Færsluflokkur: Tónlist

Félagsfærni Bítlanna

  Félagsfærni er hæfileiki til að eiga samskipti við aðra.  Það er lærð hegðun.  Börn herma eftir öðrum.  Félagslynt fólk á öllum aldri speglar annað fólk.  Góðir vinir og vinkonur tileinka sér ósjálfrátt talsmáta hvers annars,  hegðun, ýmsa takta, húmor,  smekk á fatnaði, músík og allskonar.  

  Á upphafsárum Bítlanna voru þeir snyrtilega klipptir;  stutt í hliðum og hnakka en dálítill lubbi að ofan greiddur upp.  Svo fóru þeir að spila í Þýskalandi.  Þar eignaðist bassaleikarinn,  Stu Sutcliffe,  kærustu.  Hún fékk hann til að greiða hárið fram á enni.  Hinir Bítlarnir sprungu úr hlátri er þeir sáu útkomuna.  Þeir vöndust hárgreiðslunni.  Innan skamms tóku þeir,  einn af öðrum,  upp sömu greiðslu.  Nema trommarinn,  Pete Best.  Hann hefur alla tíð skort félags- og trommuhæfileika.  Öfugt við arftakann,  Ringo.

  Þegar fram liðu stundir leyfðu Bítlarnir hártoppnum að síkka meira.  Að því kom að hárið óx yfir eyru og síkkaði í hnakka.  Svo tóku þeir - tímabundið - upp á því að safna yfirvaraskeggi.  Þegar það fékk að fjúka söfnuðu þeir börtum.  Um leið síkkaði hárið niður á herðar.  

  Áður en ferli hljómsveitarinnar lauk voru allir komnir með alskegg.  Hártíska Bítlanna var aldrei samantekin ráð.  Þeir bara spegluðu hvern annan.  Á mörgum öðrum sviðum einnig.                 

 

Bítlarnir 1960Bítlarnir greiða topp niðurBítlarnir með síðari toppBítlarnir með hár yfir eyruBítlarnir með yfirvaraskeggBítlarnir með bartaBítlarnir með skegg

 

 Bítlarnir Abbey Road

 


Minningarorð

 

  Söngvari Baraflokksins, Ásgeir Jónsson, féll frá núna 3ja maí.  Hann var 59 ára.  Baraflokkurinn stimplaði Akureyri rækilega inn í rokksöguna á nýbylgjuárunum upp úr 1980.  Árunum sem kennd eru við "Rokk í Reykjavík".  

  Geiri var laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar og allt í öllu.  Frábær söngvari og frábær tónlistarmaður.  Hann vissi allt og kunni í músík. Hljómsveitin átti sinn auðþekkjanlega hljóm;  blöndu af pönkuðu nýróman-kuldarokki.  

  Ég kynntist Geira þegar hann var hljóðmaður Broadway á Hótel Íslandi um aldamótin (þekkti hann reyndar lítillega áður til margra ára).  Ég bjó í næsta húsi.  Þar á milli var hverfispöbbinn Wall Street.  Þegar færi gafst frá hljóðstjórn brá Ásgeir sér yfir á Wall Street.  Þar var bjórinn ódýrari og félagsskapurinn skemmtilegri.    

  Vegna sameiginlegrar músíkástríðu varð okkur vel til vina.  Stundum slæddist Ásgeir heim til mín eftir lokun skemmtistaða.  Þá hélt skemmtidagskrá áfram.  Það var sungið og spilað.  Einnig spjölluðum við um músík tímunum saman.  Einstaka sinnum fékk Ásgeir að leggja sig heima hjá mér þegar stutt var á milli vinnutarna hjá honum, skjótast í sturtu og raka sig. 

  Geiri var snillingur í röddun.  Sem slíkur kom hann við á mörgum hljómplötum.  Hann var einnig snillingur í að túlka aðra söngvara.  Það var merkilegt.  Talrödd hans var hás (að hans sögn "House of the Rising Sun").  Engu að síður gat hann léttilega sungið nákvæmlega eins og "ædolin" David Bowie og Freddie Mercury.

  Eitt sinn fór Bubbi Morthens í meðferð.  Upptaka af hluta úr söng hans á plötunni "Konu" glataðist.  Búið var að bóka pressu í Englandi en ekki mátti ræsa Bubba út.  Geiri hljóp í skarðið.  Söng það sem á vantaði.  Það er ekki séns að heyra mun á söngvurunum.  Þetta er leyndarmál.

  Geiri var einstaklega ljúfur og þægilegur náungi.  Eftir að Broadway lokaði vann hann á Bítlapöbbnum Ob-La-Di.  Það var gaman að heimsækja hann þar.  Hann lék ætíð við hvurn sinn fingur. 

  Fyrir nokkrum árum urðum við samferða í geislameðferð vegna krabbameins.  Ég vegna blöðruhálskirtils.  Hann vegna krabbameins í raddböndum og síðar einnig í eitlum.  Við kipptum okkur lítið upp við það.  Við töluðum bara um músík.  Ekki um veikindi.  Enda skemmtilegra umræðuefni. 

      


Íslenskt hugvit vekur heimsathygli

  Í Danmörku er starfrækt ein fullkomnasta og afkastamesta vinyl-plötupressa heims, RPM Records.  Þar er meðal annars boðið upp á hágæða grafíska hönnun og tónlistarmyndbönd fyrir youtube.  Eigandinn er grafískur hönnuður að mennt og lærður kvikmyndagerðarmaður.  Hann kemur úr Svarfaðardal og heitir Guðmundur Örn Ísfeld. 

  Afurðir RPM Records hafa margar hverjar ratað í heimspressuna.  Núna síðast segir bandaríska tímaritið Rolling Stone frá nýjustu plötu kanadísku poppstjörnunnar Weeknd,  margfalds Grammy-verðlaunahafa auk fjölda annarra verðlauna og viðurkenninga.   

 

Rolling-Stone-logo

The Weeknd’s Newest Record Could Destroy Your Turntable — Or Your Extremities

“Out of Time” available as a vinyl record pressed into an actual, working saw blade.

In a collaboration that could cost the Weeknd’s fans their fingers (and over $1,000), the singer has teamed with art collective MSCHF to release his latest single “Out of Time” as a vinyl record pressed into an actual, working saw blade.

The limited-to-25-copy pressing of the Vinyl Blade — up for blind auction now at the MSCHF site until April 8, with a low bid of $1,000 — allegedly works on both turntables and table saws, although MSCHF doesn’t recommend the latter.

“Attempting to use Vinyl Blade on a saw could result in serious injury or death,” the packaging states, while the Weeknd similarly warns, “Do not operate while heartbroken.”

“Vinyl Blade includes a turntable adaptor. Please note that the Vinyl Blade has sharp edges, is a non-standard diameter, and is significantly heavier than a standard vinyl record,” MSCHF added of the unique record. “All of these factors may affect playback on some turntables. Handle with care and only play at 33 RPM. Vinyl Blade’s grooves are copper-clad steel, which may wear your stylus down faster than a normal record.”


Eru býflugur fiskar?

   Erlingur Ólafsson skordýrafræðingur var í viðtali hjá Frey Eyjólfssyni á Rás 2. Umræðuefnið var að býflugurnar í Bandaríkjunum eru horfnar eins og dögg fyrir sólu. Þegar býflugnabændur hugðu að hunangsbyrgðum sínum gripu þeir í tómt. Það eru nánast engar býflugur lengur í Bandaríkjunum. Enginn veit ástæðuna.

  Freyr spurði Erling hvort hið dularfulla hvarf býfluganna hafi ekki keðjuverkandi áhrif á lífkeðjuna. Hvort að býflugan hafi ekki gegnt lykilhlutverki í frjóvgun jurtaríkisins og svo framvegis. Erlingur svaraði: "Það eru nú fleiri fiskar í sjónum en býflugan." Og rakti hvernig aðrar flugur og skordýr gera sama gagn.

 Samkvæmt þessum orðum Erlings er vænlegra fyrir býflugnabændur að leita að býflugum í sjó fremur en á þurru landi.


Áhrifamestu plötuumslögin

  Plötuumslög gegna veigamiklu hlutverki.  Þau móta að nokkru leyti viðhorf plötuhlustandans til tónlistarinnar og flytjandans.  Þegar best lætur renna umslag og tónlistin saman í eitt.  Gamlar rannsóknir leiddu í ljós að "rétt" umslag hefur áhrif á sölu plötunnar.  Til lengri tíma getur umslag orðið þátttakandi í nýjum straumum og stefnum í tónlist.  

  American Express Essentials hefur tekið saman lista yfir áhrifamestu plötuumslögin.  Hér er ekki verið að tala um bestu eða flottustu umslögin - þó að það geti alveg farið saman í einhverjum tilfelllum. Árlega koma á markað margar milljónir plötuumslaga.  Aðeins 0,0000000% þeirra verða almenningi minnisstæð.  

  Stiklum hér á stóru í rjóma niðurstöðu AEE:

 - Elvis Presley.  Fyrsta stóra plata hans og samnefnd honum.  Kom út 1956.  Stimplaði gítarinn inn sem tákn rokksins.  Á þessum tímapunkti var það brakandi ný og fersk blanda bandarískra músíkstíla á borð við blús og rokkabilly.

 - The Clash:  London Calling.  3ja plata Clash sem var önnur tveggja framvarðasveita bresku pönkbyltingarinnar (hin var Sex Pistols).  Útgáfuárið er 1979 og pönkið búið að slíta barnsskónum.  Clash var ekki lengur "bara" pönk heldur eitthvað miklu meira;  stórveldi sem sló í gegn í Ameríku umfram aðrar pönksveitir.  Umslagið kallast skemmtilega á við upphaf rokksins.  Ljósmyndin var ekki tekin fyrir umslagið.  Hún var eldri og fangaði augnablik þar sem bassaleikarinn,  Paul Simonon,  fékk útrás fyrir pirring.  "London Calling" var af amerískum fjölmiðlum - með Rolling Stone í fararbroddi - útnefnd besta plata níunda áratugarins.

  - Bítlarnir:  Revolver.  "Sgt. Peppers...",  "Hvíta albúmið", "Abbey Road" og "Revolver" togast á um áhrifamestu Bítla-umslögin.  "Revolver" kom út 1966 og var fyrst Bítlaplatna til að skarta "allt öðruvísi" umslagi:  teiknimynd af Bítlunum í bland við ljósmyndir.  Umslagið rammaði glæsilega inn að hljómsveitin var komin á kaf í nýstárlega tónlist á borð við sýrurokk, indverskt raga og allskonar.  Höfundur þess var góðvinur Bítlanna frá Hamborg,  bassaleikarinn og myndlistamaðurinn Klaus Voorman. 

  - Velvet Underground & Nicole.  Platan samnefnd hljómsveitinni kom út 1967 undir forystu Lou Reeds.  Umslagið hannaði Andy Warhol.  Platan og sérkennilegt umslag þóttu ómerkileg á sínum tíma.  En unnu þeim mun betur á með tímanum. 

 - The Rolling Stones:  Let it Bleed.  Önnur 2ja bestu platna Stones (hin er Beggars Banquet).  Kom út 1969.  Þarna er stofnandi hljómsveitarinnar,  Brian Jones,  næstum dottinn út úr henni og arftakinn,  Mick Taylor, að taka við.  Umslagið er af raunverulegri tertu og plötu.  Þetta var löngu fyrir daga tæknibrellna á borð við fótoshop. 

 - Patti Smith:  Horses.  AEE telur "Horses" vera bestu jómfrúarplötu sögunnar.  Útgáfuárið er 1975.  Umslagið rammar inn látlausa ímynd alvörugefna bandaríska pönk-ljóðskáldsins. 

 - Pink Floyd:  Wish You Were Here.  Valið stendur á milli þessarar plötu frá 1975 og "Dark Side of the Moon".  Ljósmyndin á þeirri fyrrnefndu hefur vinninginn.  Hún sýnir tvo jakkalakka takast í hendur.  Annar stendur í ljósum logum í alvörunni.  Hér er ekkert fótoshop.   

 - Sex Pistols:  Never Mind the Bollocks Heres the Sex Pistols.  Eina alvöru plata Sex Pistols.  Platan og hljómsveitin gerðu allt brjálað í bresku músíksenunni 1977.  Umslagið er vel pönkað en um leið er klassi yfir hönnunni og skæru litavalinu.  

 - Bruce Springsteen: Born in the USA.  1984 vísuðu umslagið og titillinn í þverbandarísk blæbrigði.  Undirstrikuðu að þetta var hrátt verkalýðsrokk;  bandarískt verkalýðsrokk sem kallaði á ótal túlkanir.  Þarna varð Brúsi frændi sú ofurstjarna sem hann er enn í dag.

 - Nirvana: Nevermind.   1991 innleiddi platan Seattle-gruggbylgjuna.  Forsprakkinn, Kurt Cobain,  fékk hugmyndina að umslaginu eftir að hafa séð heimildarmynd um vatnsfæðingu.  Hugmyndin um agnið,  peningaseðilinn,  var ekki djúphugsuð en má skoðast sem háð á græðgi.

 - Björk: Homogenic.  AEE segir þetta vera bestu tekno-plötu allra tíma.  Titillinn endurspegli leit Íslendingsins að hinum eina rétta tóni plötunnar 1997. 

 - Sigur Rós: ().  Fyrir íslenska hljómsveit sem syngur aðallega á bullmáli en semur fallega og áleitna tónlist er umslagið óvenjulegt og vel við hæfi.  Svo segir AEE og áttar sig ekki á að söngur Sigur Rósar er aðallega á íslensku.  Reyndar á bullmáli á (). Platan kom út 2002.

presleyTheClashLondonCallingalbumcoverRevolver_(album_cover)VelvetLetitbleedRSPattiSmithHorsespinkfloyd-album-wish_you_were_hereNever_Mind_the_Bollocks,_Here's_the_Sex_PistolsBruceBorn1984nevermindbjörksigur rós


Oft ratast kjöftugum satt á munn. Eða ekki.

  Rokkið er lífstíll.  Yfirlýsingagleði, dramb og gaspur eru órjúfanlegur hluti af lífstílnum.  Alveg eins og "sex and drugs and rock and roll".  Þess vegna er oft gaman að lesa eða heyra viðtöl við rokkstjörnur þegar þær reyna að trompa allar hinar.  

 - Little Richard:  "Ég er frumkvöðullinn. Ég er upphafsmaðurinn. Ég er frelsarinn. Ég er arkitekt rokksins!"

 - Jerry Lee Lewis:  "Annað fólk æfir sig og æfir. Fingur mínir hafa hinsvegar innbyggðan heila. Þú segir þeim ekki hvað þeir eiga að gera - þeir gera það sjálfir. Sannkallaðir guðsgjafar hæfileikar."

 - Richard Ashcroft (The Verve):  „Frumkvöðull er ofnotað hugtak, en í mínu tilfelli er það alveg viðeigandi."

 - Jim Morrison (The Doors):  "Ég lít á sjálfan mig sem risastóra, eldheita halastjörnu, stjörnuhrap. Allir stoppa, benda upp og taka andköf: "Ó, sjáðu þetta!" Síðan – vá, og ég er farinn og þeir sjá aldrei neitt þessu líkt aftur.  Þeir munu ekki geta gleymt mér - aldrei."

 - Thom Yorke (Radiohead):  "Mig langar að bjóða mig fram til forseta. Eða forsætisráðherra. Ég held að ég myndi standa mig betur."

 - Courtney Love (Hole):  "Ég vildi að ég stjórnaði heiminum - ég held að hann væri betri."

 - Brian Molko (Placebo):  „Ef Placebo væri eiturlyf værum við klárlega hreint heróín – hættulegt, dularfullt og algjörlega ávanabindandi."

 - Pete Townsend (The Who):  „Stundum trúi ég því virkilega að við séum eina rokkhljómsveitin á þessari plánetu sem veit um hvað rokk n roll snýst."


Elvis bannar lag með sjálfum sér

  Tímarnir líða og breytast.  Ósæmileg hegðun sem fékk að viðgangast óátalin fyrir örfáum árum er nú fordæmd.  Dónakallar sitja uppi með skít og skömm.  Þeirra tími er liðinn.  Hetjur dagsins eru stúlkurnar sem stíga fram - hver á fætur annarri - og afhjúpa þá.

  Kynþáttahatur er annað dæmi á hraðri útleið.  Tónlistarfólk - sem og aðrir - er æ meðvitaðra um hvað má og hvað er ekki við hæfi.  

  Eitt af stóru nöfnunum í nýbylgjunni á seinni hluta áttunda áratugarins var Elvis Costello.  Hans vinsælasta lag heitir Oliver´s Army.  Það kom út 1979 á plötunni Armed Forces.  Þar syngur hann um vandamál Norður-Írlands.  Kaþólikkar og mótmælendatrúar tókust á með sprengjum, drápum og allskonar. 

  Í textanum segir:  "Only takes one itchy trigger / One more widow, one less white nigger."

  Á sínum tíma hljómaði þetta saklaust.  Gælunafn afa hans í breska hernum var White nigger.  Það þótti ekki niðrandi.  Í dag hljómar það hræðilega.  Þess vegna hefur Elvis gefið útvarpsstöðvum fyrirmæli um að setja lagið umsvifalaust á bannlista.  Sjálfur hefur hann tekið þetta sígræna lag af tónleikaprógrammi sínu.  Hann ætlar aldrei að spila það aftur.

 

     

  


Bestu Bítlaplöturnar

  Breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) hætti fyrir meira en hálfri öld.  Plötuferill hennar spannaði aðeins sex ár.  Samt er ekkert lát á vinsældum hennar.  Aðdáendahópurinn endurnýjar sig stöðugt.  Í útvarpi má iðulega heyra spiluð lög með Bítlunum og umfjöllun um Bítlana.  Skammt er síðan Gunnar Salvarsson rakti sögu hljómsveitarinnar í þáttaseríu á Rúv.  Gerðar hafa verið leiknar kvikmyndir um Bítlana,  sem og heimildarmyndir og sjónvarpsþættir.  Núna síðast hefur Disney+ verið að sýna átta tíma heimildarþátt um gerð plötunnar "Let it be".  

  Það segir margt um stöðu Bítlanna að í hálfa öld hafa 3 plötur hennar verið að skiptast á að verma efstu sæti lista yfir bestu plötur allra tíma.  Það eru "Sgt Pepper´s...",  "Revolver" og "Abbey Road".  

  Til gamans:  Hér til vinstri á þessari síðu hef ég stillt upp skoðanakönnun um uppáhalds Bítlaplötuna.  Vinsamlegast takið þátt í leitinni að henni. 

  Breska tímaritið Classic Rock hefur tekið saman lista yfir bestu og áhrifamestu Bítlaplöturnar.  Staða þeirra er studd sannfærandi rökum.  Þannig er listinn:

1.  Revolver (1966)

  Þarna voru Bítlarnir komnir á kaf í ofskynjunarsýruna LSD og indverska músík.  Það tók almenning góðan tíma að melta þessa nýju hlið á Bítlunum.  Platan seldist hægar en næstu plötur á undan.  Hún sat "aðeins" í 8 vikur í 1. sæti breska vinsældalistans.  Því áttu menn ekki að venjast.  Í dag hljóma lög plötunnar ósköp "venjuleg".  1966 voru þau eitthvað splunkunýtt og framandi. Plötuumslagið vakti mikla athygli.  Í stað hefðbundinnar ljósmyndar skartaði það teikningu af Bítlunum.  Hönnuðurinn var Klaus Woorman,  bassaleikari sem Bítlarnir kynntust í Þýskalandi.  Hann spilaði síðar á sólóplötum Lennons.  Umslagið fékk Grammy-verðlaun.  

 

2.  Sgt. Pepper´s Lonely Hearts Club Band (1967)

  Bítlarnir gengu ennþá lengra í tilraunamennsku og frumlegheitum.  Gagnrýnendur voru á báðum áttum.  Sumir töldu Bítlana vera búna að missa sig.  Þeir væru komnir yfir strikið.  Tíminn vann þó heldur betur með Bítlunum. 

3.  Please Please Me (1963)

  Sem jómfrúarplata Bítlanna markaði hún upphaf Bítlaæðisins - sem varir enn.  Hún var byltingarkenndur stormsveipur inn á markaðinn.  Ný og spennandi orkusprengja sem náði hámarki í hömlulausum öskursöng Lennons í "Twist and Shout".  Þvílík bomba!   

4.  Abbey Road (1969)

  Síðasta platan sem Bítlarnir hljóðrituðu.  Þeir sönnuðu að nóg var eftir á tanknum.  George á bestu lög plötunnar.  Hin lögin eru þó ekkert slor.    

 

5.   Magical Mistery Tour (1967)

 

6.  Rubber Soul (1965)

7.  Hvíta albúmið (1968)

8.  With The Beatles (1963)

9.  A Hard Day´s Night (1964)

  Þrjár plötur ná ekki inn á þennan lista:  Beatles for sale (1964),  Help (1965),  Yellow Submarine (1969).  Allt góðar plötur en skiptu ekki sköpum fyrir tónlistarþróun Bítlanna og heimsins.


Bestu gítarleikarar rokksögunnar?

  Sumir halda ranglega að gæði gítarleiks ráðist af hraða og fingrafimi.  Þetta á ekki síst við um gítarleikara sem ráða yfir færni í hraða.  Jú, jú.  Það getur alveg verið gaman að heyra í þannig flinkum gítarleikara.  En aðeins í hófi.  Miklu hófi.  Fátt er leiðinlegra en sólógítarleikari sem þarf stöðugt að trana sér fram og sýna hvað hann getur spilað hratt.

  Bestu gítarleikarar eru þeir sem upphefja lagið og meðspilara sína óháð fingrafimi og hraða.  Einn gítartónn hjá BB King gerir meira fyrir lag en allir hraðskreiðustu sólógítarleikarar rokksins til saman.  Einhver orðaði það á þessa leið.  Man ekki hver. 

  Tímkaritið Woman Tales hefur tekið saman lista yfir bestu gítarleikara rokksögunnar.  Ég er glettilega sammála niðurstöðunni.  Hún er þessi:

1.  Jimi Hendrix.  Rökin eru m.a. þau að hann fullkomnaði áður óþekktan leik með enduróm (feedback).  Jafnframt spilaði hann hljóma sem fyrirrennarar hans vissu ekki að væru til.  Margt fleira mætti telja upp sem stimplar Hendrix inn sem besta gítarleikara rokksögunnar. 

Gott dæmi um það hvernig Hendrix umbreytti góðu lagi í meiriháttar snilld er túlkun hans á "All Along the Watchtower".  

2.  Eric Clapton.  Hann kann öll trixin í bókinni.  En líka að kunna sér hófs án stæla. 

3.  Jimmy Page (Led Zeppelin).  Hann gerði svo margt flott án þess að trana sér. 

4.  Chuck Berry bjó til rokk og rollið. Og rokkgítarleikinn.

5.  Eddie Van Halen

6.  Keith Richards

7.  Jeff Back

8.  B. B. King

9.  Carlos Santana

10. Duane Allman

11. Prince

12. Stevie Ray Vaughn

13. Pete Townshend  (The Who)

14. Joe Walsh

15. Albert King .

16. George Harrison

17. John Lennon

18. Kurt Cobain

19. Freddie King

20. Dick Dale

21. Buddy Holly

22. Slash  (Guns N Roses)

23. Joe Perry  (Aerosmith)

24. David Gilmour  (Pink Floyd)

25. Neil Young

26. Frank Zappa

27. Tom Petty og Mike Campell  (Heartbreakers)

28. Muddy Waters

29. Scotty Moore

30. Billy Gibbons  (ZZ Top)

31. The Edge  (U2)

32. Bobby Krieger  (The Doors)

33. Brian May  (Queen)

34. Angus Young (AC/DC)

35. Tom Morello (Rage Against the Machine / Audioslave / Bruce Springsteen & the E-Street Band)


Ríkustu tónlistarmenn heims

  Margir vinsælir tónlistarmenn fengu að heyra það á unglingsárum að þeir þyrftu að læra eitthvað nytsamlegt.  Eitthvað sem opnaði þeim leið að vel launuðu starfi.  Þetta fengu þeir að heyra þegar hugur þeirra snérist allur um hljóðfæragutl.  "Tónlistin gefur ekkert í aðra hönd," fullyrtu vel meinandi foreldrar. 

  Samkvæmt Geoworld Magazine virðast ýmsir tónlistarmenn hafa komist í álnir.  Þar á meðal þessir (innan sviga er virði þeirra):

Paul McCartney ($ 1,28 milljarðar)

Andrew Lloyd Webber ($ 1,2 milljarðar)

  Þessir tveir eru Bretar.  Í næstu sex sætum eru Bandíkjamenn.

3  Jay Z ($ 1 milljarður)   

Herb Albert ($ 850 milljónir)

  Eitthvað af þessum aurum hefur Herb Albert fengið fyrir að spila og gefa út á plötu lagið "Garden Party" eftir Eyþór Gunnarsson (Mezzoforte).

Sean Combs - Diddy ($ 825 milljónir) 

Dr.Dre ($ 800 milljónir)

Madonna ($ 580 milljónir)

  Madonna er lang lang efnuðust tónlistarkvenna.  Sú eina sem er inn á topp 20.  

Emilio Estefan ($ 500 milljónir)

Elton John ($ 480 milljónir)

10 Coldplay (475 milljónir)

  Elton John og Coldplay eru breskir.  Jimmy Buffett er bandarískur, eins og Brúsi frændi.  Í sætum 12, 13 og 15 eru Bretar.  

11 Jimmy Buffett ($ 430 milljónir) 

12 Mick Jagger ($ 360 milljónir)

13 Ringo Starr ($ 350 milljónir)

14 Bruce Springsteen ($ 345 milljónir)

15 Keith Richards (340 milljónir)

16 Neil Sedaka ($ 300 milljónir)

17 Gene Simmons ($ 300 milljónir)

18 Jon Bon Jovi ($ 300 milljónir)

19 Sting ($ 300 milljónir)

20 L.A.Reid ($ 300 milljónir)

  Sting er breskur.  Hinir bandarískir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband