Anna Marta og fjölskyldugrafreiturinn á Hesteyri

AnnaMarta

  Anna Marta á Hesteyri var ekki aðeins náttúrubarn.  Mikið náttúrubarn.  Hún var einnig barn að sumu öðru leyti.  Ekki samt nævisti.  Alls ekki.  Móðir hennar var sérlunduð og eiginlega ekki alveg heil heilsu.  Hún talaði iðulega barnamál við Önnu fram eftir öllu.  Það leiddi til þess að Anna var með einkennilegan framburð.  Til að mynda sagði hún r þar sem á að vera ð í orðum.  Fyrir bragðið var hún af sumum þekkt undir nafninu Anna "góri minn". 

  Þó að Anna yrði dálítið stór og mikil um sig er hún fullorðnaðist hélt móðir hennar þeim sið að láta hana setjast á hné sér og greiddi henni eins og lítilli stelpu.  Hár Önnu var krullað og úfið og þolinmæðisverk að greiða það.

  Anna var jafnan jákvæð og ljúf.  Hún átti það samt til að snöggreiðast af litlu tilefni eins og óþekkt barn.  Þá hækkaði hún róm og varð verulega æst.  Eitt sinn er hún var í heimsókn hjá mér barst tal einhverra hluta vegna að Gvendi Jaka.  Ég lét einhver neikvæð orð um hann falla.  Það fauk svo í Önnu að hún spratt á fætur og hrópaði eða eiginlega hvæsti á mig að Guðmundur Jaki væri góður maður.  Í önnur skipti átti hún það til að æsa sig í símtölum vegna - svo dæmi sé tekið - þess að einhver hafði gagnrýnt Vigdísi fyrrverandi forseta. 

  Á Hesteyri er fjölskyldugrafreitur.  Þar hvíla meðal annars afi minn og amma.  Afi minn og faðir Önnu voru bræður.

  Eitt sinn áttu frændi minn og kona hans leið um Austfirði.  Þau ákváðu að heilsa upp á Önnu dagspart og skoða leiði afa okkar og ömmu.  Leiði þeirra reyndist vera í niðurníðslu,  eins og frændi minn reyndar vissi af áður.  Þess vegna mætti hann á Hesteyri með blóm til að gróðursetja á leiðin.  Jafnframt sló hann gras á leiðunum,  snyrti þau,  rétti af legsteina,  pússaði þá, snurfusaði og gerði leiðin afskaplega fín. 

  Þetta varð margra klukkutíma vinna.  Að henni lokinni kvöddu frændi og konan hans Önnu og hugðust halda áfram för.  En þá snöggfauk í Önnu.  Henni þótti það vera ósvífni af versta tagi að snyrta tvö leiði og skilja önnur útundan í niðurníðslu.  Anna var svo reið og sár og æst að frændi og kona hans neyddust til að breyta ferðaáætlun með tilheyrandi óþægindum og framlengja dvöl á Hesteyri um annan dag til að snyrta og snurfusa allan fjölskyldugrafreitinn þangað til Anna varð sátt.       

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1283923/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Jón, nefndur Nagli var vinnumaður hjá Önnu á vissum tíma og viðurnefnið nagli fékk hann af því að það var búið að negla hann svo oft saman.  Svo gerist það að Jón var að lagfæra traktorinn og það vill ekki betur til en svo að traktorinn rennur aðeins áfram svo Jón festist undir öðru afturhjólinu.

Hann kallar og Anna kemur hlaupandi.  En það var þannig með Önnu að hún var mjög létt á sér þó hún virtist vera þung.  Jón leggur Önnu reglurnar og skal hún bakka traktornum þannig að hann losni.  En Anna var ekki mikill vélfræðingur og ratað á áframgír og keyrði yfir Jón sem öskraði, ég sagði þér að bakka.  Anna rak þá í bakk og bakkaði yfir Jón aftur.   En þetta var ekki þungur traktor svo það þurfti ekki mikið að negla Jón í það skiptið.       

Hrólfur Þ Hraundal, 9.3.2013 kl. 12:08

2 Smámynd: Jens Guð

  Hrólfur,  bestu þakkir fyrir skemmtilega frásögn var þessu dæmi.  Ég Þekki þetta dæmi.  Bæði Jón Nagli og Anna sögðu mér frá því hvernig þetta klaufaðist.  Að auki sagði mér hjúkrunarkona á Neskaupstaði frá því að þegar Anna á Hesteyri heimsótti Jón þá hrópaði hann upp að hún þyrfti ekki að laga nett.  Anna nefnilega þeytti Jóni til og frá mölbrotnum til að slétta undir honurm lak og leggja yfir hann sæng.  Jón veinaði á meðan Anna henti honum til og frá. En niðurstaða varð sú að hún náði að slétta undirlak hans eftir að hafa ruslað honum út í horn mölbrotnum og slétta yfir hann sæng.  

Jens Guð, 10.3.2013 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.