Færsluflokkur: Tónlist
24.8.2013 | 22:03
Ný lög frá Högna
Högni Lisberg sló fyrst í gegn með trip-hopp hljómsveitinni Clickhaze. Þar trommaði hann af snilld. Eivör og Pétur Pólson sungu. Mikael Blak, Jón Tyril, Bogi og Jens L. spiluðu á hin hljóðfærin. Þetta var rosaleg hljómsveit. Allir að springa úr sköpunarþörf og spilagleði. Merkasta hljómsveit færeysku rokksögunnar fyrir margra hluta sakir.
Clickhaze sigraði með yfirburðum í færeysku Músíktilraununum. Í kjölfarið hélt hljómsveitin hljómleika á Hróarskeldu og Íslandi 2002. Svo sprakk hún. Liðsmenn voru hver um sig of stórir með of stór áform fyrir hljómsveitina. Þeir uxu hljómsveitinni yfir höfuð.
Högni hóf sólóferil. Hann hefur sent frá sér fjórar sólóplötur. Titillag plötu nr. 2, Morning Dew, sló í gegn hérlendis. Ég man ekki hvort að það náði toppsæti íslenska vinsældalistans en það sat að minnsta kosti vikum saman ofarlega á honum. Fleiri lög af sömu plötu nutu vinsælda á Rás 2 og fleiri útvarpsstöðvum. Í kjölfarið spilaði Högni á Airwaves og víðar á Íslandi.
Lag af Haré! Haré!, þriðju plötu Högna, rataði inn í bandarískan tölvuleik, NBA 2K 11. Tölvuleikurinn seldist í milljónum eintaka. Lagið hans Högna, Bow Down, er vel þekkt í Bandaríkjunum og víðar út af þessum tölvuleik. Til samans hafa myndbönd með laginu verið spiluð yfir milljón sinnum á þútúpunni. Aðdáendur lagsins spila fleiri lög með Högna. Mánaðarleg spilun á myndböndum hans til samans á þútupunni er kvartmilljón.
Á Spotify eru lög með Högna spiluð 150 þúsund sinnum á mánuði.
Nú hefur Högni í fyrsta skipti á ferlinum hljóðritað nokkur lög þar sem hann syngur á færeysku. Hann er búinn að deila tveimur þeirra yfir á þútúpuna. Fyrra lagið heitir Fólkið í Sprekkunum. Magnað lag.
Tónlist | Breytt 25.8.2013 kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2013 | 23:12
Sjaldan fellur eplið langt frá hænunni
Það er tvíeggjað sverð að vera sonur eins af merkustu tónlistarmönnum sögunnar. Kosturinn er sá að margar dyr standa opnar. Viðskiptavild pabbans er stór og sonurinn nýtur góðs af því. Sonurinn fær á þann hátt forgjöf umfram aðra nýliða í tónlist. Það munar öllu.
Ókosturinn er sá að allt sem sonurinn gerir í tónlist er og verður borið saman við helstu afreksverk pabbans. Það er ójafn leikur.
James McCartney, sonur bítilsins Pauls McCartneys, segir að ekki einu sinni pabbi hans geti keppt við Bítlana. Paul hefur sjálfur sagt að engin hljómsveit geti keppt við Bítlana. Ef Bítlarnir hefðu verið endurreistir á meðan John Lennon og George Harrison voru á lífi á áttunda áratugnum þá hefðu þeir ekki getað keppt við Bítlana eins og hljómsveitin var á sjöunda áratugnum. Bítlarnir voru slík yfirburðarhljómsveit á sínum stutta ferli að ótal met hennar í vinsældum, áhrifum og öðru verða aldrei slegin út.
James McCartney, sonur Pauls, var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu. Hann er hálf fertugur og hefur verið að dútla í músík til margra ára. En látið fara lítið fyrir sér. Hann hefur þó spilað á gítar á nokkrum plötum pabbans. Hann hefur einnig sent frá sér nokkrar smáskífur í hálfgerðri kyrrþey.
Plata James heitir Me. Gagnrýnendur tæta plötuna í sig. Breska tímaritið Q gefur henni 1 stjörnu af 5. Hér er eitt lag af plötunni. Það á ekki eftir að toppa neinn vinsældalista. Frekar óspennandi dæmi.
Söngrödd og raddbeitingu James skortir alveg sjarma Pauls. Að öðru leyti er ósanngjarnt að bera músík James saman við Bítlana, samanber tilvitnanir hér að ofan. Sanngjarnara er að bera músík hans saman við minna þekkt lög pabbans, Pauls. Það er að segja lög sem hafa ekki tröllriðið vinsældalistum, svo sem "Let Me Roll It". Sönglag sem Paul hrissti fram úr erminni til að svara skætingi frá John Lennon. "Leyfðu mér að leika mér í friði," söng Paul og hermdi skemmtilega eftir höfundareinkennum Johns, gítarstíl hans og trommuleik Alans Whites (Yes) sem trommaði með Lennon.
Það er sterkur "karakter" í söngrödd Pauls. Takið eftir því hvað hann gefur skemmtilega örlítið í um og upp úr mín. 1.00. Röddin verður smá rám í örskotsstund. Um mín. 2.00 gefur Paul enn betur í og bregður fyrir sig nettum öskursöngstíl. Hann kann þetta en James kann þetta ekki.
Eldri sonur Johns Lennons, Julian, fór ágætlega af stað í músík með ska-laginu "Too Late for Goodbyes".
Svo var hann fullur í mörg ár og hefur aldrei náð að byggja upp feril. Hér eru skemmtilegar ljósmyndir af þeim feðgum á sama aldri.
Þeir eru glettilega líkir, feðgarnir. Julian verður ekki föðurbetrungur úr þessu. Það er næsta víst.
Yngri sonur Johns, Sean, hefur valið þá skynsamlegu leið að gera út á jaðarmúsík (alternative). Þar með staðsetur hann sig nær mömmunni, Yoko Ono. Vandamálið er að hann er ekki góður lagahöfundur.
Þau mæðgin, Yoko og Sean, hafa verið með annan fótinn á Íslandi síðustu ár. Þau eru hér miklu oftar en fjölmiðlar skýra frá.
Sonur bítilsins George Harrisons, Danni Harrison, á íslenska konu. Ég man ekki nafnið en hún er dóttir Kára Stefánssonar (Íslensk erfðagreining). Danni hefur farið sömu skynsamlegu leið og Sean: Gert út á jaðarmúsík, ólíka Bítlapoppinu.
Tónlist | Breytt 22.8.2013 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2013 | 21:00
Veistu hver ég var?
17. ágúst næstkomandi svífur á skjáinn splunkuný sjónvarpsþáttasería, "Veistu hver ég var?" Hún verður á dagskrá Stöðvar 2. Þetta er spurningaþáttur. Umsjónarmaður, spyrill og dómari er Siggi Hlö. Viðfangsefnið er níundi áratugurinn. Nánar tiltekið sú músík sem fellur undir samheitið "80´s" (dansvænt tölvupopp, nýróman...) og kvikmyndir.
Hvernig stendur á því að ég veit þetta? Öfgafullur maður sem var á kafi í því selja pönkplötur, gefa út pönkplötur og stússa í pönkhljómleikum á níunda áratugnum?
Skýringin liggur í því að ég er í einu af 18 keppnisliðum sem spreyta sig í "Veistu hver ég var?" Þættirnir hafa þegar verið teknir upp. Það var góð skemmtun að taka þátt í leiknum. Egils Gull var í boði. Gott ef að pizzur og eitthvað fleira voru ekki einnig á boðstólum. Ég einbeitti mér að Gullinu.
Ég var í keppnisliði Hebba Guðmunds. Ásamt okkur var í liðinu Bjarni Jóhann Þórðarson. Það munaði um minna. Sá var og er á heimavelli þegar 80´s poppið er annars vegar. Þar fyrir utan hugsar hann svo hratt að áður en mínar heilasellur náðu að sameinast í að grafa upp svar við einni spurningu var Bjarni búinn að svara mörgum.
Keppnislið Hebba atti kappi við lið Sverris Stormskers. Sverrir er fjölfróðari um 80´s músík en margur heldur. Honum til halds og trausts voru tveir Snorrar. Annar er Snorrason og sigurvegari í Idol eða X-factor. Ég held að ég sé ekki að rugla honum saman við einhvern annan þegar ég tengi hann við hljómsveitina Jet Black Joe.
Hinn Snorrinn er Sturluson. Hann var íþróttafréttamaður, ja, nú man ég ekki hvort það var á Rúv eða hjá Stöð 2. Eða kannski báðum. Hann hefur líka verið dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og öðrum útvarpsstöðvum. Lið Sverris var öflugt.
Siggi Hlö er stuðbolti. Hann tekur sig ekki hátíðlega. Það einkennir þáttaseríuna. Þetta er allt til gamans gert. Það er útgangspunkturinn. Ungmennafélagsandinn "að vera með í leiknum" svífur yfir vötnum. Siggi Hlö er rétti maðurinn í hlutverki þáttastjórnandans, eins og dæminu er stillt upp: Fjörmikill gleðipinni og snöggur til svars af léttúð undir öllum stöðum sem upp koma. Hann á auðvelt með að keyra upp stemmninguna Það er svo mikið stuð á stráknum. Hann kann þetta frá A - Ö.
Það var virkilega gaman að taka þátt í þessum spurningaleik. Ég skemmti mér konunglega. Ég hlakka til að sjá útkomuna í endanlegri útfærslu. Ekki aðeins þáttinn með keppnisliðum Hebba og Stormskers. Aðrir þættir eru líka spennandi. Til að mynda viðureign Rásar 2 og Bylgjunnar.
Tónlist | Breytt 14.8.2013 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.8.2013 | 22:09
Færeysku fjölskyldudagarnir á Stokkseyri - 2. hluti
Það er erfitt að átta sig á því hvað margir nákvæmlega sóttu hátíðina Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri um verslunarmannahelgina. Það var ókeypis aðgangur á flesta dagskrárliði, í sýningarsali, á viðburði og annað. Ef miðað er við þá sem smökkuðu á skerpikjöti og þá sem keyptu veitingar í Art Café má ætla að eitthvað á annað þúsund manns hafi sótt Færeyska fjölskyldudaga.
Á tjaldstæðinu voru um 50 bílar þegar mest var. Tvær til fjórar manneskjur í hverjum bíl. Flestir gestirnir dvöldu hinsvegar aðeins yfir daginn og kvöldið. Sumir komu dag eftir dag án þess að gista á Stokkseyri. Þetta var fólk sem dvaldi í sumarbústöðum í nágrenninu eða á heima á Selfossi, Eyrarbakka eða Hveragerði. Kannski einhverjir frá Þorlákshöfn einnig. Jafnvel frá höfuðborgarsvæðinu.
Allt fór vel og friðsamlega fram. Engin slagsmál, engin þjófnaðarmál, engin skemmdarverk. Einungis gleði, fjör og gaman. Fjörið náði hámarki á dansleik á sunnudagskvöldinu. Jógvan Hansen og Vignir Snær kunna svo sannarlega að keyra upp stuðið og ná salnum út á dansgólfið. Ekki var verra að Jógvan á auðvelt með að afgreiða færeysk óskalög sem gestir af færeyskum uppruna þráðu að heyra.
Reyndar þurfti ekki færeyskan uppruna til að beðið væri um færeysk lög. Ég var plötusnúður á Færeyskum fjölskyldudögum. Á hverju kvöldi var ég þrábeðinn af Íslendingum um að spila "Ormin langa" með Tý. Allt frá þrisvar á kvöldi og upp í sjö sinnum!
Það er gömul saga og ný að fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á fjölskylduhátíðum sem fara friðsamlega fram. Þar sem allt gengur eins og í sögu. Orðið tíðindalaust lýsir stöðunni. Fréttamenn sækja í fréttir af líkamsárásum, skemmdarverkum, innbrotum og þess háttar. Þess vegna skiptu fjölmiðlar sér lítið af Færeyskum fjölskyldudögum. Það kom ekki á óvart. Hitt vakti undrun mína: Að sunnlenskir fjölmiðlar þögðu þunnu hljóði um hátíðina á Stokkseyri.
Eftir því sem ég kemst næst var ekkert sagt frá Færeyskum dögum í héraðsfréttablöðunum Dagskránni og Sunnlenska, né heldur í Útvarpi Suðurlands. Að óreyndu hefði mátt ætla að þessir fjölmiðlar legðu sig í líma við að kynna í bak og fyrir svona hátíð á Suðurlandi. Ég þekki ekki nógu vel til þarna um slóðir til að giska á hvort að hrepparígur eða eitthvað annað olli fálæti sunnlenskra fjölmiðla.
Útvarp Saga, Rás 1 og Rás 2 stóðu sig hinsvegar með prýði. Því má halda til hafa. Lítill fugl hvíslaði því að mér að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi keypt umfjöllun um aðrar hátíðir á Suðurlandi um verslunarmannahelgina út úr miðlum 365.
Tónlist | Breytt 13.8.2013 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2013 | 00:10
Færeysku fjölskyldudagarnir á Stokkseyri
Hátíðin Færeyskir fjölskyldudagar var haldin á Stokkseyri dagana 1. - 5. ágúst. Hún tókst í flesta staði afskaplega vel. Veðrið lék við gesti og gangandi. Glampandi sól, hlýtt og þurrt. Undantekningin var að um miðbik hátíðarinnar blésu veðurguðirnir óvænt. Flestum þótti það bara hressandi. Svo datt allt í dúnalogn aftur.
Í næstu bloggfærslu hér fyrir neðan má sjá dagskrá hátíðarinnar. Hún er ekki tæmandi. Nokkur skemmtileg dagskráratriði bættust við. Ber þar hæst heimsókn kanadísku hljómsveitarinnar Horizon. Sú hljómsveit sérhæfir sig í lögum úr smiðju Pink Floyd, Guns N´ Roses og fleiri slíkra. Þetta eru afskaplega flinkir fagmenn, hvort heldur sem er í hljóðfæraleik eða söng.
Liðsmenn Horizon fréttu í Dubai af Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri. Ótrélegt en satt. Svo heppilega vildi til að hljómsveitin var stödd í Reykjavíkurhöfn í útlendu skemmtiferðaskipi um verslunarmannahelgina. Það lá því beinast við að skjótast til Stokkseyrar. Þar skemmti hljómsveitin sér konunglega. Hún kvittaði fyrir sig með því að troða í tvígang upp á dansleik Bee on Ice á laugardagskvöldinu, undrandi gestum til óvæntrar ánægju. Fagmennskan var slík að það var eins og Pink Floyd væri mætt á svæðið.
Fyrr á laugardeginum mætti á svæðið einn góður gestur til, píanósnillingurinn Siggi Lee Lewis.
Hann brá sér í tvígang upp á svið í hátíðarsal Lista- og menningarverstöðvarinnar og gaf gestum vænt sýnishorn af fjörlegri búgívúgísveiflu og blús.
Af öðrum hápunktum Færeyskra fjölskyldudaga má nefna smakk á færeyskra þjóðarréttinum skerpikjöti. Það er þurrkað og verkað lambalæri af ársgömlum sauð. Bragðsterkt með rífandi eftirbragði, skolað niður með færeysku Eldvatni (einskonar færeysku brennivíni, þríeimuðu).
Skerpikjötið á það sameiginlegt með kæsta hákarlinum að annað hvort verða menn sólgnir í það sem algjört sælgæti eða þá að bæði lykt og bragð vefjast fyrir óvönum. Mun fleiri falla gjörsamlega fyrir sælgætinu en þeir síðarnefndu.
Nafnið skerpikjöt vísar til þess að bragðið sé skarpt. Það er búið að skerpa á því.
Á laugardeginum og sunnudeginum voru þrjú væn skerpikjötslæri skorin niður í smakkbita og borðuð upp til agna. Margir gerðu sér langa ferð til að komast í smakkið. Sumir til að forvitnast um kjötið og spurðu margs. Aðrir vegna þess að þeir þekktu sælgætið og voru friðlausir að komast í bitann.
Hér eru Færeyingarnir Gunnar og Tóti að skera skerpikjötið niður. Ég stend ábúðafullur hjá, gæti þess að allt sé "undir kontról" og er tilbúinn að svara fyrirspurnum þegar gestir hópast að og deila út namminu. Við Gunnar erum með færeysku þjóðarhúfuna:
Skerpikjöt er svo girnilegt og spennandi að meira segja grænmetisætur, eins og Harpa Karlsdóttir, létu freistast til að smakka:
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2013 | 23:36
Presley eftirhermur
Út um allan heim er allt morandi í svokölluðum Presley-eftirhermum. Það eru menn sem lifa að meira og minna leyti á því að herma eftir bandaríska rokksöngvaranum Elvis Presley. Eftirhermurnar reyna að líkjast Presley sem mest í útliti og sviðsframkomu. Þær klæðast samskonar hvítum samfestingi og Presley lét sérsauma á sig á áttunda áratugnum. Þær líma á sig gervibarta og syngja lög sem Presley gerði fræg. Herma að sjálfsögðu sem nákvæmast eftir söngrödd og söngstíl Presleys.
Einhverra hluta vegna er uppistaðan af Presley-eftirhermum "skrítnir" náungar. Sumir mikið skrítnir og laglausir. Aðrir smá skrítnir og syngja betur. Þetta á ekki við um alla. Og hver er svo sem ekki skrítinn á sinn hátt? Málið er bara að í nánast öllum löndum má finna aragrúa af laglausum og skrítnum Presley-eftirhermur. Sumar eru stjörnur í sínu landi. Til að mynda Svíinn Eilert Pilarm. Hann er stórstjarna út um alla Skandinavíu og víðar.
Presley sjálfur var mjög góður söngvari; lagviss með sterka baritón-rödd og góða raddbeitingu. Sennilega var hann fyrsti hvíti söngvarinn til að beita öskursöngstíl. Og afgreiddi það dæmi frábærlega flott.
Margir hafa velt fyrir sér og reynt að greina ástæðu þess að tugþúsundir mishæfileikaríkra/-lausra manna um allan heim hermi eftir Presley. Sumir sjá samlíkingu við þann fjölda vistmanna á geðdeildum sem telur sig vera Napoleon og aðrir telja sig vera Jesú. Sá munur er á að Presley-eftirhermurnar eru meðvitaðar um að þær eru ekki Elvis Presley. Þær vita að um hlutverkaleik er að ræða.
Hvers vegna tugþúsundir Presley-eftirherma en teljandi á fingrum annarrar handar Mikjáls Jacksons eftirhermur og varla finnast Paul McCartney eftirhermur af þessu tagi? Það er alveg jafn auðvelt að herma eftir útliti og söng Johns Lennons og Bobs Dylans, svo dæmi séu tekin. Margir fagmenn gera út á það. En Presley-eftirhermurnar dúkka upp við öll tilefni við misjafnar undirtektir.
Sumir vilja rekja ásóknina í að herma eftir Presley felast í hvíta samfestingnum. Hann sé svo sterkt einkenni fyrir Presley að sá sem klæðist samfestingnum upplifi sig vera að klæðast í sjálfan Presley.
Það vantar sjaldan íburðinn þegar takt- og laglausar Presley-eftirhermur fara mikinn á sviði. Né heldur vantar fagnaðarlætin frá áheyrendum.
Tónlist | Breytt 29.7.2013 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.7.2013 | 19:12
Hagfræðingar ljúga
Hagfræðingar eru óáreiðanleg heimild um ástandið. Það vantaði ekki kokhrausta hagfræðinga til að vísa á bug viðvörunarljósum sem blikkuðu út um allt korteri fyrir bankahrun. Hagfræðingar skrifuðu og gjömmuðu hver í kapp við annan (á háum launum) um að engin hætta væri á bankahruni eða neinu slíku. Þvert á móti þá væri ástandið tær snilld og bankarnir ættu að gefa í með Icesave og alla þessa hamingju sem þeir væru að útdeila.
Eflaust má finna árinu 1976 sitthvað til ágætis. Bæði í Bretlandi og víðar. Breska pönkið byrjaði 1976. Það var frábært. Hófst um sumarið sem einskonar neðanjarðarhreyfing Sex Pistols, The Clash, The Damned, The Buzzcocks og Siouxie & The Banshees. Hreyfingin vatt hratt upp á sig. Um haustið var haldið 2ja daga pönk-festival í 100 Club við Oxford stræti. Fyrir árslok var pönkið orðið umtalað og komið á forsíður dagblaðanna.
Næstu ár á eftir fór pönkið með völd. Það ól af sér ótal músíkstíla sem kölluðust samheitinu nýbylgja. Það opnaði dyr fyrir reggí og ska. Það skóp hártísku og fatatísku. Það stillti rokkbransanum í heilu lagi upp við vegg. Flest sem rokkarar höfðu verið að gera og voru að gera var borið saman við pönkið. Breska pönkið fór eins og stormsveipur um heiminn. Upp spruttu öflugar pönkbylgjur þvers og kruss að hætti þeirrar bresku. Hérlendis hefur pönkbylgjan verið kennd við kvikmyndina Rokk í Reykjavík.
Til að breska pönkið næði upp á yfirborðið og yrði sú bylting sem það varð þá þurfti sérstakan farveg. Sá farvegur samanstóð af vondu efnahagsástandi í Bretlandi 1976, vonleysi og reiði. Einnig þreytu og leiða á risaeðlunni sem rokkmarkaðurinn var orðinn.
Atvinnuleysi í Bretlandi var mikið, heilu fjölskyldurnar og íbúar heilu bæjarhlutanna voru fastir í fátækragildru. Það logaði allt í verkföllum, kynþáttaóeirðum, lögregluofbeldi, pirringi. Stærsti nasistaflokkurinn í Bretlandi, National Front, naut stuðnings 130 þúsund kjósenda. Hatur og reiði út í allt og alla kraumaði og leitaði útrásar.
Ástandið, eins og ungir lágstéttarmenn upplifðu það, var súmmerað upp á næst fyrstu smáskífu Sex Pistols, God Save The Queen. Það getur að heyra í myndbandinu efst. Textinn hefst á þessum orðum:
God save the queen
The fascist regime
They made you a moron
Potential H-bomb
God save the queen
She ain't no human being
There is no future
In England's dreaming
Í niðurlaginu er margendurtekið að það sé engin framtíð. Svipuð viðhorf voru áberandi í öðrum breskum pönksöngvum. Það var sungið um fasisma og anarkisma, atvinnuleysi og vonleysi. Á fyrstu smáskífu Sex Pistols, Anarchy In U.K., er stjórnleysi boðað.
Í fyrsta smáskífulagi The Clash, White Riot, var sungið um óeirðir og uppþot. Myndbandið var skreytt klippum af lögreglu og mótmælendum. Upplifun bresku pönkaranna á ástandinu 1976 er ólík lýsingu hagfræðinganna á besta og hamingjuríkasta ári Bretlands. Söngvar bresku pönkaranna eru marktæk sagnfræði að einhverju leyti.
Tom Robinson lýsir ástandinu skýrar og ljóðrænna í Up Against The Wall. Þar segir m.a.
Darkhaired dangerous schoolkids
Vicious, suspicious sixteen
Jet-black blazers at the bus stop
Sullen, unhealthy and mean
Teenage guerillas on the tarmac
Fighting in the middle of the road
Supercharged FS1Es on the asphalt
The kids are coming in from the cold
Look out, listen can you hear it
Panic in the County Hall
Look out, listen can you hear it
Whitehall (got us) up against a wall
Up against the wall...
High wire fencing on the playground
High rise housing all around
High rise prices on the high street
High time to pull it all down
White boys kicking in a window
Straight girls watching where they gone
Never trust a copper in a crime car
Just whose side are you on?
Consternation in Brixton
Rioting in Notting Hill Gate
Fascists marching on the high street
Carving up the welfare state
Operator get me the hotline
Father can you hear me at all?
Telephone kiosk out of order
Spraycan writing on the wall
Eitt af mörgu góðu við pönkið var að það gerði þarfa uppreisn gegn kynþáttafordómum og nasisma. Slátraði National Front með því að spila undir yfirskrift á borð við Anti-Nazi League og Rock Against Racism, ásamt því að gagnrýna í textum kynþáttafordóma. Eins og að framan greinir áttu breskir nasistar sterkt fylgi þegar pönkbyltingin skall á. The Clash lýstu stöðunni þannig að ef Adolf Hitler kæmi til Bretlands þá yrði tekið á móti honum í limmósíu á flugvellinum.
![]() |
1976 var hamingjuríkasta árið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 22.7.2013 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.7.2013 | 01:19
Norskur þungarokksnasisti, morðingi og kirkjubrennari
Ég er dálítð "svag" fyrir svartamálmi (black metal). Þessi músíkstíll varð til í Noregi og hefur breiðst út um heim. Verra er að einn af forsprökkum svartamálms er Norðmaðurinn Vargur Vikernes. Léttgeggjaður hægri öfgamaður sem blandar saman nasisma og ásatrú. Það þykir mér sem félaga í Ásatrúarfélaginu miður. Ásatrúarfélagið á Íslandi hafnar blessunarlega kynþáttafordómum, kynþáttahatri og nasisma.
1994 var Vargur dæmdur í lífstíðarfangelsi í Noregi fyrir að drepa gítarleikarann sinn og kveikja í fjórum kirkjum. Aðrar heimildir herma að hann hafi kveikt í 50 kirkjum. Einhverjir Íslendingar hófu bréfasamskipti við Varg á meðan hann sat í fangelsi. Flestir gáfust fljótlega upp á þeim samskiptum þegar þeir áttuðu sig á því hvað nasistinn er kolgeggjaður.
Lífstíðarfangelsi í Noregi þýðir 21 ár. Vargur losnaði úr fangelsi 2005. Hann stofnaði fjölskyldu með franskri konu og flutti til Frakklands. Að undanförnu hefur hann farið mikinn á internetinu. Hann hefur hvatt til uppreisnar gegn gyðingum og múslimum í Evrópu. Hann kennir gyðingum um bankakrísuna og skilgreinir almenning sem þræla gyðinga.
Frönsk yfirvöld hafa nú gripið inn í og handtekið Varg. það gerðu þau í kjölfar þess að hann var farinn að safna að sér skotvopnum og undirbúa hryðjuverk. Í dagblaðinu VG er Vargur sagður vera aðdáandi norska hægriöfgamannsins Breiviks og hefur átt í bréfasamskiptum við hann. Vargur var þó ósáttur við fjöldamorð Breiviks til að byrja með.
Eftir sem áður er Vargur flottur tónlistarmaður. Það reynir á prinsipp mitt að njóta tónlistar óháð viðhorfum flytjandans. Að vísu hef ég gert undantekningu með því að sniðganga barnaníðinga. En það er á mörkunum þegar nasistar á borð við Varg eiga í hlut. Læt fylgja með fordæmingu á nasisma, fasisma, kynþáttahatri og öllu því ógeði um leið og þetta ljúfa lag Vargs hljómar.
![]() |
Aðdáandi Breivik handtekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 18.7.2013 kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
7.7.2013 | 01:12
Sjötugir og alltaf jafn strákslegir
Breska blúsrokkhljómsveitin The Rolling Stones er um það bil elsta rokkhljómsveit heims. Hún er jafnframt ein örfárra rokkhljómsveita frá sjöunda áratugnum sem hefur aldrei hætt. Flestar rokkhljómsveitir frá sjöunda áratugnum hafa hætt. Sumar hafa alveg hætt. Aðrar hafa verið endurlífgaðar mörgum árum eða áratugum síðar.
The Rolling Stones hefur lítið skipt sér af eiginlegum rokkhátíðum. Það er að segja hátíðum sem standa í marga daga og bjóða upp á langa dagskrá með fjölda skemmtikrafta. Þess í stað hefur The Rolling Stones farið í stórar hljómleikaferðir vítt og breitt um heim. Það er mikið í þær lagt. Sérhönnuð sviðsmynd er sett upp á hverjum stað og allt er mjög stórt í sniðum. Eitt sinn hitti ég kokk sem vann ásamt fleirum við að elda ofan í liðsmenn The Rolling Stones og starfsmenn þeirra. Hópurinn var á við heilt þorp. Fyrir utan fjölda aðstoðarhljóðfæraleikara, bakraddasöngkvenna, rótara, hljóðmanna, ljósameistara, smiði, förðunarfræðinga og lífverði voru með í för læknir, líkamsræktarþjálfari og eitthvað þess háttar lið. Þó að kokkurinn hafi unnið daglega með hópnum í lengri tíma hafði hann einungis spjallað við gítarleikarann Ronnie Wood. Ronnie hafði spurnir af því að kokkurinn safnaði málverkum og málaði sjálfur í frístundum. Ronnie hafði frumkvæði af því að spjalla við kokkinn um myndlist af og til. Hina Rollingana hitti kokkurinn aldrei til að eiga orðaskipti við.
Hljómleikaferðir The Rolling Stones hafa alltaf vakið athygli og fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þær hafa jafnframt viðhaldið ímynd The Rolling Stones sem stærstu rokkhljómsveitar heims (eftir að Bítlarnir hættu).
Í vor brá hinsvegar svo við að liðsmenn The Rolling Stones höfðu frumkvæði af því að koma fram á stærstu árlegri útitónlistarhátíð heims, Glastonbury. Hún er alltaf haldin síðustu vikuna í júní. Það var gítarleikarinn Ronnie Wood sem suðaði í þeim hinum þangað til að þeir létu undan hans ósk: Að spila á alvöru útihátíð. Ronnie er krakkinn í hópnum. Sá eini Rollinga sem fær ekki gamalmennaafslátt í sund og strætó. Hann er nær því að fá afhentan barnamatseðil á veitingastöðum út á barnslegt andlit.
Ákvörðunin reyndist happadrjúg, bæði fyrir The Rolling Stones og Glastonbury. Ég var úti í Englandi þegar dagskrá Glastonbury var kynnt fjölmiðlum. The Rolling Stones var á forsíðum bresku dagblaðanna og músíktímarita næstu daga. Þetta var aðalfrétt í útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Spjallþræðir Breta á netinu voru undirlagðir umræðu um The Rolling Stones og Glastonbury. Fréttir af nú afstaðinni Glastonbury hátíðinni snúast meira og minna um The Rolling Stones. Allt mjög jákvætt. Eftir því var tekið hvað þessir sjötugu rokkarar eru strákslegir.
Þetta er eldri mynd af strákunum. Á Glastonbury voru þeir eins og fermingardrengir. Það hjálpaði upp á að Keith var málaður um augun (eyeliner) og Mick með fagurgrátt hár sitt litað brúnt.
Tónlist | Breytt 8.7.2013 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2013 | 10:51
Áríðandi! Ekki missa af!
Það er orðið alltof langt síðan færeyska álfadísin, Eivör, hefur haldið hljómleika á Íslandi. Ennþá lengra er síðan hún hefur haldið hljómleika á litlum stað þar sem hún er í nálægð við áheyrendur. Nú ber heldur betur til tíðinda: Næstkomandi föstudag (12. júlí) verður Eivör með hljómleika á Gamla Gauknum.
Eins og allir vita sem hafa verið á hljómleikum hjá Eivöru þá er það miklu áhrifaríkari og stórkostlegri upplifun en að hlusta á plötur með henni eða lög í útvarpi. Samt eru plöturnar hennar ljómandi góðar en ólíkar hver annarri. Á hljómleikum nær Eivör að framkalla töfra. Hún dáleiðir áheyrendur. Þeir sitja opinmynntir umvafðir fegurð tónlistarinnar; frábærum söng og túlkun Eivarar. Stór þáttur í magnaðri stemmningunni ræðst af sterkum sviðsþokka Eivarar, útgeislun og spjalli hennar á milli laga og kynningum á lögunum.
Ekki missa af þessum hljómleikum! Miðasala er hafin á www.gamligaukurinn.is . Það er algjörlega óvíst hvenær Eivör heldur næst hljómleika á Íslandi. Vinsældir hennar út um heim vaxa jafnt og þétt með tilheyrandi spurn eftir hljómleikum. Sem dæmi þá hafði nýjasta plata hljómsveitar hennar, Vamp, selst í 130 þúsund eintökum í Noregi síðast þegar ég vissi (í fyrra). Þá fékk Eivör afhenta þrefalda platínuplötu fyrir söluna. Næsta víst er að platan sé í dag til á nálægt 200 þúsund norskum heimilum. Hún var nefnilega enn í 1. sæti norska sölulistans þegar Eivör fékk þreföldu platínuplötuna.
Á undan Eivöru á Gauknum stígur á stokk önnur flott færeysk söngkona, Dorthea Dam. Hún átti eitt mest spilaða lag í færeysku útvarpi í fyrra. Það heitir Candy og hefur eitthvað verið spilað í íslensku útvarpi. Fleiri lög með Dortheu hafa fengið góða spilun í færeysku útvarpi.
Eftir að Dorthea og Eivör hafa heillað salinn upp úr skónum svífa á svið stuðboltinn Sigurður Ingimars og hljómsveit. Sigurður var sigurvegari í Íslensku trúbadorkeppninni og á færeyska konu.
Daginn eftir, laugardaginn 13. júlí, er Eivör með hljómleika á Græna hattinum á Akureyri.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)