Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Furðuleg sölubrella

  Á föstudaginn bauð 10-11 landsmönnum í kaffi- og kakóveislu.  Það gerði fyrirtækið með 2ja dálka x 40 cm auglýsingu í grænum lit í Fréttablaðinu (einkennislit fyrirtækisins).  Hvað með það?  Vel boðið.  Nema hvað.  Svo einkennilega vill til að fyrirtækið 10-11 er ekki til.  Þetta var vinsæl matvöruverslun.  Hún vann sér til frægðar að vera dýrasta búð landsins.  Svo breyttist hún í Kvikk og Krambúðina.  Þá lækkaði verðið um 25% með einu pennastriki.  Svo einfalt og auðvelt var það.  

  Þetta var hrekkur.  Langt frá 1. apríl.  Kaffiþyrstur kunningi minn ók til Mosfellsbæjar og Voga á Vatnsleysuströnd.  Honum fannst hann vera hafður að fífli.  Hvergi var ókeypis kaffi að finna.  Reyndar þurfti þetta ekki til að hann væri eins og hafður að fífli.  Hann er fífl. 

  Annað:  Rory and The Hurricanes voru stóra nafnið í Liverpool á undan Bítlunum.  Miklu munaði að Bítlarnir sömdu sín eigin lög.  Góð lög.   Bestu lög rokksögunnar.  Að auki tefldu Bítlarnir fram tveumur bestu rokksöngvurum dægurlagaheims.  Ringo var trommari Hurrycanes.  Já, og síðar Bítlanna.  Þar veðjaði hann á réttan hest.  Mestu skipti að honum þótti Bítlarnir vera miklu fyndnari og skemmtilegri en liðsmnenn Hurrycanes.  Að vera í Bítlunumn var eins og að vera í skemmtiþætti Monty Python.  Fyndnustu brandarar í heimi á færibandi.     

 


Falskt öryggi

  Einnota hanskar eru í tísku um þessar mundir.  Hvítir þykja flottastir. Bláir og grænir njóta einnig vinsælda.  Annars fer þetta að mestu eftir litnum á fötunum sem fólk klæðist hverju sinni. 

  Einnota hanskar eru ekki aðeins skemmtilegur klæðnaður.  Þeir geta líka spornað gegn útbreiðslu kórónaveirunnar.  Eða hvað?  Jú,  ef rétt er að farið.  Verra er að þeir geta einnig gefið falskt öryggi.

  Veiran smitast ekki bara við snertingu.  Hún svífur um loftin blá;  ferðast allt í kringum smitað fólk.   Veik manneskja þarf ekki einu sinni að hósta hraustlega til að smita aðra.  Henni nægir að anda án rykgrímu.

  Einnota hanski venur fólk ekki af því að snerta andlitið á sér.  Í hanska flaðrar fólk upp hurðahúna sem löðra í veirum; stigahandrið, innkaupakerrur,  slær inn PIN-númer og svo framvegis.  Þegar hanskaklætt fólkið snertir síðan á sér andlitið þá er það engu betur sett en berhentir.

  Yfirleitt liggja hanskarnir þétt um höndina.  Við það verður húðin þvöl.  Það er kjörlendi fyrir veiruna.  Mikilvægt er að hendur séu vel þurrar þegar þeim er stungið í hanska.  

 Töluverð kúnst er að fara úr einnota hanska.  Margir fara þannig úr þeim að þeir gætu eins sleikt hurðahún. 

  Tíður handþvottur er heppilegri en hanskar.  Hann skilur heldur ekki eftir sig sama sóðaskap og hanskinn.  Víða fyrir utan matvöruverslanir má sjá einnota hanska fjúkandi út um öll bílastæði.

  Sumir klippa framan af fingrum hanskans;  breyta honum í grifflur.  Það er töff en veitir falskt öryggi gegn kórónaveirunni. 

einnota hanskarveiruvörn    


Fjölmiðlar ljúga gróflega

  Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna.  Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið.  Svo kom veiran til Íslands. 

  Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum).  Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.

  Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar.  Samt.  Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?).  Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?).  Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu.  Bæði meðal karla og kvenna.  85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri,  vinna sér til gagns og gamans.  Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu.  Þannig mætti áfram telja.  

  Annað en þó þessu skylt.  Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna.  Hann var skotinn með það sama. 

 


Þannig má laga skemmd lungu

  Sígarettur eru ekki eins hollar og margir halda.  Að reykja þær veldur ertingu og álagi á lungun.  Einkum ef mikið og oft er reykt;  þá skaðast lungun.  Strompar fá þrálátan hósta,  lungnateppu og jafnvel krabbamein,  svo fátt eitt sé nefnt. 

  Háskóli í Maryland í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur rannsakað dæmið og skoðað hvað sé til ráða.  Niðurstaðan kemur á óvart.  Ávöxturinn tómatur getur gert kraftaverk.  Aðeins þarf að snæða tvo tómata á dag til að þeir hefji viðamikla viðgerð á skemmdum lungum. 

  Tómatsósa skilar minni árangri.  Skiptir þar engu máli hvort hún er framleidd úr tómötum eða eplamauki.  Hinsvegar geta fersk epli hjálpað. 

tómatar


Dauðateygjur sekkjapípunnar

  Hljóðfærið sekkjapípa á sér langa og flókna sögu.  Hún nær aftur um aldir.  Í dag er hún einskonar þjóðarhljóðfæri Skota.  Skotar eru um hálf sjötta milljón.  Aðeins sex þúsund þeirra kann að spila á sekkjapípu.  Þeim fækkar hratt.  Svo hratt að reiknað hefur verið út að eftir örfáa áratugi heyri sekkjapípan sögunni til.  Til að viðhalda þekkingu á sekkjapípuspili þurfi 350 þúsund manns að kunna á hljóðfærið og kenna komandi kynslóðum á það.  

  Skotar geta tekið Grænlendinga sér til fyrirmyndar.  Fyrir nokkrum áratugum kunni aðeins einn Grænlendingur grænlenska trommudansinn.  Hann var sendur þvers og kruss um Grænland til að endurvekja trommudansinn.  Með einstaklega góðum árangri.  Áhugi grænlenskra barna var til staðar.  Í dag blómstrar grænlenski trommudansinn.   


Breskar sígarettur

  Í nýlegri dvöl minni í Skotlandi vakti athygli að allt þarlent reykingafólk virtist reykja sömu sígarettutegund.  Og það tegund sem ég kannaðist ekki við.  Eðlislæg forvitni var vakin.  Ég gerðist svo djarfur að spyrja reykingamann út í málið.  Þá var ég upplýstur um að í Bretlandi séu allir sígarettupakkar alveg eins.  Það eru lög.  Furðulög.  Rökin eru þau að ef að fólk veit ekki hvort að það er að reykja Camel eða Salem þá hættir það að reykja og maular gulrætur í staðinn. 

sígarettur


Sökudólgurinn gripinn glóðvolgur

  Í árdaga tölvunnar var sett upp tölvustofa í Háskóla Íslands.  Tölvurnar voru frumstæðar og kostuðu skildinginn.  Fljótlega kom upp sú staða að lyklaborðin biluðu.  Þetta var eins og smitandi sýki.  Takkar hættu að virka eða skiluðu annarri niðurstöðu en þeim var ætlað.  Þetta var ekki eðlilegt.  Grunur kviknaði um að skipulögð skemmdarverk væru unnin á tölvunum.  Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í stofunni svo lítið bar á.  Þær fundu sökudólginn.  Hann reyndist vera ræstingakona;  afskaplega samviskusöm og vandvirk með langan og farsælan feril. 

  Á hverju kvöldi skóladags þreif hún tölvustofuna hátt og lágt.  Meðal annars úðaði hún yfir tölvurnar sótthreinsandi sápuúða sem hún þurrkaði jafnharðan af.  Hún úðaði einnig vökvanum yfir lyklaborðin.  Vandamálið er að enn í dag - nálægt 4 áratugum síðar - eru lyklaborð afskaplega viðkvæm fyrir vökva.  Ég votta það.

tölva þvegin

 

 


5 tíma svefn er ekki nægur

  Sumt fólk á það til á góðri stundu að hreykja sér af því að það þurfi ekki nema fimm tíma nætursvefn.  Þetta hefur verið rannsakað af New York háskóla í læknisfræði.  Dr. Rebecca Robbins leiddi rannsóknina.  Niðurstaðan er sú að hugmyndin um að fimm tíma svefn sé ekki aðeins bull heldur skaðleg.   

  Þetta stuttur nætursvefn eykur mjög líkur á fjölda lífshættulegra heilsubresta,  svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og almennt ótímabærum dauða.  Fólki er ráðlagt frá því að horfa á sjónvarp fyrir háttatíma.  Jafnframt er upplýst að neysla áfengra drykkja undir svefn rýri svefngæði.  Frá þessu segir í The Journal Sleep Health en ekki hinu:  Að heppilegast sé að stunda morgundrykkju samviskusamlega.  

  Rannsóknin byggir á yfir 8000 gögnum.   

 

 


Gáfnafar Íslendinga slagar í asískar þjóðir

  Flestir vita að Asíubúar eru gáfaðastir allra jarðarbúa.  Þar af skora íbúar Hong Kong og Singapore hæst.  Fast á hæla þeirra koma íbúar Suður-Kóreu,  Japans, Kína og Tævans.  Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að ekki hefur tekist að mæla gáfnafar íbúa Norður-Kóreu.  Að sögn þarlendra fjölmiðla búa stjórnendur ríkisins að yfirnáttúrulegu gáfnafari.  Og yfirnáttúrulegum hæfileikum á flestum sviðum,  ef út í það er farið.   Hafa meira að segja sent mannað geimfar til sólarinnar.

  Færri vita að Ítalir, Íslendingar og Svisslendingar koma þétt upp að Asíubúum í gáfnafari.  Ótrúleg staðreynd ef hliðsjón er höfð af útsendingum frá Alþingi.  Málið er að aðrar þjóðir eru vitlausari. 

  HÉR má sjá listann.  Hann er ekki fullkominn,  eins og að ofan greinir varðandi Norður-Kóreu.  Líka vantar Færeyinga á listann.  Þeir eru flokkaðir með Dönum.  Eiga áreiðanlega sinn þátt í því að Danir ná 9. sætinu. 


Górillur "pósa"

  Flestir reyna að koma þokkalega fyrir þegar þeir verða þess varir að ljósmyndavél er beint að þeim.  Ekki síst þegar teknar eru svokallaðar sjálfur.  Þetta er greinilegt þegar kíkt er á sjálfurnar sem flæða yfir fésbókina. 

  Svona hegðun er ekki einskorðuð við mannfólkið.  Þetta á líka við um górillurnar í þjóðgarðinum í Kongó.  Þær hafa áttað sig á fyrirbærinu ljósmynd.  Þær "pósa";  stilla sér upp bísperrtar og eins virðulegar og mannlegar og þeim er unnt.

  Á meðfylgjandi mynd er önnur górillan eins og hún sé með hönd í vasa.  Afar frábrugðið eðlilegri handstöðu apans.  Hin hallar sér fram til að passa upp á að vera örugglega með á mynd.  Undir öðrum kringumstæðum gengur gorillan á fjórum fótum.

apamyndapamnd 1 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.