Færsluflokkur: Tónlist
28.6.2013 | 22:44
plötuumsögn
- Titill: A Little Trip
- Flytjandi: Binni Rögnvalds
- Einkunn: **** (af 5)
Binni Rögnvalds er skagfirskur trúbador. Hann er söngvaskáld, gítarleikari og söngvari. Faðir hans, Rögnvaldur Valbergsson, er kunnur tónlistarmaður í Skagafirði; kórstjórnandi og hljómborðsleikari helstu hljómsveita Skagafjarðar, svo sem Trico og Hljómsveitar Geirmundar.
A Little Trip er fyrsta plata Binna. Í gamla daga hefði svona plata verið skilgreind sem Ep. Hún er sex laga (mitt á milli smáskífu og "stórrar" Lp plötu).
Fyrstu tvö lögin eru í svipuðum stíl: Þau falla undir skilgreiningu á "krúttpoppi". Þetta eru áferðarfögur lög. Róleg lög með minimalískum hljóðfæraleik. Upphafslagið, Hamburg, leiðir huga að With Or Without You með írsku hljómsveitinni U2. Seyðmögnuð og dáleiðandi fegurð umlykur þessi lög. Einfaldleiki, látleysi og klingjandi gítar laða fram ljúfa og notalega tilfinningu.
Í lagi nr. 2, Fly, bætist við í viðlagi söngur Dönu Ýr Antonsdóttur.
Þegar ég hlustaði fyrst á plötuna var ég kominn í þannig stemmningu að þriðja lagið var eins og þruma úr heiðskíru lofti. Heldur betur skipt um gír. Call In Sick er hart pöbbarokk; rythmablús. Mér kæmi ekki á óvart að það lag hafi verið hljóðritað "live" í hljóðveri. Rífandi gítar og fjör. Hressilegt lag. Binni fer úr hlutverki ljúfa söngvarans og þenur raddböndin.
Fjórða lagið er Fame and Fortune. Fyrstu þrjú lögin eru ekki með rífandi krækjur (hooks). Þau eru frekar með vinalegar laglínur sem vinna stöðugt á við ítrekaða hlustun. Fame and Fortune er með krækju bæði í laglínu og stefi í undirleik. Útvarpsvænasta lag plötunnar. Gítarinn jaðrar við að nálgast reggí-takt. Kannski er það óskhyggja hjá djassgeggjaranum mér að greina smá djasskeim í þessu lagi.
Fimmta lagið, Daddy´s Lullaby, kallar fram hughrif í átt að Nick Cave. Leiðandi píanólína og falleg laglína. Afskaplega snoturt lag.
Lokalagið, Who Belongs To Me, sver sig í sömu ætt. Þessi plata Binna Rögnvalds er afskaplega vel heppnuð. Góð lög, góður flutningur. Allt snyrtilega afgreitt. Engir stælar í hljóðfæraleik eða öðru. Enginn rembingur. Bara allt flott. Flott plata.
Tónlist | Breytt 29.6.2013 kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2013 | 21:00
The Rolling Stones
Jú, reyndar vissir þú þetta ef þú ert sýslumaður Árnessýslu. Annars vissir þú það ekki. Kannski sumt af þessu. En ekki allt.
- Fyrsti trommuleikari The Rolling Stones varð síðar heimsfrægur sem trommari The Kinks. Hann heitir Mick Avory.
- Annar tveggja gítarleikara The Rolling Stones heitir Ronnie Wood. Fyrir daga The Rolling Stones gerði bróðir hans það gott á breska vinsældalistanum. Það var 1961 sem Ted Wood og hljómsveit hans, Temperance Seven, sló í gegn með laginu You´re Driving Me Crazy.
- Vörumerki The Rolling Stones er útfærsla á tungu og vörum söngvarans, Micks Jaggers. Vörumerkið er jafnframt sótt í tákn eins af guðum Hindúa, Kali the Destroyer.
- Bítlarnir uppgötvuðu The Rolling Stones, urðu ákafir aðdáendur og komu The Rolling Stones á plötusamning. Það var gítarleikari Bítlanna, George Harrison, sem gekk á fund forráðamanna plöturisans Decca og benti þeim á að þarna væri tækifæri til að rétta hlut sinn eftir að Decca hafði hafnað Bítlunum og orðið að athlægi fyrir klúðrið. Bítlarnir voru orðnir ofurstjörnur þegar hér var komið sögu. Forráðamenn Decca tóku ábendingu Harrisons með þökkum og gerðu plötusamning við The Rolling Stones í snatri.
- Fyrsta smáskífa The Rolling Stones náði ekki þeim árangri sem að var stefnt. Það var lag eftir Chuck Berry, Come On. Smáskífan náði ekki inn á Topp 20 vinsældalistans. En næstum því (21. sæti). Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney tóku sig þá til og sömdu fyrir The Rolling Stones lag sem átti að koma hljómsveitinni inn á Topp 20. Það gekk eftir. Lagið, I Wanna Be Your Man, flaug í 12 sæti breska vinsældalistans. Sögusagnir hafa verið um að þetta lag hafi upphaflega verið samið fyrir trommuleikara Bítlanna, Ringo Starr, til að syngja. Löngu löngu síðar upplýsti forsprakki Bítlanna, John Lennon, að þeir Paul McCartney hafi verið búnir að skilgreina þetta lag sem ekki nógu gott fyrir Bítlana. En það sem þeir Lennon og McCartney skilgreindu sem ekki nógu gott fyrir Bítlana myndi engu að síður skila The Rolling Stones inn á Topp 20. Sjálfir voru Lennon og McCartney þegar orðnir áskrifendur að 1. sæti breska vinsældalistans.
- Bítlarnir John Lennon og Paul McCartney kenndu liðsmönnum The Rolling Stones galdurinn við að semja lög.
- Bítlarnir innleiddu nýja byltingarkennda hárgreiðslu: Að greiða hárið fram á enni og leyfa hárinu að vaxa yfir eyrun. Liðsmenn The Rolling Stones gengu lengra og lögðu sig fram um að vera með síðara hár en Bítlarnir. 1963 keyptu The Rolling Stones auglýsingar í dagblöðum undir jólakveðju sem hljómaði þannig: "Bestu óskir til sveltandi hárskera og þeirra fjölskyldna." Meiningin í textanum er: "Bestu óskir um gleðileg jól til..."
- Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur notað The Rolling Stones lagið Gimme Shelter í fjórum af sínum kvikmyndum. Hann er einlægur og ákafur aðdáandi. Hann gerði líka heimildarkvikmynd um The Rolling Stones, Shine A Light. Alveg fjögurra stjörnu mynd.
- Nafnið á The Rolling Stones er sótt í samnefnt lag með bandaríska blúsaranum Muddy Waters.
- Nafnið The Rolling Stones er iðulega ranglega þýtt á íslensku sem Rúllandi steinar. Rétt þýðing er Flækingarnir.
- Söngvari The Rolling Stones, Mick Jagger, er eldheitur áhugamaður um ballettdans.
- Það kom mörgum á óvart þegar upplýst var að besti vinur bandaríska háðfuglsins, gítarsnillingsins og söngvahöfundarins Frank heitins Zappa var Mick Jagger, söngvari The Rolling Stones. Hvorugur þeirra hafði upplýst um þetta fyrir fráfall Zappa. Þeir voru ekki á nákvæmlega sömu línu í tónlist. En þeir náðu saman í heimspekilegu spjalli um heimsmálin, pólitík, listir og menningu og þess háttar. Báðir bráðgáfaðir. Þeim þótti fyrst og fremst gaman að spjalla saman. Þegar Mick var á ferð í námunda við heimili Zappa kom hann ætíð þar við og dvaldi jafnvel dögum saman hjá Zappa. Músík var sjaldnast á dagskrá.
- Trommuleikari The Rolling Stones, Charlie Watts, er lítið fyrir rokk. Hann er harðlínu djassgeggjari.
- Eitt sinn voru The Rolling Stones á hóteli. Að mig minnir á 3ju hæð. Söngvaranum, Mick Jagger, varð það á að tala um Charlie Watts sem trommuleikarann sinn. Charlie snöggreiddist. Hann stökk á Mick og ætlaði að henda honum út um glugga. Gítarleikarinn Keith Richard kom Mick til bjargar með því að skakka leikinn. Ástæðan sem Keith gaf var sú að Mick var í uppáhalds jakka Keiths. Keith vildi ekki sjá á eftir jakkanum út um gluggann.
- 1977 var gítarleikari The Rolling Stones, Keith Richard, böstaður fyrir að vera með dóp. Sanngjarnir dómarar dæmdu hann til að taka út refsingu með því að halda hljómleika fyrir blinda í Toronto. Hugmyndina fengu dómarar út frá frétt af því að Keith hafði áður tekið upp á því að hjálpa blindri konu að komast á hljómleika hjá The Rolling Stones. Keith var að sumu leyti sáttur við dóminn en líka í uppreisn. Hann lagði því allt undir með því að bjóða þeim blindu upp á glæsilegasta myndræna "show" sem mögulegt var. En vitaskuld sáu blindu "áhorfendurnir" ekkert af þessu "showi". Það er púki í Keith.
- Textarnir á plötu The Rolling Stones Exile On Main St. voru samdir eftir uppskrift bandaríska skáldsins William S. Burrough. Uppskriftin var sú að klippa niður texta og raða honum aftur tilviljunarkennt upp. Þannig fengju setningar og meiningar óvænt annað samhengi. William S. Burrough er eitt mesta skáld Bandaríkjanna. Meðal annars gerði Kurt Cobian (Nirvana) plötu við ljóð Williams S. Burroughs. Líka Michael Frant í Beatnigs og Spearhead. Fremur en að telja upp uppátæki Burroughs hvet ég til þess að þið "gúglið" kallinn. Hans saga er svo mikið dæmi.
Tónlist | Breytt 2.7.2013 kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.6.2013 | 20:44
Færeyingur bjargar júrivisjón
Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Hjálpin er Færeyingur. Þetta þekkjum við Íslendingar manna best. Þegar allar þjóðir heims harðneituðu að lána Íslendingum gjaldeyri - í kjölfar bankahrunsins - komu Færeyingar með fullar hendur gjaldeyris til Íslands og lánuðu okkur. Það var ekki einu sinni búið að biðja þá um hjálp.
Sama hefur ítrekað gerst þegar Íslendingar lenda í öðrum hremmingum, til að mynda snjóflóði. Þá eru Færeyingar snöggir til hjálpar.
Þetta fer ekki alltaf hátt. Svo dæmi sé tekið þá vita fáir hver bjargaði byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Byggingin var svo flókin, snúin og nýstárleg að enginn Íslendingur fannst sem treystandi var fyrir svo erfiðu verki. Að lokum var leitað til Færeyinga. Þar fannst maður, mikill snillingur, sem taldi ekki eftir sér að bjarga byggingu Hörpu fyrir Íslendinga. Það gerði hann með stæl - og var þó hlaðinn verkefnum út um allan heim.
Á næsta ári verður söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, júrivisjón, haldin í Danmörku. Keppnin er orðin svo mikið og stórt batterí og í svo mörg horn að líta hvað tæknilegu hliðina varðar að danskir tæknimenn fóru á taugum við tíðindin. Þeir óttast - eðlilega - að klúðra öllu. Þess vegna leituðu þeir til Færeyja - viti sínu fjær af áhyggjum og ráðaleysi. Færeyingur að nafni Per Zachariassen hefur látið undan grátbiðjandi Dönum og ætlar að halda utan um júrivisjón á næsta ári.
Þetta er Færeyingurinn sem bjargar júrivisjón.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.6.2013 | 21:54
Farðu nú að halda kjaftinum á þér saman!
Nýverið skrifaði íslenskur dægurlagasöngvari ágæta grein um dónaskap Íslendinga. Einkum eins og dónaskapurinn birtist í netmiðlum. Ekki síst í svokölluðum "kommentakerfum". Það er að segja þar sem fólk skráir athugasemdir við fréttir eða "statusa" á Fésbók.
Dægurlagasöngvaranum blöskrar dónaskapurinn. Ummælin vekja honum undrun og sorg. Í sumum tilfellum sé fólk ærumeiðandi. Hann bendir á að enginn eigi að láta dónaskapinn viðgangast. Nú sé nóg komið.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég renndi yfir athugasemdir við tiltekna frétt á dv.is. Þar hafði fólk þetta að segja við og um söngkonuna Diddú (stafsetningin fær að halda sér. Hún segir sitthvað).
"Þvílíkt fífl er þessi tussa."
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.6.2013 | 21:39
Einvígi indverskrar prinsessu og geltandi frosks
Í gær kvaddi Bubbi Morthens sér hljóðs. Hann skipaði indversku prinsessunni, Leoncie (Icy Spicy), að halda kjafti. "Leoncie, farðu að þegja," sagði hann. Indverska prinsessan hlýddi ekki. Þess í stað kallaði hún Bubba geltandi frosk. Eða réttara sagt: Hún sagði hann hljóma eins og geltandi frosk. Það er eiginlega það sama. Til viðbótar dró indverska prinsessan hæfileika Bubba í efa. Mjög svo í efa. Bubbi hafði áður efast um hæfileika indversku prinsessunnar og sakað hana um að vera dóna. Þau gefa lítið fyrir hæfileika hvors annars. Hvað er til ráða?
Leoncie hefur komist að sanngjarnri niðurstöðu. Niðurstöðu sem gengur út á það að þau etji kappi hvort við annað. Fari í tónlistareinvígi. Eðlilega á hlutlausu svæði. Indverska prinsessan stingur upp á Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún hefur sterkan grun um úrslitin: Að Bubbi fari grátandi heim.
Þorir Bubbi? Tekur hann áskorun indversku prinsessunnar? Eða lúffar hann? Í umræðunni á fésbók hallast flestir að því að hann setji skottið niður og þori ekki.
Tónlist | Breytt 15.6.2013 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.5.2013 | 22:45
Finnum annað orð yfir "einelti"
Orðið einelti skýrir sig sjálft að nokkru leyti. Umboðsmaður barna skýrir þetta þannig:
Einelti er niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum og sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, líkamlegri misbeitingu, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.
Umboðsmaðurinn tiltekur algengar birtingamyndir eineltis:
- Uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Þeir sem beita ofbeldinu hvíslast á um fórnarlambið, flissa og hlæja.
- Barnið er skilið útundan í leik, því er ekki boðið í afmælisveislur eða aðrar uppákomur hjá bekkjarfélögum, Barnið þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.
- Eigum fórnarlambsins er stolið, t.d. skólabókum, pennaveski, skólatösku, nesti eða íþróttafatnaði eða þessir hlutir eyðilagðir.
- Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, s.s. girt niður um barnið, það látið eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans. Barnið fær neikvæð SMS-skilaboð og hótanir.
- Gengið er í skrokk á barninu, það barið, klórað og hárreytt, sparkð er í það og því hrint.
Fórnarlömb eineltis hafa mörg hver komið fram opinberlega að undanförnu. Þau lýsa óhugnanlegri grimmd og andstyggilegheitum skólafélaga. Þau eru lamin daglega í skólanum árum saman. Það er stöðugt veist að þeim með uppnefnum og öðru niðurlægjandi orðalagi. Mörg segjast þau hafa ítrekað leitt huga að sjálfsvígi. Dæmi eru um að þau hafi gefist upp og svipt sig lífi. Mörg, jafnvel flest, fórnarlömb eineltis telja sig hafa skaðast andlega til frambúðar. Þau upplifa þunglyndi, vonleysi og sætta sig við vonda framkomu í sinn garð.
Upp á síðkastið hefur borið á því að stjórnmálamenn kvarti undan einelti í sínu starfi. Stjórnmálamenn kvarta líka undan því að aðrir stjórnmálamenn séu lagðir í einelti. Þetta er fólk sem velur sér sjálfviljugt starf á vettvangi þar sem tekist er harkalega á um menn og málefni. Þetta fólk gerir sjálft sig að opinberum persónum. Þeir kvarta sárast sem sjálfir hlífa ekki öðrum við harkalegum lýsingum. Þetta á við um fleiri opinberar persónur sem væla ámáttlega undan því að fólk í athugasemdakerfi dv.is líki ekki við músík þeirra og sé dónalegt. Opinberar persónur sem jafnvel eru best þekktar fyrir ruddaskap og yfirlýsingagleði.
Þetta er ekki eiginlegt einelti nema í víðustu merkingu orðsins. Með því að nota orðið einelti yfir gagnrýni á kjaftfora stjórnmálamenn og dægurlagasöngvara er verið að gera lítið úr fórnarlömbum raunverulegs eineltis. Leggjum heilann í bleyti og finnum annað orð yfir orðaskak og gagnrýni á kjaftforra stjórnmálamanna og hörundssára útbrunna skallapoppara.
Tónlist | Breytt 30.5.2013 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.5.2013 | 22:35
Spennandi hljómleikar, kaffi og sölumarkaður 1. júní
Nú verður heldur betur handagangur í öskjunni og fjörlegt í miðbæ höfuðborgar Íslands, Reykjavík, um næstu helgi. Nánar tiltekið á Kirkjustræti 2. Boðið er upp á glæsilega hljómleikadagskrá, rjúkandi heitt og ilmandi kaffi, nýbakað bakkelsi og stóran, fjölbreyttan og spennandi fata- og nytjamarkað.
Fjörið hefst klukkan 11.00 laugardaginn 1. júní í Herkastalanum og stendur til klukkan 17.00 sama dag. Klukkan 14.00 stíga vinsælar poppstjörnur og hljómsveitir á stokk, ein af annarri. Þeirra á meðal er júrivisjón-söngvarinn Eyþór Ingi, hljómsveitin Leaves, færeyska söngkonan Dorthea Dam, Steini í Hjálmum, Sísý Ey og Siggi Ingimars.
Hátíðin heitir Hertex dagur 2013. Tilgangurinn með hátíðinni er að skemmta sér og öðrum, vekja athygli á og virkja náungakærleika og safna fé til hjálparstarfs Hjálpræðishersins; fyrst og fremst til reksturs Dagsetursins á Eyjaslóð. Það er athvarf fyrir útigangsfólk og aðra sem eru bágt staddir í lífinu.
Engin ein manneskja getur allt en allir geta eitthvað. Nú er lag að hjálpast að við að hjálpa meðbræðrum okkar og -systrum sem hafa fallið utangarðs.
Tónlist | Breytt 27.5.2013 kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2013 | 00:42
Bestu trommuleikararnir
Spin er næst söluhæsta bandaríska músíktímaritið. Rolling Stone er söluhæst. Rolling Stone er jafnframt söluhæsta músíktímarit heims. Sala á þessum tímaritum í pappírsútgáfu hefur dalað töluvert eftir tilkomu internetsins. Pappírsútgáfan af Rolling Stone selst í hálfri annarri milljón eintaka í dag - eftir að hafa áður verið nálægt tveimur milljónum eintak. Pappírsútgáfan af Spin selst í hálfri milljón eintaka. Að mestu í áskrift út um allan heim. Það er svo einkennilegt í Bandaríkjunum að Spin og önnur bandarísk músíktímarit - önnur en Rolling Stone - eru ekki seld í blaðsöluvögnum eða sjoppum. Þess í stað eru helstu bresku músíktímaritin seld þar.
Engu að síður eru Spin og Rolling Stone ráðandi í heiminum í umfjöllun um rokkmúsík.
Nú hefur ritstjórn Spin tekið saman vel rökstuddan lista yfir bestu trommuleikara heims. Svona listar Spin ráðast ekki af samanburði á tæknilegri færni hljóðfæraleikara heldur hvað hljóðfæraleikararnir gera fyrir hljómsveitirnar sem sínar. Listar Spin eru þess vegna jafnan ólíkir öðrum slíkum listum.
Allir svona listar eru fyrst og fremst léttvægur samkvæmisleikur. Enginn Stóridómur. Smekkur fyrir músíkstílum og tónlist viðkomandi hefur margt að segja. Þetta er aðeins til gamans.
Þannig er listi Spin yfir bestu trommuleikarana:
1. Dave Grohl (Nirvana)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2013 | 01:59
Jon Bon Jovi valdi færeyska músík
Stóra fréttin í dönskum fjölmiðlum í dag er að bandaríska hljómsveitin Bon Jovi hafi kolfallið fyrir færeyskum tónlistarmanni. Bon Jovi er bandarísk hljómsveit og eitt stærsta nafnið í rokkheiminum í dag. Hún hefur komið fjölda laga í 1. sæti bandaríska vinsældalistans og ennþá fleiri nálægt toppsætinu. Þekktasta lag Bon Jovi er sennilega Livin´ On A Prayer. Plötur með Bon Jovi hafa einnig ratað í 1. sæti bandaríska vinsældalistans. Þær hafa samtals selst í á annað hundrað milljón eintökum.
Bon Jovi er hljómsveit söngvarans Jon Bon Jovi. Hann er fæddur og uppalinn í New Jersey, 9 milljón manna smáríki við hlið New York. Frægasti sonur New Jersey er Brúsi frændi (Bruce Springsteen). Þeir Jon Bon Jovi eru góðir vinir.
Ég er úr Skagafirðinum. Þar er Bon Jovi í miklum metum. Eiginlega ríkir Bon Jovi fár á Sauðárkróki. Sjálfur er ég ekki í hópi æstustu aðdáanda Bon Jovi. En ég ber virðingu fyrir kauða. Ástæðan er sú að ég sá í erlendri sjónvarpsstöð heimildamynd um kappann. Þar kom fram að hann má ekkert aumt sjá. Hann er mikill mannvinur. Hann er auðmaður hvað tekjur varðar en ver auðæfum sínum í að hlaupa undir bagga með útigangsmönnum. Hann kaupir heilu fjölbýlishúsin (blokkir) undir útigangsfólk. Hann heimsækir íbúana reglulega og gengur úr skugga um að vel fari um þá. Lengst af hélt hann þessu leyndu fyrir fjölmiðlum. Og ætlaði að hafa þetta fyrir leyndarmál. Hann óttaðist að uppátækið yrði skilgreint sem hann væri að hreykja sér eða hampa sér á kostnað útigangsmanna. Framan af reyndi hann að koma í veg fyrir að upplýsingar um þetta kæmu fram á Wikipedia.
Uppátækið barst til eyrna Bills Clintons sem vildi vekja athygli á framtakinu. Afstaða Clintons réðist af því að hann taldi uppátæki Jons verða öðrum auðmönnum til eftirbreytni. Ég held að það hafi samt ekki orðið raunin.
Jon Bon Jovi rekur einnig veitingahúsakeðju. Ég man ekki hvað hún heitir. Þar eru engir verðlistar í gangi. Viðskiptavinir ráða hvað þeir borga. Útigangsmenn þurfa ekki að borga neitt fyrir máltíðir þar. Þeim stendur til boða að vinna sjálfboðavinnu í eldhúsi gegn máltíð. Þeir ráða því þó. Ef þeir kjósa að borða á veitingastaðnum án vinnuframlags þá er það þeim frjálst. Aðrir gestir eru hvattir til að borga fyrir máltíð ríflega upphæð til að standa undir útgjöldum við máltíðir fyrir útigangsmenn. Dæmið gengur alveg upp þannig. Reksturinn stendur undir sér. Eiginlega engir útigangsmenn misnota aðstöðuna. Þeir sem engan pening eiga fyrir máltíð bjóða fram vinnu sína í eldhúsinu. Margir kunna þessu svo vel að þeir skila vinnuframlagi sem fer langt umfram kostnað við máltíð.
6. júní halda Bon Jovi hljómleika í Parken í Danmörku. Jon Bovi fékk músíksýnishorn frá 60 hljómsveitum til að velja úr upphitunarnúmer. Hann og félagar hans í Bon Jovi lágu yfir þessum sýnishornum í nokkrar vikur. Niðurstaðan varð sú að þeir völdu færeyska tónlistarmanninn Jens Marni til að hita upp fyrir sig. Áreiðanlega hjálpaði hvað nafnið Jens er flott.
Danskir fjölmiðlar segja að val Bon Jovi á upphitunarnúmerinu þýði að Jens Marni verði stimplaður rækilega inn í dönsku rokkmúsíksenuna. Hann verði stórt nafn í dönsku músíksenunni.
Jon Bon Jovi er góður maður og vel greiddur. Þökk sé mömmu hans sem er hárgreiðsludama.
Tónlist | Breytt 17.5.2013 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2013 | 12:58
Hræsnari
Rámi breski söngvarinn Rod Stewart sendi nýverið frá sér plötuna Time. Áður hafði hann ekki nennt að semja neina söngva til fjölda ára. Raulaði bara einhverjar krákur (cover songs). Á Time er að finna lagið Brighton Beach. Þar syngur Rámur um fyrstu kærustu sína, Suzönnu. Þau voru 16 ára. Hún er jafnframt barnsmóðir elsta barns hans, Söru. Í Brighton Beach syngur Rámur um það hvað hann elskaði Suzönnu heitt og hversu þungbært var fyrir hann er hún yfirgaf hann.
Suzanna er jafnaldri Rods, 68 ára. Hún ber honum illa söguna. Sakar hann um að hafa gufað upp um leið og hún tjáði honum að barn væri komið undir belti. Hann lét hana ekki ná á sér eftir það áratugum saman. Suzanna lýsir Rod sem ómerkilegum hræsnara. Hann hafi aldrei skipt sér af dóttir þeirra og það hafi farið mjög illa með þær mæðgur. Núna sjái hann aftur á móti eitthvað söluvænlegt við það að syngja væminn fortíðarhyggjusöng um ástarsambandið. Verra er að hann snúi þar sögunni sjálfum sér í vil. Það sé vænlegt til vinsælda að gera út á samúð fólks með fórnarlambi.
Suzanna álasar Rod ekki fyrir að stinga af á sínum tíma. Hann hafi verið ungur og vitlaus með stóra framtíðardrauma. Hinsvegar er hún grútspæld yfir framkomu hans eftir að hann komst til vits og ára. En á sínum tíma særði brotthlaup og svik Rods hana djúpu sári. Það var ekki auðvelt að vera 17 ára einstæð móðir á Englandi 1964. Það var svo erfitt að fyrir tilstilli barnaverndarnefndar var dótturinni, Söru, komið í fóstur hjá vandalausum. Það tókst ekki betur en svo að barnið flæktist næstu árin eins og jó-jó á milli fósturheimila.
Sarah fékk ekki að vita hver faðir hennar var fyrr en hún var orðin 19 ára. Eftir það talaði hún um fátt annað en Rod föður sinn. Hún hengdi upp plaköt af honum á svefnherbergisveggi hjá sér, keypti allar bækur um hann og keypti öll blöð sem fjölluðu um hann. En stelpan var einnig svekkt út í kallinn fyrir afskiptaleysið. Það toguðust á í henni einhverskonar ástar-hatur tilfinningar í garð föður síns. Móðir hennar vill meina að þessi staða hafi eyðilagt margt í lífi Söru. Þráhyggja á háu stigi fyrir því að vita sem mest um föður sinn hafi meira að segja eyðilagt ástarsambönd hennar. Hún fór í ruglið (sennilega vímuefnaneyslu) og gekk illa að fóta sig í lífinu.
Suzanna er búsett í Frakklandi. Hún skrifaði Rod nokkur bréf með áskorun um að hann hefði samband við dóttir sína. Án árangurs. Að lokum leitaði Suzanna Rod uppi þegar hann hélt hljómleika í París. Þá loks lét Rod undan þrýstingnum og hafði samband við dóttir sína. Hún þá komin á sextugsaldur. Það var eins og við manninn mælt að Sara fann loks frið í sinni sál. Rámur virðist einnig hafa fengið eitthvað út úr því að kynnast dóttir sinni. Hann er duglegur að hringja í hana og spjalla. Kynni hans af dótturinni virðast hafa orðið vítamínssprauta í sköpunargleði. Hann fékk innblástur til að semja söngva á ný, samanber Brighton Beach.
![]() |
Stewart var háður sterum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 15.5.2013 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)