Færsluflokkur: Tónlist
6.10.2011 | 20:44
Helgi er hættur að pota í Hönnu Birnu með priki
Stuttbuxnadeildin í Sjálfstæðisflokknum vælir nú sárt undan þeim orðum Björns Bjarnasonar að hún væli enn yfir Hörpu. Og það eftir að hafa ítrekað farið halloka á landsfundum flokksins í rimmu við Björn um mikilvægi byggingar húss utan um tónlistarsal. Væl stuttbuxnadeildarinnar tekur á sig ýmsar skrítnar myndir. Eina slíka má finna í athugasemd frá Helga við bloggfærslu Geirs Ágústssonar um málið. Helgi vælir með fólskuhljóðum undan vasklegri framgöngu Hönnu Birnu við að ljúka byggingu Hörpu. Á milli ekkasoganna segist Helgi hafa hætt við að kjósa Hönnu Birnu vegna þessa. Og það sem verra er: Hann er hættur að pota í Hönnu Birnu með priki. Hann hótar því blákalt: "hér eftir kem ég ekki við hana með priki."
Þetta vekur upp spurningu: Skyldi Hanna Birna sakna þess að vælukjóinn poti í hana með priki?
![]() |
Sakar unga sjálfstæðismenn um væl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
30.9.2011 | 22:17
Færeyingur smíðaði Hörpu
Ráðstefnu- og tónlistarhöllin Harpa hefur verið á milli tannanna á fólki. Samt ekki þannig að fólk sé að bíta í hana heldur er fólk endalaust að þrasa um hana. Það er stöðugt vælt undan einu og öðru sem að Hörpu snýr. Eiginlega öllu. Nema þeim sem smíðaði Hörpu. Um hann vita fáir.
Þegar Björgúlfur gamli hrinti í framkvæmd byggingu Hörpu varð strax ljóst að enginn Íslendingur myndi ráða við að smíða þetta flókna og nýstárlega hús. Hófst þá leit út um allan heim að einhverjum sem gæti smíðað Hörpu. Það var sama hvar borið var niður með fyrirspurn um slíkan mann. Allir bentu á sama manninn: Færeyinginn Ósbjörn Jacobsen.
Færeyingar neita Íslendingum aldrei um neitt. Þvert á móti. Færeyingar vilja alltaf allt fyrir Íslendinga gera. Lána Íslendingum hitt og þetta. Jafnvel háar peningaupphæðir. Reyndar eru Færeyingar ennþá áhugasamari um að gefa Íslendingum peninga. Ekki vantar viljann til þess. Það sem heldur aftur af Færeyingum með að fylla alla vasa Íslendinga af peningum er að Færeyingarnir óttast að Íslendingum þyki það niðurlægjandi og móðgandi.
Það var því eins og við manninn mælt: Um leið og Íslendingar komu skríðandi á hnjánum til Ósbjórns og spurðu hvort að nokkur smuga væri að hann gæti smíðað Hörpu svaraði Ósbjörn án umhugsunar: "Ja, tað skal ég." Hann losaði sig með það sama úr öllum verkefnum og henti sér í að byggja Hörpu.
Aðstandendur Hörpu skammast sín fyrir að hafa þurft að leita út fyrir landsteinana eftir smiði. Fyrir bragðið hafa þeir eiginlega haldið leyndu hver smíðaði Hörpu. Eða réttara sagt látið lítið á því bera. Eflaust er hægt að finna nafn Ósbjörns einhversstaðar í gögnum um Hörpu. Það er að segja í smáa letrinu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.9.2011 | 00:35
Útvarp Saga - lifandi þjóðarútvarp
Útvarp Saga er umdeild útvarpsstöð. Rétt eins og rás 2 og Bylgjan. Þetta eru þrjár vinsælustu útvarpsrásir landsins. Margir hlusta og hafa þess vegna margvíslegar skoðanir á þeim. X-ið er frábær útvarpsstöð en ekki mjög umdeild. Við sem kunnum vel við tónlistarvalið á X-inu erum sátt/ir. Aðrir hlusta á aðrar útvarpsstöðvar. Þátturinn Harmageddon á X-inu er snilld. Þar fara "strigakjaftarnir" Máni, Frosti og Erpur á kostum og spila fjölbreytt áheyrilegt nýrokk.
Effemm 957 er viðbjóður og Kaninn er útvarp heimska fólksins með vondan músíksmekk.
Flestir sem hafa horn í síðu Útvarps Sögu leggja út af símatímunum. Opinni línu þar sem þjóðin fær að tjá sig. Símatímarnir, Línan er laus, er í loftinu frá klukkan 9 á morgnana til hádegis. Gagnrýni á þennan dagskrárlið beinist að innhringendum og skoðunum þáttastjórnenda, Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.
Ein gagnrýnin snýst um það að sama fólkið hringi endalaust inn í þáttinn og endurtaki sömu skoðanir daglega. Þegar betur er að gáð eru fastir (daglegir) innhringendur hlutfallslega fáir. En vissulega verða hlustendur varir við menn eins og Guðjón fyrrum leigubílstjóra (anti-landsbyggðarmann, anti-Breiðhylting og anti-hitt og þetta), Karl "talnatrúð" (uppnefnið er ekki beinlínis neikvætt heldur er hann talsmaður verðtryggingar og þylur upp endalausar tölur upp á krónur og aura. Það er dálítið þreytandi. Það væri til bóta ef hann "rúnnaði" af tölur í þúsundum), Alvar (iðulega skemmtilegur), Árna Björn (ESB sinna) og fleiri.
Uppistaðan í símatímunum er samt innhringendur sem hringja sjaldan og er með hinar ýmsu skoðanir. Að einhverju leyti þverskurður af því sem fólk er að spjalla um í heitum pottum sundlauganna.
Það er ekkert neikvætt við að sjórnendur Línan er laus hafi skoðanir á því sem hæst ber í umræðunni. Það er bara gott. Stundum er maður sammála þeirra skoðunum. Stundum ekki. Hlustendur vita hvar þau Arnþrúður og Pétur standa. Það er kostur.
Símatímarnir eru ekki stór hluti af fjölbreyttri dagskrá Útvarps Sögu. Á undan símatímunum er 2ja klukkutíma morgunþáttur Markúsar frá Djúpalæk og Erlings. Þeir fá einatt í heimsókn til sín áhugavert fólk úr ýmsum áttum með alls konar skoðanir. Sjálfur hef ég komið þarna í viðtal og haft frá mörgu að segja.
Í hádeginu er dagskrárliður sem heitir Skoðun dagsins. Þar flytja pistla Guðmundur Óli Scheving, Eiríkur Stefánsson, Jón Valur Jensson og Baldur Ágústsson, fyrrum forsetaframbjóðandi. Kannski einhverjir fleiri sem ég man ekki eftir í fljótu bragði. Þeir hafa ólíkar skoðanir um margt. Það er kostur.
Síðdegis í dagskrá Útvarps Sögu eru meðal annars dagskrárliðir á borð við Bixið með Höskuldi Höskuldssyni; heilsuþáttur Torfa Geirmundssonar og Guðnýjar í Heilsubúðinni í Hafnarfirði; þáttur Jóns Magnússonar um verðtryggingu; sjávarútvegsþáttur Grétars Mars; þáttur sem kallast ESB já eða nei; þáttur Tryggva Agnarssonar - og annars til sem ég man ekki ekki hvað heitir - um lagarök og stöðu skuldara; og bara ýmsir þættir sem ég man í augnablikinu ekki eftir. Jú, Magnús Magnússon (Diskótekið Dísa) spilar gömul íslensk dægurlög og spjallar við Geirmund Valtýsson, Garðar Guðmundsson, Lúdó og fleiri slíka.
Þáttur Höskuldar er oft verulega áhugaverður. Fyrir minn smekk náði hann hæsta flugi í þáttaseríu um The Rolling Stones. Þar var saga The Rolling Stones rakin með aðstoð Ólafs Helga, sýslumanns. Þeir Höskuldur og Ólafur Helgi voru á góðu flugi og spiluðu m.a. sjaldgæfar upptökur með The Rolling Stones.
Ég er ekki búinn að telja upp nema hluta af áhugaverðri dagskrá Útvarps Sögu. Útvarp Saga er þjóðarútvarp. Þjóðin fær að tjá sig og þjóðin hlustar.
Tekið skal fram að ég tengist Útvarpi Sögu ekki á neinn hátt. Þetta er útvarpsstöð sem ég hlusta mikið á mér til fróðleiks og gamans. Hún er ekki yfir gagnrýni hafin. Hún speglar það sem þjóðinni liggur á hjarta og ólíkar skoðanir. Það er kostur. Það er gott fyrir lýðræði í víðtækustu merkingu.
Án Útvarps Sögu væri umræðan fátæklegri.
Í myndbandinu fyrir ofan getur að heyra "súpergrúppuna" Dirty Mac með John Lennon (Bítlarnir) og á bassa Keith Richards (The Rolling Stones). Hljóðrásin er örlítið "út úr zinki". En blúsinn er flottur.
The Rolling Stones smávegis falskir í upphafi lagsins. En ná sér á strik þegar á líður.
Tónlist | Breytt 30.9.2011 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
22.9.2011 | 00:45
Spennandi plata
Núna í lok septembermánaðar kemur út í Bandaríkjum Norður-Ameríku platan Note of Hope. Þar flytja margir af þekktustu popptónlistarmönnum Bandaríkjanna söngva Woodys Guthtries. Þeirra á meðal eru Lou Reed, Jackson Browne, Tom Morello (Rage Against the Machine), Michael Franti (Beatnigs, Spearheads) og Ani Di Franco.
Það er bassasnillingurinn og Grammy-verðlaunahafinn Rob Wasserman sem heldur utan um dæmið. Hann hefur m.a. spilað með Neil Young, Brian Wilson, Elvis Costello, Stephane Grappelli, Jerry Carcia (Grateful Dead) og Ricky Lee Jones.
Woody Guthrie er eitt af stærstu nöfnum bandarískarar vísnatónlistar (folk). Hann er stundum kallaður faðir bandarískrar þjóðlagatónlistar. Hann fæddist snemma á síðustu öld og dó 1967 eftir að hafa legið rúmfastur og lamaður í meira en áratug. Hann var og er mikill áhrifavaldur og fyrirmynd Bobs Dylans, U2, Bruce Springsteens, Joes Strummers (The Clash), Billys Braggs, Bubba Morthens, Megasar og margra fleiri.
Söngvar hans hafa verið krákaðir af allt frá Johnny Cash til þungarokkara á borð við Nazareth.
Þekktasta lag Woodys er sennilega This Land Is Your Land sem var flutt af Bruce Springsteen og fleirum við innsetningu Husseins Obama í embætti forseta Bandaríkjanna. Frjálshyggjugrallarinn Mojo Nixon flytur það hér í myndbandinu efst.
Woody Guthrie var Jesú-kall, verkalýðssinni, anti-rasisti, anti-fasisti og alvöru farandssöngvari. Flakkaði stöðugt um Bandaríkin, rótlaus og í stöðugri uppreisn. Honum buðust ótal tækifæri: Að stjórna útvarpsþáttum, syngja inn á plötur hjá plöturisum og annað í þeim dúr. En hann lét hvergi að stjórn. Stakk óvænt af og fór á flakk.
Hann stakk líka ítrekað af frá konum sínum 3 og eignaðist 8 börn. Sonur hans, Arlo Guthrie, varð eitt af stóru nöfnum Woodstock kynslóðarinnar.
Skemmtilegt að rifja upp: Fyrir nokkrum árum bankaði Arlo óvænt upp hjá Rúnari Júlíussyni í Keflavík. Þeir höfðu hist í hljóðveri í Bandaríkjunum mörgum árum áður og varð vel til vina. Rætur þeirra lágu í tónlist Woodys, Bobs Dylans og fleiri. Það varð þó ekki framhald á samskiptum þeirra. Þangað til Arlo flaug hingað í einkaþotu til þess eins að heilsa upp á Rúnar. Andlitið datt af Rúnari. Honum þótti með ólíkindum að Arlo kynni nafn hans og myndi eftir að hann byggi í Kerflavík. Þeir snæddu saman á veitingastað og Arlo stakk upp á því að þeir myndu gera saman plötu. Svo féll Rúnar frá áður en lengra var haldið.
Þó að fjöldi söngva Woodys séu vel þekktir þá var aðeins eitt sem náði toppsæti bandaríska vinsældalistans. Það var Oklahoma Hills í flutningi frænda hans, Jackie Guthrie. Sá skráði sig fyrir laginu. Woody þurfti að ná höfundarréttinum fyrir atbeina dómsstóla. Annars var Woody ekki upptekinn af höfundarrétti. En í þessu tilfelli var honum misboðið. Woody vann málið og var ósáttur við frænda sinn. Í dag er þetta lag sennilega þekktast í flutningi Jimi Reeves:
Flottasta bandaíska hljómsveit Bandaríjanna, Wilco, sendi fyrir nokkrum árum frá sér 2 plötur með söngvum Woodys og var tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir þær báðar. Með í dæminu var breski vísnapönkarinn Billy Bragg. Þetta er dáldið Utangarðsmannalegur blús.
Aðrir sem kráka söngva Woodys Guthries á plötunni sem um ræðir og hafa ekki verið nefndir eru: Van Dyke Parks (meðhöfundur margra Beach Boys laga, vann með The Byrds, U2 og ótal öðrum stórum nöfnum); Madeleine Peyroux (þekkt fyrir flutning á söngvum eftir Leonard Cohen, Bob Dylan og Hank Williams. Hún hefur verið kölluð Billie Holyday 21. aldarinnar); djassboltinn Kurt Elling (nífaldur Grammy-verðlaunahafi. Kannski þekktastur fyrir að spila með blúsaranum Buddy Guy og Smashing Pumpkins forsprakkanum Billy Corgan); Studs Terkel (hann er dáinn en er kannski þekktastur fyrir bókina Giants of Jazz); Nellie McKay (sló í gegn í uppfærslu á Túskildingsóperu Kurts Weills og Bertholds Brechts í Bandaríkjunum 2006); Chris Whitley (blúsgítarleikari sem féll frá 2005); Pete Seeger (150 ára gamall vísnasöngvari); og banjóleikarinn Tony Trischla (hefur m.a. spilað með Paul McCartney og Steve Martin).
Vegna þess að Studs og Chris eru fallnir frá má ætla að um gamlar hljóðritanir með þeim á söngvum Woodys Guthries sé að ræða. Annað kæmi á óvart.
Tónlist | Breytt 23.9.2011 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2011 | 21:12
Hljómsveit sendir kirkju hommahatara tóninn
Í frétt mbl.is af íslenskum tökustjóra bandarísku gruggsveitarinnar Nirvana er hann sagður heita Ágúst Bjarnason. Ég hef sterkan grun um að þessi sonur Húnvetningsins Kobba sé Jakobsson. Ég veit ekki hvaða Bjarna er þarna blandað inn í dæmið. Ég þarf að spyrja Kobba vin minn út í það. Ég er ekki viss um að hann viti af þessu með Bjarna. Ágúst hefur unnið með mörgum fleiri súperstjörnum en Nirvana og Guns ´N´ Roses. Hann gerði til að mynda myndbandið fræga og flotta við ballöðuna Hollywood með Hebba Guðmunds.
Seattle-hljómsveitin Nirvana var meðal annars þekkt fyrir hæðni í garð hommafælinna. Framvörður hljómsveitarinnar, Kurt Cobain, var eitt sinn handtekinn fyrir að mála með úðabrúsa "God is gay" á vegg. Í annað skipti fóru hann og bassaleikarinn í sleik í sjónvarpsútsendingu.
Trommari Nirvana, Íslandsvinurinn Dave Grohl, heldur uppteknum hætti. Núna fer hann fyrir hljómsveitinni Foo Fighters. Á dögunum brugðu liðsmenn Foo Fighters sér í gervi rauðhálsa Suðurríkjanna (rednecks) og sprelluðu í hommahöturum Westboro Baptist Church. Sá söfnuður hatar einnig Barack Hussein Obama, forseta Bandaríkjanna, og telur hann vera Anti-Krist (eins og 40 milljónir landa sinna). Þá er aðeins fátt upp talið af því sem kirkja þessi hatar. Mannréttindaráð Reykjavíkur myndi ekki leggja blessun sína yfir fjáraustur úr borgarsjóði í þessa kirkju.
Í meðfylgjandi myndbandi kastar Dave Grohl kveðju á haturssöfnuðinn. Í millikafla leggur Dave út af bandaríska þjóðsöngnum og segist síðan ekki fara í manngreinaálit eftir húðlit fólks, eða hvort það sé Pennsylvaníar (les: Frá Pennsylvaniu) eða Transylvaníar (les: Fengið kynleiðréttingu), Lady Gaga eða Lady Antebellum; konur elski konur eða kallar elski kalla.
Vegna ofurvinsælda Foo Fighters hafa fjörleg samskipti hljómsveitarinnar við haturskirkjuna vakið mikla athygli.
![]() |
Íslendingur tökustjóri hjá Nirvana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.9.2011 | 18:29
Ókeypis plata! Gjörðu svo vel! Assgoti áhugaverð og merkileg!
Annað tveggja söluhæsta bandaríska poppmúsíktímaritið er Spin. Það söluhæsta er Rolling Stone, sem jafnframt er söluhæsta poppmúsíktímarit heims. Spin spriklar stöðugt. Núna í tilfefni af 20 ára afmæli plötunnar Nevermind með Nirvana. Plötunni sem kippti grugginu (grunge) upp á yfirborðið og negldi það í toppsæti vinsældalista út um allan heim.
Spin-liðar hafa smalað saman í einn pakka krákum af öllum lögunum á Nevermind. Meðal flytjenda eru hljómsveitirnar The Meat Puppets og The Vaselines. Nirvana krákaði lög frá þeim á plötu sinni MTV Unplugged in New York. Skemmtileg tilviljun. Önnur skemmtileg tilviljun er að flutningur The Vaselines ber sterkan Bítlakeim. Kurt Cobain var frá 2ja ára aldri forfallinn Bítlaaðdáandi.
Þú getur eignast þessa Spin-plötu, Newermind. Hún er ókeypis. Það eina sem þú þarft að gera er að smella á þennan hlekk: http://www.spin.com/articles/free-album-spin-tribute-nirvanas-nevermind og síðan á "Enter E-mail and Download. Þá færðu í netfangið þitt sendan hlekk. Þú smellir á hann og platan er þín. Þú þarft ekkert að hafa keypt eintak af tölublaðinu sem platan fylgir eða vera áskrifandi að tímaritinu. Þetta er ókeypis fyrir alla.
Þetta er dúndur áhugavert dæmi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2011 | 19:23
Skúbb! Íslensk hljómsveit með spennandi útgáfusamning í Bandaríkjunum
Það er skammt stórra högga á milli hjá hljómsveitinni Q4U. Stigvaxandi vinsældir hljómsveitarinnar hérlendis og enn fremur erlendis eru heldur betur að hlaða utan á sig þessa dagana. Ef svo heldur áfram sem horfir verður þess ekki langt að bíða að Q4U verði ein allra söluhæsta íslenska hljómsveit sögunnar.
Í síðasta mánuði gaf eitt stærsta brasilíska plötufyrirtækið, Wave Records, út safnplötu þar í landi með Q4U, Q4U: Best Of (sjá www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1183818/ ). Plötunni hefur verið gífurlega vel tekið og útgefandinn þrýstir mjög hart á hljómsveitina að koma í hljómleikaferð til Brasilíu.
Svo skemmtilega vill til að á sama tíma eru hljómleikahaldarar í Þýskalandi og Bandaríkjunum að suða í Q4U um hljómleikahald á þeirra slóðum. Q4U á harðsnúinn aðdáendahóp í Þýskalandi og hefur selt margfalt fleiri eintök af íslensku safnplötunni sinni þar en hérlendis.
Spurn eftir hljómleikum með Q4U í New York má sennilega að einhverju leyti rekja til útgáfu plötunnar í Brasilíu.
Nú var Q4U að berast girnilegt tilboð frá bandarísku plötufyrirtæki, Dark Entries, um útgáfu í Bandaríkjunum. Það er hugur í fyrirtækinu og margt spennandi í pokanum. Meðal annars vill það byrja á því að gefa út vinylplötu með hljómsveitinni.
Bandaríski plötusamningurinn kom jafn óvænt og brasilíski plötusamningurinn. Útgefandinn er á engan hátt tengdur þeim sem vilja fá Q4U til hljómleikahalds í Bandaríkjunum. Útgefandinn rakst á eitthvað með Q4U á netinu og hefur um nokkurt skeið reynt að ná sambandi við liðsmenn hljómsveitarinnar. Það gekk ekki fyrr en núna í vikunni.
Skýringuna á vinsældum Q4U erlendis má að einhverju leyti rekja til fyrirbæris sem kallast naum-bylgjan (minimal wave). Hún nær yfir nákvæmlega músíkstíl Q4U, söngrænt (melódískt) synth-goth-pönk af gamla skólanum (að hætti nýbylgjuhljómsveita pönkbyltingarinnar á seinni hluta áttunda áratugarins og upphafi níunda áratugarins). Þessi músíkstíll var aðeins skilgreindur sem nýbylgja þangað til 2005. Þá hóf göngu plötufyrirtækið Minimal Wave sem sérhæfir sig í útgáfu platna í naum-bylgjustíl.
Aðdáendur naum-bylgjunnar eru ekki mjög fjölmennir í samanburði við aðdáendahóp þungarokks eða blúss. En halda þeim mun betur hópinn á netsíðum og víðar, skiptast á upplýsingum og benda hver öðrum á spennandi hljómsveitir.
Til gamans má geta þess að það er fyrir löngu síðan uppselt á hljómleika Q4U á Airwaves. Þangað hafa fjölmargir erlendir blaðamenn boðað komu sína. Þá er brasilíska platan komin í sölu í 12 tónum.
Tónlist | Breytt 15.9.2011 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2011 | 22:15
Nauðsynlegt að vita
Meðal allra skemmtilegustu hesta eru flóðhestar. Þetta eru vinarlegar skepnur; sterklegar og stæðilegar. Oftast eru þær rólegar og lausar við æsing og fíflagang. Stundum geispa flóðhestar. Mörgum hættir til að tengja það við syfju og hugsa: "Blessuð skepnan. Núna langar hana að fara að lúlla."
Þetta er alröng ályktun. Þegar flóðhestur geispar þá þýðir það að farið sé að fjúka í hann. Hann sé orðinn reiður og árásargjarn. Þá er betra að forða sér. Annars getur illa farið.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.9.2011 | 00:24
Jack White, Depeche Mode og Patti Smith kráka U2
Írska hljómsveitin U2 er sennilega stærsta rokkdæmið í heiminum nú til fjölda ára. Ég kunni vel við músík U2 framan af ferli hljómsveitarinnar. Það var gaman að vera í Bandaríkjunum vorið 1997 þegar hljómsveitin sló þar í gegn svo um munaði. Lögin With Or Without You og I Still Havn´t Found What I´m Looking For náðu 1. sæti bandaríska vinsældalistans. Og einnig platan The Joshua Tree. Áður höfðu hvorki lög né plötur U2 náð inn á Topp 10 í Bandaríkjunum. Í Evrópu var hljómsveitin þaulvön toppsætinu á vinsældalistum.
Ofurvinsældir Íranna í Bandaríkjunum vöktu mikla athygli. Þarlendir fjölmiðlar voru undirlagðir umfjöllun um hljómsveitina. Þar fór músíksjónvarpað MTV fremst í flokki og það var varla hægt að stilla á þá stöð án þess að verið væri að spila U2.
Svo skemmtilega vildi til að þegar ég flaug til Bandaríkjanna var í flugvélinni bandaríska fréttablaðið Time. Þar var góð og mikil grein um U2. Ég keypti eintak af blaðinu þegar lent var í Bandaríkjunum. Þá uppgötvaði ég að bandarísk útgáfa af Time er frábrugðin þeirri sem seld er í Evrópu. Greinin í bandaríska Time var allt öðru vísi en greinin sem ég las í flugvélinni.
Ég var í hálfan annan mánuð að þessu sinni í Bandaríkjunum og allan tímann tröllreið U2 þarlendum útvarpsstöðvum, sjónvarpsstöðvum og prentmiðlum. Það þótti saga til næsta bæjar að írsk hljómsveit væri það heitasta á markaðnum.
Einhversstaðar á þessum tímapunkti - eða skömmu síðar - fjarlægðust U2 minn pönkaða anti-popp músíksmekk. Við höfum ekki átt nána samleið síðan.
Núna hafa nokkrar frægar poppstjörnur tekið sig til og eru að senda frá sér plötu þar sem þeir kráka lögin af plötu U2 Acthung Baby. Þeirra á meðal eru bandaríski gítarleikarinn og söngvarinn Jack White (The White Stripes), bandaríska "pönk" drottningin Patti Smith, enska tölvupoppssveitin Depeche Mode og írski popparinn Damien Rice.
Bono lýsti Patti Smith eitt sinn í ræðu við afhendingu tónlistarverðlauna sem móðir sinni, elskhuga og ég man ekki hvað. Patti brást hin versta við og frábað sér þátttöku í hans "dirty works". Þau eru engu að síðir góðir vinir. U2 skoraði í 6. sæti breska vinsældalistans með lagi Pattíar, Dancing Barefood. Bono sagði viðbrögð Pattíar við ummælum sínum vera "ekta Patti Smith". Hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með hana ef hún hefði brugðist öðru vísi við.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2011 | 23:14
Verstu popparar sögunnar
Breska poppblaðið New Musical Express fékk á dögunum lesendur sína til að kjósa verstu poppara sögunnar. Það gerðu þeir með því að gefa poppurunum einkunn. Því hærri sem talan er þeim mun ómerkilegri þykir popparinn. Meðalskor "sigurvegaranna" er fyrir neðan nafn þeirra. Þetta er hinn áhugaverðasti listi. Ritstjórn New Musical Express setti einnig saman sinn lista. Þar hafnaði Justin Bieber í toppsætinu.
Hverjir kæmu helst til greina á svona lista yfir íslenska poppara?
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)