Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Poppstjörnur á Alþingi

  Stjórnmálamenn eru heilt yfir ástríðufullir tónlistarunnendur.  Margir þeirra spila á hljóðfæri og flestir bresta í söng af litlu tilefni.  Nægir að nefna Árna Johnsen, Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson.  Hljómsveitin Upplyfting er skipuð Framsóknarmönnum og Gildran skipuð Vinstri-grænum.  Besti flokkurinn var að uppistöðu til skipaður tónlistarfólki, sem og Björt framtíð.  Ólafur F.  Magnússon,  fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur,  var að senda frá sér glæsilega plötu með frumsömdum söngvum.

  Fjöldi poppstjarna er í framboði til Alþingis núna á laugardaginn.  Þar á meðal formaður Bjartrar framtíðar,  Óttar Proppé.  Hann leiðir listann í SV-kjördæmi og er söngvari hljómsveita á borð við Ham,  Dr. Spock og Rass.  Hinn söngvari Ham,  Sigurjón Kjartansson, og bassaleikarinn, S. Björn Blöndal borgarfulltrúi,  eru einnig á framboðslista Bjartrar framtíðar.  Aðrir borgarfulltrúar,  Karl Sigurðsson í Baggalúti og Einar Örn "Sykurmoli", eru líka á listanum.  

  Píanóleikarinn og Alþingismaðurinn Illugi Gunnarsson er í heiðurssæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík-suður.  Hann hefur setið á Alþingi til margra ára og er menntamálaráðherra.  

  Á framboðslista Vinstri-grænna eru Björn Valur Gíslason, söngvari og gítarleikari Roðlaust og beinlaust;  svo og gítarhetjurnar Gunnar Þórðarson og Björgvin Gíslason, að ógleymdum Ragnari Kjartanssyni og söngkonunni Sigríði Thorlacius

  Á framboðslista Samfylkingarinnar eru feðginin Margrét Gauja Magnúsdóttir og Magnús Kjartansson.  Þau eru þekkt fyrir lagið "Sólarsamba".  Það skoraði hátt í Söngvakeppni sjónvarpsins á níunda áratugnum.  Magnús hefur spilað með mörgum þekktustu hljómsveitum landsins.  Þar af Trúbroti, Óðmönnum, Júdas, Brimkló, Haukum og Brunaliðinu.  Meðfram var hann bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.  Svala Björgvins og Þorsteinn Eggertsson eru ennfremur á framboðslista Samfylkingarinnar.  Svala er í heimsþekktu hljómsveitinni Steed Lord.  Þorsteinn er þekktur rokksöngvari. Var á sínum tíma kallaður "íslenskur Elvis" og söng síðar í hljómsveitinni Rokkbræðrum.  Hann er afkastamesti textahöfundur landsins.  

  Á framboðslista Dögunar er hljómborðsleikarinn og söngkonan Ásthildur Cesil Þórðardóttir. Hún spilaði með ýmsum helstu danshljómsveitum Vestfjarða.  Á landsvísu er hún kunnust fyrir kvennahljómsveitina Sokkabandið.

  Á framboðslista Flokks fólksins eru Inga Sæland,  Þollý Rósmundsdóttir og Sveinn Guðjónsson. Inga sló í gegn í X-factor fyrir nokkrum árum.  Þollý heldur úti skemmtilegri blúshljómsveit kenndri við hennar nafn.  Sveinn hefur spilað á hljómborð og sungið með mörgum hljómsveitum.  Hæst ber Roof Tops.  

  Gítarleikarinn, söngvarinn og söngvahöfundurinn Lýður Árnason er á framboðslista Pírata.

  Leiðtogi Alþýðufylkingarinnar,  Þorvaldur Þorvaldsson,  skemmtir með öguðum söng. Hann er mikill söngvari.        

  Eflaust er ég að gleyma einhverjum sem eiga heima í þessari samantekt.  Ábendingar eru vel þegnar.

  


Þetta vill Hillary ekki að þú sjáir

  Frú Hildiríður Clinton hefur gefið kost á sér til framboðs í embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Hún er frambjóðandi Demókrataflokksins.  Helsi keppinautur hennar er Dóni Trump.  Hann er forsetaframbjóðandi Repúblikana.  Reyndar í óþökk margra hæst settu flokkssystkina hans.

  Bæði tvö eiga fortíð.  Sumt sem hvorugt þeirra þykir heppilegt að rifja upp og flagga.  Til að mynda að fyrir örfáum árum var Dóni ákafur aðdáandi Hildiríðar.  Hann studdi fjárhagslega kosningaslag hennar við Hússein Óbama.  Hann hlóð hrósi á hana.  Kallaði hana góða konu.

  Þau láta eins og það sé gleymt og tröllum gefið.

dóni-hildríður-billhildiríður og dóni

 

 

 

 

 

 

 

 

  Kært hefur verið á milli Hildiríðar og Georgs W. Brúsks,  fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.  Gróa á Leiti segir að þau daðri gróflega við hvort annað í hvert sinn sem fundum ber saman.  Þrátt fyrir að vera flokkssystkini Dóna þá ætlar Bush-fjölskyldan ekki að kjósa hann.  Óljóst er hvort að hún kýs Hildiríði í staðinn.  Það fer hljótt. hillary-clinton-george-bush.

clintonbush

 

 

 

 

 

 

 

 

  Kosningavél Hildiríðar hefur ekki hampað afmæliskorti sem Bill sendi flokkssystur sinni,  Miss Móniku Lewinsky.  Hún hefur aldrei boðið Móniku í afmælið sitt.

bill og monica

 

 

 

 

 

 

.


mbl.is 49% styðja Clinton samkvæmt CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákn flokkanna

logo - nikelogo - benzlogo - peace

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Öll alvöru fyrirtæki og félög skarta lógói (einkennismerki/tákni).  Af heimsfrægustu best heppnuðu lógóum má nefna Nike, Mercedes Benz og friðarmerkið.  

  Kostir góðra lógóa er að þau tákni það sem þau standa fyrir.  Sem dæmi er Benz-merkið bílstýri.  Því augljósar sem táknið er þeim mun betra.

  Annar kostur er að lógóið sé ofur einfalt.  Þumalputtaregla er að hver sem er geti teiknað lógóið án þess að hafa fyrirmynd fyrir framan sig.

  Lógó þarf að þola lélega prentun og mikla smækkun án þess að afskræmast.  Það þarf að þola svart-hvíta prentun.  Það þarf að vera fallegt og tignarlegt

  Flokksmerki íslensku framboðanna til alþingiskosninga eftir viku eru skemmtilega fjölbreytt og flest ólík.  Viðhorf mitt til lógóa þeirra er algjörlega óháð viðhorfi til flokkanna.  

Nr. 1  Samfylking.  Rauður punktur.  Einfaldara getur lógó varla verið.  Það er stóri kosturinn.  Einnig að rauði liturinn staðsetur flokkinn augljóslega til vinstri.  Þó að áhorfandinn nemi það varla nema í undirvitund þá lýsist punkturinn örlítið upp til hægri.  Það laðar fram tilfinningu fyrir (billjard-) kúlulaga formi.  Virkilega djarft lógó.  Á móti vegur að andstæðingar geta túlkað merkið sem rautt viðvörunarljós eða rautt stöðvunarljós. Merkið tapar mikið til gildi í svart-hvítu og nýtur sín ekki án samhengis við flokkinn.  Til dæmis að taka þá myndi rauður punktur í veggjakroti ekki virka sem stuðningur við Samfylkinguna.  Upphaflega var lógóið rauður punktur með þykku hvítu S.  Það var fúsk.  

logo - dögun  Nr.  2  Dögun.  Merkið er fallegt, listrænt og sýnir dagrenningu.  Samhverfa er kostur.  Dökkblár neðri hluti staðsetur flokkinn til hægri.  Hann á þó frekar að tákna sjó og land (fjöll).  Upphaflega var teikning af fljúgandi sjófugli ofan í merkinu.  Blessunarlega ekki lengur.  Enda myndar hvíti flöturinn sjófuglstákn að auki.  Breyting í fiskveiðimálum er eitt af stóru málum Dögunar (Frjálslyndi flokkurinn er einn af hornsteinum Dögunar).

  Nr. 3  Vinstri græn.  Lógóið er listrænt og sýnir V laga form.  Rauða vinstri hliðin staðsetur framboðið til vinstri.  Græni flöturinn undirstrikar grænu pólitíkina.  Ókosturinn er að það er ekki auðvelt að teikna merkið án fyrirmyndar.  

  Nr. 4  Framsóknarflokkurinn.  Fallegt, samhverft og tignarlegt lógó.  Græni liturinn vísar til landbúnaðar og bænda.  Formið er tilvísun í gras.  Smart samsetning á dökkum og ljósum lit.  Ókosturinn er hvað þetta er flókið.  Það er erfitt er að teikna lógóið fríhendis án reglustiku og án þess að hafa fyrirmynd við hönd.  

  Nr. 5  Viðreisn.  Fallegt tákn samsett úr 3 bláum V og 3 appelsínugulum.  Það er rífleg áhersla á V,  upphafsstaf Viðreisnar.  Blái liturinn vísar til hægri.  Appelsínuguli liturinn vísar inn að miðju.  Merkið líkist vélspöðum á mótorbát.  Ókosturinn er að öll þessi V gera merkið heldur betur margbrotið - þó að auðvelt sé að teikna það.     

  Nr. 6  Björt framtíð.  Flötur merkisins og fjólublár litur vísa til heiðursmerkja á borð við orður.  Slaufur þar ofan á geta verið útfærsla á B og F.  Kostur er að ekkert annað framboð skartar fjólubláum lit.  Gallinn er að lógóið er ekki að koma neinum skilaboðum áleiðis.  Líka er það alltof flókið.  Það er ekki auðvelt að teikna það fríhendis án fyrirmyndar.  

  Nr. 7  Sjálfstæðisflokkurinn.  Í áranna rás hefur táknið,  ránfugl,  stöðugt færst í rétta átt. Upphaflega var þetta skelfilega flókin myndskreyting fremur en lógó.  Á síðari tímum hefur teikningin verið einfölduð verulega.  Íhaldsmenn halda eðlilega í allflest óbreytt.  Lógóið er engu að síður tignarlegt og blái liturinn vísar til hægri flokks.  

  Nr. 8  Píratar.  Lógóið er ljótt.  Það sýnir hring utan um svart-hvítan fána með hvítu merki innan í.  Virðist vera útflattur þorskur.  Svona óljóst er það klúður (fúsk).  Kostur er að fáninn myndar P.

logo alþýðufylkingin  Nr. 9 Alþýðufylkingin.  Alltof alltof flókin teikning af rauðum fánum.    

logo - flokkur fólksins  Nr. 10  Flokkur fólksins.  Flassandi amatörismi.  Útlínur Íslands og ofan í þær troðið X F með löngu millibili.  Liturinn er ljósbleikur og merkið nánast hverfur þegar það er smækkað.  Þar fyrir utan er þessi útfærsla fagurfræðilega afskaplega ljót. 

logo þjófylking  Nr 10  Íslenska þjófylkingin.  Allra, allra, allra versta lógó ársins.  Flókið og ljótt.  Svart letur ofan í dökkbláan bakgrunn.  Ótrúleg smekkleysa.  Þetta er subbuleg klessa.  Í smækkun og í svart-hvítri útgáfu er það algjör klessa.   

framboðin

.      

   


mbl.is Píratar mælast stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Trump búinn að vera?

  Kosningabaráttan um embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku hefur verið óvenju fjörleg í ár.  Munar þar mestu um framgöngu auðmannsins Dóna Trumps.  Hann var hallur undir Demókrata (enda New York-búi) uns hann ákvað að verða forseti og veðjaði þá réttilega á að reppaflokkinn.

  Kosningabarátta hans hefur gengið bærilega lengst af.  Hann hefur nýtt sér þekkt "trix" sem gáfust vel á fyrri hluta síðustu aldar.  Verra er að upptökur hafa lekið út þar sem ljúflingurinn hælir sér af því að komast upp með að grípa um kynfæri kvenna og kyssa þær án leyfis.  Giftar jafnt sem ólofaðar.  

  Þetta hrífur ekki íhaldssamar konur í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þær hrífast að áformum Dóna um að einangra Bandaríkin með aðskilnaðarmúr á landamærum Mexíkó, banna múslima, refsa fyrir fóstureyðingu,  fangelsi pólitíska keppinauta,  banna innflutning á vörum frá Kína og eitthvað svoleiðis.  En ekki að hann grípi um kynfæri kvenna.  Það verður okkar manni að falli. Jafnvel þó að hann segist komast upp með það vegna frægðar.

   


mbl.is Hvetur Trump til að hætta vælinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju geta menn ekki verið vinir?

  Flokksfundur Framsóknarflokksins í Háskólabíói var bíó.  Aðdragandinn var sérkennilegur.  Sigmundur Davíð reyndi sólarhringum saman að ná sambandi við forsætisráðherrann,  Sigurð Inga Jóhannsson.  Á sama tíma náðu allir aðrir - sem vildu ná sambandi við forsætisráðherra - sambandi við hann.  Meira að segja óvenju góðu sambandi.

  Sambandsleysi tvímenninganna átti ekki að koma að sök.  Forsætisráðherrann mátti hvergi sjá til né heyra í Sigmundi án þess að margfullyrða að hann færi ekki gegn honum í formannskosningu.  Sigmundi þótti þetta þreytandi og óþörf tugga.  Það lá í augum úti að hann væri formaður, ætti að vera og yrði formaður áfram.  Það þurfti ekki að ræða slíkt.  Pólitískt innsæi staðfesti það.  100% stuðningur við eyðibýlisbóndann í NA-kjördæmi undirstrikaði þetta.

  Sigmundur Davíð gekk glaðbeittur til formannskjörs.  Sjálfsöryggið geislaði af honum.  Þá kom babb í bátinn.  Að sameiginlegu bílastæði Háskólabíós og Hótel Sögu renndu rútur.  Út úr þeim streymdi fólk sem leit ekki út eins og Framsóknarmenn:  Gult á hörund og skáeygt með svart hár.  Það var greinilegt að Sigurður Ingi og erlendar leyniþjónustur voru að beita brögðum.  Rútubílstjórar hafa vottað að rútur með kanadískum Kínverjum komu á svæðið.  Sigmundur Davíð horfði upp á þetta fólk hlaupa út um allt. Eins og kettir sam þurfti að smala. Á sama tíma fjölmenntu stuðningsmenn hans í Háskólabíó en var snúið öfugum við.  Rammöfugum.  Fundust hvergi á kjörskrá. En kínversku túristarnir frá Kanada?  Voru þeir á kjörskrá flokksfundar Framsóknarflokksins?  Það hlýtur að vera.  Annars væri Sigmundur ennþá formaður.        

     


mbl.is Sigmundur: Kosningarnar voru áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt framboð og kosningasvindl

  Gríðarmikill áhugi er fyrir því á meðal stuðningsmanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að hann stofni nýjan Framsóknarflokk.  Bjóði fram í komandi alþingiskosningum og snúi þannig aftur sem sigurvegari.  Hann hefur aldrei kynnst því að vera "lúser".  Alltaf verið sigurvegari.  Þangað til á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina.  Niðurstaðan var svo óvænt, ný og brött að hann kunni ekki að höndla niðurlæginguna: Að vera "lúser".  Hann klappaði ekki fyrir sigurvegaranum.  Þess í stað tók hann á sprett út af flokksþinginu og hljóp í felur.  Fór í fýlu.

  Illar tungur herma að hann skorti kjark til að bjóða fram undir nafni nýs flokks.  Hann velji alltaf öruggu leiðina:  Að þiggja 1. sæti Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi og kyngi niðurlægingunni á flokksþinginu.

  Sveinn Hjörtur Guðfinnsson forseti Framsóknarfélags Reykjavíkur og fleiri játa að svindlað hafi veri gróflega í formannskjörinu.  Samt dugði það ekki til.  Sigmundur Davíð tapaði.  Vigdís Hauksdóttir sakar Litlu gulu hænuna um að hafa skreytt sig með stolnum fjöðrum.  Tími til kominn að flett sé ofan af illfyglinu.

  Nýtt framboð Sigmundar Davíðs og stuðningsmanna hans er spennandi hugmynd.  Það er þörf á Nýja Framsóknarflokknum.  Eða eitthvað svoleiðis.        


mbl.is „Þekkjum ekki taparann Sigmund Davíð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað nú?

  Enn einu sinni hafa skoðanakannanir rangt fyrir sér.  Ekki bara þessar þar sem þátttakendur velja sig sjálfir í úrtak.  Líka alvöru skoðanakannanir unnar af fagfólki.  Þær sýndu að stuðningur Framsóknarmanna við formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var yfirgnæfandi.  Nánast allir þeirra vildu ólmir framlengja formennsku hans.  Þeir vildu ekkert með Sigurð Inga hafa.

  Þegar til alvörunnar kom á flokksþingi um helgina skipti liðið um skoðun um leið og það skipti um nærbuxur.  Sigurður Ingi er nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins.  Sigmundi var hent í ruslið.  Illa farið með góðan dreng.  Þegar hann kemst í geðshræringu þá tapar hann niður enskukunnáttu.  Nú um stund kann hann ekkert tungumál.  Er tregt tungu að hræra.  

  Hvað veldur því að Framsóknarmenn ákveða að slá hann í andlitið með blautri skúringatusku?  Bregða fyrir hann fæti á ögurstundu?

  Líklegast er að skoðanakannanir hafi mælt stöðuna rétt á þeim tímapunkti.  Skekkjumörkin liggja í atburðum helgarinnar.  Fyrir það fyrsta lagðist illa í mannskapinn þegar í ljós kom að Sigmundur ætlaði sér að messa yfir flokksmönnum í heilan klukkutíma en útiloka Sigurð Inga frá því að ávarpa fundarmenn. Seint og síðar meir - eftir kurr, jaml, japl og fuður - náðist sátt um að Sigurður Ingi fengi að láta heyra í sér í hámark korter.  

  Í öðru lagi magnaðist óánægjan þegar í ljós kom að Sigmundur Davíð lét slökkva á beinni útsendingu frá fundinum strax eftir sína ræðu.  Rétt áður en Sigurður fékk að taka til máls.

  Í þriðja lagi er næsta víst að einhverjir hafi skipt um skoðun undir ræðum keppinautanna. Fundargestir hafi áttað sig á því hvor er líklegri til að afla betur í komandi alþingiskosningum.  

  Hvað nú?  Fall Sigmundar er hátt.  Á vormánuðum var hann forsætisráðherra Íslands,  formaður Framsóknarflokksins og safnaði notuðum flugeldaprikum. Á nýársdagsmorgun 2017 gengur hnípinn drengur um götur og safnar flugeldaprikum. Hann er ekki forsætisráðherra.  Hann er ekki formaður Framsóknarflokksins. Hann er lúser. Gefum honum tilfinningalegt svigrúm til að sleikja sárin og ná áttum.  Fleira nær framhaldslífi en útbrunnin flugeldaprik.  Kannski.  Kannski ekki.  

sigmundur davíð     


mbl.is Svekktur yfir niðurstöðu kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn bætir í eineltið

  Fyrir löngu síðan hóf ljúflingurinn Dóni Trump kosningabaráttu.  Hann dreymir um að verða forseti Bandaríkja Norður-Ameríku.  Það er fallegur ásetningur.  Verra er að frá fyrsta degi hefur vont fólk rekið í hann hrútshorn.  Menn dylgja,  menn bera hann út,  menn hæða hann.  Góðmennið sætir grófu einelti.

  Tónlistarmenn eru áberandi í ofsóknunum.  Þeir hafa betri tækifæri til að láta rödd sína heyrast en leikskólakennarar.  Ekki aðeins hafa þeir hljóðnema uppi á sviði heldur bergmála fjölmiðlar rödd þeirra út um allt.  

  Vinsælasta pönksveit heims, Green Day, var að hefja hljómleikaferð.  Á sviðinu gerði söngvarinn sér lítið fyrir og formælti Dóna.  Jafnframt snéri hann einum söngtexta yfir á hann.  Nokkrum dögum áður hallmælti Bruce Springsteen honum í spjalli við Rolling Stone tímaritið.  Söluhæsta tónlistarblað heims.  Kallaði hann fávita.  Honum er kennt um að hafa rekið í gjaldþrot náungann sem gaf Brúsa fyrsta gítarinn.  Áreiðanlega óhappaverk eða misskilningur.  Þannig er það með alla sem lenda í gjaldþroti eftir viðskipti við Dóna.      

  Meðal annarra sem sparka í prúðmennið eru Cher, Ellie Goulding, Madonna, Waka Flocka Flame, Shakira, Young Jeezy, Miley Cyrus, Young Thug, Moby, Morrissay, Henry Rollins, Angel Hazel, Roger Waters (Pink Floyd), Bono (U2), Wyclef (Fugees), Vivian Campbell (Def Leppard9, Corey Tailor (Slipknot), Ricky Martin, Demi Lovato, David Crospy, Father John Misty, hljómsveitin Wavves, Katy Perry og þúsund til viðbótar.   

  Fjöldi tónlistarmanna hefur meinað piltinum að spila tónlist þeirra á kosningafundum.  Má þar nefna Neil Young, Steven Tyler (Aerosmith), R.E.M., The Rolling Stones, Twisted Sister, Adele, Elton John, Luciano Pavarotti og eftirlifandi liðsmenn Queen.  Til viðbótar hefur tengdasonur Kára Stefánssonar bannað Dóna að nota tónlist föður síns, George Harrison.   

  Til að bæta gráu ofan á svart hefur frjálshyggjurokkarinn Mojo Nixon samið níðsöng um strákinn.  Það er eins og þetta lið sé að ganga af göflunum.


mbl.is Hljóðnemi Trumps til vandræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullkorn

  Í athugasemdakerfi www.dv.is fór og fer fram áhugaverð umræða um kurteisi, siðvenjur, menningarmun, uppeldi og allskonar í þeim dúr.  Í sumum menningarsvæðum heilsast fólk með handabandi.  Í öðrum heilsast fólk með faðmlagi. Í enn öðrum heilsast fólk með kossi á munn.  Líka eru til samfélög þar sem fólk heilsast með því að nudda saman nefjum.  

  Hvenær og hvar er við hæfi að fólk frá öðrum menningarsvæðum taki þátt í framandi siðvenjum?  Hvenær og hvar er ókurteisi að sniðganga siðvenjur annarra?

  Eiríkur Stefánsson er alltaf hreinn og beinn. Hann hvetur til kurteisi og á þetta kröftuga innlegg í umræðuna:

  "Fíflin ykkar,  við eigum að virða kurteislega kveðju og uppeldi fólks."  

 

Eiríkur Stefáns í kommentakerfinu    


Áfall fyrir trúverðugleika

  Í sjö til átta ár höfum við stöðugt fengið að heyra skemmtilegar sögur af Hussein Obama.  Hann var sagður hafa fæðst í Kenya í Afríku. Verið þar svínahirðir múslimaþorps fjölskyldu sinnar.  Hann hafi lagt - og leggi - hatur á kristna; svarið þess eið að kollvarpa vestrænum samfélögum.  Leggja þau undir kúgunarhæl Íslam.  Drepa alla kristna og heiðingja.  Mola á þeim hauskúpuna með steini.

  Til að ná takmarkinu laumaði "múlattinn" (eins og hann er kallaður í Morgunblaðinu) sér til Bandaríkja Norður-Ameríku svo lítið bar á.  Með klækjum,  fölsku fæðingarvottorði og vú-dú svartagaldri hirti hann forsetastólinn.  Hlunkaði sér í hann og gerðist áhrifamesti einstaklingur heims.  

  Enginn hefur verið duglegri við að hampa þessu krúttlega ævintýri en ljúflingurinn Dóni Trump.  Nú,  skyndilega og óvænt, snýr kosningaskrifstofa hans við blaðinu.  Þar á bæ hafa skærustu perurnar í gervibrúnku-ljósabekknum kannað málið og komist að splunkunýjum sannleika.  Samkvæmt yfirlýsingu þeirra fæddist Hussein í Bandaríkjunum.  Hin sagan,  segja þeir,  sé lygasaga sem Hillary Clinton samdi og kom af stað.  Grandalaus Trump féll í þá gryfju að trúa lygum hennar.  Hún misnotaði sakleysi hans og hrekkleysi.

  Þetta er áfall fyrir trúverðugleika forsetaframbjóðenda.  Héðan í frá verður að taka því sem þeir segja með fyrirvara.  Þeir "dissa sannleikanum",  eins og Vigdís Hauks orðar það svo skemmtilega í þágufallsplágunni - af öðru tilefni, vel að merkja.     

  


mbl.is Obama og fæðingarstaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband