Færsluflokkur: Tónlist

Kráka = cover song

  Poppkóngurinn Óli Palli á rás 2 tók í dag snúning á vandræðalegri þýðingu okkar Íslendinga á ensku orðunum "cover song".  Því miður hefur ekki fundist neitt gott íslenskt orð yfir fyrirbærið.  Menn hafa verið að vandræðast með orð eins og tökulög,  ábreiður,  mottur,  yfirhafnir,  kápur og svo framvegis.

  Fyrir 2 árum stakk Steini Briem upp á orðinu krákur.  Eins og Óli Palli hallast ég helst að því orði.  Samt er það ekki algott.  Rökin með  kráku  eru þessi:

  - Það hljómar líkt enska orðinu "cover".

  - Það er 2ja atkvæða og þar með töluvert þjálla en "ábreiðulag" eða "tökulag".

  -  Það gefur til kynna að um eftirhermu sé að ræða án þess að innihalda forskeytið "hermu".  En býður jafnframt upp á að talað sé um "hermikráku" þegar um nákvæma stælingu er að ræða.

  -  Hægt er að tala um kráku (cover) án þess að tala um krákulag (cover song).

  Ef þið hafið betri tillögu þá endilega leggið í púkk.

  Annað:  Hvað segið þið um kráku Perfect Circle á  Imagine?  Þarna er söngvari Tool ásamt bandarískum gruggurum að kráka lagið með öðrum hljómagangi og öðrum hrynjanda fyrir unga rokkunnendur.  Frumútgáfa Lennons á laginu er yfirleitt í efstu sætum yfir bestu lög poppsögunnar.  Útfærsla Perfect Circle er töluvert frábrugðin.  Og þar með ekki hermikráka heldur kráka.


Eivör heiðruð

eivörÍsold+stórri hljómsveit

  Kammerkórinn Ísold hefur komið nýr og ferskur inn í íslensku tónlistarflóruna.  Hann skipa söngkonur á aldrinum 17 - 25 ára.  Lagavalið er þess vegna "svalara" en hjá söngkórum aldraðra.  Í stað þess að syngja  Brennið þið vitar  og  Hraustir menn  þá afgreiðir Ísold með glæsibrag lög eftir Bítlana (The Beatles) og Eivöru.  Það er einmitt lag Eivarar,  Trees in the Wind,  sem slegið hefur rækilega í gegn á hljómleikum Ísoldar undanfarna daga. 

  Nú bíður fólk spennt eftir því að Ísold taki lagið upp í hljóðveri og gefi út á plötu.  Sem allra fyrst.  Þetta er svo spennandi.  Þangað til má hlusta flutning Ísoldar á laginu hér:

  Það er líka alltaf gaman að heyra lagið flutt af Eivöru sjálfri.  Hún kann færeysku og syngur það þess vegna á færeysku.  Þá heitir lagið  Livandi trö.


Ný plata frá Tý

  2002 sló færeyska víkingarokkssveitin Týr í gegn hérlendis,  fyrst færeyskra tónlistarmanna til að gera það frá því í gamla daga.  Kvæðalagið  Ormurin langi  með Tý varð vinsælasta lagið á Íslandi þetta ár.  Lagið og platan með laginu,  How Far to Asgaard,  sátu vikum saman í 1. sæti íslensku vinsældalistanna.  Þvílíkt fjör! 

  Íslendingar hafa haldið tryggð við Tý allar götur síðan.  Hljómsveitin hefur margoft sótt Íslendinga heim og haldið fjölda hljómleika þvers og kruss um landið.  Stundum hafa færri komist að en vildu.  Plötur Týs hafa jafnan selst vel hérlendis og enn í dag má heyra lög með Tý spiluð í íslensku útvarpi.

  Tý hefur sömuleiðis vegnað vel á alþjóðamarkaði.  Komst m.a. á samning hjá stærsta og atkvæðamesta víkingarokkplötufyrirtæki heims,  Napalm Records.  Jafnframt hefur Týr spilað á flestum stærstu þungarokkshátíðum heims,  auk þess að fara í sjálfstæðar og vel sóttar hljómleikaferðir þvers og kruss um heim.  Það er ekki óalgengt að rekast á skrif um Tý í helstu þungarokksblöðum eða lag með þeim á safnplötum sem fylgja gjarnan þannig blöðum.

  Sjötta plata Týs kom formlega út á sunnudaginn (29. maí).  Hún heitir  The Lay of Thrym.  Sem fyrr er yrkisefnið sótt í norrænu goðafræðina.  Þrymur var jötunn sem stal Þórshamri.  Bölvaður þrjóturinn.  Þór náði hamrinum aftur síðar og drap Þrym með honum.  Og einhverja fleiri í leiðinni.  Eins og gengur.

  Meðal laga á plötunni eru  Ellindur bóndi á Jaðri  og  Konning Hans.  Lög sem margir kannast við frá hljómleikum Týs.  Þá hefur platan að geyma tvær spennandi krákur (cover songs).  Aðra frá Black Sabbath,  I.  Hina frá Rainbow,  Stargazer.

  The Lay of Thrym  hefur þegar fengið lofsamlega dóma gagnrýnenda.  Í danska Heavy Metal fær platan 8 stjörnur af 10.  Sjá:  http://www.heavymetal.dk/releases_view.php?id=4323;parentnavlink=reviews_album_intro.php

  Í Danger Dog fær platan 4 (stjörnur) af 5:  http://www.dangerdog.com/2011-music-reviews/tyr-the-lay-of-thrym-review.php

  Kíkið líka á plötudóm Angry Metal Guy:  http://www.angrymetalguy.com/tyr-the-lay-of-thrym/

  Þangað til platan kemur í íslenskar plötubúðir má panta hana hjá www.tutl.com.

Fyrri plötur Týs:

How Far to Asgaard (2002)

Eric the Red (2003)

Ragnarök (2006)

Land (2008)

By the Light of the Northern Star (2009)

 


Stórkostleg leiksýning

 fönixinn

- Titill:  Ferðalag Fönixins - um listina að deyja og fæðast á ný

- Höfundar og flytjendur:  María Ellingsen,  Eivör,  Reijo Kela

- Sýningarstaður:  Borgarleikhúsið

- Einkunn: ****

.

   Það var kominn tími til að kíkja á danssýningu.  Já,  í fyrsta skipti á ævi sem er að nálgast 60 árin.  Kannski ekki samt beinlínis danssýningu.  Að minnsta kosti ekki hefðbundna danssýningu.  Held ég. 

  "Ferðalag Fönixins" er leikhúsviðburður um goðsöguna um Fönixinn.  Ég þekki þá sögu ekki alveg út í hörgul.  Kannast bara rétt svo við hana í stærstum dráttum.  Af afspurn sem ég hef einhvern veginn heyrt út undan mér í tilvitnun í hana af og til.
  En það skiptir ekki miklu máli hversu vel leikhúsgestir þekkja söguna.  Tónlist Eivarar ber sýninguna uppi.  Alveg mögnuð tónlist.  Eivör er á heimavelli í að semja og flytja leikhústónlist.  Það á virkilega vel við hana að spinna og túlka með tónlist það sem er að gerast á sviðinu.
.
  Sviðið er ekki hefðbundið svið.  Það er á gólfinu í miðju leikhússins.  Gestir sitja umhverfis það.  Leiksýningin hefst á hringlaga völundarhúsi.  Völundarhúsið er teiknað á gólfið með hrísgrjónum eða hveiti eða einhverju svoleiðis. 
  Leikararnir og höfundar verksins,  Maria Ellingsen og finnski dansarinn Reijo Kela,  hefja leik á því að tipla um völundarhúsið undir tónlist Eivarar.  Eivör tónar lög sin án texta og spilar á hin ýmsu hljóðfæri:  Stundum syngur hún undurblítt og spilar á kassagítar.  Stundum rokkar hún með rafgítar.  Það er alltaf gaman að heyra Eivöru rokka á rafgítar.  Lokalagið,  gullfallegt,  syngur hún við texta Þórarins Eldjárns,  "Deyjandi ást".  Lagið er eftir Rumi sem var uppi,  kátur og hress,  á þrettándu öld.
  Leikmyndin er einföld.  3 járndrumbar (einn er kannski trjádrumbur) vofa yfir sviðinu.  Sá í miðið varpar ljósi sem leikur um tíma stórt hlutverk.  Finninn "brestur í dans" af minnsta tilefni.  Þau María veltast um sviðið og hendast um það.  Stundum dregur María Finnann.  Stundum dregur hann Maríu um sviðið.  Þetta er eins og ágætasta "myndbandsskreyting" við magnaða tónlist Eivarar.  Næsta víst er að einhver af lögunum í sýningunni eiga eftir að dúkka upp á plötu eða plötum Eivarar.
  Það er synd að einungis 4 sýningar séu í boði af þessu leikverki.  Ég var á næst síðustu sýningunni.  Það var troðið út úr dyrum.  Fjöldi gesta gerði sér að góðu að vera fyrir aftan stólaraðirnar.  Það var í fínu lagi.  Það fór vel um alla.  Og allir skemmtu sér vel.  Það skiptir mestu máli.
.
ferðalag fönixins

Gömul kona villtist í Hörpu

  Öldruð kona gerði sér dagamun í dag.  Hún fór í leigubíl ásamt vinkonu sinni í bæinn til að skoða Hörpu.  Í fyrstu atrennu tókst ekki betur til en svo að þær stöllur flæktust til tónlistarskólans Hörpu í Grafarvogi.  Þeim þótti það hús alveg ágætt.  Eftir að hafa rætt við viðstadda þar kom misskilningurinn í ljós.  Þá var hóað í annan leigubíl.  Áður en langt um leið komust þær í námunda við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu niður við höfn.

. Vopnaðar sitthvorri ljósmyndavélinni byrjuðu þær á því að taka tugi ljósmynda af húsinu utan frá.  Þar var þröngt á þingi.  Þúsundir annarra Reykvíkinga voru einnig að ljósmynda húsið utan frá.  Eitt hús hefur aldrei áður verið ljósmyndað jafn grimmt á einum degi í Reykjavík.  Hvað gerir allt þetta fólk við þessar myndir?  Hengir þær upp í stofunni?

  .Þegar inn í Hörpu kom var margfaldsinnum meiri örtröð.  Það var stappað af fólki.  Sú gamla týndi vinkonu sinni með það sama.  Bara rétt á meðan hún góndi upp í loftið og undraði sig á því hvað Harpa er miklu stærri innan dyra en utan.   
  Verið var að spila djass á gangi á annarri hæð.  Sú gamla vatt sér í rúllustigann til að komast á þá hljómleika.  Stiginn mjakaðist varla úr stað.  Gamla konan var hneyksluð yfir seinagangi stigans.  Eftir nokkrar mínútur uppgötvaði hún að þetta var ekki rúllustigi heldur venjulegur stigi.  Hún hneykslaðist ennþá meira yfir því.  Heilsan leyfir ekki langar stigagöngur.  Eflaust er lyfta í húsinu.  Einhversstaðar. 
.
  Þá var ekki um annað að ræða en skoða sig um á jarðhæðinni.  Það var hægara sagt en gert.  Troðningurinn var svo mikill að sú gamla réði ekki hvert hún fór.  Hún barst hjálparlaus með straumnum.  Og rammvilltist með það sama.  Svo rækilega að hún vissi ekki af fyrr en hún var komin í verslun 10-11 í Austurstræti,  mörgum götum frá Hörpu.  En hún hélt að hún væri ennþá í Hörpu og hélt áfram að vera villt,  Það var þó rýmra um hana í 10-11.  Hún var því fegin.  Hún bað viðstadda um að leiðbeina sér út úr Hörpu.  Það reyndust aðeins vera útlendir ferðamenn í 10-11.  Gamla konan talar ekki útlensku.  Einhvernvegin tókst þó svo til að hópur útlendinga fylgdi konunni út og fann fyrir hana leigubíl.
.
  Sú gamla er hin ánægðasta með ljósmyndirnar sem hún tók af Hörpu.  Hún hefur ekki hugmynd um hvað hún sá af Hörpu innan húss.  Vinkona hennar hafði ekki ennþá skilað sér heim þegar gamla sagði mér frá ævintýri dagsins.  Kannski er hún ennþá að skoða Hörpu.  Af nógu er að taka.
Harpa

mbl.is „Bylting í músík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eivör í 1. sæti danska vinsældalistans

  Það gekk eftir sem danskir poppfræðingar höfðu spáð:  Að platan  Engler Eller Dæmoner  myndi fljúga í efsta sæti danska metsölulistans strax í útgáfuvikunni.  Ójá.  Þetta er í fyrsta skipti sem færeyskur söngtexti heyrist á 1. sætis plötu í Danmörku.  Á plötunni blandar rappdúettinn Nik & Jay lagi Eivarar,  Tröllabundin,  saman við aðal lag plötunnar. 

  Fyrir útgáfudag plötunnar voru tvenn kynningarmyndbönd sett inn á þútúpuna.  Þau gerðu bæði út á lagið með Eivöru.  Þetta má sjá og heyra með því að smella lipurlega á þessa hlekki: 

http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1162435/

http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1160978/

 
11
NIK & JAY
ENGLE ELLER DÆMONER
COPENHAGEN RECORD
1
21 4
KATO
DISCOLIZED 2.0
SONY MUSIC / DISC
1
33 14
ADELE
21
PLAYGROUND MUSIC
2
44 30
AGNES OBEL
PHILHARMONICS
VME / PIAS
1
52 9
DIVERSE
M:G:P 2011
UNIVERSAL MUSIC
1
617 18
RIHANNA
LOUD
UNIVERSAL MUSIC
6
76 32
FALLULAH
THE BLACK CAT NEIGHBOURHOO
SONY MUSIC
3
835 2
GREGORIAN
BEST OF
SONY MUSIC / BLAC
8
95 4
FOO FIGHTERS
WASTING LIGHT
SONY MUSIC
3
107 27
FLEMMING BAMSE JØRGENSEN
TÆT PÅ
RECART/MBO
2


Höfundur geisladisksins fallinn frá

geisladiskur

  Norio Ohga var söngvari og starfsmaður japanska fyrirtækisins Sony,  eins og rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson.  Norio ól með sér þann draum að hanna plötu,  geisladisk,  sem myndi aldrei eyðast við núning plötunálar eins og vinylplötur.  Diskurinn væri jafn nýr eftir að hafa verið spilaður 100 sinnum og þegar hann væri spilaður í fyrsta skipti.  Geislar myndu lesa af honum músík án þess að snerta diskinn.  1979 fékk hann hollenska fyrirtækið Philips í lið með sér til að hanna þetta fyrirbæri.  Svo ótrúlegt sem það hljómar mætti uppátækið gríðarlegu andstreymi.  Gömlu rótgrónu plötufyrirtækin fundu þessu uppátæki allt til foráttu. 

  Fyrstu geisladiskarnir komu á markað 1982.  Bandaríski plötuiðnaðurinn barðist á móti þessari nýjung á hæl og hnakka.  Um svipað leyti tókst honum að knésetja DAT segulbandsspólur sem voru að sumu leyti fyrirrennari geisladisksins.  Það er lásu af segulböndunum án þess að um núning við lesarann væri að ræða.

  Mig minnir að það hafi verið um 1985 sem bandaríski plötuiðnaðurinn gafst upp á baráttu gegn geisladisknum.  Ég var þá staddur í Bandaríkjunum og fylgdist með baráttunni gegn geisladisknum þar.  Fyrstu ár á eftir voru geisladiskar í Bandaríkjunum pakkaðir í umbúðir sem voru tvöfalt stærri en sjálfur geisladiskurinn.  Hugmyndafræðin var sú að stærð geisladisksins sem var aðeins fjórðungur af stærð vinylplötu myndi slátra plötunni sem heppilegri stærð í gjafaumbúðum til jólagjafa. 

  Í mörg ár voru geisladiskar í Bandaríkjunum aðeins framleiddir í þessum stóru umbúðum.

  Fyrsta geislaplata á almennum alþjóðamarkaði var "The Visitors" með Abba-viðbjóðnum.  Hinsvegar man ég að einn af fyrstu íslenskum geisladiskum var "Frelsi til sölu" með Bubba.  Ég sá um markaðssetningu þeirrar plötu.  Hún seldist í næstum 20 þúsund eintökum með öllum þeim markaðssetningarráðum sem ég kunni best á þeim tíma.

  Norio féll frá í vikunni 81 árs gamall.   


Furðulegt uppátæki í plötuverslun

 

  Það getur verið assgoti gaman að skoða sig um í plötubúðum.  Ekki síst í plötubúðum þar sem starfsfólkið þekkir illa til þeirra platna sem á boðstólum eru.  Í ónefndri plötubúð í Stóru hryllingsbúðinni (eins og Pétur Þorsteinsson,  prestur Háóða safnaðarins,  kallar Kringluna) er rekki undir þungarokksplötur.  Hann er kyrfilega merktur "Þungarokk".  Úrvalið er frekar fátæklegt.  Fremst í röð platna með flytjendum hvers nafn byrjar á E trónir ljúf kántrý-plata með bandaríska kántrý-boltanum og heróín-fíklinum Steve Earle. 

  Þessi plata,  Copperhead Road,  er frá níunda áratugnum og vel kunn flestum sem fylgjast eitthvað með dægurlagamúsík.  Meðal annars er platan fræg vegna þess að breska þjóðlagahljómsveitin frábæra The Pogues sér að hluta um undirleik.  Það örlar þess vegna á írskum keim á plötunni.  Einnig er platan þekkt fyrir það að Jón Reiðufé (Johnny Cash) krákaði (cover song) af henni lagið  The Devil´s Right Hand.  Sama lag skreytti kúrekamyndina  Brokeback Mountain.

  Grunur leikur á að starfsfólk plötubúðarinnar í Kringlunni þekki lítið sem ekkert til helstu nafna í kántrýi og þungarokki.  Annars myndi það staðsetja vinsæla kántrýplötu annarsstaðar en í þungarokksrekka.  Til dæmis í kántrý-rekkann.

  Ef smellt er á myndbandið að ofan birtist hugsanleg vísbending um ástæðu þess að kántrý-plata sé flokkuð sem þungarokk.  Þarna sést framhlið umslagsins.  Hvað dettur fáfróðum í hug þegar þeir sjá hauskúpu og leggi glenna sig á plötuumslagi?  Aha,  þetta hlýtur að vera þungarokk.  Aftan á umslaginu er ljósmynd af síðhærðum Steve Earle.  Það þarf ekki frekar vitnanna við.  Það þarf ekki einu sinni að hlusta á plötuna né "gúgla" hana eða flytjandann. 

  Steve Earle er lunkinn söngvahöfundur og mikið krákaður í bandarísku kántrý-deildinni.  En ekki í þungarokksdeildinni.  Þar er frekar sótt í Slayer.  Og þar bregður ósjaldan fyrir hauskúpum og síðu hári.

  Ef þið smellið á þessi myndbönd til skiptist má heyra að það er blæbrigðamunur á kántrýi og þungarokki.  Afsakið hvað fyrra Slayer-lagið endar bratt.  Það er ekki mér að kenna. 


Eivör í toppsæti danska vinsældalistans?

  Í dag kom á markað ný plata,  Engle Eller Dæmoner,  með vinsælasta rappdúett Danmerkur,  Nik & Jay.  Titillagið er að hluta lag Eivarar,  Tröllabundin.  Nik & Jay eru í hópi allra vinsælustu poppara í Danmörku.  Þarlendir poppfræðingar ganga út frá því sem vísu að platan fari í 1. sæti danska vinældalistans.  Plötudómar þarlendra eru sammála um að titillagið sé það bitastæðasta á plötunni.  Ef spár ganga eftir verður þetta í fyrsta skipti sem færeyskur söngtexti toppar danska vinsældalistann.  Þetta er spennandi dæmi.

  


Kynningarmyndbandið með Eivöru, Nik & Jay

  Í síðustu viku upplýsti ég kátur og hress á þessum vettvangi að vinsælustu rapparar Danmerkur,  Nik & Jay,  hafi óskað eftir liðsinni færeysku álfadrottningarinnar,  Eivöru,  við gerð titillags væntanlegrar plötu dúettsins.  Þá færslu má lesa með því að smella á þessa slóð:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1160277/ 

  Nú er komið á Þútúpuna kynningarmyndband fyrir plötuna.  Þar má heyra hvernig lag Eivarar,  Tröllabundin,  er fléttað saman við lag Niks & Jay,  Engle eller Dæmoner.  Poppfræðingar í Danaveldi reikna með því að lagið fái gríðargóða útvarpsspilun og platan fari á topp danska vinsældalistans.  Gangi það eftir verður það í fyrsta skipti sem færeyska hljómar á metsöluplötu í Danmörku. 

  Hér er kynningarmyndbandið:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.