
Það er mikið um að vera hjá Álfarannsóknarstofunni. Jói Jóns hefur hvergi undan. Hann er eini starfsmaður fyrirtækisins. Hann þarf að gera allt: Svara í símann, hella upp á kaffi, taka á móti gestum og gangandi, vaska upp, sinna rannsóknum á álfum og halda að öðru leyti utan um starfsemina eins og hún leggur sig. Sem betur fer er Jói Jóns vinnusamur og samviskusamur. Sem betur fer hringir heldur enginn og aldrei koma neinir gestir. Það veit enginn af tilvist Álfarannsóknarstofunnar. Það gefur Jóa svigrúm til að einbeita sér enn betur að rannsóknum en annars.
.Jói hefur aldrei séð álf. Það gerir rannsóknir erfiðari. Hann veit ekki hvað álfarnir á rannsóknarstofunni eru margir. Það sem hann gerði var að ná tveimur álfasteinum úr sitthvorum landshlutanum: Öðrum á Austjörðum og hinum á Vesturlandi. Hann byrjaði á því að pakka steinunum inn í heyrúlluplast áður en þeir voru fluttir í rannsóknarstofuna. Þannig kom hann í veg fyrir að álfarnir slyppu á hlaupum. Steinarnir eru enn í plastinu. Jói hefur sett á þá mörg lítil göt til að álfarnir fái nóg súrefni. Einnig úðar hann vatni yfir plastið. Eitthvað af vatninu fer inn um götin og álfarnir hafa ráð til að sækja sér vatnið utan á plastinu. Plastið er ætíð þurrt daginn eftir. Allt svona skráir Jói Jóns samviskusamlega niður. Út á það gengur rannsóknin. Svo heppilega vildi til að fyrsta daginn sem steinarnir voru á Álfarannsóknarstofunni kom Jói auga á könguló á öðrum plastaða steininum. Daginn eftir var hún horfin. Þannig komst Jói strax að því að álfar eru skordýraætur. Eftir það veiðir hann daglega skordýr í skordýragildrur og sleppir þeim lausum á plastið. Dýrin eru alltaf horfin daginn eftir. Álfarnir eru gráðugir í skordýr. Jói heldur nákvæma skrá yfir það.
.
Nú hefur færst fjör í leikinn. Heldur betur. Það er kominn nýr álfur í Álfarannsóknarstofuna. Hann keypti Jói af Nígeríusvindlara. Álfurinn er nígerískur. Hann kostaði 100 þúsund kall. Ýmis aukakostnaður hlóðst utan á. Það þurfti að greiða fyrir allskonar pappíra, stimpla, tryggingar og annað. Þegar álfurinn var kominn í Álfarannsóknarstofuna hafði Jói borgað 15 milljónir fyrir umstangið í kringum álfinn. Og sífellt bætast við kostnaðarliðir þó álfurinn sé kominn í hús. Það er allt í lagi. Jói skildi við konuna sína og seldi húsið þeirra. Þar með losnaði um peninga. Jói er svo samviskusamur að hann staðgreiðir umyrðalaust alla reikninga sem honum berast frá Nígeríusvindlaranum.
.
Nígeríuálfurinn er í glerkassa. Álfurinn er tæplega háfur metri á hæð (að skotthúfu meðtalinni) og nettur. Hann lifir á ósýnilegu fæði sem Jói Jóns kaupir reglulega frá Nígeríu. Það kemur í úttroðnum litlum plastpokum. Pokinn kostar ekki nema 50 þúsund kall og endist í heilan mánuð.
Jóa langar virkilega mikið til að sjá álfinn. Nígeríusvindlarinn kann ráð við því. Hann er búinn að selja Jóa teiknimynd af álfinum. Hún kostaði 25 þúsund kall. Til viðbótar hefur Nígeríusvindlarinn haft milligöngu um að kaupa, á hóflegu verði, fyrir Jóa Jóns uppskrift að því hverning álfurinn getur orðið Jóa sýnilegur. Það eina sem þarf er að Jói borði tiltekinn skammt af eitruðum sveppum og skoli þeim niður með hálfum lítra af hreinum 96% spíra. Og taki inn töfraduft sem Nígeríusvindlarinn seldi Jóa.
.
Þetta er spennandi. Jói bíður ekki boðanna. Fljótlega finnur hann hvernig sveppirnir, spírinn og töfraduftið byrja að hrífa. Hann fellur í einskonar mók. Litirnir í umhverfinu breytast og allt annað í umhverfinu breytist. Áhrifin eru svo öflug að Jói getur varla haldið augum opnum Samt nær hann að skynja umhverfið. Skyndilega sér hann móta fyrir álfinum. Þetta eru töfrar. Í sama mund birtast 3 vitfirringar. Þeir færa álfinum gjafir: Gull, reykelsi og myrru. Svo hverfa þeir út í buskann.
Þetta er ævintýri líkast. Jói nær óljósu augnsambandi við álfinn. Eyrun á álfinum eru löng og uppmjó. Jói losar með stjörnuskrúfjárni lokið af glerkassanum, grípur um annað eyrað á álfinum og snýr hranalega upp á það. Álfurinn æpir af sársauka. Jói skráir þegar í stað í bókina sína: "Nígerískur álfur er með viðkvæm eyru. Hann kveinkar sér þegar tekið er á þeim." Vegna móksins sem Jói er í tekur hann ekki eftir því að hann skrifar textann út fyrir bókina og á borðið. Stafirnir eru stórir og klunnalegir. Borðplatan dugir ekki til svo Jói skrifar niðurlag setningarinnar undir borðplötuna. Það er drungi yfir Jóa. Honum tekst ekki að sitja í keng undir borðinu til að ljúka að fullu við setninguna. Hann fellur á gólfið. Þar skríður hann um í smástund áður en hann reynir að koma sér á fætur á ný. Á gólfinu verður á vegi hans stjörnuskrúfjárnið. Jói nær með erfiðismunum taki á skrúfjárninu. Svo reisir hann sig upp til hálfs. Með snöggri hreyfingi kippir hann undrandi álfinum upp úr glerkassanum. Því næst stingur Jói stjörnuskrúfjárninu af öllum kröftum á kaf í álfinn í hjartastað. Álfurinn öskrar af sársauka og tekur nokkra kippi. Síðan lippast hann líflaus á gólfið. Hann er dáinn. Það fer ekki á milli mála. Jói klórar sér ringlaður í hausnum. Þetta er allt svo skrýtið. Jói fálmar eftir bókinni sinni ofan á borðinu og dregur hana til sín. Rétt áður en Jói lognast steinsofnaður út af nær hann að skrifar í bókina: "Nígeríuálfur er með bráðaofnæmi fyrir stjörnuskrúfjárni."
.
----------------------------------------------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
.
- Bóndi og hestur
.
.
- Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/.
- Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
- Peysuklúbburinn
.
- Vinalegur náungi:
.
- Gamall einbúi
.
- Saga af systrum.
- Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Strákur skiptir um gír:
.
Athugasemdir
Er þetta sönn saga?
Óli minn, 18.5.2011 kl. 16:02
Mig minnir að þetta hafi komið fram í kompási á sínum tíma
Gunnar (IP-tala skráð) 18.5.2011 kl. 16:56
Alltaf gaman þegar einhver spyr hvort sagan sé sönn þegar fyrirsögning sagði að hún væri byggð á raunverulegum atburðum. Það er svona eins og éta eitraða köku sem maður vissi að væri eitruð, en gleymdi því strax og stökk á hana!
Siggi Lee Lewis, 18.5.2011 kl. 22:15
Ómar Ingi, 19.5.2011 kl. 20:23
Óli minn, sagan í heild er ekki sönn. Hinsvegar byggja einstakir atburðir í henni á raunverulegum fyrirmyndum.
Jens Guð, 19.5.2011 kl. 22:09
Gunnar, það stóð til að þetta kæmi fram í Kompási en hátt settir aðilar náðu að stöðva það.
Jens Guð, 19.5.2011 kl. 22:11
Ziggy Lee, alltaf gaman.
Jens Guð, 19.5.2011 kl. 22:13
Ómar Ingi, takk fyrir innlitið.
Jens Guð, 19.5.2011 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.