Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.5.2013 | 12:58
Hræsnari
Rámi breski söngvarinn Rod Stewart sendi nýverið frá sér plötuna Time. Áður hafði hann ekki nennt að semja neina söngva til fjölda ára. Raulaði bara einhverjar krákur (cover songs). Á Time er að finna lagið Brighton Beach. Þar syngur Rámur um fyrstu kærustu sína, Suzönnu. Þau voru 16 ára. Hún er jafnframt barnsmóðir elsta barns hans, Söru. Í Brighton Beach syngur Rámur um það hvað hann elskaði Suzönnu heitt og hversu þungbært var fyrir hann er hún yfirgaf hann.
Suzanna er jafnaldri Rods, 68 ára. Hún ber honum illa söguna. Sakar hann um að hafa gufað upp um leið og hún tjáði honum að barn væri komið undir belti. Hann lét hana ekki ná á sér eftir það áratugum saman. Suzanna lýsir Rod sem ómerkilegum hræsnara. Hann hafi aldrei skipt sér af dóttir þeirra og það hafi farið mjög illa með þær mæðgur. Núna sjái hann aftur á móti eitthvað söluvænlegt við það að syngja væminn fortíðarhyggjusöng um ástarsambandið. Verra er að hann snúi þar sögunni sjálfum sér í vil. Það sé vænlegt til vinsælda að gera út á samúð fólks með fórnarlambi.
Suzanna álasar Rod ekki fyrir að stinga af á sínum tíma. Hann hafi verið ungur og vitlaus með stóra framtíðardrauma. Hinsvegar er hún grútspæld yfir framkomu hans eftir að hann komst til vits og ára. En á sínum tíma særði brotthlaup og svik Rods hana djúpu sári. Það var ekki auðvelt að vera 17 ára einstæð móðir á Englandi 1964. Það var svo erfitt að fyrir tilstilli barnaverndarnefndar var dótturinni, Söru, komið í fóstur hjá vandalausum. Það tókst ekki betur en svo að barnið flæktist næstu árin eins og jó-jó á milli fósturheimila.
Sarah fékk ekki að vita hver faðir hennar var fyrr en hún var orðin 19 ára. Eftir það talaði hún um fátt annað en Rod föður sinn. Hún hengdi upp plaköt af honum á svefnherbergisveggi hjá sér, keypti allar bækur um hann og keypti öll blöð sem fjölluðu um hann. En stelpan var einnig svekkt út í kallinn fyrir afskiptaleysið. Það toguðust á í henni einhverskonar ástar-hatur tilfinningar í garð föður síns. Móðir hennar vill meina að þessi staða hafi eyðilagt margt í lífi Söru. Þráhyggja á háu stigi fyrir því að vita sem mest um föður sinn hafi meira að segja eyðilagt ástarsambönd hennar. Hún fór í ruglið (sennilega vímuefnaneyslu) og gekk illa að fóta sig í lífinu.
Suzanna er búsett í Frakklandi. Hún skrifaði Rod nokkur bréf með áskorun um að hann hefði samband við dóttir sína. Án árangurs. Að lokum leitaði Suzanna Rod uppi þegar hann hélt hljómleika í París. Þá loks lét Rod undan þrýstingnum og hafði samband við dóttir sína. Hún þá komin á sextugsaldur. Það var eins og við manninn mælt að Sara fann loks frið í sinni sál. Rámur virðist einnig hafa fengið eitthvað út úr því að kynnast dóttir sinni. Hann er duglegur að hringja í hana og spjalla. Kynni hans af dótturinni virðast hafa orðið vítamínssprauta í sköpunargleði. Hann fékk innblástur til að semja söngva á ný, samanber Brighton Beach.
![]() |
Stewart var háður sterum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 15.5.2013 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2013 | 21:50
Fátækleg minningarorð um Ingólf Júlíusson
Marg verðlaunaði ljósmyndarinn og gítarleikari hljómsveitarinnar Q4U, Ingó (Ingólfur Júlíusson), kvaddi þennan heim núna. Kannski ekki óvænt. En samt fyrr en svartsýnustu lýsingar á veikindum hans gáfu til kynna.
Á síðasta ári greindist Ingó með bráðahvítblæði. Hann var þegar í stað settur í meðferð til að ráða bug á því. Hann svaraði ekki meðferð. Alls gekk hann í gegnum þrjár meðferðir. Þær voru sársaukafullar og erfiðar í alla staði. Eftir að þriðja meðferð reyndist árangurslaus fyrr á þessu ári var áætlað að Ingó ætti eftir eitt ár ólifað.
Ingó tók niðurstöðunni af ótrúlegu æðruleysi. Hann hafði húmor fyrir henni og gerði gott úr öllu. Sagði það vera forréttindi að fá að vita kveðjustund og fá svigrúm til að ganga frá lausum endum. Eftir að meðferðum lauk á Landspítalanum og Ingó dvaldi heima sagðist hann hafa uppgötvað hvað vinna hans sem "free-lance" ljósmyndara hafi haldið honum löngum að heiman. Það var honum kærkomið að fá að dvelja heima með ungum dætrum sínum og eiginkonu í stað þess að þeytast út um allt land og erlendis fjarri þeim í ljósmyndaverkefnum. "Þetta er yndislegur tími," sagði Ingó um dvölina heima. Hann sagðist vera þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri til að verja tímanum með fjölskyldunni. Fyrir veikindin áttaði hann sig ekki á því hvað hann var mikið fjarverandi.
Ég kynntist Ingó fyrst þegar við vorum samtímis í Færeyjum 2002. Ingó var að gera myndbönd fyrir færeysku hljómsveitina Tý. Áður þekkti ég vel eldri bróðir hans, Árna Daníel, hljómborðsleikara Q4U. Þrátt fyrir að Ingó væri töluvert yngri en ég þá hitti ég fyrir í honum einskonar sálufélaga. Við hlustuðum á sömu músík, vorum báðir í Ásatrúarfélaginu, elskuðum Færeyjar og þannig mætti áfram telja. Við urðum góðir vinir og brölluðum margt saman. Fórum m.a. nokkrum sinnum saman til Færeyja og tókum ítrekað þátt í færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri.
Ósjaldan sátum við á vinnustofu Ingós í JL-húsinu við Hringbraut, sötruðum bjór og hlustuðum á músík. Inn á milli spilaði Ingó lög með systurbörnum sínum í Nóru og lög með Q4U.
Ingó var einstaklega skemmtilegur ferðafélagi. Ingó sá alltaf broslegar hliðar á öllu. Hann sá aldrei neitt neikvætt við neitt. Jafnvel þó að hitt og þetta sem við áætluðum klúðraðist þá gerði Ingó gott úr öllu og sá aðeins spaugilega hlið á hlutunum.
Eins og sorgin er mikil að kveðja Ingó þá ylja minningarnar um hann. Góðmennska hans, húmor, æðruleysi gagnvart veikindunum og hvað hann var yndisleg manneskja í alla staði skilja eftir þakklæti fyrir að hafa kynnst þessum frábæra manni. Eiginlega frábærustu manneskju sem ég hef kynnst. Þessa lýsingu á Ingó hef ég sagt frá því löngu áður en hann veiktist. Ég veit að allir sem kynntust Ingó hafa sömu sögu að segja.
Frá fyrsta degi sem ég kynntist Ingó hef ég skilgreint hann sem einn minn albesta vin. Ofur skemmtilegur náungi sem mátti aldrei neitt aumt sjá öðru vísi en hlaupa undir bagga. Mjög upptekinn við að hjálpa öllum og öllu. Alltaf að redda hlutum fyrir aðra fyrir horn. Hann vann á Fréttatímanum, Fréttablaðinu og DV. Þetta var eins með umbrot á bókum. Hann tók að sér verkefni og það sem á öðrum bæjum var 2ja mánaða vinna afgreiddi Ingó á hálfum mánuði. Að vísu með því að vinna 16 tíma á sólarhring.
Ég votta fjölskyldu Ingós dýpstu samúð.
Myndband frá Ingó:
Hér er myndband sem Victor Orri Valgarðsson tók á hljómleikum er haldnir voru nýverið til fjáröflunar fyrir Ingó og fjölskyldu. Fyrir ókunnuga kann það að virka sem ósmekklegt að birta þetta myndband í kjölfar fráfalls hans. En fyrir okkur sem þótti ofur vænt um Ingó þá er það nákvæmlega svona sem við viljum minnast hans: Rifja upp jákvæðni hans, glaðværð og húmor. Alltaf að gera gott úr öllu. Sjá aðeins broslegar hliðar á þessari sorglegu niðurstöðu.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.4.2013 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.4.2013 | 01:35
Ráð frá Ráðgjafahorni heimilanna: Gestasæti
Allir kannast við það að fá stundum í heimsókn leiðinlegan gest. Gest sem skemmir góða og afslappaða kvöldstund í faðmi fjölskyldunnar. Það er til ráð við þessu. það er að koma sér upp góðu og hlýlegu sæti á afskektum stað í húsinu. Til að mynda við hliðina á stiga. Þar er leiðinlega gestinum boðið sæti. Honum er fært mjólkurglas og kannski kexkaka. Svo er hann bara skilinn eftir þar. Á meðan kemur heimilisfólkið sér fyrir í stofunni og horfir á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu án þess að skipta sér af gestinum sem situr aleinn við hliðina á stiganum allt kvöldið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2013 | 23:54
Anna á Hesteyri og Sævar Ciesielski
Ég var og er jafnaldri - eða því sem næst - þeirra sem saklaus voru dæmd fyrir morð á Geirfinni og Guðmundi. Ég vissi deili á þessum jafnöldrum. Varð var við þá á skemmtistöðum. Einhverju sinni keypti ég bjórkassa af Sævari (smygluðum - að ég held - ofan frá bandarísku herstöðinni í Keflavík). Þarna á fyrri hluta áttunda áratugarins var sala á bjór bönnuð á Íslandi. Bjórinn var talinn vera stórhættulegur fyrir land og þjóð. Gæti jafnvel framkallað ölvunarástand.
Ég fylgdist vel með fréttum af því þegar þetta fólk var handtekið (reyndar fyrir annað) og síðar sakað um morðin. Síðdegisblöðin Vísir og Dagblaðið fóru mikinn. Ruglið og bullið óx dag frá degi. Nánast frá fyrsta degi áttaði maður sig á því að ekki stóð steinn yfir steini. Þetta var fár sem í dag má líkja við Lúkasarmálið á Akureyri. Fjöður varð að hænu og dellan fór í hæstu hæðir. Allt sem snéri að rannsókn málsins var í skötulíki. Öll framvindan var skrípaleikur út í eitt.
Það sem verra var er að í ljós kom að ungmennin sættu grófum mannréttindabrotum. Meðal annars pyntingum og kynferðisofbeldi. Eftir óralanga einangrunarvist og gæsluvarðhald sem aðeins á sér hliðstæðu í 3ja heims ríkjum harðstjóra og í Guantanamó var unga fólkið dæmt til margra ára fangelsisvistar með rökum sem héldu hvergi vatni.
Þeir einir réttlæta dómana sem komu að málum við að fremja réttarmorðin og aðstandendur þeirra. Já, og vitaskuld Brynjar Nielsson væntanlegur dómsmálaráðherra (nema hann skræli fylgið þeim mun meir af Sjálfstæðisflokknum).
Víkur þá sögu að Önnu frænku minni á Hesteyri. Hún skemmti sér við að horfa á Spaugstofuna í sjónvarpi á laugardögum. Anna hreifst mjög af skemmtilegu rónunum Boga og Örvari. Hún tók ástfóstri við þá.
Anna hringdi í frænku okkar í Reykjavík og sagðist vita fátt skemmtilegra en róna. Vegna þess að Anna bjó ein og var baráttumanneskja gegn áfengi þá datt henni í hug að gaman væri að fá róna í einskonar afvötnun á Hesteyri. Hún myndi leiða þeim fyrir sjónir að áfengi sé óhollt og þeir gætu hjálpað henni við bústörf í staðinn.
Svo einkennilega vildi til að frænka okkar Önnu bjó í fjölbýlishúsi og þar var ekkjumaður. Hann var langdrukkinn. Skemmtilegur náungi. Spaugsamur og kattþrifinn. Frænka okkar sendi hann til Önnu. Þar uppfyllti kallinn hugmyndir Önnu um skemmtilega róna. Kallinn hófst handa við tiltekt á Hesteyri (og veitti ekki af eins og kom síðar fram í sjónvarpsþættinum "Allt í drasli"). Hann var jafnframt ágætur kokkur. Anna var alsæl með þennan róna. Í kjölfar hafði hún samband við lögregluna og bauðst til að taka að sér fleiri róna.
Þannig kom það til að Sævar Cielsielski varð húskarl hjá Önnu frænku á Hesteyri. Mínum heimildum ber ekki saman um hvernig það atvikaðist. Ein útgáfan snýr að því að Sævar hafi verið í einhverjum vandræðum er hann kom með Norrænu erlendis frá. Önnur útgáfa er sú að hann hafi verið á leið frá Íslandi með millilandaflugi á Egilsstaðaflugvelli. Hvor útgáfan sem er rétt þá kom Sævar í lögreglufylgd í Hesteyri og varð skjólstæðingur Önnu frænku.
Sævar þurfti reglulega að sækja lyf í Neskaupsstað. Hann keypti sér áfengi í leiðinni. Hann var þess vegna meira og minna "mjúkur" á Hesteyri. Anna þekkti ekki áfengislykt og tók ekkert eftir því að Sævar var að staupa sig. Sævar hafði stjórn á því að verða ekki verulega fullur. Önnu grunaði ekkert. Hún stóð í þeirri trú að hún væri að halda honum edrú á Hesteyri.
Bæði fyrir og eftir dvöl Sævars á Hesteyri hýsti Anna sennilega um tug annarra manna sem hún taldi sig vera með í afvötnun. Sævar var hennar uppáhald. Hann spilaði á gítar og þau sungu saman íslenska slagara á hverju kvöldi. Oft fram á nótt. Anna var dálítið laglaus (án þess að vita það). Sævar var lagvissari en söngstíll hans var ekki fágaður.
Anna átti það til að hringja í ættingja og leyfa þeim að heyra músík þessa sérkennilega dúetts. Anna hringdi líka í ættingja til að spjalla og er leið á samtal gaf hún það til Sævars. Vildi að hann kynntist ættingjunum. Í einu símtali við mig viðraði hann hugmyndir um að fara í auglýsingabransann. Ég vann þá á auglýsingastofu. Hann sagðist vera búinn að vinna við dúk- eða parketlagningar (að mig minnir) en langi til að láta reyna á teiknihæfileika. Hann langaði til að kaupa auglýsingastofu. Af því varð þó ekki.
Mér finnst eins og Sævar hafi oftar en einu sinni dvalið á Hesteyri.
Sævar Ciesielski var sá maður sem Önnu á Hesteyri þótti vænst um af öllum sem þar dvöldu. Henni þótti hann mjög skemmtilegur; "hlýr maður og góður," sagði hún. Anna lenti í miklum vandræðum með suma aðra. Til að mynda óþverrann Steingrím Njálsson.
Fleiri sögur af Önnu frænku: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1288207/
![]() |
Ekkert hjarta í Sævari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.6.2013 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.3.2013 | 23:24
Anna á Hesteyri sendi póst
Þegar aldurinn færðist yfir Önnu frænku á Hesteyri dró úr póstsendingum frá henni. Kannski vegna þess að rithöndin varð óstyrkari. Kannski vegna þess að sjón dapraðist. Kannski þó helst vegna þess að hún fór að nota síma í auknum mæli eftir að landið allt varð eitt og sama gjaldsvæðið hjá Símanum. Áður var mjög dýrt að hringja út fyrir sitt gjaldsvæði. Þannig símtöl kölluðust langlínusímtöl. Lengst af var að auki aðeins hægt að hringja langlínusamtöl á afmörkuðum tímum dags: Klukkutíma að morgni og tvo klukkutíma síðdegis. Eða eitthvað svoleiðis.
Þó að landið yrði eitt gjaldsvæði þá voru símreikningar Önnu mjög háir. Jafnan upp á tugi þúsunda. Hún var stundum í vandræðum með að standa skil á þeim.
Hugsanlega sendi Anna oftar póst en við ættingjar og vinir hennar urðum varir við. Anna varð nefnilega sífellt kærulausari með að merkja nákvæmt póstfang á umslögin.
Um tíma bjó ég á Grettisgötu 64 í Reykjavík. Flest hús við Grettisgötu eru fjölbýlishús (blokkir). Þetta eru gamlar byggingar og gamaldags. Á útidyrahurð hvers stigagangs er ein bréfalúga. Inn um hana setur póstburðarmaðurinn allan póst í einni hrúgu. Íbúarnir sjálfir fiska síðan úr bunkanum sinn póst.
Eitt sinn sá ég í pósthrúgunni umslag með áletruninni "Heimilisfólkið á Grettisgötu í Reykjavík". Umslagið hafði verið opnað. Ég kíkti í umslagið. Það innihélt fjölda ljósmynda af Önnu, foreldrum hennar, mömmu minni og hennar systkinum og afa mínum. Þegar ég kannaðist svona vel við fólkið á myndunum þekkti ég einnig rithönd Önnu utan á umslaginu. Póstsendingin var frá Önnu til mín. Ég rak jafnframt augu í að póststimpillinn á umslaginu var margra vikna gamall.
Á þessum árum lagði póstburðarfólk sig í líma við að koma öllum pósti til rétts viðtakanda hversu fátæklegar, rangar eða villandi sem upplýsingar utan á umslagi voru. Í þessu tilfelli hafði póstburðarmaðurinn brugðið á það ráð að bera sendinguna frá Önnu fyrst á Grettisgötu 1. Þegar enginn veitti umslaginu viðtöku þar var það næst borið út á Grettisgötu 2. Þannig koll af kolli uns það barst loks í réttar hendur á Grettisgötu 64.
Anna frænka féll frá 2009. Fyrir jólin 2008 hringdi í mig kona. Hún kynnti sig með nafni og sagðist hafa fengið jólakort frá Önnu á Hesteyri. Konan þekkti Önnu ekki neitt en hafði lesið um hana á blogginu mínu. Konan var þess fullviss að jólakortið væri ætlað einhverri alnöfnu sinni. Þær væru nokkuð margar svo konan brá á þetta ráð; að hringja í mig. Utan á umslagið hafði Anna aðeins skrifað nafnið og Reykjavík. En ekkert heimilisfang.
Nafnið hringdi einhverjum bjöllum hjá mér. Ég hafði heyrt það áður. Ég bað konuna um að lesa fyrir mig textann í jólakortinu. Þar kallaði Anna viðkomandi systir. Þá áttaði ég mig á því að Anna hefði nefnt þetta nafn einhvern tíma við mig í samhengi við aðventísta (Anna var aðventísti). Mér dugði að hringja í Kirkju sjöunda dags aðventísta og spyrja um heimilisfang konunnar. Hún reyndist vera búsett í Kópavogi (en ekki Reykjavík).
Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1286915/
Vinir og fjölskylda | Breytt 16.3.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2013 | 00:36
Anna Marta og fjölskyldugrafreiturinn á Hesteyri
Anna Marta á Hesteyri var ekki aðeins náttúrubarn. Mikið náttúrubarn. Hún var einnig barn að sumu öðru leyti. Ekki samt nævisti. Alls ekki. Móðir hennar var sérlunduð og eiginlega ekki alveg heil heilsu. Hún talaði iðulega barnamál við Önnu fram eftir öllu. Það leiddi til þess að Anna var með einkennilegan framburð. Til að mynda sagði hún r þar sem á að vera ð í orðum. Fyrir bragðið var hún af sumum þekkt undir nafninu Anna "góri minn".
Þó að Anna yrði dálítið stór og mikil um sig er hún fullorðnaðist hélt móðir hennar þeim sið að láta hana setjast á hné sér og greiddi henni eins og lítilli stelpu. Hár Önnu var krullað og úfið og þolinmæðisverk að greiða það.
Anna var jafnan jákvæð og ljúf. Hún átti það samt til að snöggreiðast af litlu tilefni eins og óþekkt barn. Þá hækkaði hún róm og varð verulega æst. Eitt sinn er hún var í heimsókn hjá mér barst tal einhverra hluta vegna að Gvendi Jaka. Ég lét einhver neikvæð orð um hann falla. Það fauk svo í Önnu að hún spratt á fætur og hrópaði eða eiginlega hvæsti á mig að Guðmundur Jaki væri góður maður. Í önnur skipti átti hún það til að æsa sig í símtölum vegna - svo dæmi sé tekið - þess að einhver hafði gagnrýnt Vigdísi fyrrverandi forseta.
Á Hesteyri er fjölskyldugrafreitur. Þar hvíla meðal annars afi minn og amma. Afi minn og faðir Önnu voru bræður.
Eitt sinn áttu frændi minn og kona hans leið um Austfirði. Þau ákváðu að heilsa upp á Önnu dagspart og skoða leiði afa okkar og ömmu. Leiði þeirra reyndist vera í niðurníðslu, eins og frændi minn reyndar vissi af áður. Þess vegna mætti hann á Hesteyri með blóm til að gróðursetja á leiðin. Jafnframt sló hann gras á leiðunum, snyrti þau, rétti af legsteina, pússaði þá, snurfusaði og gerði leiðin afskaplega fín.
Þetta varð margra klukkutíma vinna. Að henni lokinni kvöddu frændi og konan hans Önnu og hugðust halda áfram för. En þá snöggfauk í Önnu. Henni þótti það vera ósvífni af versta tagi að snyrta tvö leiði og skilja önnur útundan í niðurníðslu. Anna var svo reið og sár og æst að frændi og kona hans neyddust til að breyta ferðaáætlun með tilheyrandi óþægindum og framlengja dvöl á Hesteyri um annan dag til að snyrta og snurfusa allan fjölskyldugrafreitinn þangað til Anna varð sátt.
Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1283923/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2013 | 23:37
Frábær mynd
Dýr eru merkilegar skepnur og áhugaverðar um margt. Mörg dýr gera glöggan greinarmun á fullorðinni manneskju annarsvegar og ungu barni hinsvegar. Til að mynda sýna kettir ungum börnum ótrúlegt umburðarlyndi. Barnið bögglast klaufalega með köttinn, togar í skottið á honum eða gerir annað sem klárlega veldur kettinum sársauka eða veruleg óþægindi. Kötturinn lætur sig hafa þetta. Hann bregst ekki til varnar. Reynir, jú, varlega að koma sér úr aðstæðunum án þess að valda barninu ama. Kötturinn hefur fullan skilning á að þarna sé óviti að verki.
Þess er líka fjöldi dæmi um að kettir vakti barnavagn þegar kornabarn sefur úti.
Algengt er að hestar hagi sér allt öðru vísi með ungt barn á baki en fullorðna manneskju. Með ungt barn á baki getur ólmasti hestur orðið ljúfur sem lamb. Hann gerir allt sem hann getur til að varna því að barnið detti af baki. Hann gengur til hliðar ef barnið hallar á aðra hlið. Gengur undir því, eins og það er kallað. Það er hrífandi að fylgjast með því hvernig verstu tryppi skipta um gír með ungt barn á baki. Umhyggja fyrir ungviðinu gengur fyrir öllu.
Hundar finna iðulega til sterkrar ábyrgðartilfinningar þegar ungt barn er á heimilinu. Ef hvutta finnst barnið fara glannalega í námunda við vatn grípur hann þegar í stað til varúðarráðstafana.
![]() |
Rottur stærri en kettir í Tehran |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 6.3.2013 kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2013 | 02:01
Frábær kvöldskemmtun til fjáröflunar fyrir Ingó og hans fjölskyldu
Tilefni fjáröflunarhljómleika í kvöld fyrir Ingó og hans fjölskyldu var og er dapurlegt. Ingó greindist með bráðahvítblæði í októberbyrjun. Síðan hefur hann gengið í gegnum þrjár erfiðar meðferðir til að kveða sjúkdóminn niður. Án árangurs. Meðferð hefur verið hætt.
Í kvöld komu 600 vinir Ingós saman í Norðurljósum í Hörpu. Um 100 þeirra stóðu fyrir fjölbreyttri dagskrá ásamt fylgdarliði (róturum, hljóðmönnum, ljósameisturum og svo framvegis). 500 vinir Ingós fylltu Norðurljósasalinn. Mér er til efs að margir einstaklingar í öllum heiminum (að meðtalinni vetrarbrautinni) eigi jafn marga góða vini og Ingó. Allir sem kynnast Ingó eignast umsvifalaust kæran og traustan vin, frábæran húmorista og grallara, einstakt góðmenni sem má ekkert aumt sjá, hjálplegan náunga sem allt vill fyrir alla gera og upptalningin á mannkostum Ingós er óendanleg.
Ég er svo lánssamur að hafa haft Ingó sem ferðafélaga mörgum sinnum til Færeyja og á Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri. Frábærari ferðafélaga er ekki hægt að hugsa sér. Hann er svo fyndinn, jákvæður og elskulegur í alla staði. Hver samverustund með Ingó er gulls ígildi. Það er góð skemmtun frá A-Ö. Allir sem kynnast Ingó elska hann sem sinn besta vin.
Það kom ekki á óvart að vinahópur Ingós fyllti Norðurljósasal Hörpu í kvöld. Né heldur hvað margir tónlistarmenn voru áhugasamir um að leggja fjáröflun fyrir Ingó og hans fjölskyldu lið með því að mæta. Vandamálið var og er að Ingó hefur lengst af starfað sem "free lance" ljósmyndari (marg verðlaunaður sem slíkur). En þegar honum var skyndilega kippt út af vinnumarkaði sat hann og hans fjölskylda uppi með ýmis föst útgjöld sem hann áður gat staðið skil á með vinnu sem "free lance" ljósmyndari (húsaleiga, afborganir af vinnutækjum og þess háttar).
Hljómleikarnir í kvöld í Norðursal Hörpu tókust glæsilega vel í alla staði. Óperusöngvarar Óp-hópsins hófu dagskrá. Síðan tók við nýrokkssveitin Nóra. Sú hljómsveit gaf út á síðasta ári eina af bestu plötum ársins 2012. Seyðandi og dulmagnað krúttpopp með skemmtilegri stigmögnun fallegs hljómagangs og dálitlum látum í framvindu laga. Nóra er ennþá skemmtilegri (og hrárri) á sviði en á plötu. Samt er nýjasta plata Nóru frábær: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1273485/
Næstir á svið voru Hrafnar. Sú hljómsveit á rætur í Vestmannaeyjum. Kynnirinn, Hörður Torfason, skilgreindi Hrafna sem Logandi Papa (les= Logar + Papar). Hrafnar spila írskættaða órafmagnaða pöbbaslagara. Banjó, mandólín, munnharpa... Skemmtileg hljómsveit sem grallaðist í kynningum á lögum og liðsmönum.
Á eftir Hröfnum spilaði KK tvö ljúf og róleg lög. Ari Eldjárn uppistandari tók við og afgreiddi nokkra brandara út frá dagskrá KK. Þar með afhjúpaði hann hversu naskur hann er á það fyndna í stemmningu augnabliksins. Hann samdi brandara á staðnum. Í endursögn eru brandarar hans ekki eins fyndnir og þegar hann segir þá. Ari hefur frábært vald á því sem á ensku kallast "timing" (að skynja stemmningu augnabliksins og tímasetja þagnir og framhald á tali. Þetta hefur líka eitthvað að gera með raddblæ og framsetningu). Ari var svo stórkostlega fyndinn að hann þurfti ítrekað að gera hlé á sínum texta á meðan áheyrendur lágu í hláturskasti.
Á eftir virkilega fyndnu uppistandi Ara tók við Ný dönsk. Ný dönsk er séríslenskt fyrirbæri í músíkflóru. Dálítið hippalega hljómsveit í aðra rönd en á sama tíma líka eitthvað í átt að því sem á sínum tíma var skilgreint sem nýbylgja í víðustu merkingu.
Eftir hlé tók harða og pönkaða rokkið við: Hellvar, Bodies, Q4U, Fræbbblarnir og Dimma. Fyrir minn smekk voru það bestu konfektmolarnir. Ég elska Hellvar. Ég elska Bodies. Lagið "Where Are The Bodies" er eitt allra flottasta lag íslensku rokksögunnar. Það er jafn ferskt og hrífandi í dag og fyrir þremur áratugum.
Fræbbblarnir eru flottari og magnaðri með hverju ári. Yfir heilu línuna eru Fræbbblarnir eiginlega í dag svo gott sem flottasta hljómsveit íslensku rokksögunnar. Með fullri virðingu fyrir öðrum frábærum hljómsveitum af kynslóð "Rokks í Reykjavík".
Q4U flutti fjögur lög. Ingó var kallaður upp á svið og spilaði á gítar í síðasta lagi Q4U. Þá ætlaði allt um koll að keyra. Ingó hefur verið gítarleikari Q4U síðustu áratugi. Egill Viðarsson í Nóru leysti Ingó af á þessum hljómleikum en svo spiluðu þeir báðir á gítar í laginu "Creeps".
Þegar dagskrá var tæmd sté Ingó á svið og þakkaði fyrir sig. Hann var að venju fyndinn og orðheppinn. Gaf Ara Eldjárn eiginlega ekkert eftir á því sviði.
Fjölmennið í Norðurljósum, bæði áheyrendur og þeir sem gáfu vinnu sína á svið, staðfesti að Ingó á fleiri góða og trygga vini en nokkur önnur manneskja í heiminum. Það er eðlilegt fyrir okkur í hans vinahópi.
![]() |
Þetta verður að skoða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.2.2013 | 21:18
Anna á Hesteyri og Glettingur
Fyrir tuttugu árum eða eitthvað álíka barst mér í pósti eintak af tímariti sem heitir Glettingur. Þetta er vandað tímarit með litmyndum prentað á góðan pappír. Blaðið er gefið út á Austurlandi. Í því er fjallað um málefni tengd Austurlandi. Þetta er ekki eiginlegt héraðsfréttablað heldur er umfjöllunarefnið tímalausar greinar um menningu, listir, náttúruna, minjar, söguna, þjóðtrú og eitthvað þannig. Einnig eru í blaðinu ljóð, smælki og viðtöl.
Á þessum tíma var ég á kafi í auglýsingabransanum. Allir helstu fjölmiðlar landsins voru í góðu sambandi í von um að auglýsingum væri vísað til þeirra. Algengast var að dagblöð og tímarit væru send á auglýsingastofuna. Í einhverjum tilfellum voru blöð og erindi send heim til mín. Þar fyrir utan voru bæði dagblöð og tímarit stundum send á heimili í einhvern tíma í kynningarskini. Þá var vonast til að viðkomandi heimili gerðist áskrifandi í kjölfarið.
Eintak af tímaritinu Glettingi kom þess vegna ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti. Ég velti því ekkert fyrir mér. Það var alveg gaman að lesa blaðið - þó að ég þekki lítið til Austurlands.
Nokkru síðar fékk ég fleiri tölublöð af Glettingi. Mig minnir að þau hafi verið þrjú áður en mér barst gíróseðill. Þar var ég rukkaður um áskriftargjald fyrir Gletting. Ég hringdi í áskriftadeild Glettings og spurði hvað væri í gangi. Einhvernvegin var fundið út að Anna Marta á Hesteyri hefði gert mig að áskrifanda.
Ég hringdi þegar í stað í Önnu. Sagði henni frá því að verið væri að rukka mig um áskrift að Glettingi. Hún spurði ósköp blíð og áhugasöm: "Já, finnst þér þetta ekki vera skemmtilegt blað?" Jú, ég gat ekki þrætt fyrir það. Anna varð glöð í bragði og hrópaði sigri hrósandi: "Alveg vissi ég að þetta væri eitthvað fyrir þig!"
Svo sagði hún mér frá því að oftar en einu sinni hefði hún verið að lesa eitthvað skemmtilegt í Glettingi og hugsað með sér: "Þetta þætti Jens frænda gaman að lesa." Hún var ekkert að tvínóna við hlutina: Hringdi í blaðið og gerði mig að áskrifanda. En sá enga ástæðu til að flækja hlutina með því að bera það undir mig.
Fleiri sögur af Önnu frænku: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1282508/
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.2.2013 | 11:19
Ekki missa af!
Takið fimmtudaginn 28. febrúar frá. Eða í það minnsta fimmtudagskvöldið. Þá fer nefnilega fram virkilega spennandi, fjölbreytt og mikil tónlistarhátíð. Tilgangurinn er brýnn og göfugur. Tónlistarhátíðin fer fram í Norðurljósum í Hörpu. Herlegheitin byrja klukkan 20.00. Meðal þeirra sem koma fram eru KK, Fræbbblarnir, Óp-hópurinn, Nóra, Hrafnar, Q4U, Dimma, Bodies, Hörður Torfason og Ari Eldjárn.
Tilgangur tónlistarhátíðarinnar er að afla fjár til styrktar ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni. Síðasta haust greindist hann með hvítblæði. Síðan hefur hann verið í einangrun á Landspítalanum og stöðugri meðferð, sem ekki hefur skilað tilætluðum árangri.
Ingó starfaði sem "free lance" ljósmyndari, ásamt því að spila á gítar í hljómsveitinni Q4U. Við það að vera kippt án fyrirvara af vinnumarkaði fóru fjármálin í klessu. Ingó hefur fyrir fjögurra manna fjölskyldu að sjá. Að auki situr hann tekjulaus uppi með fastan kostnað við vinnustofu (húsaleiga, afborganir af tækjabúnaði o.s.frv.).
Með því að mæta á tónlistarhátíðina slærð þú tvær flugur í einu höggi: Styrkir góðan málstað og upplifir frábæra tónlistarveislu. Takið með ykkur gesti.
Vinir og fjölskylda | Breytt 20.2.2013 kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)