Færsluflokkur: Samgöngur

Ósvífin sölubrella

  "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig.  Og aðra.  Ennþá brýnni er spurningin:  Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan? 

  Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit.  Þar segir í flennistórum texta:  "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM". 

  Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni:  "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða." 

  Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni.  Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði.  Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum. 

  Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið.  Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs).  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,-  Nema á Reykjavíkurvegi.  Þar kostaði hann kr. 188.8,-.  Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum:  "Ódýrasta eldneytisverð á landinu". 

  Ég var nokkuð sáttur við það.  Þangað til ég ók framhjá Costco.  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-  


Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...

  Margt er brogað hér í borg;

ég bévítans delana þekki.

  Hagatorg er hringlaga torg

en hringtorg er það samt ekki!

   Fyrir þá sem þekkja ekki til:  Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu.  Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið.  Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður.  Við torgið stendur veglegt strætóskýli.   Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt.  Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar.  Sjaldnast stoppar hann við skýlið.  Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.  

  Þvert yfir torgið liggur gangbraut.  Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir.  Stöðvun kostar fjársekt.  Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður.  Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn.  Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg. 


Smásaga um bíleiganda

  Jóhann og frú Þuríður eiga gamlan fólksbíl.  Að því kom að ýmislegt fór að hrjá skrjóðinn.  Um miðjan janúar gafst hann upp.  Þuríður fékk kranabíl til að drösla honum á verkstæði.  Þar var hann til viðgerðar í marga daga.  Bifvélavirkjunum tókst seint og síðar meir að koma honum í lag.

  Verkstæðiseigandinn hringdi í frú Þuríði.  Tilkynnti henni að bíllinn væri kominn í lag.  Þetta hefði verið spurning um að afskrifa bílinn - henda honum ónýtum - eða gera hann upp með miklum kostnaði.  

  Verkstæðiseigandinn útlistaði þetta fyrir frú Þuríði.  Sagði:  "Öll viðvörunarljós lýstu í mælaborðinu.  Þú hlýtur að vita að rautt ljós í mælaborði kallar á tafarlausa viðgerð á verkstæði.  Annars skemmist eitthvað."

  Frú Þuríður varð skömmustuleg.  Hún svaraði með semingi:  "Fyrstu ljósin kviknuðu í október.  Þau voru appelsínugul.  Svo fjölgaði ljósunum í nóvember.  Þar bættust rauð við.  Hámarki náðu þau í desember.  Okkur Jóhanni þótti þetta vera í anda jólanna, hátíðar ljóss og friðar.  Þetta var eins og jólasería.  Við erum mikil jólabörn.  Við ákváðum að leyfa þeim að lýsa upp mælaborðið fram á þrettándann að minnsta kosti.  Blessaður bíllinn stóð sína plikt og rúmlega það.  Ekki kom á óvart að hann reyndi sitt besta.  Við gáfum honum nefnilega ilmspjald í jólagjöf."

aðvörunarljós   


Álit ferðamanns

  Oft er gaman að heyra eða lesa hvernig útlendir ferðamenn upplifa Ísland.  Á netmiðlinum quora.com spyr ung kona frá Singapore í fyrirsögn:  "Hve dýrt er Ísland?"  Hún svarar sér:  "Stutta svarið er mjög."

  Hún fór í 8 daga hringferð um Ísland.  Kíkti á Vestfirði í leiðinni.  Hún var í 5 manna hópi sem tók jeppa á leigu.  Leigan var 134.200 kall.  Hún hvetur aðra túrhesta á Íslandi til að ferðast saman í hópi til að halda kostnaði niðri.  Jafnframt hvetur hún til þess að keypt sé bílatrygging.  Framrúðan í bílnum sprakk vegna steinkasts.

  Bensínkostnaður var 48.800 kr.  Á veitingastöðum kostar aðalréttur um 3660 kr. Á móti vegur að bensínsjoppur selja heitt ruslfæði á borð við pylsur, hamborgara og franskar.  Kostnaður er á bilinu 976 til 1220 kall.  Mín athugasemd:  Hið rétta er að pylsa kostar víðast á bilinu 400 - 450 kall. Kannski þarf 2 pylsur til að teljast vera máltíð?

  Daman bendir á að hægt að kaupa samlokur í Bónus-verslunum.  Sumar álíka verslanir selji líka heitan mat.  Sennilega er hún að vísa til Krónunnar sem selur heitan kjúkling, sviðakjamma og þurusteik.

  Gistikostnaður hverja nótt á mann var 9760 kall á mann. Notið greiðslukort,  segir hún.  Íslenskar krónur eru verðlausar utan Íslands.    

  Niðurstaða hennar:  Já, Ísland er dýrt.  En hverrar krónu virði!  

kerry teo        

  

   


Örstutt smásaga um bílaverkstæði

  Stelpurnar á bílaverkstæðinu Þrjú hjól undir bílnum raða sér í kringum eldhúsborðið.  Það er kaffitími.  Sigga "litla" brestur í grát.  Hún grætur með hljóðum eins og kornabarn.  Hinar stelpurnar þykjast taka ekki eftir þessu.  Þetta gengur vonandi fljótt yfir.  Svo reynist ekki vera.  Hún gefur í.  Korteri síðar spyr Sigga "sprettur":  "Hvað er að?  Meiddir þú þig í tánni?"

  "Ég fékk uppsagnarbréf áðan,"  upplýsir Sigga "litla".  "Mér er gert að rýma skrifborðið mitt fyrir klukkan fimm."  Henni er eins og smávegis létt.  Nokkuð slær á grátinn.

  "En þú ert sú eina sem kannt á kaffivélina,"  mótmælir Sigga "stóra".  Hún fær þegar í stað kvíðakast.  Sigga "litla" róar hana:  "Þið getið notað hraðsuðuketilinn og skipt yfir í te."

  "Kakómjólk er líka góð," skýtur Sigga "sæta" að.  "Hún er sérlega góð með rjómatertu sem er skreytt með jarðaberjum og kíví.  Ég hef smakkað svoleiðis.  Ég hef líka smakkað plokkfisk."

  Kaffispjallið er truflað þegar inn þrammar stór, spikfeitur og tröllslegur maður.  Hann hefur rakað af sér vinstri augabrúnina.  Fyrir bragðið er léttara yfir þeim hluta andlitsins.  "Ég þarf að láta stilla bílinn minn," segir hann.

  "Stilla vélina?" spyr Sigga "litla" kjökrandi.

  "Nei, útvarpið.  Það er stillt á Rás 2.  Ég vil að það sé stillt á rás 1."

  "Ekkert mál.  Þú mátt sækja bílinn á föstudaginn í næstu viku."

  "Frábært!  Lánið þið manni bíl á meðan?"

  "Nei,  en við getum leigt þér reiðhjól.  Reyndar er það í barnastærð.  Á móti vegur að leigan er lág.  Aðeins 7000 kall dagurinn."

  "Ég hef prófað að setjast á reiðhjól.  Þá datt ég og fékk óó á olnbogann.  Kem ekki nálægt svoleiðis skaðræðisgrip aftur.  Ég kaupi mér frekar bíl á meðan þið dundið við að stilla á Rás 1." 

  "Þú getur líka keypt pylsuvagn.  Hérna neðar í götunni er einn til sölu."

  "Takk fyrir ábendinguna.  Þetta lýst mér vel á.  Ég skokka þangað léttfættur sem kiðlingur."  Hann kjagar umsvifalaust af stað.  Í vitlausa átt.

  Andrúmsloftið er léttara.  

  "Eigum við ekki að syngja kveðjusöng fyrir Siggu "litlu?",  stingur Sigga "sprettur" upp á.  Því er vel tekið.  Fyrr en varir hljómar fagurraddað  "Éttu úldinn hund kona,  éttu úldinn hund". 

  Þetta er svo fallegt að Siggu "litlu" vöknar enn og aftur um augu.  Hún hugsar með sér að úldið hundakjöt þurfi ekki endilega að vera síðra en þorramatur.  Kannski bara spurning um rétt meðlæti.

   Er síðustu söngraddirnar fjara út grípur Sigga "sprettur" tækifærið og biður Siggu "litlu" um að tala við sig undir fjögur augu.  Þær ganga út á mitt gólf. 

  "Hvað er málið með þennan brottrekstur?"

  "Ég fékk formlega viðvörun fyrir 3 mánuðum.  Mér var hótað brottrekstri ef ég bætti ekki mætinguna.  Þú veist að ég sef of oft yfir mig.  Vekjaraklukkan er til vandræða.  Hún gengur fyrir rafmagni.  Þegar rafmagni slær út þá fer klukkan í rugl."

  "Þú færð þér þá bara batterísklukku."

  "Ég get það ekki.  Ég á ekkert batterí."

  "Það er einhver skekkja í þessu.  Þú stofnaðir verkstæðið.  Þú ert eini eigandi þess og ræður öllu hérna.  Hvernig getur þú rekið sjálfa þig?"

  "Að sjálfsögðu hvarflar ekki að mér að mismuna fólki eftir því hvort að um eiganda eða óbreyttan launþega ræðir.  Annað væri spilling.  Svoleiðis gera Íslendingar ekki.  Hefur þú ekki lesið blöðin?  Ísland er óspilltasta land í heimi."

verkstæði 


Bestu og verstu bílstjórarnir

  Breskt tryggingafélag,  1st Central,  hefur tekið saman lista yfir bestu og verstu bílstjórana,  reiknað út eftir starfi þeirra.  Niðurstaðan kemur á óvart,  svo ekki sé meira sagt.  Og þó.  Sem menntaður grafískur hönnuður og skrautskriftarkennari hefði ég að óreyndu getað giskað á að myndlistamenn og hverskonar skreytingafólk væru öruggustu bílstjórarnir.  Sömuleiðis mátti gefa sér að kóksniffandi verðbréfaguttar væru stórhættulegir í umferðinni,  rétt eins og í vinnunni.   

Bestu bílstjórarnir

1.  Myndlistamenn/skreytingafólk

2.  Landbúnaðarfólk

3.  Fólk í byggingariðnaði

4.  Vélvirkjar

5.  Vörubílstjórar

Verstu bílstjórarnir

1.  Verðbréfasalar/fjármálaráðgjafar

2.  Læknar

3.  Lyfsalar

4.  Tannlæknar

5.  Lögfræðingar 


Íslandsvinur hannar neyðarhjálpardróna

  Á fyrri hluta aldarinnar var breski olympíuskylmingameistarinn og rokksöngvarinn Bruce Dickinson með annan fótinn á Íslandi.  Hann var flugmaður hjá Iceland Express og söng - og syngur enn - með þungarokkshljómsveitinni Iron Maiden.

  Heimsathygli vakti um árið þegar Iron Maiden var aðalnúmer á Hróarskeldurokkhátíðinni í Danmörku.  Aðdáendur Iron Maiden frá Ameríku og víðar tóku framhaldsflug frá Keflavík.  Andlitið datt af þeim við flugtak þegar flugmaðurinn kynnti sig í hátalarakerfi:  Bruce Dickinson.   

  Brúsi er um margt ólíkur rokkstjörnuímyndinni.  Hann hefur aldrei notað vímuefni.  Þess í stað lærði hann sagnfræði; hefur skrifað sagnfræðibækur.  Söngtextar hans bera merki áhuga hans á sögunni.  A sviði er hann engu að síður rokkstjarnan sem gefur allt í botn.  Hann segist vera rosalega ofvirkur.  Sú er ástæðan fyrir því að hann sniðgengur vímuefni - vitandi að annað hvort er í ökkla eða eyra.  Aldrei neitt þar á milli.

  Að undanförnu hefur Brúsi unnið að hönnun neyðarhjálpardróna;  flygildis sem getur borið hjálpargögn til fólks á hamfarasvæðum þar sem öðrum leiðum verður illa við komið.  Uppskrift hans gengur út á að koma hjálpargögnum til 50 manns á einu bretti.  Þar á meðal vatni, mat og sjúkravörum.  

  Útgangspunkturinn og sérstaða í hönnun Brúsa er að flygildið sé kolefnafrítt.  Jafnframt svo ódýrt í innkaupum og ódýrt í rekstri að hjálparsveitum muni ekki um að bæta því í búnað sinn.  

  Brúsi er 60 ára og hefur selt yfir 100 milljónir platna. 

   


Ísland í ensku pressunni

 

  Á fyrri hluta níunda áratugarins vissi almenningur í heiminum ekkert um Ísland.  Erlendir ferðamenn voru sjaldgæf sjón á Íslandi.  50-60 þúsund á ári og sáust bara yfir hásumrið.

  Svo slógu Sykurmolarnir og Björk í gegn.

  Á þessu ári verða erlendir ferðamenn á Íslandi hátt í 3 milljónir.  Ísland er í tísku.  Íslenskar poppstjörnur hljóma í útvarpstækjum um allan heim.  Íslenskar kvikmyndir njóta vinsælda á heimsmakaði.  Íslenskar bækur mokseljast í útlöndum.

  Ég skrapp til Manchester á Englandi um jólin.  Fyrsta götublaðið sem ég keypti var Daily Express.  Þar gargaði á mig blaðagrein sem spannaði vel á aðra blaðsíðu.  Fyrirsögnin var:  "Iceland is totally chilled" (Ísland er alsvalt).  Greinin var skreytt ljósmyndum af Goðafossi í klakaböndum, norðurljósum,  Akureyri og Hótel KEA.  

  Greinarhöfundur segir frá heimsókn sinni til Akueyrar og nágrennis - yfir sig hamingjusamur með ævintýralega upplifun.  Greinin er á við milljóna króna auglýsingu.

  Næst varð mér á að glugga í fríblaðið Loud and Quiet.  Það er hliðstæða við íslenska tímaritið Grapevine.  Þar glennti sig grein um Iceland Airwaves. Hrósi hlaðið á íslensk tónlistarnöfn:  Þar á meðal Ólaf Arnalds, Reykjavíkurdætur, Ham, Kríu, Aron Can, Godchilla og Rökkva. 

  Í stórmarkaði heyrði ég lag með Gus Gus.  Í útvarpinu hljómaði um hálftímalöng dagskrá með John Grant.  Ég heyrði ekki upphaf dagskrárinnar en það sem ég heyrði var án kynningar.  

  Á heimleið frá Manchester gluggaði ég í bækling EasyJets í sætisvasa.  Þar var grein undir fyrirsögnini "Icelanders break balls, not bread".  Hún sagði frá Þorra og íslenskum þorramat.  Á öðrum stað í bæklingnum er næstum því heilsíðugrein undir fyrirsögninni "4 places for free yoga in Reykjavik".

go_afoss.jpg


Flugbílar að detta inn á markað

  Lengst af hafa bílar þróast hægt og breyst lítið í áranna rás.  Það er að segja grunngerðin er alltaf sú sama.  Þessa dagana er hinsvegar sitthvað að gerast.  Sjálfvirkni eykst hröðum skrefum.  Í gær var viðtal í útvarpinu við ökumann vörubíls.  Hann varð fyrir því að bíll svínaði gróflega á honum á Sæbraut.  Skynjarar vörubílsins tóku samstundis við sér: Bíllinn snarhemlaði á punktinum, flautaði og blikkaði ljósum.  Forðuðu þar með árekstri.

  Sífellt heyrast fréttir af sjálfkeyrandi bílum.  Þeir eru að hellast yfir markaðinn.  Nú hefur leigubílafyrirtækið Uber tilkynnt um komu flugbíla.  Fyrirtækið hefur þróað uppskriftina í samvinnu við geimferðastofnunina Nasa.  Það setur flugbílana í umferð 2020.  Pældu í því.  Eftir aðeins 3 ár.  Við lifum á spennandi tímum.

   


Hjálpast að

  Ég var á Akureyri um helgina.  Þar er gott að vera.  Á leið minni suður ók ég framhjá lögreglubíl.  Hann var staðsettur í útskoti.  Mig grunaði að þar væri verið að fylgjast með aksturshraða - fremur en að lögreglumennirnir væru aðeins að hvíla sig í amstri dagsins.  Á móti mér kom bílastrolla á - að mér virtist - vafasömum hraða.  Ég fann til ábyrgðar.  Taldi mér skylt að vara bílalestina við.  Það gerði ég með því að blikka ljósum ótt og títt.  

  Skyndilega uppgötvaði ég að bíllinn sem fór fremstur var lögreglubíll.  Hafi ökumaður hans stefnt á hraðakstur er næsta víst að ljósablikk mitt kom að góðum notum.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband