var búinn að gleyma þeim gífurlega tilfinningahita, reiði og æsingi sem einkenndi búsáhaldabyltinguna. Hvernig allt var við að sjóða upp úr. Lögreglan átti í vandræðum með að hemja hamslausan múginn. Það var hættuástand og mesta mildi að enginn slasaðist alvarlega í hamaganginum.
Formenn stjórnmálaflokkanna urðu að flýja úr beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2. Reyndar skemmdu mótmælendur tækjabúnað Stöðvar 2 þannig að útsending rofnaði. Ingibjörg Sólrún kannaðist ekki við að mótmælendur væru þjóðin. Hún sá hvergi þjóðina. Hafði orðið viðskila við hana. Bíll forsætisráðherra, Geirs Haarde, var laminn að utan eins og harðfiskur. Geir taldi sig og bílstjórann hafa verið í raunverulegri hættu. Það kemur ekki fram í myndinni en eftir þetta fylgdu Geir nokkrir lífverðir hvert sem hann fór. Einnig Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra. Heimili hans var jafnframt vaktað af lögreglunni. Lögreglustöðin varð fyrir harkalegri árás vegna handtöku á ungum manni er hafði flaggað Bónus-fána á alþingishúsinu.
Björgólfur Thor, Jón Ásgeir og Bjarni Ármannsson koma ansi furðulega fyrir í myndinni. Þeir virðast raunveruleikafirrtir og hugsunarháttur þeirra töluvert frábrugðinn þess fólks sem er að berjast í bökkum og missir að lokum allt sitt. Bjarni kemur skást út. Senurnar með þeim hinum eru skondnar. Reyndar er margt fleira ljómandi fyndið í myndinni.
Feðgarnir í lögreglunni, Geir Jón og Dúni, eru stétt sinni til sóma. Sýna aðstæðum og mótmælendum skilning og leggja sig fram um að gera gott úr öllu af yfirvegun. Eru stjörnur myndarinnar. Hlýlegar jákvæðar persónur, velviljaðar og eiga aðdáunarvert auðvelt með að afgreiða allt sem lýtur að bestu mannlegum samskiptum. Herskáustu mótmælendur geta ekki annað en borið réttilega virðingu fyrir þeim. Aldeilis frábærir feðgar.
Sama verður ekki sagt um nasistana Ólaf Klemensson (starfsmann Seðlabankans) og litla feita bróðir hans (svæfingarlækni hjá Landsspítalanum). Þeir ryðjast með fúkyrðum inn í hóp mótmælenda og reyna að efna til slagsmála. Ólafur, sem er með húðflúraðan hakakross (sést samt ekki í myndinni), gengur svo langt að hrinda konu upp úr þurru. Miðað við æsinginn á svæðinu er næsta undarlegt að þeim bræðrum mistókst ætlunarverkið: Að efna til slagsmála. Það kemur ekki fram í myndinni en kom fram í fjölmiðlum á sínum tíma að fólk hélt að þarna væru vesalingar í annarlegu ástandi á ferð. Sem er skiljanlegt. Og sennilega rétt mat hvað varðar Ólaf (sjá mynd). Sá litli feiti var meira í því hlutverki að upphefja sig í augum gamla nasistans. Það vaknar spurning varðandi traust sem skjólstæðingar Landsspítala þurfa að bera til svæfingarlækna að eiga sitt undir samskiptum við svona kexruglaðan svæfingarlækni. Þessi bjáni er hættulegur umhverfi sínu. Þvílík fífl sem þessir bræður eru. En gefa lífinu lit með verstu formerkjum. Það kæmi ekki á óvart að Baldur Hermannsson eigi eftir að mæra þá bræður. Kjaftur hæfir skel.
Í gegnum myndina er fylgst með Sturlu Jónssyni taka þátt í mótmælunum, stefna á þing fyrir Frjálslynda flokkinn og tapa öllu sínu í hruninu. Hann og hans fjölskylda voru í góðum málum. Áttu tvær blokkaríbúðir, byggðu sér hús af elju, en svo dundu ósköpin yfir: Sturla varð atvinnulaus og skuldir hrönnuðust upp. Að lokum flutti Sturla til Noregs. Draumur fjölskyldunnar um að flytja til Flórída verður að bíða betri tíma.
Nornin Eva Hauksdóttir fer í gegnum svipað ferli. Hún flutti til Danmerkur. Það er áhrifaríkt að fylgjast með lífsbaráttu Evu og Sturlu til samanburðar við túlkun Björgólfs, Jóns Ásgeirs og Bjarna Ármanns á ástandinu. Kostulegust er sú skýring Björgólfs að peningar skipti ekki um eigendur heldur hverfi eins og jurt sem visnar og hverfur. Þessa kenningu má kannski bera á borð fyrir þá sem töpuðu öllu sínu er þeir treystu Icesave fyrir ævisparnaði sínum. Peningar þeirra hurfu eins og visnuð jurt. Einnig er broslegt að sjá blaðafulltrúa Björgólfsfeðga burðast með tvö kaffiglös og fleira á eftir Björgólfi Thor sem heldur ekki á neinu. Björgólfur er kóngurinn og Ásgeir Friðgeirsson, ja, hvuttinn sem er í því hlutverki að dekstra húsbóndanum.
Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en þeir sem eru mér fróðari telja sig merkja augljós einkenni kókaínneytenda af töktum sumra.
Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar hefur öll bestu einkenni kvikmyndatónlistar. Maður tekur varla eftir tónlistinni og áhrifaríkri beitingu hennar nema hlusta sérstaklega eftir henni.
Galli myndarinnar er að sum skot eru of löng og þjóna ekki neinum tilgangi. Það hefði mátt beita skærum grimmar. Dæmi um þetta er löng sena af konu Sturlu þurrka hund og langt myndskeið tekið út um bílglugga er Sturla ekur eftir Reykjanesbraut á leið til Noregs.
Ég get mælt með myndinni sem skemmtilegri, áhrifaríkri og góðri upprifjun á sérstæðum kafla í Íslandssögunni.
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Pepsi-deildin, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 9.10.2009 kl. 14:28 | Facebook
Athugasemdir
Hver fannst þér besti leikarinn ?
Brattur, 8.10.2009 kl. 23:24
Þeir sem koma best út í myndinni eru feðgarnir Dúni og Geir Jón, svo og Sturla Jónsson.
Jens Guð, 8.10.2009 kl. 23:27
Þessi mynd hafði alla kosti að verða góð heimildarmynd útkoman verður að flokkast forvitnileg mynd en mikil vonbrigði miðað við það efni sem Helgi hafði að moða úr.
Myndin er ágætis Sunnudagsmynd á RÚV.
Ómar Ingi, 9.10.2009 kl. 00:10
Ómar Ingi, ég get að sumu leyti tekið undir að myndin stendur ekki alveg undir væntingum. Ég var búinn að sjá hana fá 4 og 4 og hálfa stjörnu í Mogganum og DV. Ég get ekki gefið henni hærri einkunn en 3 og 1/2 stjörnu. Það er margt í myndinni sem ég hefði kosið að væri tekið öðrum tökum. Einkum er snýr að því að þétta myndina með skarpari klippingu. Myndin er nokkuð löng. Fer vel yfir 2 klukkutíma í sýningu með hléi. Ég hefði sömuleiðis viljað að gengið væri harðar að útrásarvíkingunum.
Engu að síður: Mér leiddist ekki undir myndinni. Hún heldur þokkalegum dampi og vekur til umhugsunar. Að auki framkallar hún bros og er ágæt heimild um þennan sérkennilega kafla í Íslandssögunni.
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 00:53
Er það bara í minni tölvu sem letur er allt í einu orðið mun smærra en áður?
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 00:56
Í banka þungan báru kross,
þar bræður fengu dauðan koss,
úti í Móa hlær nú hross,
Herra Jesús sé með oss.
Þorsteinn Briem, 9.10.2009 kl. 01:42
Economist at the Central Bank of Iceland attacking protesters
Þorsteinn Briem, 9.10.2009 kl. 01:49
Steini, bestu þakkir fyrir skemmtilega stöku.
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 01:58
Mói hann er karl í krapi,
og kúlulánaöskurapi,
hundrað reið hann hreinum meyjum,
og helling líka af Eyjapeyjum.
Þorsteinn Briem, 9.10.2009 kl. 03:56
Séað þetta blogg er undir flokknum "Landsbankadeildin".
Viðeigandi
Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2009 kl. 04:03
Ætla einmitt að skella mér á þessa mynd um leið og veðrið verður skaplegt aftur.
Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:47
Jens,ertu ekkert hræddur um það að Davíð Hádegismóri loki á bloggið þitt,því þú minnist þarna á gamlan félaga hans hjá Seðlabankanum.Svo kallarðu þennan vin Hádegismóra fífl,,,veit Davíð af þessu.?
Númi (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 13:38
Steini (#9), ég gargaði úr hlátri við lestur þessarar vísu.
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 20:00
Jón Steinar, það var ekki hjá því komist.
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 20:04
Inside, hefur veðrið verið leiðinlegt?
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 20:10
Númi, Davíð kallar hann líka fífl. Held ég. Það hlýtur eiginlega að vera.
Jens Guð, 9.10.2009 kl. 20:12
Er ekki búinn að sjá myndina ,en eftir af hafa lesið kritk ur blöðunum held ég að ég sé betur sett heima ,með mínar persónulegar hugmyndir um Island ,og Islendinga,sem stundum koma skondir fyrir mér ef svo má seigja.Það er fovitnislegt að sjá hvað er að gerast og hvað Islendingar eru lítið pólítiskir í sér, fáar eynkarskoðanir ,en meira að fylgja fjöldanum,og láta leyða sig.Það sést bara að eitt stjórnafélag hefur reytt hér í 18 ár.
sigurbjörg sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 22:24
Leiðinlegt? Mér finnst veðrið aldrei leiðinlegt, bara misjafnlega slæmt/gott.
Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:47
Sigurbjörg, ég held að myndin breyti ekki neinum skoðunum. Hún er ekki áróðursmynd. Frekar eins og fréttaannáll Sjónvarpsins. En skemmtilegri. Það var oft og mikið hlegið í bíósalnum.
Jens Guð, 10.10.2009 kl. 19:21
Inside, þetta er góð afstaða hjá þér. Einhver sagði líka að það sé ekki til vont veður heldur sé málið að klæða sig rétt miðað við aðstæður.
Jens Guð, 10.10.2009 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.