Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Meira af Önnu frænku á Hesteyri

AnnaMarta 

  Anna frænka á Hesteyri var mikill dýravinur.  Að miklu leyti snérist hennar tilvera um dýr.  Hún var dugleg við að skrifa ættingjum bréf og hringja í okkur.  Iðulega snérust frásagnir hennar um það sem á daga hafði drifið kinda hennar eða annarra dýra.  Hænur, kríur og mýs gengu sjálfala innan húss hjá henni.  Svo fékk hún sér tvær gæsir.  Hún áttaði sig ekki á því að það þarf að klippa af þeim flugfjaðrirnar.  Anna horfði þess vegna á eftir þeim fljúga á haf út.

  Anna var í öngum sínum.  Hún hringdi í Sigfús Vilhjálmsson (Hjálmarssonar, fyrrverandi menntamálaráðherra) á Brekku,  næsta bæ við Hesteyri.  Hann var og er hreppsstjóri í Mjóafirði.  Anna bað hann um að fara út á sjó og sækja gæsirnar.

  Svo illa stóð á að Sigfús var fastur í öðru verkefni.  Í galsa vísaði hann Önnu á að hringja í Landhelgisgæsluna og láta varðskip sækja gæsirnar.  Anna lét ekki segja sér það tvisvar.  Hinsvegar var erindinu illa tekið af þeim sem fyrstir urðu fyrir svörum hjá Landhelgisgæslunni.  En Anna vísaði til þess að það væru fyrirmæli frá sjálfum hreppstjóranum að Landhelgisgæslan ætti að sækja gæsirnar.  Eftir að símsamband hafði verið gefið út og suður innan Landhelgisgæslunnar urðu málalyktir þær að varðskip elti gæsirnar uppi,  náði þeim og boðaði Önnu niður í fjöru.  Þrátt fyrir að vera mikil um sig þá varð Anna sporlétt er hún rölti niður í fjöru og sótti gæsirnar sínar tvær. 

  Síðar sögðu skipsverjar á varðskipinu frá því að það hefði verið fyrirhafnarinnar virði að horfa á eftir Önnu kjaga upp túnið með gæs undir sitthvorri hendi.

  Önnur saga af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1281120/


Anna á Hesteyri

Anna Marta

  Þegar ég byrjaði að blogga fyrir nokkrum árum var það fyrst og fremst til að eiga orðastað við ættingja og vini.  Liður í því spjalli var að rifja upp sögur af Önnu frænku á Hesteyri.  Hún og móðir mín voru bræðradætur.  Svo skemmtilega vildi til að fleiri en ættingjarnir höfðu gaman af sögunum.  Þær urðu kveikja að bók um Önnu sem varðveitir sögurnar betur.  Og var ekki seinna vænna.  Anna lést nokkrum mánuðum eftir útkomu bókarinnar.

  Ég gerði hlé á upprifjun á sögum af Önnu þegar bókin kom út.  Ég vildi ekki trufla sölu á henni.  Þegar Anna féll frá var ég ekki í stuði til að skrá fleiri sögur fyrst á eftir.  Nú er hlé á enda.  Á næstunni birti ég hér fleiri sögur af Önnu.

  Anna var afskaplega greiðvikin.  Hún vildi öllum vel.  Hún var stöðugt að hugsa um það hvernig hún gæti glatt aðra.  Hún var dugleg að skrifa ættingjum og vinum bréf.  Sömuleiðis notaði hún símann óspart.  Símreikningar hennar voru töluvert hærri en á öðrum heimilum.

  Í desemberbyrjun eitt árið hringdi Anna í frænku okkar í Reykjavík.  Sú var með slæma flensupest.  Það olli Önnu áhyggjum.  Hvernig fer þá með jólahreingerninguna?  Hvað með jólainnkaupin,  jólaskreytingar og jólabakstur?  Frænkan í Reykjavík viðurkenndi að þetta væri óheppilegur árstími fyrir flensu.  Hinsvegar væri maður hennar og unglingssynir við góða heilsu og gætu sinnt því brýnasta.  "Þeir kunna ekki að baka,"  fullyrti Anna áhyggjufull.  Frænkan í Reykjavík taldi góðar líkur vera á að flensan yrði að baki fyrir jól.

  Nokkrum dögum síðar fékk frænkan í Reykjavík stóran kassa frá Önnu.  Í honum voru tertur með glassúr,  jólakaka og fleira bakkelsi.  Þó að Anna væri lítið fyrir bakstur þá hafði hún undið sér í að bjarga jólabakstrinum fyrir frænkuna í Reykjavík.  Verra var að bakkelsið hafði orðið fyrir töluverðu hnjaski í póstflutningum frá Hesteyri í Mjóafirði til Reykjavíkur.  Það var ekki eins lystugt á að líta og þegar Anna tók það úr ofninum á Hesteyri.  Ennþá verra var að ofan á tertunum skoppuðu bæði efri tanngómur og neðri. 

  Frænkan í Reykjavík hringdi þegar í stað í Önnu.  Þakkaði vel fyrir bakkelsið og spurði hvort að rétt væri tilgetið að Anna saknaði fölsku tannanna sinna.  "Hvernig getur þú vitað það?"  spurði Anna gapandi hissa.  Frænkan í Reykjavík sagðist hafa fundið þær í kassanum.  Anna varð heldur betur glöð við þessi tíðindi.  Hún var búin að gera allsherjar leit að tönnunum dögum saman.  Svo vel vildi til að hún vissi af manni í Reykjavík sem ætlaði að vera í Mjóafirði yfir jólin.  Ef hratt væri brugðist við mætti koma tönnunum á hann.  "Það kæmi sér vel fyrir mig að vera með tennurnar um jólin,"  útskýrði Anna.  Það tókst.   

.

falskar tennurfalskar tennur A


Neyðarlegur misskilningur

  Þetta ku vera sönn saga.  Ljósmyndin styður það.  Þannig var að norska strandgæslan pantaði símleiðis tvær jólatertur frá tilteknu bakaríi.  Fyrirmælin voru þau að á tertunum ætti að standa "God Jul" á báðum tertunum.  Þegar á reyndi skilaði sér aðeins ein terta með áletruninni "God Jul på begge kakene".      

Norska strandgæslan-jólatertur

  Þetta rifjar upp satt atvik (frá fyrstu hendi) frá Akureyri fyrir mörgum árum.  Eiginmaður mætti að morgni í bakarí og pantaði rjómatertu.  Kona hans átti afmæli.  Hann sagðist sækja tertuna eftir vinnu upp úr klukkan 5.  Hann útlistaði fyrir bakaranema hvernig tertan átti að vera merkt.  Að ofan skyldi standa:  "Til hamingju með afmælið!".  Fyrir neðan vildi hann hafa: "Þú ert alltaf jafn falleg!" 

  Fyrirmælin komust ekki alveg til skila.  Þegar hann sótti tertuna stóð á henni:  "Til hamingju með afmælið að ofan!  Þú ert alltaf jafn falleg að neðan!"


Skammaður eins og hundur af þriggja ára krakka

  Ég bý í Reykjavík.  Systir mín og hennar fjölskylda búa á Norðurlandi.  Um helgina hringdi systir mín í mig.  Yngstu börn hennar voru heima við og ömmustelpan hennar var í heimsókn.  Sú er á fjórða ári.  Eftir að hafa rætt við systir mína í dágóðan tíma heyri ég ömmustelpuna kalla og spyrja við hvern hún sé að tala.  Amman svaraði:  "Jens, bróðir minn."

  Stelpan hrópaði ákveðin:  "'Eg þarf tala við Jens!".  Ég varð dálítið undrandi að heyra þetta því að hún þekkir mig ekki.  Komin með síma ömmunnar í hendur sagði hún ábúðafull og skipandi við mig:  "Jens,  þú verður að bursta tennurnar!  Ekki hlusta á Karíus og Baktus!  Hlustaðu á mömmu þína!"    

  Stelpan sá nýverið leikritið um Karíus og Baktus.  Í hennar huga er greinilega bara einn Jens til.  


Ævintýralegur ástar-átthyrningur. Ris og fall háttsettra.

  Ég er að reyna að átta mig á ástarmálum æðstu toppa í leyniþjónustu Bandaríkja Norður-Ameríku,  CIA; alríkislögreglu Norður-Ameríku,  FBI;  stríðshetja og leiðtoga bandaríska hersins í Írak og Afganistan;  fyrrverandi tilvonandi æðstráðanda yfir herjum NATO og ég veit ekki hvað og hvað. 

  Hvað höfðingjarnir hafast að er forvitnilegt.  Siðferði og heilindi á einu sviði segja eitthvað.  Bara eitthvað.  En það er atburðarrásin sem er safaríkasta sagan.  Það er hægur vandi að týnast í henni.  Allt fer í rugl.  Til að einfalda söguna fyrir mig og ykkur nota ég bara eftirnöfn þessa ágæta fólks og einkenni þau með sitthverjum litnum:

  Vel gift og hugguleg kona, Broadwell,  tekur upp á því að senda annarri vel giftri og huggulegri konu, Kelley í Flórida,  tölvupóst.  Eða öllu heldur dældi á hana tölvupóstum. Broadwell sakar Kelley um að eiga í ástarsambandi við tvo helstu ástmenn sína (les= ástmenn Broadwell), heiðviðra fjölskyldufeður sem megi ekki vamm sitt vita.  Séu í góðu og trúföstu hjónabandi. Það séu gróf og ófyrirgefanleg svik við hjúskaparheiður þeirra að Kelley stundi framhjáhald með þeim.  Annar heitir Petraeus.  Hinn heitir Allen

  Til að leggja áherslu á ásakir sínar hótar Broadwell henni Kelley öllu illu.  Jafnframt hótar hún Kelley því að upplýsa eiginmann hennar um þessi ómerkilegu óheilindi og kallar hana druslu fyrir að vanhelga hjónaband þeirra með framhjáhaldi. Broadwell hótaði Kelley ýmsu öðru. Kelley varð hrædd vegna ofbeldisfullra hótananna.  Enda með músarhjarta.  Svo hrædd varð hún að hún snéri sér til hryðjuverkadeildar FBI. 

  FBI hóf rannsókn á málinu.  Komst inn í tölvu Broadwell og fann þar ótal ástarbréf sem höfðu gengið á milli Broadwell og Petraeus.  Hann er á sjötugsaldri.  Hún er fertug.  Það er aukaatriði.  Ástin spyr ekki um aldur.  

  Sá sem Kelley snéri sér til hjá hryðjuverkadeild FBI hafði áhyggjur af þessu.  Ég verð að segja það.  Hann taldi öryggi Bandaríkjanna stafa hættu af stöðunni.  Petraeus var yfirmaður CIA.

  FBI-maðurinn kom áhyggjum sínum á framfæri við leiðtoga republikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.  Einhverra hluta vegna var reynt að þagga málið niður.  Það var þæft.  Kannski vegna forsetakosninganna.  Allt komst þó upp um síðir.  

  Víkur þá sögunni að hinum grandvara fjölskylduföðurnum,  Allen.   Þeim sem Broadwell sakaði Kelley um að eiga í ástarsambandi við.  Hann var háttsettur hershöfðingi.  Samskipti hans og Broadwell hófust á því að Broadwell varaði hann við því að eiga í ástarsambandi við drusluna Kelley.  Hún væri ómerkilegur hjónadjöfull og samkvæmisljón.  

  Leikar fóru þannig að ástir tókust með þeim Allen og Broadwell.  Allen átti að verða næsti yfirmaður herafla NATO.  Í millitíðinni sendi hann Broadwell 30 þúsund ástarbréf.  Það var nánast full vinna.  Með bréfunum sendi hann Broadwell ljósmyndir af sér mismikið klæddum.  Eða réttara sagt mismikið nöktum.  

  Þrátt fyrir að allir þessir tölvupóstar á milli Broadwell og annars vegar Allens og hinsvegar Petraeusar hafi verið faldir - gerðir ósýnilegir í þeirra tölvum og "órekjanlegir" - þá tókst tölvusérfræðingum FBI að grafa þá upp.  Það eru góð meðmæli með tölvudeild FBI.  En ekki eins góð meðmæli með siðferði,  heilindum og hjúskapargildum AllensPetraeusar, Broadwell og Kelley.  Engu að síður er allur hópurinn kirkjurækinn,  íhaldssamur og sammála um að hjónabandið sé heilög stofnun,  hvort heldur sem er í augum guða eða manna.

  Hér er hin vel gifta, trygglynda og fertuga eiginkona,  Broadwell, ásamt eiginmanninum:

Broadwell    

  Svo er það hinn trúfasti borðalagði og margheiðraðri eiginmaður til fjögurra áratuga,  Petraeus á sjötugsaldri,  ásamt eiginkonunni.  Kappsemi Petraeusar við að drepa Íraka og Afganista orsakaði tvímælis hjá undirmönnum hans.  Það er önnur saga og léttvægari:

General_David_Petr

  Því næst hin vel gifta Kelley ásamt eiginmanninum:

kelley

  Loks er það sá ljúfi Allen ásamt sinni ástkæru eiginkonu. Ef hún fengi flatlús gæti sú óværa endað hjá eiginmanni Broadwell eftir að hafa ferðast á milli AllensKelley,  hennar eiginmanns og Petraesusar og þaðan til Broadwell.  Að lokum sæti eiginmaður Broadwell uppi með flatlús frá eiginkonu Allens.  Þá væri flatlúsin hissa eftir allt þetta ferðalag. 

Allen


mbl.is Ástkonan er miður sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hljómsveitin The Beatles The Next Generation

 

  Fyrir nokkrum vikum vakti heimsathygli frétt um að synir Bítlanna væru að hefja samstarf,  stofna hljómsveit, undir nafninu Næsta kynslóð Bítlanna (The Beatles The Next Generation).  Það var sonur Pauls McCartneys,  James McCartney (34 ára), sem átti hugmyndina.  Hann viðraði hugmyndina við syni annarra Bítla.  Zak, eldri sonur trommuleikarans,  Ringos,  var ekki áhugasamur.  Né heldur Julian,  eldri sonur Johns Lennons. 

Ekki var öll nótt úti þrátt fyrir dræmar undirtektir.  Sean (36 ára),  yngri sonur Johns Lennons, tók vel í hugmyndina.  Líka Jason (34 ára),  yngri sonur Ringos.  Svo og Dhani (33 ára),  einkasonur Georges Harrisons. 

  Þar með voru synir allra Bítlanna tilbúnir að taka þátt í tilrauninni.  
 .
  John Lennon var söngvari og gítarleikari Bítlanna.  Sean Lennon syngur og er flinkur gítarleikari.  Paul McCartney var söngvari og bassaleikari Bítlanna.  James syngur og spilar á gítar.  Hann er liðtækur á bassa,  eins og Sean.  George Harrison var gítarleikari Bítlanna.  Dhani er flinkur á gítar.  Hann getur líka sungið.  Ringo var trommari Bítlanna.  Jason spilar á trommur.
.
.
  Bítlarnir eru stærsta nafn rokksögunnar.  Hvort sem litið er á plötusölu eða áhrif.  Það getur ekki hver sem er hlaupið í þeirra skarð.  Enginn getur endurtekið þeirra afrek.  Enda var það ekki hugmynd James McCartneys.  En það stendur engum nær að endurskapa eitthvað í anda Bítlanna en sonum Bítlanna.
.
  Mörgum spurningum er ósvarað.  Synir Bítlanna standa frammi fyrir risa áskorun.  Á hljómsveit þeirra að vera eftirhermuhljómsveit sem krákar (cover songs) gömul Bítlalög?  Eða á hljómsveit þeirra að gera eitthvað á eigin forsendum?  Seinni kosturinn er vænlegri.  Kannski í bland við fyrri kostinn.
.
  Hugmyndinni um hljómsveitina Næsta kynslóð Bítlanna hefur verið illa tekið af Bítlaaðdáendum.  Mjög illa.
  Breska blaðakonan Jan Moir spyr hæðnislega:  "Eiga Yoko Ono og Heather Mills að syngja bakraddir?  Here comes the sons - Let It Be."  
.
  Jan bendir á að ekki einu sinni Bítlarnir sjálfir hafi haft áhuga á að endurreisa Bítlana eftir að sú hljómsveit hætti 1969 (formlega hætti hún 1970). 
  Synirnir hafa allir verið að fást við músík en áhugi á þeirra músík er lítill. 
.
  Jan segir það vera hrópandi að þeir tveir synir Bítla sem hafi náð árangri í músík vilji ekki vera með í The Beatles The Next Generation:  Julian Lennon og Zak Starkey.  Julian hefur átt lög á vinsældalistum.  Zak hefur gert það gott sem trommar The Who og Oasis. 
  Líklegt má telja að í huga fólks verði The Beatles Next Generation hljómsveit lúseranna.  Lúseranna sem nú eru eldri en þegar feður þeirra hættu í Bítlunum.  Og mörgum árum eldri en þegar feður þeirra lögðu heiminn að fótum sér sem Bítlar.
.
  Í breska dagblaðinu Daily Mail er dregið fram að að nokkrum dögum áður en James McCartney viðraði hugmyndina um The Beatles The Next Genereation hélt Paul faðir hans því fram að hver sú hljómsveit sem reyndi að líkja sér við Bítlana væri að "kyssa dauðann" (kiss of death).
.
  Synir Bítlanna eru allir í góðu sambandi hver við annan.  Þeim er vel til vina.  Það var þess vegna ekki óvænt að þeir veltu fyrir sér möguleika á samstarfi.  Þeir eru hins vegar hikandi við að hrinda hljómsveitinni The Beatles The Next Generation úr vör.  Kannski hafa viðbrögð almennings á síðum dagblaða og netmiðla kæft hugmyndina í fæðingu.
. 
  James McCartney og Sean Lennon hafa sent frá sér sitthvorar tvær sólóplötur.
  Hér krákar James gamlan Neil Young slagara:
   
  Sean syngur lag eftir pabba sinn:
 Dhani að leika sér:
Hér eru öll börn Bítlanna:
  Ef hljómsveitin The Beatles The Next Generation kemst á koppinn er upplagt fyrir hana að æfa og gera út frá Íslandi.  James og Jason eru búsettir í Bretlandi en Dhani og Sean í Bandaríkjunum.  Ísland er mitt á milli.  Dhani og Sean eru hvort sem er með annan fótinn á Íslandi.  Dhani giftur íslenskri konu,  dóttur Kára Stefánssonar.  Feður James og Jasons eru sömuleiðis hagavanir á Íslandi.  Einkum Ringo,  sem ýmist trommar með Stuðmönnum eða kveikir á Friðarsúlunni í Viðey með Sean og þeir taka lagið í Háskólabíói með Plastic Ono Band.

Leikið sér með matinn

  Sem barn fékk ég stundum að heyra það að maður ætti ekki að leika sér með matinn.  Matinn eigi að borða en ekki leika sér með.  Fleiri en ég kannast við að hafa heyrt eitthvað þessu líkt.  Svo rækilega situr þetta í sumum komnum á fullorðinsár að þeir geta ekki hugsað sér að hafa hesta að leikfangi.  Það eru öfgar.  Það má alveg leika sér með matinn.  Til að mynda til að fá erfið börn til að borða eitthvað hollt.

matarlist-Afood-Facecorn_tomatoe_alienmatarlist Bfood003food002 matarskreyting


Er nokkuð hundur í þér? Broslegir hundar og kettir

  Fá dýr eru fyndnari en hundar og kettir.  Oftast samt án þess að þeir ætli sér það.

dýr-a

  "Ég sver það:  Það var risastór og grimmur Rottweiler hundur sem gerði þetta.  Ég gat ekki hindrað það."

dýr-b

  "Hvernig er best að koma því til skila að það sé tímabært að sá litli sofi í sínu eigin fleti?"

dýr-c

  "Æ,  hvað hann er alltaf notalegur,  ferskur, róandi og svæfandi ilmurinn úr íþróttaskónum."

dýr-d

  "Kötturinn?  Hvernig á ég að vita hvar kötturinn er?  Ég sé engan kött?"

dýr-e

  Ástir samlyndra.

dýr-f

  "Hæ,  strákar!  Viljið þið vera vinir mínir?"

dýr-g

  "Partý!  Partý!  Partý!  Þvílíkt fjör!"

dýr-h

  Vonandi náðu þessar myndir að laða fram bros.


Jón Þorleifsson - VI

guðrún helgadóttirJón Þorleifs

  Ég held áfram að rifja upp sögur af rithöfundinum og verkamanninum Jóni Þorleifssyni.  Fyrir neðan eru hlekkir á eldri sögur af Jóni.  Það er eiginlega nauðsynlegt að lesa þær fyrst til að átta sig á þessum merka manni.  Á gamals aldri fór hann að skrifa bækur.  Þær bækur eru fjölbreyttar.  Allt frá ljóðabókum til sjálfsævisöguminninga og skáldsagna.

  Jón sótti um inngöngu í Rithöfundasambandið.  Guðrún Helgadóttir,  þingkona og vinsæll barnabókahöfundur,  lagðist af þunga gegn félagsaðild Jóns.  Hún taldi bækur hans vera hatursáróður gegn nafngreindum mönnum en ekki verðugar bókmenntir.  Þess ber að geta að Guðrún kannaðist lítið við þetta í einkasamtölum við Jón.  En hann hafði áreiðanlega heimildarmenn fyrir því hvernig þetta gekk fyrir sig.  Þorgeir Þorgeirsson,  rithöfundur,  staðfesti í mín eyru að Jón færi rétt með framgöngu Guðrúnar í að hindra félagsaðild Jóns að Rithöfundasambandinu.

  Umsókn Jóns var hafnað.  Það er ljótur blettur á sögu Rithöfundasambandsins.  Jón tók þetta nærri sér og var afar ósáttur.

  Eitt sinn í jólaös var boðið upp á skemmtidagskrá í verslun Máls og Menningar á Laugarvegi.  Þarna komu fram tónlistarmenn og lesið var upp úr bókum.  Ég vissi ekki af þessu en átti leið hjá.  Það var troðið út úr dyrum.  Þegar ég kom að voru tónlistarmenn að ljúka sinni dagskrá.  Kynnir gekk að hljóðnema og kynnti Guðrúnu Helgadóttur,  sem var að senda frá sér bók.  Kynnirinn endaði kynninguna á orðunum:  "Við bjóðum Guðrúnu Helgadóttur velkomna á svið!"

  Áheyrendur klöppuðu og Guðrún steig á svið.  Þá heyrðist Jón - í þvögu áheyrenda -  hrópa hátt og snjallt (hann myndaði "gjallarhorn" með lófunum):  "Það bjóða ekki allir hana velkomna!  Það bjóða ekki allir hana velkomna!  Stattu fyrir máli þínu ef þú þorir!"

  Það var eins og einhverjir hefðu átt von á þessu upphlaupi Jóns (kannski hafði eitthvað þessu gerst áður).  Tveir stæðilegir menn stukku eldsnöggt að Jóni og hentu honum út á götu.  Þar hitti ég Jón.  Hann var ánægður og sagði sigri hrósandi:   "Mér tókst að eyðileggja stemmninguna fyrir helvítis kellingunni!" 

-------------------------------

Fyrri frásagnir:

Afmælishóf Dagsbrúnar
Kastaði kveðju á forsætisráðherra
Illa leikinn af verkalýðsforingja
Verkalýðsforingi hrekktur 1. maí
Á kosningadag

Hvaða Bítlasonur er líkastur pabbanum?

  Bítlarnir eignuðust aldrei nein börn saman.  Allir eignuðust þeir þó börn.  Og allir eignuðust þeir syni.  Færra var um dætur.  Allir synir Bítlanna bera sterkan svip af föður sínum,  eins og sjá má í myndbandinu.  Það bendir til þess að Bítlarnir hafi ekki haldið framhjá eiginkonum sínum meira en gerist og gengur. 

  Nú eru Bítlasynir (og Bítlaekkjur) orðnir tíðir gestir á Íslandi.  Þeir eru miklu oftar hérlendis en fjölmiðlar greina frá.  Engu að síður eru fjölmiðlar farnir að ræða um strákana sem tengdasyni Íslands. 

  En hver Bítlasona er líkastur föður sínum?

  Sean Lennon á röltinu með Rakel Ósk.

rakel ósk & sean lennon 

  Dhani Harrison á röltinu með dóttur Kára Stefánssonar.

dhani harrison & káradóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband