Færsluflokkur: Tónlist
7.8.2021 | 06:15
Dónalega fólkið
Örlög beggja voru ráðin þegar prúði unglingurinn í Liverpool á Englandi, Paul McCartney, kynnti sig fyrir bæjarvillingnum, John Lennon. Eftir það heimsóttu þeir hvorn annan á hverjum degi. Ýmist til að syngja og spila saman uppáhaldslög eða semja sína eigin söngva eða hlusta á nýjar rokkplötur.
Þegar John gekk til og frá heimili Pauls fór hann framhjá hópi fólks sem stóð úti í garði. Í hvert einasta skipti í öllum veðrum. Hann kastaði ætíð á það kveðju. Fólkið var svo dónalegt að endurgjalda hana aldrei.
John sagði Paul frá þessu dónalega fólki. Hann varð forvitinn. Stormaði með John að fólkinu. Kom þá í ljós að þetta var garðskreyting sem sýndi fæðingu Jesúbarnsins. Fólkið var Jósef smiður, María mey og vitfirringarnir þrír frá Austurlöndum.
Misskilningurinn lá í því að John var afar sjóndapur. Mun sjóndaprari en hann gerði sér sjálfur grein fyrir. Hann var í afneitun. Hélt að allir aðrir hefðu samskonar sjón. Hann sá allt í þoku en hafði engan áhuga á gleraugum. Ekki fyrr en mörgum árum síðar.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.7.2021 | 00:02
Varhugavert að versla á netinu
Margir versla á netinu. Oft með viðunandi útkomu. En ekki alltaf. Stundum er varan í raun ekki alveg eins og ljósmyndin af henni. Einkum á þetta við um fatnað og glingur. Hér eru nokkur dæmi:
- Ungur maður hugðist kaupa léttan ermalausan bol. Þegar til kastanna kom reyndist hann vera kjóll.
- Útikór sem bandaríski tónlistarmaðurinn Kanye West hannaði (eða lánaði nafn sitt við) njóta vinsælda. Margir hugðu gott til glóðarinnar; eftirlíkingar fóru á flug. En mega ekki vera nákvæmlega eins. Þessi kaupandi fékk óvænt inniskó þegar hann pantaði eftirlíkingu. Kannski gott á hann?
- Hjón hrifust af stóru fjölskylduteppi; kósí kúruteppi. Það sem þau fengu var bara garn. Ekki teppi. Þeim var ætlað að prjóna teppið sjálf, Do-It-Yourself (gerið það sjálf)!
- Apple-armbandsúr þykja flott og eru dýr. Einhverjar viðvörunarbjöllur ættu að hringja þegar í boði eru ódýr Apple úr. Í meðfylgjandi dæmi er er í raun ekki um úr að ræða heldur armband með mynd af epli á skjá.
- Andlitsmaskar njóta vinsælda meðal kvenna. Í besta falli eiga þeir að soga óhreinindi úr húðinni og nær húðina af hollefnum. Kona sem pantaði á netinu slatta af maska fékk þá í stærð sem passar ofursmáum dverg eða dúkku.
- Eitt algengnasta svindl í netsölu er að varan er ofursmá. Til að mynda að sokkar passi ekki á fót heldur tær.
- Foreldrar heilluðust af kodda í risaeðlulíki. Þegar til kom var um að ræða venjulegan kodda með mynd af eðlu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2021 | 05:32
Hver er uppáhalds Bítlaplatan?
Hér til vinstri á bloggsíðunni hef ég stillt upp nýrri skoðanakönnun. Hún mun standa þangað til 1000 atkvæði hafa skilað sér í hús. Reynslan hefur þó kennt að línur skýrast strax með fyrstu 100 - 200 atkvæðum. Samt. 1000 atkvæði eru trúverðugri.
Varast ber að taka svona skoðanakönnun of hátíðlega. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegur samkvæmisleikur. Úrslitin mæla ekki smekk þverskurðar af þjóðfélaginu. Þau túlka einungis smekk lesenda bloggsíðunnar. Þeir eru að uppistöðu til karlmenn komnir af léttasta skeiði og nokkrar konur á sama aldri.
Takið endilega þátt í könnuninni. Spurt er um uppáhalds Bítlaplötu. Ekki bestu Bítlaplötu. Á þessu er munur. Pavarotti er betri söngvari en Megas. Megas er skemmtilegri.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
23.5.2021 | 06:13
Hvað ef...?
Ef John, Paul, George og Ringo hefðu aldrei hist væri margt öðruvísi en það er í dag. Ekki aðeins tónlistin. Fjórmenningarnir frá Liverpool breyttu mörgu öðru. Allt frá hártísku til almennra viðhorfa til margs. Sprengikrafturinn lá í liðsheild kvartettsins. Hvað hefði orðið um einstaklingana ef þeir hefðu aldrei hist?
Fyrsta ályktum um John Lennon gæti verið að hann hefði orðið myndlistamaður. Hann var í myndlistaskóla. Fyrri eiginkona hans og barnsmóðir, Cynthia, var skólasystir hans. John var efnilegur myndlistamaður. Hinsvegar lauk hann aldrei námi í skólanum. Hann var rekinn úr honum fyrir ítrekuð agabrot og árekstra við kennara og samnemendur. Það einkenndi einnig grunnskólagöngu hans. Hann átti erfitt með að fylgja reglum, hafði ekki reiðistjórn og var ofbeldismaður. Það þurfti sérstakar manngerðir til að umbera skapofsaköst hans og ofbeldishneigð.
Líklegra er að John hefði orðið rithöfundur. Hann skrifaði frábærlega fyndnar og frumlegar smásögur sem voru gefnar út í bókarformi. Þorsteinn Eggertsson þýddi sumar þeirra og birti í dagblaðinu Tímanum. Gaman væri ef hann þýddi þær allar og gæfi út á íslensku í heilu lagi.
Sem tónlistarmaður hefði John ekki náð langt án Pauls, Georges og Ringos. Hann stofnaði hljómsveitina The Quarrymen sem varð undanfari Bítlanna. Þó að þetta væri hans hljómsveit, sem söngvara og allsráðandi, þá tókst ekki betur til en svo að hann spilaði banjóhljóma á gítarinn. Báðir foreldrar hans voru banjóleikarar og spiluðu að auki á ukoleli. Mamma hans var einnig píanóleikari. Pabbi hans var söngvari og lagahöfundur. John var með tónlistargen í blóðinu. Án Pauls hefðu þau gen aðeins gert John að glamrara og gutlara í hljóðfæraleik. Eins og foreldrana.
Hljómsveitin The Quarrymen er starfandi enn í dag. En er ekki að skora hátt. Fjarri því góð hljómsveit. Næstum 70 árum síðar stenst hún ekki samanburð við frumútgáfu af Bítlunum með John, Paul og George. Það er hrópandi munur á "karakterunum" í músíkinni.
. Vegna skapofsa Johns og ofbeldishneigðar er lílegt að hann hefði skrifað sínar sögur í fangelsi.
Þegar Paul kynntist John var hann á leið í háskólanám í læknisfræði og ensku. John stillti honum upp við vegg: Annað hvort velur þú skólann eða The Quarrymen. Það er ekkert bæði. Bara annað hvort. Paul valdi rétt. Ef hann hefði valið annað hefði hann orðið gutlari á pöbbum eins og pabbi sinn.
George var byrjaður að spila með Bítlunum þegar hann skráði sig í nám sem ratvirki. George drepleiddist námið. Kolféll á fyrsta prófi. Erfitt er að reikna út hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur án Bítlanna. Sjálfur giskaði hann á garðyrkju eða grænmetisveitingastað.
John Lennon sagði eitt sinn að Ringo væri eini Bítillinn sem hefði "meikað það" án Bítlanna. Hann hefði gert það gott sem trommari og ennfremur orðið góður kvikmyndaleikari. Hann var í góðum málum sem trommari í vinsælli hljómsveit í Liverpool, áður en hann gekk til liðs við Bítlana. Hann tók niður fyrir sig með því. En honum þótti Bítlarnir svo brjálæðislega skemmtilegir að hann lét slag standa. Sá aldrei eftir því. Hann var eini Bítillinn sem John lamdi aldrei. Eru þá fyrsti bassalerikari Bítlanna, Stu, og trommuleikari The Quarrymen meðtaldir, svo og Cynthia.
Tónlist | Breytt 9.11.2021 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.5.2021 | 09:29
Fyndin dýr
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2021 | 06:52
Uppáhalds tónlistarstílar
Fyrir nokkru efndi ég á þessum vettvangi - minni bloggsíðu - til skoðanakönnunar um uppáhalds tónlistarstíla lesenda. Þetta er ekki skoðanakönnun sem mælir músíksmekk almennings - vel að merkja. Einungis músíksmekk lesenda bloggsíðunnar. Niðurstaðan speglar að lesendur séu komnir af léttasta skeiði eða þar í grennd. Það gerir könnunina áhugaverðari fyrir minn smekk. Mér kemur ekkert við hvaða músík börn og unglingar aðhyllast.
Nú hafa 1000 atkvæði skilað sér í hús. Stöðuna má sjá hér til vinstri á síðunni. Niðurstaðan kemur að mörgu leyti á óvart. Og þó. Hún er þessi:
1. Þungarokk 16.1%
2. Djass 15.5%
3. Pönk/nýbylgja 15%
4. Reggae (world music) 13,2%
5. Þjóðlagatónlist (órafmögnuð) 10,8%
6. Blús 7,6%
7 Rapp/hipp-hopp 6,2%
8 Skallapopp/píkupopp 6,1%
9 Sítt að aftan/80´s 5,8%
10 Kántrý 3,8%
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2021 | 19:06
Reglur eru reglur
Stundum á ég erindi í pósthús. Oftast vegna þess að ég er að senda eitthvað áhugavert út á land. Landsbyggðin þarf á mörgu að halda. Ég styð þjónustu við hana. Enda er ég dreifbýlistútta úr Skagafirði. Margt þykir mér skrýtið, svo skilningssljór sem ég er. Ekki síst þegar eitthvað hefur með tölvur að gera.
Þegar pakki er sendur út á land þarf að fylla út í tölvu fylgibréf. Þar þarf í tvígang að skrá inn póstnúmer sendanda og póstnúmer viðtakanda. Þegar allt hefur verið skráð samviskusamlega þarf að prenta það út á pappír, klippa hann niður og líma yfir með þykku límbandi. Ódýrara og handhægara væri að prenta það út á límmiða.
Á dögunum var ég að senda vörur til verslunarkeðju út á landi. Ég kann kennitölu þess utanbókar. En í þetta sinn komu elliglöp í veg fyrir að ég myndi kennitöluna. Ég bað afgreiðslumann um að fletta kennitölunni upp fyrir mig. Hann neitaði. Sagði sér vera óheimilt að gefa upp kennitölur. Það væri brot á persónuvernd.
Við hlið hans var tölva sem ég hafði aðgang að til að fylla út fylgibréf. Sem ég og gerði. Þetta var spurning um hálfa mínútu eða svo. Ég spurði hver væri munurinn á því að ég fletti upp fyrir framan hann kennitölu eða hann gerði það. Svarið var: Þú ert í rétti til þess en ekki ég.
Já, reglur eru reglur.
Tónlist | Breytt 31.3.2021 kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.3.2021 | 19:09
Hártískan
Tískan er harður húsbóndi. Ekki síst hártískan. Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi. Eins og þegar fjórir guttar í Liverpool tóku upp á því að greiða hárið fram á enni og láta það vaxa yfir eyrun á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þetta kallaðist bítlahár. Það fór eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Svo leyfðu þeir hárinu að síkka. Síða hárið varð einkenni ungra manna. Svo sítt að það óx niður á bak og var skipt í miðju.
Löngu síðar komu til sögunnar aðrar hártískur. Svo sem pönkara hanakambur og þar á eftir "sítt að aftan".
Margt af því sem um hríð þótti flottast í hártísku hefur elst mis vel. Skoðum nokkur dæmi:
Tónlist | Breytt 13.3.2021 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.3.2021 | 00:10
Söluhrun - tekjutap
Sala á geisladiskum hefur hrunið, bæði hérlendis og erlendis. Sala á geisladiskum hérlendis var 2019 aðeins 3,5% af sölunni tíu árum áður. Sala á tónlist hefur þó ekki dalað. Hún hefur að stærstum hluta færst yfir á netið.
98% af streymdri músík á Íslandi kemur frá sænska netfyrirtækinu Spotify. Alveg merkilegt hvað litla fámenna 10 milljón manna þorp, Svíþjóð, er stórtækt á heimsmarkaði í tónlist.
Tæpur þriðjungur Íslendinga er með áskrift að Spotify. Þar fyrir utan er hægt að spila músík ókeypis á Spotify. Þá er hún í lélegri hljómgæðum. Jafnframt trufluð með auglýsingum.
Annar stór vettvangur til að spila ókeypis tónlist á netinu er youtube.com. Þar eru hljómgæði allavega.
Höfundargreiðslur til rétthafa eru rýrar. Það er ókostur. Þetta þarf að laga.
Ókeypis músík hefur lengst af verið stórt dæmi. Ég var í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal á sjöunda áratugnum (6-unni). Þar var líka Bændaskóli. Nemendur í honum áttu svokölluð real-to-real segulbandstæki. Einn keypti plötu og hinir kóperuðu hana yfir á segulbandið sitt.
Nokkru síðar komu á markað lítið kassettusegulbandstæki. Flest ungmenni eignuðust svoleiðis. Einn kosturinn við þau var að hægt var að hljóðrita ókeypis músík úr útvarpinu. Það gerðu ungmenni grimmt.
Með kassettunni varð til fyrirbærið "blandspólan". Ástríðufullir músíkunnendur skiptust á safnspólum. Þannig kynntu þeir fyrir hver öðrum nýja spennandi músík. Síðar tóku skrifaðir geisladiskar við því hlutverki.
Sumir rétthafar tónlistar skilgreina ókeypis tónlistarspilun sem tekjumissi. Það er rétt að sumu leyti. Ekki öllu. Þegar ég heyrði nemendur Bændaskólans á Hólum blasta Bítlaplötum þá blossaði upp löngun í Bítlaplötur. Sem ég síðar keypti. Allar. Fyrst á vinyl. Svo á geisla.
Ég veit ekki hvað litla kassettutækið sem hljóðritaði lög úr útvarpinu skilaði kaupum á mörgum plötum. Þær voru margar. Sem og blandspólurnar.
Stór hluti þeirra sem spilar músík á Spotify og youtube.com kynnist þar músík sem síðar leiðir til plötukaupa. Eða mætingu á hljómleika flytjenda. Á móti kemur að mörg lög sem menn spila á Spotify og youtube.com hefði hlustandinn aldrei keypt á plötu. Fólk tékkar á ótal lögum og flytjendum án þess að heillast af öllu. Þess vegna er rangt að reiknað tap á höfundargreiðslum sé alfarið vegna spilunar á öllum lögum.
Netveiturnar hafa ekki drepið tónlist í föstu formi. Vinyllinn er í stórsókn. Svo brattri að hérlendis hefur sala á honum átjánfaldast á níu árum. Sér þar hvergi lát á.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2021 | 03:52
Verða einhverntíma til nýir Bítlar?
Bresku Bítlarnir, The Beatles, komu eins og stormsveipur, fellibylur og 10 stiga jarðskjálfti inn á markaðinn á fyrri hluta sjöunda áratugarins (6-unni). Þeir breyttu öllu. Ekki bara tónlistinni. Líka hugsunarhætti, hártísku, fatatísku... Þeir opnuðu bandaríkjamarkað upp á gátt fyrir breskri tónlist. Reyndar allan heimsmarkaðinn. Rúlluðu honum upp. Slógu hvert metið á fætur öðru. Met sem mörg standa enn í dag.
Um miðjan sjötta áratuginn var umboðsmaður þeirra í blaðaviðtali. Hann fullyrti að Bítlarnir væru svo öflugir að ungt fólk myndi hlusta á tónlist þeirra árið 2000. Hann hefði alveg eins getað nefnt árið 2021. Hvergi sér fyrir enda á vinsældum þeirra og áhrifum.
Eitt sinn var John Lennon spurður hvor hljómsveitin væri betri, The Rolling Stones eða Bítlarnir. Hann svaraði eitthvað á þessa leið: The Rolling Stones eru tæknilega betri. Þeir eru fagmenn. Við erum amatörar. Enginn okkar hefur farið í tónlistarnám. Við höfum bara fikrað okkur áfram sjálfir. Engu að síður standast plötur okkar samanburð við hvaða plötur sem er.
Enn í dag eru Bítlaplötur í efstu sætum á listum yfir bestu plötur allra tíma.
Fyrsta Bítlaplatan kom út 1963. Síðasta platan sem þeir hljóðrituðu kom út 1969. Ferillinn spannaði aðeins 6 ár. Sterk staða þeirra allar götur síðan er þeim mun merkilegri. Til þessa hefur engin hljómsveit komist með tær þar sem Bítlarnir hafa hæla. Hverjar eru líkur á að fram komi hljómsveit sem jafnast á við Bítlana? ENGAR!
Í Bítlunum hittust og sameinuðust tveir af bestu og frjóustu lagahöfundum sögunnar, John Lennon og Paul McCartney. John jafnframt einn albesti textahöfundurinn. Paul á líka góða spretti. Þeir tveir eru auk þess í hópi bestu söngvara rokksins. Sömuleiðis flottir hljóðfæraleikarar. Sérstaklega bassaleikarinn Paul.
Til liðs við þá komu frábær trommuleikari, Ringo Starr, og ljómandi góður og öruggur gítarleikari, George Harrison. Hann var fínn í að radda með þeim. Þegar leið á ferilinn varð hann mjög góður lagahöfundur. Svo mjög að á síðustu plötunni, Abbey Road, taldi John - og margir fleiri - hann eiga bestu lögin.
Þetta allt skipti sköpum. Ofan á bættist rík löngun Bítlanna til að fara nýjar leiðir. Tilraunagleði þeirra gekk mjög langt. Umfram margar aðrar hljómsveitir réðu þeir glæsilega vel við þau dæmi. Ennfremur vó þungt - afar þungt - að mikill kærleikur ríkti á milli þeirra. Þeir voru áköfuðustu aðdáendur hvers annars. Þeir voru sálufélagar og háðir hver öðrum. Það hafði mikið að gera með erfiða lífsreynslu; ótímabært fráfall mæðra og allskonar. Bítlarnir voru á unglingsaldri þegar þeir kynntust og ólu hvern annan upp út ferilinn. Fyrri eiginkona Johns, Cynthia, sagði að John og Paul hafi verið eins ástfangnir hvor af öðrum og tveir gagnkynhneigðir menn geta verið.
Margt fleira mætti nefna sem tromp Bítlanna. Til að mynda háa greindarvísitölu þeirra allra, leiftrandi kímnigáfu og fjölhæfni. Allir spiluðu þeir á fjölda hljóðfæra. Þar af Paul á um 40 og þeir hinir á um 20. Á Bítlaárunum var sólógítarleikarinn George Harrison ágætur söngvari. Trommarinn Ringo söng líka en söngrödd hans féll ekki að röddun hinna. Rolling Stonsarinn Keith Richard hélt því fram í símtali við Paul að skilið hafi á milli hljómsveitanna að Bítlarnir skörtuðu 4 söngvurum en Stónsarar aðeins Mick Jagger. Ágætt komment. En margt fleira aðgreindi þessar hljómsveitir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)