Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Frábær kvöldskemmtun til fjáröflunar fyrir Ingó og hans fjölskyldu

ingojul_1192777.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

  Tilefni fjáröflunarhljómleika í kvöld fyrir Ingó og hans fjölskyldu var og er dapurlegt.  Ingó greindist með bráðahvítblæði í októberbyrjun.  Síðan hefur hann gengið í gegnum þrjár erfiðar meðferðir til að kveða sjúkdóminn niður.  Án árangurs.  Meðferð hefur verið hætt.

  Í kvöld komu 600 vinir Ingós saman í Norðurljósum í Hörpu.  Um 100 þeirra stóðu fyrir fjölbreyttri dagskrá ásamt fylgdarliði (róturum, hljóðmönnum, ljósameisturum og svo framvegis).  500 vinir Ingós fylltu Norðurljósasalinn.  Mér er til efs að margir einstaklingar í öllum heiminum (að meðtalinni vetrarbrautinni) eigi jafn marga góða vini og Ingó.  Allir sem kynnast Ingó eignast umsvifalaust kæran og traustan vin,  frábæran húmorista og grallara,  einstakt góðmenni sem má ekkert aumt sjá,  hjálplegan náunga sem allt vill fyrir alla gera og upptalningin á mannkostum Ingós er óendanleg.

  Ég er svo lánssamur að hafa haft Ingó sem ferðafélaga mörgum sinnum til Færeyja og á Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri.  Frábærari ferðafélaga er ekki hægt að hugsa sér.  Hann er svo fyndinn, jákvæður og elskulegur í alla staði.  Hver samverustund með Ingó er gulls ígildi.  Það er góð skemmtun frá A-Ö.  Allir sem kynnast Ingó elska hann sem sinn besta vin.

  Það kom ekki á óvart að vinahópur Ingós fyllti Norðurljósasal Hörpu í kvöld.  Né heldur hvað margir tónlistarmenn voru áhugasamir um að leggja fjáröflun fyrir Ingó og hans fjölskyldu lið með því að mæta.  Vandamálið var og er að Ingó hefur lengst af starfað sem "free lance" ljósmyndari (marg verðlaunaður sem slíkur).  En þegar honum var skyndilega kippt út af vinnumarkaði sat hann og hans fjölskylda uppi með ýmis föst útgjöld sem hann áður gat staðið skil á með vinnu sem "free lance" ljósmyndari (húsaleiga, afborganir af vinnutækjum og þess háttar).

  Hljómleikarnir í kvöld í Norðursal Hörpu tókust glæsilega vel í alla staði. Óperusöngvarar Óp-hópsins hófu dagskrá.  Síðan tók við nýrokkssveitin Nóra.  Sú hljómsveit gaf út á síðasta ári eina af bestu plötum ársins 2012.  Seyðandi og dulmagnað krúttpopp með skemmtilegri stigmögnun fallegs hljómagangs og dálitlum látum í framvindu laga.   Nóra er ennþá skemmtilegri (og hrárri) á sviði en á plötu.  Samt er nýjasta plata Nóru frábær:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1273485/

  Næstir á svið voru Hrafnar.  Sú hljómsveit á rætur í Vestmannaeyjum.  Kynnirinn,  Hörður Torfason,  skilgreindi Hrafna sem Logandi Papa (les= Logar + Papar).  Hrafnar spila írskættaða órafmagnaða pöbbaslagara.  Banjó, mandólín,  munnharpa...  Skemmtileg hljómsveit sem grallaðist í kynningum á lögum og liðsmönum.

  Á eftir Hröfnum spilaði KK tvö ljúf og róleg lög.  Ari Eldjárn uppistandari tók við og afgreiddi nokkra brandara út frá dagskrá KK.  Þar með afhjúpaði hann hversu naskur hann er á það fyndna í stemmningu augnabliksins.  Hann samdi brandara á staðnum.  Í endursögn eru brandarar hans ekki eins fyndnir og þegar hann segir þá.  Ari hefur frábært vald á því sem á ensku kallast "timing" (að skynja stemmningu augnabliksins og tímasetja þagnir og framhald á tali.  Þetta hefur líka eitthvað að gera með raddblæ og framsetningu).  Ari var svo stórkostlega fyndinn að hann þurfti ítrekað að gera hlé á sínum texta á meðan áheyrendur lágu í hláturskasti. 

  Á eftir virkilega fyndnu uppistandi Ara tók við Ný dönsk.  Ný dönsk er séríslenskt fyrirbæri í músíkflóru.  Dálítið hippalega hljómsveit í aðra rönd en á sama tíma líka eitthvað í átt að því sem á sínum tíma var skilgreint sem nýbylgja í víðustu merkingu.   

  Eftir hlé tók harða og pönkaða rokkið við:  Hellvar,  Bodies,  Q4U,  Fræbbblarnir og Dimma.  Fyrir minn smekk voru það bestu konfektmolarnir.  Ég elska Hellvar.  Ég elska Bodies.  Lagið "Where Are The Bodies" er eitt allra flottasta lag íslensku rokksögunnar.  Það er jafn ferskt og hrífandi í dag og fyrir þremur áratugum.

   Fræbbblarnir eru flottari og magnaðri með hverju ári.  Yfir heilu línuna eru Fræbbblarnir eiginlega í dag svo gott sem flottasta hljómsveit íslensku rokksögunnar.  Með fullri virðingu fyrir öðrum frábærum hljómsveitum af kynslóð "Rokks í Reykjavík".

  Q4U flutti fjögur lög.  Ingó var kallaður upp á svið og spilaði á gítar í síðasta lagi Q4U.  Þá ætlaði allt um koll að keyra.  Ingó hefur verið gítarleikari Q4U síðustu áratugi.  Egill Viðarsson í Nóru leysti Ingó af á þessum hljómleikum en svo spiluðu þeir báðir á gítar í laginu "Creeps".      

  Þegar dagskrá var tæmd sté Ingó á svið og þakkaði fyrir sig.  Hann var að venju fyndinn og orðheppinn.  Gaf Ara Eldjárn eiginlega ekkert eftir á því sviði.  

  Fjölmennið í Norðurljósum, bæði áheyrendur og þeir sem gáfu vinnu sína á svið, staðfesti að Ingó á fleiri góða og trygga vini en nokkur önnur manneskja í heiminum.  Það er eðlilegt fyrir okkur í hans vinahópi.  

  


mbl.is „Þetta verður að skoða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri og Glettingur

annamartaguðmundsdóttir

  Fyrir tuttugu árum eða eitthvað álíka barst mér í pósti eintak af tímariti sem heitir Glettingur.  Þetta er vandað tímarit með litmyndum prentað á góðan pappír.  Blaðið er gefið út á Austurlandi.  Í því er fjallað um málefni tengd Austurlandi.  Þetta er ekki eiginlegt héraðsfréttablað heldur er umfjöllunarefnið tímalausar greinar um menningu,  listir,  náttúruna,  minjar,  söguna,  þjóðtrú og eitthvað þannig.  Einnig eru í blaðinu ljóð,  smælki og viðtöl. 

  Á þessum tíma var ég á kafi í auglýsingabransanum.  Allir helstu fjölmiðlar landsins voru í góðu sambandi í von um að auglýsingum væri vísað til þeirra.  Algengast var að dagblöð og tímarit væru send á auglýsingastofuna.  Í einhverjum tilfellum voru blöð og erindi send heim til mín.  Þar fyrir utan voru bæði dagblöð og tímarit stundum send á heimili í einhvern tíma í kynningarskini.  Þá var vonast til að viðkomandi heimili gerðist áskrifandi í kjölfarið.

  Eintak af tímaritinu Glettingi kom þess vegna ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Ég velti því ekkert fyrir mér.  Það var alveg gaman að lesa blaðið - þó að ég þekki lítið til Austurlands. 

  Nokkru síðar fékk ég fleiri tölublöð af Glettingi.  Mig minnir að þau hafi verið þrjú áður en mér barst gíróseðill.  Þar var ég rukkaður um áskriftargjald fyrir Gletting.  Ég hringdi í áskriftadeild Glettings og spurði hvað væri í gangi.  Einhvernvegin var fundið út að Anna Marta á Hesteyri hefði gert mig að áskrifanda. 

  Ég hringdi þegar í stað í Önnu.  Sagði henni frá því að verið væri að rukka mig um áskrift að Glettingi.  Hún spurði ósköp blíð og áhugasöm:  "Já,  finnst þér þetta ekki vera skemmtilegt blað?"  Jú,  ég gat ekki þrætt fyrir það.  Anna varð glöð í bragði og hrópaði sigri hrósandi:  "Alveg vissi ég að þetta væri eitthvað fyrir þig!"

  Svo sagði hún mér frá því að oftar en einu sinni hefði hún verið að lesa eitthvað skemmtilegt í Glettingi og hugsað með sér:  "Þetta þætti Jens frænda gaman að lesa."  Hún var ekkert að tvínóna við hlutina:  Hringdi í blaðið og gerði mig að áskrifanda.  En sá enga ástæðu til að flækja hlutina með því að bera það undir mig.   

  Fleiri sögur af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1282508/   


Ekki missa af!

 

  Takið fimmtudaginn 28.  febrúar frá.  Eða í það minnsta fimmtudagskvöldið.  Þá fer nefnilega fram virkilega spennandi,  fjölbreytt og mikil tónlistarhátíð.  Tilgangurinn er brýnn og göfugur.  Tónlistarhátíðin fer fram í Norðurljósum í Hörpu.  Herlegheitin byrja klukkan 20.00.  Meðal þeirra sem koma fram eru  KK,  Fræbbblarnir,  Óp-hópurinn,  Nóra,  Hrafnar,  Q4U,  Dimma,  Bodies,  Hörður Torfason og Ari Eldjárn.

  Tilgangur tónlistarhátíðarinnar er að afla fjár til styrktar ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni.  Síðasta haust greindist hann með hvítblæði.  Síðan hefur hann verið í einangrun á Landspítalanum og stöðugri meðferð,  sem ekki hefur skilað tilætluðum árangri. 

  Ingó starfaði sem "free lance" ljósmyndari,  ásamt því að spila á gítar í hljómsveitinni Q4U.  Við það að vera kippt án fyrirvara af vinnumarkaði fóru fjármálin í klessu.  Ingó hefur fyrir fjögurra manna fjölskyldu að sjá.  Að auki situr hann tekjulaus uppi með fastan kostnað við vinnustofu (húsaleiga,  afborganir af tækjabúnaði o.s.frv.).   

  Með því að mæta á tónlistarhátíðina slærð þú tvær flugur í einu höggi:  Styrkir góðan málstað og upplifir frábæra tónlistarveislu.  Takið með ykkur gesti.


Meira af Önnu frænku á Hesteyri

AnnaMarta 

  Anna frænka á Hesteyri var mikill dýravinur.  Að miklu leyti snérist hennar tilvera um dýr.  Hún var dugleg við að skrifa ættingjum bréf og hringja í okkur.  Iðulega snérust frásagnir hennar um það sem á daga hafði drifið kinda hennar eða annarra dýra.  Hænur, kríur og mýs gengu sjálfala innan húss hjá henni.  Svo fékk hún sér tvær gæsir.  Hún áttaði sig ekki á því að það þarf að klippa af þeim flugfjaðrirnar.  Anna horfði þess vegna á eftir þeim fljúga á haf út.

  Anna var í öngum sínum.  Hún hringdi í Sigfús Vilhjálmsson (Hjálmarssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra) á Brekku,  næsta bæ við Hesteyri.  Hann var og er hreppsstjóri í Mjóafirði.  Anna bað hann um að fara út á sjó og sækja gæsirnar.

  Svo illa stóð á að Sigfús var fastur í öðru verkefni.  Í galsa vísaði hann Önnu á að hringja í Landhelgisgæsluna og láta varðskip sækja gæsirnar.  Anna lét ekki segja sér það tvisvar.  Hinsvegar var erindinu illa tekið af þeim sem fyrstir urðu fyrir svörum hjá Landhelgisgæslunni.  En Anna vísaði til þess að það væru fyrirmæli frá sjálfum hreppstjóranum að Landhelgisgæslan ætti að sækja gæsirnar.  Eftir að símsamband hafði verið gefið út og suður innan Landhelgisgæslunnar urðu málalyktir þær að varðskip elti gæsirnar uppi,  náði þeim og boðaði Önnu niður í fjöru.  Þrátt fyrir að vera mikil um sig þá varð Anna sporlétt er hún rölti niður í fjöru og sótti gæsirnar sínar tvær. 

  Síðar sögðu skipsverjar á varðskipinu frá því að það hefði verið fyrirhafnarinnar virði að horfa á eftir Önnu kjaga upp túnið með gæs undir sitthvorri hendi.

  Önnur saga af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1281120/


Anna á Hesteyri

Anna Marta

  Þegar ég byrjaði að blogga fyrir nokkrum árum var það fyrst og fremst til að eiga orðastað við ættingja og vini.  Liður í því spjalli var að rifja upp sögur af Önnu frænku á Hesteyri.  Hún og móðir mín voru bræðradætur.  Svo skemmtilega vildi til að fleiri en ættingjarnir höfðu gaman af sögunum.  Þær urðu kveikja að bók um Önnu sem varðveitir sögurnar betur.  Og var ekki seinna vænna.  Anna lést nokkrum mánuðum eftir útkomu bókarinnar.

  Ég gerði hlé á upprifjun á sögum af Önnu þegar bókin kom út.  Ég vildi ekki trufla sölu á henni.  Þegar Anna féll frá var ég ekki í stuði til að skrá fleiri sögur fyrst á eftir.  Nú er hlé á enda.  Á næstunni birti ég hér fleiri sögur af Önnu.

  Anna var afskaplega greiðvikin.  Hún vildi öllum vel.  Hún var stöðugt að hugsa um það hvernig hún gæti glatt aðra.  Hún var dugleg að skrifa ættingjum og vinum bréf.  Sömuleiðis notaði hún símann óspart.  Símreikningar hennar voru töluvert hærri en á öðrum heimilum.

  Í desemberbyrjun eitt árið hringdi Anna í frænku okkar í Reykjavík.  Sú var með slæma flensupest.  Það olli Önnu áhyggjum.  Hvernig fer þá með jólahreingerninguna?  Hvað með jólainnkaupin,  jólaskreytingar og jólabakstur?  Frænkan í Reykjavík viðurkenndi að þetta væri óheppilegur árstími fyrir flensu.  Hinsvegar væri maður hennar og unglingssynir við góða heilsu og gætu sinnt því brýnasta.  "Þeir kunna ekki að baka,"  fullyrti Anna áhyggjufull.  Frænkan í Reykjavík taldi góðar líkur vera á að flensan yrði að baki fyrir jól.

  Nokkrum dögum síðar fékk frænkan í Reykjavík stóran kassa frá Önnu.  Í honum voru tertur með glassúr,  jólakaka og fleira bakkelsi.  Þó að Anna væri lítið fyrir bakstur þá hafði hún undið sér í að bjarga jólabakstrinum fyrir frænkuna í Reykjavík.  Verra var að bakkelsið hafði orðið fyrir töluverðu hnjaski í póstflutningum frá Hesteyri í Mjóafirði til Reykjavíkur.  Það var ekki eins lystugt á að líta og þegar Anna tók það úr ofninum á Hesteyri.  Ennþá verra var að ofan á tertunum skoppuðu bæði efri tanngómur og neðri. 

  Frænkan í Reykjavík hringdi þegar í stað í Önnu.  Þakkaði vel fyrir bakkelsið og spurði hvort að rétt væri tilgetið að Anna saknaði fölsku tannanna sinna.  "Hvernig getur þú vitað það?"  spurði Anna gapandi hissa.  Frænkan í Reykjavík sagðist hafa fundið þær í kassanum.  Anna varð heldur betur glöð við þessi tíðindi.  Hún var búin að gera allsherjar leit að tönnunum dögum saman.  Svo vel vildi til að hún vissi af manni í Reykjavík sem ætlaði að vera í Mjóafirði yfir jólin.  Ef hratt væri brugðist við mætti koma tönnunum á hann.  "Það kæmi sér vel fyrir mig að vera með tennurnar um jólin,"  útskýrði Anna.  Það tókst.   

.

falskar tennurfalskar tennur A


Neyðarlegur misskilningur

  Þetta ku vera sönn saga.  Ljósmyndin styður það.  Þannig var að norska strandgæslan pantaði símleiðis tvær jólatertur frá tilteknu bakaríi.  Fyrirmælin voru þau að á tertunum ætti að standa "God Jul" á báðum tertunum.  Þegar á reyndi skilaði sér aðeins ein terta með áletruninni "God Jul på begge kakene".      

Norska strandgæslan-jólatertur

  Þetta rifjar upp satt atvik (frá fyrstu hendi) frá Akureyri fyrir mörgum árum.  Eiginmaður mætti að morgni í bakarí og pantaði rjómatertu.  Kona hans átti afmæli.  Hann sagðist sækja tertuna eftir vinnu upp úr klukkan 5.  Hann útlistaði fyrir bakaranema hvernig tertan átti að vera merkt.  Að ofan skyldi standa:  "Til hamingju með afmælið!".  Fyrir neðan vildi hann hafa: "Þú ert alltaf jafn falleg!" 

  Fyrirmælin komust ekki alveg til skila.  Þegar hann sótti tertuna stóð á henni:  "Til hamingju með afmælið að ofan!  Þú ert alltaf jafn falleg að neðan!"


Skammaður eins og hundur af þriggja ára krakka

  Ég bý í Reykjavík.  Systir mín og hennar fjölskylda búa á Norðurlandi.  Um helgina hringdi systir mín í mig.  Yngstu börn hennar voru heima við og ömmustelpan hennar var í heimsókn.  Sú er á fjórða ári.  Eftir að hafa rætt við systir mína í dágóðan tíma heyri ég ömmustelpuna kalla og spyrja við hvern hún sé að tala.  Amman svaraði:  "Jens, bróðir minn."

  Stelpan hrópaði ákveðin:  "'Eg þarf tala við Jens!".  Ég varð dálítið undrandi að heyra þetta því að hún þekkir mig ekki.  Komin með síma ömmunnar í hendur sagði hún ábúðafull og skipandi við mig:  "Jens,  þú verður að bursta tennurnar!  Ekki hlusta á Karíus og Baktus!  Hlustaðu á mömmu þína!"    

  Stelpan sá nýverið leikritið um Karíus og Baktus.  Í hennar huga er greinilega bara einn Jens til.  


Ævintýralegur ástar-átthyrningur. Ris og fall háttsettra.

  Ég er að reyna að átta mig á ástarmálum æðstu toppa í leyniþjónustu Bandaríkja Norður-Ameríku,  CIA; alríkislögreglu Norður-Ameríku,  FBI;  stríðshetja og leiðtoga bandaríska hersins í Írak og Afganistan;  fyrrverandi tilvonandi æðstráðanda yfir herjum NATO og ég veit ekki hvað og hvað. 

  Hvað höfðingjarnir hafast að er forvitnilegt.  Siðferði og heilindi á einu sviði segja eitthvað.  Bara eitthvað.  En það er atburðarrásin sem er safaríkasta sagan.  Það er hægur vandi að týnast í henni.  Allt fer í rugl.  Til að einfalda söguna fyrir mig og ykkur nota ég bara eftirnöfn þessa ágæta fólks og einkenni þau með sitthverjum litnum:

  Vel gift og hugguleg kona, Broadwell,  tekur upp á því að senda annarri vel giftri og huggulegri konu, Kelley í Flórida,  tölvupóst.  Eða öllu heldur dældi á hana tölvupóstum. Broadwell sakar Kelley um að eiga í ástarsambandi við tvo helstu ástmenn sína (les= ástmenn Broadwell), heiðviðra fjölskyldufeður sem megi ekki vamm sitt vita.  Séu í góðu og trúföstu hjónabandi. Það séu gróf og ófyrirgefanleg svik við hjúskaparheiður þeirra að Kelley stundi framhjáhald með þeim.  Annar heitir Petraeus.  Hinn heitir Allen

  Til að leggja áherslu á ásakir sínar hótar Broadwell henni Kelley öllu illu.  Jafnframt hótar hún Kelley því að upplýsa eiginmann hennar um þessi ómerkilegu óheilindi og kallar hana druslu fyrir að vanhelga hjónaband þeirra með framhjáhaldi. Broadwell hótaði Kelley ýmsu öðru. Kelley varð hrædd vegna ofbeldisfullra hótananna.  Enda með músarhjarta.  Svo hrædd varð hún að hún snéri sér til hryðjuverkadeildar FBI. 

  FBI hóf rannsókn á málinu.  Komst inn í tölvu Broadwell og fann þar ótal ástarbréf sem höfðu gengið á milli Broadwell og Petraeus.  Hann er á sjötugsaldri.  Hún er fertug.  Það er aukaatriði.  Ástin spyr ekki um aldur.  

  Sá sem Kelley snéri sér til hjá hryðjuverkadeild FBI hafði áhyggjur af þessu.  Ég verð að segja það.  Hann taldi öryggi Bandaríkjanna stafa hættu af stöðunni.  Petraeus var yfirmaður CIA.

  FBI-maðurinn kom áhyggjum sínum á framfæri við leiðtoga republikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.  Einhverra hluta vegna var reynt að þagga málið niður.  Það var þæft.  Kannski vegna forsetakosninganna.  Allt komst þó upp um síðir.  

  Víkur þá sögunni að hinum grandvara fjölskylduföðurnum,  Allen.   Þeim sem Broadwell sakaði Kelley um að eiga í ástarsambandi við.  Hann var háttsettur hershöfðingi.  Samskipti hans og Broadwell hófust á því að Broadwell varaði hann við því að eiga í ástarsambandi við drusluna Kelley.  Hún væri ómerkilegur hjónadjöfull og samkvæmisljón.  

  Leikar fóru þannig að ástir tókust með þeim Allen og Broadwell.  Allen átti að verða næsti yfirmaður herafla NATO.  Í millitíðinni sendi hann Broadwell 30 þúsund ástarbréf.  Það var nánast full vinna.  Með bréfunum sendi hann Broadwell ljósmyndir af sér mismikið klæddum.  Eða réttara sagt mismikið nöktum.  

  Þrátt fyrir að allir þessir tölvupóstar á milli Broadwell og annars vegar Allens og hinsvegar Petraeusar hafi verið faldir - gerðir ósýnilegir í þeirra tölvum og "órekjanlegir" - þá tókst tölvusérfræðingum FBI að grafa þá upp.  Það eru góð meðmæli með tölvudeild FBI.  En ekki eins góð meðmæli með siðferði,  heilindum og hjúskapargildum AllensPetraeusar, Broadwell og Kelley.  Engu að síður er allur hópurinn kirkjurækinn,  íhaldssamur og sammála um að hjónabandið sé heilög stofnun,  hvort heldur sem er í augum guða eða manna.

  Hér er hin vel gifta, trygglynda og fertuga eiginkona,  Broadwell, ásamt eiginmanninum:

Broadwell    

  Svo er það hinn trúfasti borðalagði og margheiðraðri eiginmaður til fjögurra áratuga,  Petraeus á sjötugsaldri,  ásamt eiginkonunni.  Kappsemi Petraeusar við að drepa Íraka og Afganista orsakaði tvímælis hjá undirmönnum hans.  Það er önnur saga og léttvægari:

General_David_Petr

  Því næst hin vel gifta Kelley ásamt eiginmanninum:

kelley

  Loks er það sá ljúfi Allen ásamt sinni ástkæru eiginkonu. Ef hún fengi flatlús gæti sú óværa endað hjá eiginmanni Broadwell eftir að hafa ferðast á milli AllensKelley,  hennar eiginmanns og Petraesusar og þaðan til Broadwell.  Að lokum sæti eiginmaður Broadwell uppi með flatlús frá eiginkonu Allens.  Þá væri flatlúsin hissa eftir allt þetta ferðalag. 

Allen


mbl.is Ástkonan er miður sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljómsveitin The Beatles The Next Generation

 

  Fyrir nokkrum vikum vakti heimsathygli frétt um að synir Bítlanna væru að hefja samstarf,  stofna hljómsveit, undir nafninu Næsta kynslóð Bítlanna (The Beatles The Next Generation).  Það var sonur Pauls McCartneys,  James McCartney (34 ára), sem átti hugmyndina.  Hann viðraði hugmyndina við syni annarra Bítla.  Zak, eldri sonur trommuleikarans,  Ringos,  var ekki áhugasamur.  Né heldur Julian,  eldri sonur Johns Lennons. 

Ekki var öll nótt úti þrátt fyrir dræmar undirtektir.  Sean (36 ára),  yngri sonur Johns Lennons, tók vel í hugmyndina.  Líka Jason (34 ára),  yngri sonur Ringos.  Svo og Dhani (33 ára),  einkasonur Georges Harrisons. 

  Þar með voru synir allra Bítlanna tilbúnir að taka þátt í tilrauninni.  
 .
  John Lennon var söngvari og gítarleikari Bítlanna.  Sean Lennon syngur og er flinkur gítarleikari.  Paul McCartney var söngvari og bassaleikari Bítlanna.  James syngur og spilar á gítar.  Hann er liðtækur á bassa,  eins og Sean.  George Harrison var gítarleikari Bítlanna.  Dhani er flinkur á gítar.  Hann getur líka sungið.  Ringo var trommari Bítlanna.  Jason spilar á trommur.
.
.
  Bítlarnir eru stærsta nafn rokksögunnar.  Hvort sem litið er á plötusölu eða áhrif.  Það getur ekki hver sem er hlaupið í þeirra skarð.  Enginn getur endurtekið þeirra afrek.  Enda var það ekki hugmynd James McCartneys.  En það stendur engum nær að endurskapa eitthvað í anda Bítlanna en sonum Bítlanna.
.
  Mörgum spurningum er ósvarað.  Synir Bítlanna standa frammi fyrir risa áskorun.  Á hljómsveit þeirra að vera eftirhermuhljómsveit sem krákar (cover songs) gömul Bítlalög?  Eða á hljómsveit þeirra að gera eitthvað á eigin forsendum?  Seinni kosturinn er vænlegri.  Kannski í bland við fyrri kostinn.
.
  Hugmyndinni um hljómsveitina Næsta kynslóð Bítlanna hefur verið illa tekið af Bítlaaðdáendum.  Mjög illa.
  Breska blaðakonan Jan Moir spyr hæðnislega:  "Eiga Yoko Ono og Heather Mills að syngja bakraddir?  Here comes the sons - Let It Be."  
.
  Jan bendir á að ekki einu sinni Bítlarnir sjálfir hafi haft áhuga á að endurreisa Bítlana eftir að sú hljómsveit hætti 1969 (formlega hætti hún 1970). 
  Synirnir hafa allir verið að fást við músík en áhugi á þeirra músík er lítill. 
.
  Jan segir það vera hrópandi að þeir tveir synir Bítla sem hafi náð árangri í músík vilji ekki vera með í The Beatles The Next Generation:  Julian Lennon og Zak Starkey.  Julian hefur átt lög á vinsældalistum.  Zak hefur gert það gott sem trommar The Who og Oasis. 
  Líklegt má telja að í huga fólks verði The Beatles Next Generation hljómsveit lúseranna.  Lúseranna sem nú eru eldri en þegar feður þeirra hættu í Bítlunum.  Og mörgum árum eldri en þegar feður þeirra lögðu heiminn að fótum sér sem Bítlar.
.
  Í breska dagblaðinu Daily Mail er dregið fram að að nokkrum dögum áður en James McCartney viðraði hugmyndina um The Beatles The Next Genereation hélt Paul faðir hans því fram að hver sú hljómsveit sem reyndi að líkja sér við Bítlana væri að "kyssa dauðann" (kiss of death).
.
  Synir Bítlanna eru allir í góðu sambandi hver við annan.  Þeim er vel til vina.  Það var þess vegna ekki óvænt að þeir veltu fyrir sér möguleika á samstarfi.  Þeir eru hins vegar hikandi við að hrinda hljómsveitinni The Beatles The Next Generation úr vör.  Kannski hafa viðbrögð almennings á síðum dagblaða og netmiðla kæft hugmyndina í fæðingu.
. 
  James McCartney og Sean Lennon hafa sent frá sér sitthvorar tvær sólóplötur.
  Hér krákar James gamlan Neil Young slagara:
   
  Sean syngur lag eftir pabba sinn:
 Dhani að leika sér:
Hér eru öll börn Bítlanna:
  Ef hljómsveitin The Beatles The Next Generation kemst á koppinn er upplagt fyrir hana að æfa og gera út frá Íslandi.  James og Jason eru búsettir í Bretlandi en Dhani og Sean í Bandaríkjunum.  Ísland er mitt á milli.  Dhani og Sean eru hvort sem er með annan fótinn á Íslandi.  Dhani giftur íslenskri konu,  dóttur Kára Stefánssonar.  Feður James og Jasons eru sömuleiðis hagavanir á Íslandi.  Einkum Ringo,  sem ýmist trommar með Stuðmönnum eða kveikir á Friðarsúlunni í Viðey með Sean og þeir taka lagið í Háskólabíói með Plastic Ono Band.

Leikið sér með matinn

  Sem barn fékk ég stundum að heyra það að maður ætti ekki að leika sér með matinn.  Matinn eigi að borða en ekki leika sér með.  Fleiri en ég kannast við að hafa heyrt eitthvað þessu líkt.  Svo rækilega situr þetta í sumum komnum á fullorðinsár að þeir geta ekki hugsað sér að hafa hesta að leikfangi.  Það eru öfgar.  Það má alveg leika sér með matinn.  Til að mynda til að fá erfið börn til að borða eitthvað hollt.

matarlist-Afood-Facecorn_tomatoe_alienmatarlist Bfood003food002 matarskreyting


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.