Færsluflokkur: Bloggar

Bestu og verstu bloggarar landsins

larahanna

  Í helgarblaði DV er opnugrein um bestu og verstu bloggara landsins.  Úttektin leggur út af niðurstöðu 15 álitsgjafa.  Ég er ekki alveg viss en held að hver álitsgjafi nefni 3 bestu og 3 verstu bloggarana.  Mér til ómældrar gleði er ég á lista yfir bæði bestu og verstu bloggara landsins.  Rökin fyrir að ég sé einn af verstu bloggurum eru þau að ég sé: "Besserwisser sem telur sig vita allt best".

  Það er gaman.  Besserwisser er sá sem er yfirmáta fjölfróður.  Það er ég hinsvegar ekki.  Ég er fáfróður en geri mikið úr því litla sem ég veit.  Nákvæmari lýsing hefði átt að vera:  "Gefur sig út fyrir að vera besserwisser..."  En samt.  Það er skemmtilegt að vera (ranglega) skilgreindur besserwisser.

  Lára Hanna hefur yfirburði sem besti bloggarinn.  Hún er vel að þeim titli komin.  Ég er henni ekki alltaf sammála.  Það skiptir ekki máli.   Blogg hennar er eins og fjölmiðill út af fyrir sig.  Hún leggur rosalega mikla vinnu í bloggið sitt.  Ég skil ekki hvernig hún nennir að hlaða inn á blogg sitt heimildum sem sumar spanna mörg ár aftur í tímann.  Ég kvitta glaður undir að Lára Hanna sé besti bloggari landsins.

  Verra þykir mér að Stefán Friðrik Stefánsson sé útnefndur versti bloggarinn.  Sagður hafa eyðilagt fréttabloggið og vera konung endurvinnslunnar.  Ég kann vel við blogg Stefáns.  Kíki oft inn á hans bloggsíðu.  Hann bætir fróðleiksmolum við fréttir Moggans og liggur ekki á sínum skoðunum.  Hann er íhald af gamla skólanum (Sjálfstæðisflokksmaður) en gagnrýninn á sitt fólk.  Opinskár og heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér. 

  Daglegur fjöldi innlita á bloggsíðu Stefáns væri ekki sá sem raun ber vitni nema vegna þess að fólk hefur áhuga á því sem þar er í boði.

  Samkvæmt niðurstöðu DV veitir Jón Valur Jensson Stefáni harða samkeppni sem versti bloggarinn.  Jón Valur er sakaður um trúarhræsni,  leiðindi og ýta undir hatur,  misklíð og heiftúðskap.

  Egill Helgason er næst besti bloggarinn.  

  Gaman væri að hlera álit ykkar á bestu og verstu bloggurum.  En vinsamlegast sniðgangið mitt nafn í umræðunni.


Breytingar á bloggi

  Áramótin eru tíminn þegar fólk setur sér markmið.  Ákveður að byrja að reykja á nýja árinu eða byrja að klæðast sokkaleistum.  Áramót eru góður tími til að endurskoða og endurmeta hluti.  Bloggið mitt fer ekki varhluta af því.  Nú verður heldur betur breyting á því.

  Ég byrjaði að blogga fyrir einu og hálfu ári.  Þá hafði ég aldrei lesið blogg og vissi ekkert um blogg.  Fram að þeim tíma höfðum við bræðurnir og systursynir skipst daglega á "reply to all" tölvupósti.  Aðallega til að spjalla um músík.  En einnig til að benda hver öðrum á sitthvað broslegt sem við rákumst á í fjölmiðlum,  rifja upp sögur af afa eða Önnu frænku á Hesteyri,  ræða um pólitík og bara sitthvað.  Stundum var tölvupósturinn þess eðlis að hann var áframsendur til fleiri.   

  Bloggið átti að vera framhald á minni þátttöku í "reply to all" tölvupóstinum.  Eitthvað fór úrskeiðis þegar frá leið.  Í stað þess að bloggið mitt væri bundið við samskipti við ættingja og vini fór það að fá 1000 - 1500 innlit á dag.  Ég á ekki svo marga ættingja og vini.

  Þessu hefur fylgt vaxandi fjöldi óska um að ég veki athygli á einu og öðru á blogginu.  Auglýsi þetta og fjalli hitt.  Sumar vikur hafa allt upp í 8 af hverjum 10 bloggfærslum mínum komið til á þennan hátt.  Þessu hafa fylgt heilmikil tölvupóstsskipti og ennþá fleiri símtöl.  Ekki síður frá ókunnugum en fólki sem ég þekki.  Pósturinn og símtölin hefjast alltaf á orðunum:  "Af því að það eru svo margir sem lesa bloggið þitt..."

  Ekki misskilja mig.  Það er gaman að vera í aðstöðu til að hjálpa fólki.  Það er líka gaman að vera í samskiptum við fólk.  Á hinn bóginn hefur þetta leitt til þess að alltof mikill tími fer í bloggið.  Sú er ástæðan fyrir því að ég ætla að fækka verulega innlitum á bloggið mitt.  Það geri ég með því að láta fara minna fyrir mér og mínu bloggi.  Einkum með því að blogga sjaldnar,  hafa bloggfærslurnar "látlausari",  tengja ekki við fréttir o.s.frv.

  Annað:  Munið að kjósa í skoðanakönnun um best jólalagið hér vínstra megin á síðunni.


Ný spjallsíða - og burt með spillingarliðið!

  Vegna hruns íslensku krónunnar og fjármálakreppunnar hafa margir fundið þörf fyrir að tjá sig um atburði síðustu vikna og spá í framvindu komandi daga.  Bloggaranum Guðna Karli Harðarsyni þykir bloggsíður bera þess merki að vera einkasíður fyrir einstaklinga sem eru fyrst og fremst að ræða málin við vini sína og vandamenn.  Guðni er hrifinn af blogginu en langar til að opna umræðuna út á opnari spjallvettvang þar sem allir koma að umræðunni á jafnréttisgrundvelli. 

  Guðni hefur sett upp spjallborð (Forum) - http://okkarisland.myfreeforum.org - sem er ekki jafn persónubundið og bloggið.  Þar getur hver sem er skrifað beint inn og einnig tekið þátt í virku spjalli á rauntíma (chat).  Öllum er velkomið að koma með óskir um aðra umræðuflokka.  Netfang Guðna er gudni@simnet.is.  Bloggsíða Guðna er www.hreinn23.blog.is.


mbl.is Enn vantar 5 milljarða Bandaríkjadala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnarlamb nauðgunar gert tortryggilegt

  Það er sama hvað er til umræðu;  hvort rætt er um barnaníðinga,  morðingja,  eiturlyfjasmyglara,  nauðgara,  handrukkara eða aðra glæpamenn af þessu tagi;  alltaf koma einhverjir óþokkanum til varnar og teygja sig langt í að afsaka hann og hvítþvo af glæpnum.  Oft með þeirri aðferð að reyna með öllum ráðum að gera fórnarlambið tortryggilegt og stilla hlutum þannig upp að fórnarlambið geti sjálfu sér um kennt að hafa lent í þessari aðstöðu.

  Þannig hafa sumir dregið fram og hneykslast á því að barnið sem handrukkarinn nauðgaði á Hellisandi við annan mann hafi verið á dansleik og farið í partý.  Sú staðreynd kemur glæpnum hinsvegar ekkert við.  Fullorðnir menn mega ekki nauðga barni undir neinum kringumstæðum.  Aldrei.  Engar aðstæður breyta neinu þar um.

  Það er svo önnur saga að víða úti á landi er dansleikur og partý allt annað fyrirbæri en á höfuðborgarsvæðinu.  Á mínum uppvaxtarárum í Skagafirði voru dansleikir haldnir á Hólum í Hjaltadal.  Þar var ekkert aldurstakmark.  12 - 13 ára börn sóttu dansleikina til jafns við fullorðna fólkið.  Þarna var ekki vínveitingasala en fullorðna fólkið drakk af stút og lét pelann ganga.

  Ég þekki ekki til Hellissands.  Mér segir svo hugur að þar hafi dansleikjahald verið með líku sniði.  Vinsælasti unglingabókahöfundur landsins fyrr og ekki síður síðar,  Eðvarð Ingólfsson prestur á Akranesi,  er frá Hellissandi.   Gagnrýnendur af höfuðborgarsvæðinu fettu fingur út í lýsingu Eðvarðs á unglingapartýum í bókunum.  Í þeim drukku unglingarnir heitt súkkulaði og mauluðu rjómatertur með.  Eðvarð þekkti eðlilega bara partý eins og þau fóru fram á Hellissandi.     

www.aflid.muna.is

www.stigamot.is     


Jenný Anna kosin besti bloggarinn 2008

  Mig langar til að vekja athygli á úrslitum í skoðanakönnun um besta bloggarann.  Það var Karl Tómasson,  best þekktur sem trommari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar,  sem stóð fyrir könnuninni á bloggsíðu sinni.  Hann hafði þann hátt á að óska fyrst eftir tilnefningum og stilla síðan þeim nöfnum sem voru tilnefnd upp í formlega skoðanakönnun.

  Þegar kosningu lauk í gær höfðu rösklega 2500 atkvæði skilað sér í hús.  Það telst vera meira en gott úrtak. 

  Ég óska Jenný Önnu til hamingju með titilinn.  Hún er vel að honum komin.  Það er ekki tilviljun að bloggið hennar er ýmist í efstu eða efsta sæti yfir vinsælustu blogg hverju sinni.  Hún orðar hlutina oft skemmtilega,  stingur á kýlum í þjóðfélaginu og er óvenju hreinskilin um einkamál sín.

  Ef þið eruð ekki ennþá búin að uppgötva besta bloggarann 2008 þá er slóðin www.jenfo.blog.is.  Kalli hefur boðað að hann muni birta viðtal við Jenný á bloggsíðu sinni,  www.ktomm.blog.is,  á næstu dögum.   

 


Besti bloggarinn?

  Í kvöld hringdi í mig Kalli Tomm,  trommuleikari Gildrunnar og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar (www.ktomm.blog.is).  Hann tjáði mér að á bloggsíðu sinni hafi ég verið kosinn besti bloggarinn.  Af um 600 greiddum atkvæðum fékk mitt blogg næstum fjórðung. 

  Fyrir það fyrsta vil ég í auðmýkt þakka fyrir mig.  Í öðru lagi vil ég deila þessum titli með Gurrí Har.  Atkvæði skiptust það jafnt á milli okkar.  Munaði bara nokkrum tilfallandi atkvæðum á lokasprettinum.  Þannig var staðan nánast frá upphafi.  Nokkur atkvæði til eða frá vógu salt lengst af og allt til enda.

  Gurrí er frábær penni.  Blogg hennar eru alltaf skemmtileg aflestrar.  Alltaf.  Hún heldur sama stíl,  sama húmor og léttleika,  út í gegn.  Mín blogg eru mistækari.  Stundum bulla ég heilu ósköpin.  Jafnvel svo að gengur fram af mér,  gamla manninum sem vill vera virðulegur eldri maður.  Stundum er ég reiður gamall karl í baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum.  Stundum er ég bara músíkdellukarl með öfgakenndar skoðanir.  Mjög öfgakenndar skoðanir.  Hef óbeit á iðnaðarkenndu léttpoppi.

  Í þriðja lagi hafna ég því að vera besti bloggarinn.  Það eru margir mun betri bloggarar en ég.  Hinsvegar get ég samþykkt að sumt af bullinu sem veltur upp úr mér hefur skemmtanagildi.  Sem léttvægt bull.  En það skorar ekki hátt á mælistiku gæða.

  Í fjórða lagi er skoðanakönnun www.ktomm.blog.is bara léttur leikur.  Til gamans gerður og engin ástæða til að taka þetta hátíðlega.  En samt skemmtilegur leikur fyrst að ég er sigurvegari í þessum létta leik. 

  Í fimmta lagi eru skekkjumörk.  Kalli Tomm er bloggvinur minn.  Við eigum marga sameiginlega vini.  Þeir lesa bloggið hans og bloggið mitt.  En fara kannski ekki stóran blogglestrarhring út fyrir okkar blogg.  Við Kalli eigum sameiginlegan áhuga á rokkmúsík.  Höfum lifað og hrærst í rokkbransanum í áratugi.  Blogg okkar eiga þess vegna samhljóm.  Þar fyrir utan vakti ég athygli á skoðanakönnun hans í bloggfærslu hjá mér.  Styrkti þar með stöðu mína umfram þá sem ekki gerðu slíkt.  Miðað við að vikuleg innlit á blogg mitt eru jafnan 8000 - 10.000 þá skerpti ég á stöðunni með því að blogga um skoðanakönnun hans á meðan atkvæðagreiðsla stóð yfir.

  Eftir stendur að þetta er samkvæmisleikur.  Ég er að sjálfsögðu ekki verulega ósáttur við niðurstöðuna.  En vísa á skekkjumörkin.  Jafnframt vísa ég á að flest önnur blogg sem til greina komu eru skemmtilesning:  Jóna Á.  Gísladóttir,  Ásthildur Cesil,  Jón Steinar,  Katrín Snæhólm,  Jenný,  vélstýran,  Anna Ólafs og,  sorrý,  ég er áreiðanlega að gleyma einhverjum.    

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband